Saga Stokkseyrar

Helstu heimildarmenn þessarar síðu eru Guðni Jónsson sagnfræðiprófessor sem skrifaði Bólstaðir og Búendur í Stokkseyrarhreppi, Stokkseyringasögu I – II og Saga Hraunshverfis. Þessar bækur eru uppistaða heimilda á þessari síðu. Auk þeirra bóka munu birtast hér textar bókanna Austantórur eftir Jón Pálsson bankagjaldkera,  fjölda óútgefinna skrifa eftir Jón, eins og Mannlýsingar og fleira, svo og skrif Ísólfs Pálssonar, bróður Jóns auk nótna af öllum sönglögum hans. Með tíð og tíma verða settir hér inn fjöldi annarra heimilda eftir því sem tíminn leyfir.

Þá er unnið að uppbyggingu á sérstakri ljósmynda- og myndbandasíðu þar sem birtar verða gamlar myndir og upptökur frá Stokkseyri. Verkefnið er í þróun.

Bjarki Sveinbjörnsson

Formáli Guðna Jónssonar að bókinni Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi

Efniviður þessarar bókar er víða til fenginn og dreginn saman á löngum tíma. Þá er eg safnaði til Bergsættar fyrir rúmum tveim áratugum, kynntist eg mörgum fyrri og síðari tíma mönnum í Stokkseyrarhreppi, sem og heimildum um þá, sem tiltækastar voru. Í raun og veru má því rekja þangað hin fyrstu drög til þessa rits. Eftir að Bergsætt kom út, leið svo heill áratugur, að mér gafst aldrei tóm til að sinna þeim hugðarefnum, sem þar var við hreyft. Á þeim árum óx mér þó jafnt og þétt áhugi á því að kanna betur en áður hafði verið gert óprentaðar heimildir í þeirri von að finna þar svör við ýmsum áleitnum spurningum ættfræðilegs efnis. Loks dró til þess, að ég eignaðist nokkrar íhlaupastundir, og sökkti eg mér þá niður í það að kynna mér ættir Árnesinga almennt, einkum á 18. og 19. öld. Til þess varði eg margri stund um nokkurra ára skeið, heyjaði mér talsverðan fróðleik og fann enda ýmislegt, sem orðið var myrkri hulið. En þar eð tími minn var lengstum naumur, en verkefnið mikið, réð eg af að takmarka það við þrengra svæði. Sneri eg mér þá að Stokkseyrarhreppi, endurnýjaði þar gömul kynni og leitaði jafnframt nýrra. Þar var mikið verk að vinna bæði vegna skorts á gömlum prestsþjónustubókum og enn fremur vegna fólksfjölda og þéttbýlis. Smám saman tókst mér að varpa nokkru ljósi inn í myrkur gleymsku og fyrnsku og tengja á ný slitin ættarbönd. Á árunum 1944-48 birti eg nokkrar greinar um þessi efni í Blöndu, og gefa þær dálitla hugmynd um viðfangsefni mín og hvernig að þeim var unnið. Þetta var eingöngu tómstundaverk, sem bar launin í sjálfu sér í þeirri ánægju sem það veitti mér. Til bókargerðar af því tilefni var þá ekki hugsað.

Fyrir um það bil fjórum árum fór stjórn Stokkseyringafélagsins í Reykjavík þess á leit við mig, að ég tæki að mér að skrifa sögu Stokkseyrar, og var það litlu síðar af ráðið. Ég átti þá þegar í fórum mínum allmikið efni í slíkt rit fyrir utan drög mín til ættarsögu byggðarlagsins sem áður er að vikið. Þá er ég tók að vinna að þessu verki með útgáfu fyrir augum varð mér það ljóst að ég mundi sætta mig illa við að þurfa að skera niður mikið af því efni sem ég taldi eiga þar heima, þar á meðal ýmiss konar fróðleik um byggðarlagið sem hvergi var annars staðar að fá. Niðurstaða mín varð sú að til þess að gera efninu viðunandi skil þyrfti ég að skrifa þrjár bækur. Þegar ég hafði komizt að þessari niðurstöðu, gat eg fyrst farið að vinna stefnubundið að viðfangsefni mínu. Birtist nú hér fyrsta bókin, sem nefnist Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi. Fjallar hún um sögu einstakra bújarða og annarra bólstaða í hreppnum og greinir frá ábúendum á hverri jörð. Öllum sem kunnugt er um, frá upphafi til þessa dags. Gerð er grein fyrir ætt þeirra, kvonfangi og börnum, eftir því sem kostur er á, og tilgreindur um þá ýmislegur annar fróðleikur, smásögur og sagnir. Mannlýsingar og því um líkt með tilvísun til heimilda. Ritið er því handbók um Stokkseyringa handa þeim sjálfum og öðrum, sem slíkan fróðleik girnast. Þar geta kynbornir Stokkseyringar rakið ættir sínar mann fram af manni og í mörgum greinum lengra og, víðar en hingað til hefir verið kostur. En aðrir koma þar einnig mikið við sögu, einkum fjöldi annarra Árnesinga og Rangæinga. Á það skal bent hér, að í skránni um mannanöfn eru nöfn bænda í Stokkseyrarhreppi og blaðsíðutalan, þar sem þeirra er aðallega getið, prentuð með skáletri til hægðarauka og flýtis, þá er að þeim er leitað.

