136-Verkalýðs- og sjómannafélagið „Bjarmi“

Saga verkalýðshreyfingar hér á landi hefst með Bárufélögunum svonefndu nokkru fyrir síðustu aldamót. Það voru sjómannafélög, sem stofnuð voru í helztu verstöðvunum á Suðvesturlandi til þess að tryggja kaup og kjör sjómanna á skútum og síðar á togurum, eftir að þeir komu til sögunnar. Fyrsta félagið, Báran nr. 1, var stofnað í Reykjavík 1894, og á næstu árum voru sams konar félög stofnuð í nálægum verstöðvum: Báran nr. 2 í Hafnarfirði 1896, Báran nr. 3 á Akranesi 1902, Báran nr. 4 á Eyrarbakka, Báran nr. 5 á Stokkseyri og Báran nr. 6 í Keflavík, öll stofnuð 1904, Báran nr. 7 í Reykjavík 1905 og Báran nr. 8 í Garði sama ár. Hver deild út af fyrir sig var sjálfstætt félag, en þær höfðu samband með sér og yfirstjórn. Auk beinnar launabaráttu var ein af aðalkröfum félaganna sú, að verkamenn fengju kaup sitt eða að minnsta kosti nokkurn hluta þess greitt í peningum, en sú krafa var á þeim tímum hin mikilvægasta í baráttunni fyrir persónulegu frelsi sjómanna og verkamanna.

Samtök Bárufélaganna voru fyrsta tilraun íslenzkra sjómanna og verkamanna til þess að koma á almennum samtökum sín á milli. En þau náðu aldrei varanlegri festu. Á áratugnum fyrir heimsstyrjöldina fyrri, er vélbátar og togarar ruddu sér til rúms, komst svo mikill glundroði á hreyfinguna, að Bárufélögin liðu ýmist alveg undir lok eða þeim var breytt í almenn verkalýðsfélög eða jafnvel kaupfélög. Árið 1907 var stofnað svonefnt Verkamannasamband Íslands, en með stofnun þess var gerð tilraun til að mynda allsherjarsamtök með þeim félögum, sem þá voru til, Bárufélögunum, prentarafélaginu, sem stofnað var 1897, og Dagbrún, sem stofnuð var 1906. En ekki virtist neinn jarðvegur fyrir slík samtök, er þá var komið sögu, og verkamannasambandið lognaðist út af 1910 sakir áhugaleysis félaganna og skorts á fjármunum til starfseminnar. Eftir að það leið undir lok, var ekki um nein samtök að ræða meðal hinna einstöku verkalýðsfélaga, fyrr en Alþýðusamband Íslands var stofnað 12. marz 1916, en það voru fyrstu allsherjarsamtökin, sem tókst að halda velli.

Þannig var í stórum dráttum ástatt um samtök íslenzks verkalýðs, þegar Stokkseyringar stofnuðu Bárufélag sitt skömmu eftir aldamótin, en frá því segir á þessa leið í gerðabók félagsins: ,,Þann 12. febrúar 1904 stofnaði Sigurður Eiríksson á Eyrarbakka sjómannafélagið Báru nr. 5 á Stokkseyri. Stofnendur voru 36 að tölu. Í embætti kosnir og samþykktir þessir: formaður Jón Adólfsson, varaformaður Jón Sturlaugsson; ritari Ásgrímur Jónsson, vararitari Þorsteinn Einarsson; féhirðir Guðni Árnason, til vara Júlíus Gíslason; fulltrúi til að mæta í Reykjavík Páll Grímsson, til vara Jón Pálsson. Samþykkt að hafa inntökugjald 25 aura og árgjald 50 aura. Fleira var ekki gert á þessum fundi og fundi slitið.“

Lengi framan af eða fram að styrjaldarárum var félagið hagsmunasamtök alls vinnandi fólks í þorpinu, jafnt útvegsbænda sem þurrabúðarmanna og verkamanna. Útvegsbændur og formenn eru þá eiginlega kjarninn í félaginu. En upp úr því fer meira að bera á þurrabúðarmönnum og verkamönnum, fé. lagið fer að breytast í það horf að verða verkalýðsfélag. Samfara því skiptir félagið um nafn. Báru-nafnið er lagt niður, en í staðinn kemur Verkalýðsfélagið „Bjarmi“. Er talið, að þessi nafnbreyting hafi orðið 1914. Upphaflega fengu fastir verzlunarmenn ekki inngöngu í félagið, en 1908 var félagið opnað fyrir þeim. Konur höfðu ekki aðgöngu að félaginu fyrr en 1930.

