058-Konur við sjóróðra
Þuríðarbúð

058-Konur við sjóróðra

Þegar rætt er um sjósókn og sjávarstörf, er ekki fullsögð sagan, ef ekki er minnzt á þann hlut, sem konur áttu þar að máli. Þó að störf þeirra væru mestmegnis unnin í landi, voru þau engu að síður hin mikilvægustu. Eg ræði hér þó ekki um þær andlegu þrekraunir, sem voru oft hlutskipti kvenna, er þær biðu milli vonar og ótta eftir ástvinum sínum heim af sjónum á hættustundum, ekki um áhyggjur þeirra og andvökunætur, ekki um sigra þeirra og ósigra, heldur um virkan þátt þeirra í starfi og striti. Á heimilum sínum til sjávar og sveita unnu konur nótt með degi og bættu á sig skepnuhirðingu og öðrum útiverkum til þess að karlmennirnir gætu stundað sjóinn. Á ýmsum tímum árs unnu sjávarkonur auk þess að útveginum, svo sem fiskverkun og öflun beitu í maðkasandi eða skeljafjöru. Og þær létu ekki þar við sitja. Þær víluðu ekki fyrir sér að brynjast brók og stakki og ganga að sjóróðrum á vertíð sem fullgildir hásetar. Í Stokkseyrarhreppi er þess meira að segja dæmi, að kona hafi komizt í formannatölu og staðið þar framarlega í flokki um sjósókn og aflabrögð. Það var Þuríður formaður, sem þjóðkunn er orðin.

Sennilega hefir það aldrei verið algengt, sem svo megi kalla, að konur stunduðu sjóróðra, en þó meira og minna tíðkanlegt um langan aldur, eins og dæmi finnast til. Nálægt 1554 varð skiptjón á Háeyri, og drukknuðu þar 9 menn og 3 konur að sögn síra Jóns Egilssonar í Hrepphólum.[note]Safn til sögu Íslands I, 102.[/note] Er varla að efa, að skipið hafi verið í fiskiróðri og konurnar hásetar. Á vertíðinni 1699 var Guðlaug Þorvaldsdóttir frá Keldnakoti háseti hjá föður sínum og svaf í sjóbúð hans á Stokkseyri ásamt öðrum vermönnum. Þessi Guðlaug var systir Sigríðar í Brattsholti, konu Bergs hreppstjóra Sturlaugssonar.[note]Bólstaðir o. s. frv., 291-292.[/note] Þegar Jón hreppstjóra í Móhúsum hrakti til Þorlákshafnar á vertíðinni 1812, voru að minnsta kosti tvær konur hásetar hjá honum, Þuríður formaður og Ingibjörg Jónsdóttir hreppstjóra á Stokkseyri Ingimundarsonar, er síðar varð kona Jóns Grímssonar í Traðarholti.[note]Sagan af Þuríði formanni I, 20. kap.[/note] Dóttursonur Ingibjargar, Jón Jónsson hreppstjóri á Hlíðarenda, segir í endurminningum sínum, að hún hafi róið í 16 vertíðir.[note]Þorlákshöfn Il, 9-10.[/note]  Meðal háseta Björns Einarssonar frá Byggðarhorni, sem fórst á Stokkseyri með 9 manna áhöfn 5. maí 1828, var ein kona, Kristín Brandsdóttir frá Roðgúl vinnukona í Stokkseyri. Hefir hún verið ein þeirra kvenna, sem stunduðu sjóróðra á vetrarvertíð á þeim tímum. Jón Pálsson frá Syðra-Seli (f. 1865) segist hafa vitað mörg dæmi þess í æsku sinni, að kvenfólk hafi stundað sjóróðra á vetrum austur þar, en þó muni það hafa verið enn tíðara áður.[note]Austantórur Il, 13.[/note] Það sagði mér faðir minn, Jón Guðmundsson á Gamla-Hrauni (f. 1856), að Soffía Árnadóttir frá Stéttum hefði verið háseti hjá Jóhanni Þorkelssyni í Mundakoti og Guðleif Sæmundsdóttir í Hafliðakoti hefði róið að minnsta kosti í tvær vorvertíðir hjá Gísla Gíslasyni á Stóra-Hrauni, síðar á Ásgautsstöðum, og kvaðst hann hafa róið á sama skipi og Guðleif, þegar hann var innan við tvítugt. Þessar tvær konur, taldi hann, að stundað hefðu sjóróðra síðastar kvenna þar um slóðir.[note]Sagan af Þuríði formanni, Rvík 1941, 4–5 (og Rvík 1954, 3).[/note]

Þuríður formaður. Myndina teiknaði Finnur Jónsson á Kjörseyri.

