060-Sjómannaskóli Árnessýslu

Um þær mundir sem vermenn urðu flestir í veiðistöðvunum austanfjalls var sú merka nýjung upp tekin að stofna til kennslu eða nokkurs konar skólahalds fyrir sjómenn. Forgöngu um þetta hafði Jón Pálsson frá Syðra-Seli, síðar bankagjaldkeri í Reykjavík, og mun starfsemi þessi hafa byrjað 1890, að minnsta kosti í sumum verstöðvunum. Um tilefni skólastofnunarinnar kemst Jón sjálfur svo að orði: ,,Þegar eg sá fjölda ungra manna vikum saman aðgerðalausa í landlegunum að öðru leyti en að fást við áflog, spilamennsku og einskis nýtar skemmtiiðkanir aðrar, blöskraði mér svo, að eg stofnaði skóla nokkurn, er hlaut nafnið ,,Sjómannaskóli Árnessýslu“. Starfaði hann í öllum veiðistöðvum sýslunnar: Loftsstöðum, Stokkseyri, Eyrarbakka og Þorlákshöfn.“[note]Austantórur III, 96. Jón nefnir hvorki Selvog né Herdísarvík, sem voru þá miklar veiðistöðvar.[/note]

Það mun hafa verið fyrir áhrif frá Jóni Pálssyni, þótt gögn skorti nú um það, að sýslunefnd Árnessýslu lét þetta mál til sín taka. Á sýslufundi vorið 1893 voru kosnir þrír menn til að gera nauðsynlegar ráðstafanir í máli þessu og semja reglur um kennsluna. Í nefnd þessa voru kjörnir sr. Ólafur Helgason á Stóra-Hrauni, Síra Ólafur Ólafsson í Arnarbæli og Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi. Veturinn eftir birtu þeir svohljóðandi

REGLUR

fyrir kennslu í landlegum á vetrarvertíðinni á Eyrarbakka og Stokkseyri.

1. gr. Á vertíðum skal sjómönnum á Eyrarbakka og Stokkseyri gefinn kostur á að fá ókeypis tilsögn í íslenzkri réttritun, reikningi, landa] ræði og dönsku.
2. gr. Kennslan fer fram í barnaskólahúsunum á ofangreindum stöðum síðari hluta dags hvers, sem landlegur eru, og skal varið 1 – einni – stundu á dag til hverrar námsgreinar
3. gr. Í vertíðarbyrjun skulu þeir, er taka vilja þátt í kennslu þessari, rita sig á skrá, er liggur til sýnis hjá væntanlegum kennurum, og skulu þeir þá um leið tiltaka, í hverjum námsgreinum þeir vilja njóta tilsagnar. Þó skal þeim, er síðar skrásetja sig til kennslunnar, veitt viðtaka, svo framarlega sem rúm leyfir.
4. gr. Skyldur er hver sá, er skrásetur sig til kennslunnar, að taka þátt í þeim námsgreinum, sem hann sjálfur hefir tiltekið, til vertíðarloka.
5. gr. Hvern þann dag, sem færri en 12 taka þátt í kennslu einhverrar af námsgreinunum, fer engin kennsla fram í þeirri námsgrein.
6. gr. Próf skal haldið í vertíðarlok ár hvert, og skulu prófdómendur valdir af sýslunefnd Árnessýslu.
Tekið er fram, að kennslan verði borguð úr sýslusjóði og sé því ókeypis fyrir nemendur; þurfi þeir ekki öðru til að kosta en bókum þeim, sem notaðar yrðu við námið.[note]Ísafold 3. marz 1894.[/note]