Þegar tímar liðu, þótti heppilegra að gefa félaginu víðtækara nafn, kenna það ekki aðeins við verkalýð, heldur líka við sjómenn. Var því nafn þess lengt árið 1939, og heitir það síðan Verkalýðs- og sjómannafélagið „Bjarmi“, sem síðar segir.

Á fyrstu árunum var starfsemi félagsins nokkuð fálmkennd, líkt og menn væru að þreifa fyrir sér eftir verkefnum. Að dæmi annarra Bárufélaga störfuðu 3 fastanefndir í félaginu: fjármálanefnd, hagnefnd, sem átti að leggja ýmis mál, hagræns efnis, fyrir fundi, og heimsóknarnefnd, sem átti að vinna að góðri fundarsókn, Fundir voru tíðir, í mörg ár haldnir vikulega frá hausti og fram að vertíð. Oft voru þeir vel sóttir og umræður miklar, en við og við er þó kvartað yfir því á fundum, að þeir séu illa sóttir og þátttaka í umræðum ekki nógu almenn. Meðal þeirra, sem mest höfðu sig í frammi á fundum á þessum árum, voru Júlíus Gíslason, Guðni Árnason, Jón Sturlaugsson, Jón Adólfsson, Gísli Pálsson, Hannes Jónsson, Helgi Pálsson, Sæmundur Friðriksson, Jón Grímsson, Guðjón Þorkelsson, Helgi Jónsson, Þórður Björnsson og ýmsir fleiri.

Á árunum 1904-1906 sendi Báran á Stokkseyri fulltrúa til stórdeildarinnar, þ. e. sambands Bárufélaganna í Reykjavík. En dauflega var tekið í skattgreiðslu til sambandsins, en það voru 20 aurar á hvern félagsmann. Þótti það mikið fé og galzt illa. Til Verkamannasambandsins galt félagið aldrei skatt, sendi þó fulltrúa á þing þess eitt ár ( 1909).

Eitt af helztu verkefnum félagsins frá upphafi var ákvörðun vinnulauna í verkamannavinnu og samningar um kaup við atvinnurekendur á Stokkseyri, kaupmenn og kaupfélög staðarins. Í fyrsta taxtanum, sem félagið samþykkti 8. febr. 1905, var kaupið ákveðið þannig: 1) Frá 1. apríl til 1. júlí 20 aurar um klukkutímann fyrir karlmenn og 15 aurar fyrir kvenmenn. 2) Frá 1. júlí til 10. september lægst 30 aurar um klukkutímann fyrir karlmenn og 20 aurar fyrir kvenmenn. 3) Frá 10. september til ársloka skal kaupið vera lægst 20 aurar við uppskipun og útskipun og við aðra vinnu 15 aurar. Öll vinnulaun skulu borgast í peningum, eins og lög mæla fyrir. Tillaga kom fram um „að skrúfa“ kaupið upp um 5 aura, er unnið væri um nætur, og skyldi næturvinna teljast frá kl. 9 að kvöldi til kl. 6 að morgni. Sömuleiðis kom fram tillaga um 5 aura hækkun tímakaups fyrir sunnudagavinnu, og var þetta hvort tveggja samþykkt.