Um efni hinna tveggja ritanna, er eg minntist á, er rétt að geta þess, að í öðru þeirra eiga að birtast söguþættir af merkum og nafnkunnum Stokkseyringum á síðari öldum, og á það að bera nafnið Frá Vopna-Teiti til Jóns Sturlaugssonar. Hitt ritið fjallar um almenn málefni Stokkseyrarhrepps, sveitarstjórn, atvinnuvegi, menningar- og félagsmál og nefnist væntanlega Saga Stokkseyrarhrepps. Öll ritin þrjú verða sjálfstæð að efni, enda þótt þau fylli hvert annað og miði öll að sama marki. Við marga örðugleika hefir verið að etja við samning þessa rits, og skal ekki margt um þá rætt nú, er verkinu er lokið. Þó ætla ég aðeins að minnast á tvö atriði. Veðmálabækur eru til úr Árnessýslu allt frá 1790, en enginn vegur er þó að rekja eigendur og eignarheimildir jarða eftir þeim. Þar er nálega aldrei getið um skiptingu jarða við erfðir, og fjölda mörgum kaupum og sölum hefir aldrei verið þinglýst, og eru þau þá eigi færð inn í veðmálabókina. Stundum hafa einskakar upplýsingar um þetta efni fundizt í öðrum heimildum, en um hina síðustu tíma hafa fróðir menn og kunnugir fyllt upp í eyðurnar. Hitt atriðið er það, að í manntölum og manntalsbókum 18. aldar eru hjáleigur yfirleitt ekki nafngreindar, aðeins ábúendurnir taldir. Þar, sem hjáleigur voru margar, var oft miklum erfiðleikum bundið að finna, hver byggi á hverri hjáleigu. Athugun á boðleiðinni bjargaði nokkuð, einkum við aðgreiningu hinna mörgu Stokkseyrarhjáleigna, sem eru venjulega taldar vestan frá og austur eftir. Þingbækur og bréfabækur leystu stundum úr vandanum, ef svo bar við, að hjáleigubænda var getið með heimilisfangi. Loks reyndist manntalið frá 1818 hinn mesti bjargvættur, þar sem það náði til, vegna þess að þar eru tilgreindir fæðingarstaðir manna. En allt um það var mér þetta lengi hvimleiður og erfiður þröskuldur í vegi.

Helztu heimildir, sem eg hefi stuðzt við, bæði prentaðar og óprentaðar, eru taldar upp á 394.-396. bls. hér í bókinni. Um það efni verður að nægja að vísa til þeirrar upptalningar.

Margir menn hafa lagt mér lið og veitt mér ýmiss konar fyrirgreiðslu við samning þessa rits. Skjalaverðirnir Kjartan Sveinsson og síra Jón Guðnason hafa greitt fyrir mér á margan hátt í sambandi við notkun heimilda í Þjóðskjalasafni. Páll Hallgrímsson sýslumaður og síra Árelíus Níelsson, fyrrverandi sóknarprestur í Stokkseyrarprestakalli, leyfðu mér fúslega aðgang að embættisbókum í þeirra vörzlum. Sigurður Eyjólfsson skólastjóri á Selfossi skrifaði upp fyrir mig flestar landamerkjalýsingar úr Stokkseyrarhreppi og gerði einnig útdrátt úr Veðmálabókum Árnessýslu eftir 1860 að því er varðaði efni þessa rits. Af þeim mönnum, sem ég leitaði oftast til um ýmiss konar upplýsingar, vil eg einkum nefna Bjarna Júníusson á Syðra-Seli, Sigurgrím Jónsson hreppsnefndaroddvita í Holti, frú Sólveigu Pálsdóttur í Reykjavík og Þórð Jónsson bókhaldara frá Stokkseyri. Þeir Eiríkur Guðmundsson verzlunarmaður og Haraldur Pétursson safnhúsvörður, sem nú eru manna fróðastir um ættir Árnesinga, gerðu mér þann greiða að lesa handrit mitt, áður en það fór í prentun, en þeir Bjarni Júníusson og Páll Sigurðsson læknir fóru yfir allt ritið í fyrstu próförk. Eins og nærri má geta, lögðu allir þessir menn nokkuð gott til, og varð yfirsýn þeirra ritinu mikill fengur og jafnframt eigi lítil trygging. Jón Sigurgrímsson í Holti tók allar bæjarmyndirnar nema af Hellukoti, en myndmótin gerði Gunnar Heiðdal prentmyndasmiður. Hafsteinn Guðmundsson prentsmiðjustjóri og starfsmenn hans lögðu fram venjulega alúð og vandvirkni við aðvinnslu og frágang bókarinnar. Yfirlitskortið af Stokkseyrarhreppi er gert eftir uppdráttum Flóaáveitunnar. Menntamálaráðuneytinu ber að þakka styrk af fé því, sem veitt er á fjárlögum til útgáfu héraðssagna.

Að lokum vil eg þakka sérstaklega Haraldi B. Bjarnasyni, formanni Stokkseyringafélagsins, og meðstjórnendum hans fyrir að ráðast í útgáfu bókarinnar. Formaðurinn hefir frá byrjun fylgzt með þessu verki af einlægum áhuga, og honum er það fyrst og fremst að þakka, að það er til orðið og sér nú dagsins ljós.

Reykjavík, 15. des. 1952.

Guðni Jónsson

Guðni Jónsson prófessor 

Guðni Jónsson prófessor  fæddist að Gamla-Hrauni á Eyrarbakka 22. júlí 1901. Foeldrar hans voru Jón  Guðmundsson bóndi og sjósóknara og kona hans, Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur.

Jón Pálsson

Jon Palsson

Jón Pálsson fæddist 3. ágúst 1865 í Syðra-Seli í Stokkseyrarhreppi. Foreldrar hans voru Páll Jónsson bóndi og kona hans. Margrét Gísladóttir.

Samstarfsaðilar

Close Menu