Samkvæmt því, sem fram kemur í reglum þessum, hefir sýslunefndin aðeins látið sig skipta sjómannakennsluna á Eyrarbakka og Stokkseyri. Árið 1894 veitti nefndin 100 kr. til kennslunnar, og voru þær einkum ætlaðar til kaupa á áhöldum. Að sögn Jóns Pálssonar unnu kennarar fræðslustarf sitt sem sjálfboðaliðar án nokkurra launa. Kennarar á Stokkseyri voru Jón Pálsson framan af og síðar Guðmundur Sæmundsson. Skóli þessi mun hafa staðið eitthvað fram yfir aldamót, en ókunnugt er, hversu lengi. Nemendur skiptu tugum á ári hverju, en alls mörgum hundruðum. Meðal þeirra voru menn, sem seinna urðu þjóðkunnir, eins og Jón Ólafsson síðar alþingismaður og bankastjóri, Bogi Ólafsson, síðar menntaskólakennari og Einar Jónsson frá Geldingalæk, síðar alþingismaður. Margir fengu þarna sína einu framhaldsmenntun, sem varð þeim að drjúgu gagni síðar á ævinni og gerði þeim kleift að taka að sér forustustörf í félagsmálum eða sveitarstjórnarstörf.

Einn þeirra manna, sem sótti kennsluna að staðaldri á sjómannsárum sínum á Stokkseyri á áratugnum fyrir aldamótin, var Páll bóndi Guðmundsson á Hjálmsstöðum. Hefir hann sagt frá þeirri skólagöngu í endurminningaþáttum sínum, og fer frásögn hans hér á eftir:[note]Sjá Vilhj. S. Vilhjálmsson: Tak hnakk þinn og hest, 72-73.[/note]

„Meðan eg stundaði sjóróðra á Stokkseyri, starfaði þar skóli, sem stefndi að því, að menn gætu haft eitthvað þarflegt fyrir stafni í landlegum, en þær voru ávallt leiðinlegar og þreytandi, miklu meira þreytandi en aflahrota og þar af leiðandi uppistöður, þó að ótrúlegt kunni að virðast, að minnsta kosti þótti mér það. Skólinn starfaði líka á Eyrarbakka, en hvort hann starfaði einnig í Þorlákshöfn, veit eg ekki, að minnsta kosti varð eg ekki var við hann, meðan eg reri úr Höfninni. Skólinn hafði verið stofnaður að tilhlutan Jóns Pálssonar, síðar bankagjaldkera, sem allir kannast við, en Jón var hinn mesti ágætismaður, einn Selsbræðra, gáfaður, víðsýnn og framfaramaður hinn mesti á þeim tíma, þó að sumum kunni að hafa þótt hann nokkuð íhaldssamur á síðustu árum hans í Reykjavík. Einnig studdi Guðmundur kennari Sæmundsson skólann af ráðum og dáð, og var hann aðalkennarinn á Stokkseyri, en Jón mun hafa haft veg og vanda af honum á Eyrarbakka. Eg sótti þennan skóla stöðugt í þrjár vertíðir – og hafði framúrskarandi gott af námi mínu í honum. Kennslugreinarnar voru þrjár, réttritun, reikningur og skrift. Margir skráðu sig í skólann í upphafi hverrar vertíðar með staðföstum ásetningi um að sækja hann vel og læra mikið. En smátt og smátt heltust menn úr lestinni, gáfust upp eins og gengur, en það var mikill misskilningur hjá þeim. Eg felldi ekki úr tíma, enda fekk eg þarna þá menntun, sem eg hefi búið að alla ævi og gerði mér meðal annars kleift að geta haft á hendi forustu í sveitarmálum okkar Laugdæla áratugum saman, enda held eg, að sú hafi orðið raunin, að margir, sem sóttu námið í þessum skóla fyrir sjómenn, hafi síðar orðið leiðandi menn í sínum sveitum.

Við vorum til húsa með skólann hjá Jóni í Móhúsum, og borguðum við fimm krónur fyrir veturinn. Á vorin var svo haldið próf, og var séra Ólafur Ólafsson í Arnarbæli prófdómari. Eg stóð mig vel á prófunum, þó að eg segi sjálfur frá. En það var dálítið erilsamt að stunda námið, því að við urðum vitanlega að stökkva frá því, hvernig sem á stóð, og man eg það, að oft leystust tímarnir upp í einu vetfangi og hver stökk til sinnar búðar. Höfðum við þá verið kallaðir í róður. Guðmundur Sæmundsson var afbragðs kennari, sérstaklega þótti honum gaman að kenna okkur reikning, og lék hann þá á als oddi.“

Leave a Reply

Close Menu