Það yrði of langt mál að rekja taxta félagsins ár frá ári. Að vísu tók hann litlum breytingum. Þó vart. d. samþykkt árið eftir, að vinnulaun í saltskipum skyldu vera 35 aurar um tímann, og blöskraði jafnvel sumum félagsmönnum sjálfum sú krafa. En þótt félagið reyndi þannig að tryggja laun verkamanna bæði þá og síðar, átti það jafnan við ramman reip að draga. Fjöldi þorpsbúa var ekki í félaginu, og töldu utanfélagsmenn sér frjálst að vinna fyrir lægra kaup, ef í það fór. Samtökin voru ekki nógu sterk og skilningur almennings á nauðsyn þeirra, ef nokkuð ætti að vinnast, var daufur og seinn til þroska. Því varð félagið ár eftir ár að standa í samningastappi um kaupið með misjöfnum árangri. Enginn sameiginlegur kauptaxti gilti fyrir allt landið, hvert félag varð að semja á sínum stað. Árið 1922 samþykkti félagið að fylgja Dagsbrúnartaxta, en það gekk í sama þófi, því að hann þótti alltof hár í kauptúnum og sveitum. Árið 1925 samþykkti félagið t. d. fastan vinnutaxta 1.20 kr. um tímann fyrir karlmenn í dagvinnu, en í eftirvinnu og helgidagavinnu 1.50 kr. og fyrir kvenfólk 80 aura í dagvinnu, en 1.20 í eftirvinnu og helgidagavinnu, en aðeins fáir af kaupmönnum í þorpinu vildu skrifa undir hann. Á kreppuárunum 1930-1939 átti félagið mjög í vök að verjast gegn þeim, sem ráð höfðu á opinberri vinnu, einkum vegavinnu. Atvinnuleysi var þá mikið og lítið framboð á vinnu, og var þá erfitt að halda uppi sómasamlegu kaupi. Starfsemi „Bjarma” eins og annarra verkalýðsfélaga snérist því jafnan öðrum þræði um kaupsamninga og kaupdeilur, þar til Alþýðusamband Íslands fekk aðstöðu til þess að beita sér fyrir samræmingu kaups og kjara alls staðar á landinu.

Annað mál, sem félagið lét sig frá upphafi miklu skipta, voru verzlunar- og viðskiptamál félagsmanna. Þegar á fyrsta starfsári félagsins var rætt um að koma á fót pöntunarstarfsemi, þ. e. að panta vörur handa félagsmönnum með sem hagkvæmustum kjörum. Komst þessi starfsemi á laggirnar 1906 og veitti Guðmundur Sæmundsson kennari henni forstöðu í allmörg ár gegn smávægilegri þóknun. Var þetta félagsmönnum til mikils hagnaðar, en samt sem áður mun þessi starfsemi hafa fallið niður á styrjaldarárunum eða fyrr. Var hún svo tekin upp aftur löngu seinna eða um 1930, og er upp úr henni vaxið Pöntunarfélag verkamanna, sem starfað hefir ötullega hin síðari ár og hefir opna sölubúð á Stokkseyri. Er nánara frá því sagt hér að framan.

Í sambandi við verzlunarmál félagsmanna var mikið rætt um fisksölu á fyrstu árum félagsins. Var lögð áherzla á það að selja kaupmönnum ekki blautan fisk eða hálfverkaðan, þar eð miklu minna fengist fyrir hann þannig. Voru menn hvattir til að verka hann og salta sjálfir, en síðan skyldi leita tilboða um kaup á honum. Á árunum 1907-1910 var hvað eftir annað til umræðu að reisa fisk- og saltgeymsluhús fyrir félagsmenn, svo að þeir gætu geymt fiskinn, ef þörf væri, en þyrftu ekki að losa sig við hann vegna skorts á geymslurými. Ekki tókst að fá nægilega marga til þess að vera með í framkvæmd þessari, og varð því ekki úr þessu þarfa fyrirtæki. Á sama hátt reyndi félagið að koma á samtökum um sölu lifrar og gotu, en litlu virðist það hafa áorkað í því efni eða um verðlag á þeim.

Eitt af merkustu viðfangsefnum „Bárunnar“ var rekstur íshússins á Stokkseyri frá 1909 og fram um lok styrjaldaráranna. Höfðu eigendurnir gefizt upp á rekstrinum, og tók félagið íshúsið þá á leigu frá ári til árs, svo að starfsemi þess félli ekki niður. Er nánara frá þessu sagt á öðrum stað.

