059-Vermenn
Úr Þuríðarbúð. Verskrína, sjóskór, tóbaksfjöl og tóbaksjárn, ketill, leggjatangir, seil og seilarnálar.

059-Vermenn

Meðan aðeins fá skip gengu til fiskiveiða frá Stokkseyri, hefir sjór nær ein. göngu verið stundaður af heimamönnum. En því meira sem útgerð óx, því meiri varð þörfin á aðfluttum sjómönnum til þess að manna skipin. Reyndist enginn hörgull á sveitamönnum til þeirra starfa, en þeir, sem aðkomnir voru þannig, kölluðust vermenn.[note]Vermaður, verbúð, vertíð o. fl. er myndað af gömlu orði: ver (hvk.), sem þýðir sjór. [/note]

Þrjár voru vertíðir á ári hverju: vetrarvertíð, vorvertíð og haustvertíð. Á Suðurlandi er vetrarvertíð talin frá kyndilmessu til loka, þ. e. frá 2. febr. til 11. maí, en austanfjalls áttu sjómenn ekki að vera komnir til vers fyrr en sunnudaginn fyrstan í góu. Þetta var aðalfiskveiðitíminn og annatími í verstöðvunum. Vorvertíð stóð frá lokum til Jónsmessu. Var þá mikið sóttur sjór á Stokkseyri, en að langmestu leyti af heimamönnum. Haustvertíð var frá Mikjálsmessu til Þorláksmessu fyrir jól, þ. e. frá 29. sept. til 23. des. Stunduðu heimamenn á Stokkseyri þá einnig róðra eftir föngum. Um vermenn var þar lítið sem ekki að ræða nema í vetrarvertíð.

Þegar útgerð var í mestum blóma á Stokkseyri, skiptu vermenn þar hundruðum á vetrarvertíðinni. Mun ekki of í lagt, að þeir hafi verið yfir 300, þegar flest var. Voru þeir víðs vegar að af Suðurlandsundirlendinu, einkum Árnesingar og Rangæingar, flest ungir menn á bezta skeiði. Eins og nærri má geta, gátu heimamenn á Stokkseyri ekki hýst allan þennan fjölda á heimilum sínum. Formenn og skipaeigendur reistu því sérstök hús handa vermönnum til íbúðar á vertíðinni, hinar svonefndu sjóbúðir. Þegar þær voru flestar um og eftir 1890, eru þær taldar 46 á Stokkseyri. Voru þær líkastar venjulegum útihúsum á að sjá, ýmist byggðar einar sér heima við bæi eða fleiri saman út af fyrir sig. Þær voru hlaðnar úr grjóti og torfi eða grjóti eingöngu að innanverðu, en veggir að utan úr sama efni eða sniddu einungis. Bálkar voru með fram veggjum í búðunum, og sváfu menn á þeim, tveir og tveir saman, og voru þeir kallaðir lagsmenn. Þarna geymdu menn allt, sem þeir höfðu meðferðis, matarskrínur, sjóklæði og annað. Sjóbúðirnar voru allt í senn svefnskáli, matstofa og dagstofa. Þær voru í rauninni frumstæð eftirlíking af baðstofu þeirra tíma.

Vermenn höfðu með sér mötu að heiman, og var nokkurn veginn fastákveðið, hvað hverjum manni var ætlað til vertíðarinnar. Ef vel átti að vera, höfðu menn meðferðis í skrínu sinni þrjá fjórðunga af smjöri og einn sauð, soðinn niður í smálka eða kæfu, og var þetta hin eiginlega mata. Þar að auki höfðu menn með sér eitt reykt sauðarfall, 5 fjórðunga af rúgi og 4 fjórðunga af harðfiski. Við þetta bættist hið svonefnda skiplag, sem útgerðin lét í té og var einn fjórðungur af harðfiski og einn fjórðungur af rúgi. Enn fremur var hverjum manni ætlað tvö pund af kaffi, tvö pund af kandíssykri og eitt pund af kaffirót. Kaffi hituðu vermenn sér sjálfir, en brauðgerð og einnig nauðsynlegustu þjónustu fengu þeir á bæjum og guldu fyrir eftir samkomulagi.

Skinnklæði og sjóvettlinga lögðu vermenn sér sjálfir til, en af veiðarfærum aðeins öngul og sökku.

Það var skylda vermanna sem annarra háseta að vera jafnan viðbúnir, er formaður þeirra kallaði þá til róðra, og leggja fram krafta sína við allt, er að sjávarstörfunum laut, þar á meðal hirðingu aflans, skips og veiðarfæra, en eigi voru vermenn skyldir að ganga að venjulegri landvinnu hjá formanni sínum.

Vinnan hjá vermönnum kom oft í hrotum, er gæftir voru dag eftir dag í nokkurn tíma, en þess á milli urðu stundum landlegur dögum saman, er ekki gaf á sjó. Sýslaði þá hver það, er vildi, ef ekki þurfti að starfa að skipi, afla eða veiðarfærum. Sumir saumuðu skinnklæði, aðrir unnu úr hrosshári, sem haft var með að heiman, nokkrir fléttuðu reiptögl, hnappheldur eða brugðu gjarðir, hagir menn smíðuðu búsáhöld ýmisleg, klyfbera, lampa, kirnur, hornspæni o. fl., sem lítið fór fyrir. Þá höfðu menn og í frammi ýmsar skemmtanir, svo sem að segja og lesa sögur, kveða rímur, bera upp gátur, kveðast á, spila, tefla og fleira þess konar. Stundum þreyttu menn glímur, aflraunir og ýmsa leiki. Verbúðavistin var því engan veginn leiðinleg þrátt fyrir þægindaskortinn.[note]Sbr. Oddur Oddsson, Sagnir og þjóðhættir, 5-24.[/note]

Á þeim árum sem verstöðvarnar austanfjalls voru sem fjölmennastar, var stofnað til skólahalds fyrir sjómenn, svo að landlegurnar kæmi þeim að notum til þess að afla sér nokkurrar menntunar. Þessi stofnun nefndist Sjómannaskóli Árnessýslu og starfaði frá 1890 og fram yfir aldamót. Nutu margir þar fræðslu sér til gagns. Verður þessa skóla nánar getið hér á eftir.

Hinir mörgu vermenn settu mjög svip sinn á Stokkseyri á vertíðinni. Með þeim færðist jafnan líf í þorpið. Margs konar kynni mynduðust með aðkomumönnum og heimamönnum, fréttum og fróðleik var miðlað á báða bóga, viðskipti tókust milli fjölda heimila með sveitavörur og sjávarafurðir, og vináttu. bönd voru bundin, er entust oft ævilangt. Sveitamennirnir undu vel hag sínum í verinu og sóttu þangað ár eftir ár þrátt fyrir áhættusamt starf. Hin nýja hlið á atvinnulífinu, sem þeir kynntust við sjóinn, var lærdómsrík tilbreyting frá sveitastörfunum. Ungir menn efldust við árina, urðu stæltir og sterkir og vöndust skjótt á að horfast í augu við daglegar hættur án þess að skelfast. Það var eftirsóknarvert að komast í skiprúm hjá góðum formanni og reynast þeim vanda vaxinn. Þeir, sem það gerðu, voru taldir menn að meiri, og þeir urðu það án efa í raun og veru.

Leave a Reply

Close Menu