Nafnkunnust þeirra kvenna, sem sótt hafa sjó á Stokkseyri fyrr og síðar, er Þuríður Einarsdóttir formaður, enda , má segja, að sjómennska væri aðalstarf hennar um langa ævi. Hún var fædd á Stéttum í Hraunshverfi 1777, dóttir Einars Eiríkssonar bónda þar og konu hans Helgu Bjarnadóttur. Þuríður átti heima á Stéttum til 25 ára aldurs, en fór þá í vinnumennsku og var á ýmsum stöðum, unz hún fór að búa í Götu í Stokkseyrarhverfi. Þar bjó hún á árunum 1811-1822 og síðan hér og hvar í hreppnum. Árið 1830 fluttist hún til Eyrarbakka og átti þar síðan heima að undanskildum 7 árum, sem hún var við verzlunarstörf í Hafnarfirði. Hún lézt á Eyrarbakka 13. nóv. 1863, 86 ára að aldri. Þuríður eignaðist eina dóttur, er hún missti unga. Þegar hún bjó í Götu, giftist hún Jóni Egilssyni, er síðar bjó í Borg, og skildu þau eftir stutta sambúð.

Þegar Þuríður var 11 vetra, byrjaði hún að róa með föður sínum, og eftir að hann lézt, reri hún á vertíðum með Bjarna, bróður sínum. Tvítug að aldri réðst hún fullgildur háseti til Jóns hreppstjóra Þórðarsonar í Vestri-Móhúsum og reri hjá honum í 19 vertíðir ( 1797-1815). Eftir það gerðist Þuríður sjálf formaður fyrir vertíðarskipi og var með það í 25 vertíðir, þar af 15 hinar fyrstu á Stokkseyri, en hinar 10 í Þorlákshöfn. Þannig hefir Þuríður stundað sjóróðra ýmist sem háseti eða formaður í yfir 50 ár, og er það algert einsdæmi um konu hér á landi, svo að sögur fari af. Hún var viðurkennd fyrir dugnað, talin með beztu formönnum, snarráð, kappsöm og þó gætin á sjó. Má hún með sanni kallast verðugur fulltrúi íslenzkra kvenna, þeirra er sóttu sjóinn fyrr á tímum.

Eins og kunnugt er, hefir Stokkseyringafélagið í Reykjavík látið endurreisa sjóbúð Þuríðar formanns í Götu. Er búðin kennd við hana og heitir Þuríðarbúð. Hún var vígð með fjölmennri samkomu 26. júní 1949. Búðin er hlaðin úr torfi og grjóti, eins og hinar gömlu sjóbúðir voru, með sterklegu árefti og torfþaki. Inni eru bálkar með fram veggjum og gafli, slíkir sem vermenn sváfu á með skrínur sínar við hlið. Búðinni er ætlað að vera vísir að sjóminjasafni, og þar á allt að vera umhorfs eins og í sjóbúðum fyrri tíma, skrínur á bálkum veiðarfæri og sjóklæði á bitum. Um leið og menn stíga inn fyrir þröskuld Þuríðarbúðar, stíga þeir inn í fortíðina. Búðin er því jafnframt minnismerki um horfnar kynslóðir og horfna atvinnuhætti þar um slóðir. En um leið mun hún halda á lofti nafni og minningu Þuríðar formanns, einhverrar sérkennilegustu og tápmestu konu, sem Stokkseyrarhreppur hefir alið.[note] Um Þuríði formann hefir mikið verið ritað. Af því má einkum nefna Söguna af Þuríði formanni og Kambránsmönnum eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi; í útgáfu minni af sögunni, Reykjavík 1954, vil eg enn fremur benda á ritgerð mína um Þuríði formann og viðauka eftir Jón Gíslason í Meðalholtum og síra Jón Steingrímsson í Gaulverjabæ. Sjá enn fremur Þorlákshöfn Il, 11-12; Finnur Jónsson, Þjóðhættir og ævisögur, 129-131; Ísl. sagnaþ. og þjóðs. III, 38-40, sbr. VIi, 108-109; Lesb. Morgunbl. 17. júlí 1949; Íslenzkar æviskrár V, 258–259; Bólstaðir o. s. frv., 240-241; Saga Hraunshverfis, 28–29. [/note]

Leave a Reply

Close Menu