Félagið hefir jafnan fylgzt af áhuga með verklegum framkvæmdum í hreppnum, ýtt á eftir þeim eftir megni með áskorunum til hreppsnefndar eða annarra aðila og haldið málum þannig vakandi. Má þar t. d. nefna vegagerð innan hreppsins áratugum saman, lendingarbætur og lagning síma innan sveitar, holræsagerð, vatnsveitu, útgerðarmál og margt fleira. Á kreppuárunum um og eftir 1930 og raunar fyrr báru félagsmenn fram ítrekaðar tillögur um skiptingu Stokkseyrarheiðar, þar sem þeir gætu fengið nægilegt ræktunarland. Þetta lá þó ekki laust fyrir, og því tóku 9 menn úr verkalýðsfélaginu sig saman árið 1930 og mynduðu félag með sér til þess að kaupa og nytja jörðina Ásgautsstaði. Nefndist það Ásgautsstaðafélag og starfar enn, þótt nokkur mannaskipti hafi orðið. f fyrstu stjórn félagsins voru þeir Helgi Sigurðsson, Nikulás Bjarnason og Sigurður Grímsson. Úthlutun Stokkseyrarlands dróst á langinn. Meðan Stokkseyrin var í einkaeign, lenti allt í þófi um leiguskilmála og mælingu landsins. Stofnuðu 12 verkamenn þá enn félag með sér árið 1934, og tókst þeim að fá sér útmælt 30 ha. land fyrir austan Stokkseyri. Félagið nefndist Ræktunarfélag verkamanna, en fyrstu stjórn þess skipuðu þeir Björgvin Sigurðsson, Guðbrandur Þorsteinsson og Jón G. Jónsson í Vestra-Íragerði. Félagið girti landið, lagði um það vegi og ræktaði það allt á tveim árum. Höfðu félagsmenn margs konar samvinnu við heyskap, svo sem vélavinnu og fleira. Ræktunarfélagið starfar enn, en lítils háttar mannaskipti hafa átt sér stað. Eftir að ríkið varð eigandi Stokkseyrar 1935, gerðu menn sér almennt vonir um, að fljótlega mundi greiðast úr um úthlutun ræktunarlanda, en þá þótti ekki tímabært að mæla út heiðina og skipta landinu, fyrr en skipulag þorpsins væri ákveðið. Það varð því eigi fyrr en 1948, að heiðinni var loksins skipt og þorpsbúar gátu almennt fengið spildur til ræktunar. Hefir síðan verið unnið mikið að ræktun landsins til hagsbóta fyrir marga. Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps átti hér einnig góðan hlut að máli.

Stofnun Samvinnufélags Stokkseyringa 1933 til eflingar útgerð á staðnum má einnig rekja til Verkalýðsfélagsins „Bjarma“. Þar var málið fyrst reifað. og stofnendur samvinnufélagsins voru langflestir félagsmenn í „Bjarma“. Þetta fyrirtæki reyndist ómissandi fyrir atvinnulíf þorpsbúa á erfiðum krepputímum. Árið 1949 gekkst „Bjarmi“ fyrir stofnun Byggingarfélags verkamanna samkvæmt lögum um verkamannabústaði, og er nánar skýrt frá þessum félögum annars staðar.

Margs konar menningarmál hafa jafnan verið verulegur þáttur í starfsemi félagsins. Stofnun Ekknasjóðs Stokkseyrarhrepps 1908, sem áður er getið, var algerlega að tilhlutun félagsmanna í „Bárunni“, og stofnskrá sjóðsins samþykkt á fundi félagsins. Á félagsfundi í „Bárunni“ kom sú hugmynd einnig fyrst fram að koma á heilbrigðisnefnd í þorpinu árið 1910, og komst það í framkvæmd nokkrum árum síðar. Á sjúkrasamlag er þegar minnzt í félaginu árið 1911, og var þá kosin nefnd til að athuga málið. Reyndist slíkt þá ekki tímabært, og lá það síðan niðri í mörg ár. En 1932 var formlega stofnað sjúkrasamlag innan félagsins, lög fyrir það samin og prentuð, stjórn kosin og framkvæmdastjóri ráðinn. Því miður tókst ekki að mynda nógu almenn samtök um þetta mál, þátttakan varð of lítil, til þess að starfsemin fengi staðizt, og féll hún niður eftir 1-2 ár. Þegar almennt sjúkrasamlag var stofnað í hreppnum 1942, lagði „Bjarmi“ því máli öflugt lið.

Þó að sjúkrasamlagið skapi mikið öryggi, er veikindi ber að höndum, fer því þó fjarri, að það greiði allan kostnað, sem af þeim hljótast. Þess vegna var stofnaður Styrktarsjóður Verkalýðs- og sjómannafélagsins „Bjarma“ og reglugerð fyrir hann samþykkt 29. des. 1950. Er tilgangur sjóðsins að styrkja félagsmenn umfram það, sem sjúkrasamlagi ber að borga. Í fyrstu reglugerðinni segir svo:

„Sjóðurinn tekur til starfa 1. janúar 1951. Hann veitir styrk til
a) sjúkraflutninga, upp í kostnað við flutning félagsmanna á sjúkrahús allt að 150 kr„
b) jarðarfararstyrk til félagsmanna allt að 500 kr.“

Á aðalfundi 11. jan. 1953 var þessu breytt svo, að sjóðurinn greiði
1) ¾ sjúkraflutnings;
2) jarðarfararstyrk 1000 kr.;
3) sjúkrahúskostnað, sem verður umfram sjúkrasamlagsgreiðslu;
4) ¾ bifreiðarkostnaðar til að sækja lækni til Eyrarbakka eða annað, ef ekki næst í héraðslækni. Þessu var breytt þannig á aðalfundi 10. jan. 1954, að ¾ í 1. og 4. lið falli niður eða m. ö. o., að sjúkraflutningur og bifreiðakostnaður greiðist að fullu, og við bætist:
5) Sjóðurinn greiðir 3000 kr. á ári, er úthluta skal fyrir 20. des. ár hvert til þeirra félagsmanna, er erfiðastar ástæður hafa vegna fátæktar, sjúkdóma eða annarra orsaka. Hámarksgreiðsla til einstaklinga er kr. 500. Þessum styrk var úthlutað fyrir jólin í tvö ár, 1954 til 8 félagsmanna og 1955 til 7 félagsmanna; var því svo hætt, en tryggingar að sama skapi auknar. Var samþykkt á aðalfundi 9. jan. 1955, að sjóðurinn skyldi greiða að fullu þann hluta lyfja og sjúkrahjálpar, sem ekki er greitt af sjúkrasamlagi eða öðrum opinberum aðilum.

Með starfsemi þessa sjóðs er því marki náð, sem almenn tryggingastarfsemi hlýtur að stefna að: fullkornið fjárhagsöryggi, þegar sjúkdóma ber að höndum. Þess hefir verið getið, að hreppurinn lagði 1000 kr. á ári til sjóðsins og síðan 1957 10.000 kr. árlega. Hér á og við að geta þess.-að allt frá því á fyrstu árum félagsins hafði það margsinnis lagt fram dálitlar upphæðir úr félagssjóði til styrktar fátækum þorpsbúum, er veikindi eða óhöpp bar að höndum.

Auk þess, sem nú hefir verið talið, hefir félagið á ýmsum tímum veitt styrki til menningarstarfsemi á Stokkseyri og jafnvel annars staðar. Þannig hefir það veitt styrk til lestrarfélagsins ( 1922), til kvöldskólahalds á Stokkseyri, taflfé. lagsins, söngfélagsins (1939) o. fl. Hinn 28. nóv. 1957 var samþykkt að gefa Friðriki Ólafssyni skákmeistara 2000 kr. úr félagssjóði í tilefni af glæsilegri frammistöðu hans á skákmótinu í Hollandi það ár.

Framan af árum lét félagið sig stjórnmál litlu skipta. Sjálfstæðisbaráttan við Dani var þá efst á baugi og flokkaskipting miðuð við afstöðu manna til hennar. Á styrjaldarárunum fyrri og upp úr þeim myndaðist ný flokkaskipting í landinu, sem byggðist á afstöðu manna til innanlandsmála, einkum verzlunar og atvinnumála. Þá hefst fyrir alvöru sókn verkalýðsins til bættra lífskjara og aukinna mannréttinda undir forustu Alþýðuflokksins og samkvæmt kenningum jafnaðarstefnunnar. Eftir að Alþýðusamband Íslands var stofnað 1916, sem fyrr segir, varð það eitt sterkasta vopnið í þeirri baráttu. Fleiri og fleiri verkalýðsfélög, bæði hin eldri og þau, er síðar voru mynduð, skipuðu sér undir merki Alþýðusambandsins og efldu það til áhrifa. Árið 1922 gekk Verkalýðsfélagið „Bjarmi“ í Alþýðusambandið, en á þeim árum og lengi síðan þótti nær sjálfsagt, að félagsmenn í verkalýðsfélögunum fylgdu Alþýðuflokknum að málum. Fóru nú í hönd harðar deilur um kaupgjaldsmál og réttindi verkalýðsfélaga til þess að semja um kaup og kjör.

En jafnframt því tók að koma í ljós mikill ágreiningur innan félaganna sjálfra. Þótti mörgum Alþýðuflokkurinn ganga of skammt í kröfum sínum fyrir hönd verkamanna og vildu reisa markið hærra. Olli þetta klofningi í mörgum félögum og tvístraði kröftum þeirra. Leiddu þessi átök til þess, að stofnaður var Kommúnistaflokkur Íslands árið 1930, og fylltu hann að sjálfsögðu þeir menn, er róttækastir voru og kröfuharðastir fyrir hönd verkalýðsstéttanna. Á þeim árum höfðu hægri mennirnir í verkalýðshreyfingunni tögl og hagldir í Verkalýðsfélaginu „Bjarma“, eins og sjá má af því, að á aðalfundi 3. jan. 1932 var nýrri grein bætt inn í félagslögin, er svo hljóðar: ,,Ef félagsmaður verður uppvís að því að vinna á móti kosningu Alþýðuflokksins, skal stjórninni heimilt að víkja honum úr félaginu.“ Slík samþykkt var auðvitað sízt til þess fallin að laða menn að félaginu eða efla samheldni innan þess, enda var greinin síðar felld niður úr lögunum. Við og við sóttu ýmsir af framámönnum Alþýðuflokksins félagið heim til þess að ræða um verkalýðsmál og flokksmál, t. d. Kjartan Ólafsson frá Hafnarfirði 1922, Hendrik Ottósson 1924, Pétur G. Guðmundsson 1927, Sigurjón Ólafsson 1930 og aftur 1933 ásamt fleirum.

Árið 1935 var Björgvin Sigurðsson núverandi hreppsnefndaroddviti fyrst kosinn formaður „Bjarma“, og hefir hann gegnt formannsstöðunni síðan að undanskildu einu ári. Með honum færðist líf og barátta í félagið, og óx það skjótt að áhrifum undir stjórn hans. Reisti hann merkið hátt fyrir félagsins hönd og hefir mótað mjög stefnu þess og framkvæmdir síðan.

Félagið lét kaupgjaldsmál til sín taka eins og áður, en mun nú hafa gengið ríkara eftir því, að réttindi verkamanna væru virt. Á fundi 9. des. 1937 samþykkti félagið t. d. að leggja bann við allri vinnu 1. maí. Erfitt reyndist þó að framfylgja þessu banni, og var því samþykkt á fundi 31. jan. 1940 að fella það niður, en beina þeim tilmælum til formanna að róa ekki 1. maí og til annarra félagsmanna að gera sitt til að halda daginn hátíðlegan. Einnig gerði félagið þá kröfu, að félagsmenn skyldu hafa forgangsrétt til vinnu og þar með til skiprúms á bátunum. Bátaeigendur eða þeir, sem hluti áttu í bátum, undu því illa að vera sviptir rétti til að ráðstafa skiprúmi að eigin vild og báru það fyrir sig, að „Bjarmi“ væri verkalýðsfélag, en ekki sjómannafélag og hefði því ekki heimild til að skipta sér af ráðningu sjómanna. Risu af þessu snarpar deilur, sem urðu til þess, að 21 maður sagði sig úr félaginu 14. des. 1939, og voru það einkum menn, sem fylgdu Sjálfstæðisflokknum að málum. Stofnuðu þeir ásamt nokkrum fleirum í janúar 1940 nýtt félag, Sjómannafélag Stokkseyrar. og var formaður þess Þórarinn Guðmundsson í Sandprýði. Í tilefni af þessum átökum ákvað Verkalýðsfélagið „Bjarmi“ á hinn bóginn að breyta nafni félagsins þannig, að það skyldi heita Verkalýðs- og sjómannafélagið „Bjarmi“, svo að ekki væri um að villast, að það næði jafnt til sjómanna sem verkamanna. Af hinu nýstofnaða sjómannafélagi er það að segja, að það fekk ekki viðurkenningu verkalýðssamtakanna sem samningsaðili fyrir hönd sjómanna og lognaðist út af. f desember 1940 gengu 12 menn á einum fundi inn í ,,Bjarma“, og voru þar af margir þeir sömu sem höfðu sagt sig úr félaginu árið áður, og að lyktum gengu þeir flestir í það aftur. Lauk þessum hættulega klofningi því þannig, að hið gamla félag „Bjarmi“ stóð raunar sterkara en áður.

Á stríðsárunum óx mjög atvinna, sem kunnugt er, m. a. vegna hinnar svonefndu Bretavinnu. Margir Stokkseyringar og Eyrbekkingar fengu vinnu við flugvallargerð í Kaldaðarnesi um skeið. Hafði „Bjarmi“ milligöngu um kaup og kjör af hendi sinna manna. Nokkur ágreiningur kom upp milli hans og verkalýðsfélagsins á Eyrarbakka um rétt til vinnunnar, og fengu félögin Alþýðusambandið til að jafna þá misklíð.

Samkvæmt lögum „Bjarma“ frá 10. des. 1938 er tilgangur félagsins sá „að efla og styðja hag félagsmanna og menningu þá, sem kostur er á, meðal annars með því að ákveða vinnutíma og kaupgjald og stuðla að því, að verkalýðurinn taki sjálfstæðan þátt í stjórnmálum lands og hreppsfélags.“ Þátttaka félagsins í stjórnmálum sem sjálfstæðs aðila hófst með hreppsnefndarkosning· unum í janúar 1946. Bar formaður félagsins fram tillögu, sem fekk samþykki félagsmanna, um það, að allir stjórnmálaflokkarnir kæmu sér saman um einn lista. Þegar samkomulag um þetta strandaði, ákvað „Bjarmi“ að bera fram sérstakan lista, og hlaut hann 3 menn kjörna. Síðan hefir félagið tekið virkan þátt í hreppskosningum. Við kosningarnar, sem fram fóru í janúar 1958, bar félagið þó ekki fram sérstakan lista. Alþýðuflokksmenn í félaginu gengu í bandalag við Framsóknarflokkinn, en Alþýðubandalag og Sjálfstæðisflokkur báru hvort um sig fram sinn lista; einn listi kom fram utan flokka.

Þess er hér skylt að geta, að 31. jan. 1949 samþykkti félagið áskorun til alþingis um að halda við yfirlýsta ævarandi hlutleysistefnu og mótmælti þátttöku í Atlantshafsbandalagi og að gera landið að bækistöð hernaðarlegra átaka.

Lengi framan af voru tekjur félagsins mjög lágar að krónutölu. Ársgjöld félagsmanna komust fyrst upp í 4 kr. árið 1930. Til þess að auka nokkuð tekjumar lögðu félagsmenn á sig ýmiss konar fyrirhöfn. Oft hélt félagið hlutaveltur, og einnig gekkst það fyrir skemmtunum; varð oftast af þessu nokkur ágóði. Þá munu formenn hafa tekið um eitt skeið lóðarstokk af félaginu til ágóða fyrir félagssjóðinn og sömuleiðis hafði félagið kartöflugarð á árunum 1928-1932 eða lengur, en því var hætt vegna kartöflusýki, sem upp kom um þær mundir. Á síðari árum hefir rýmkazt mikið um fjárhag félagsins, félagsmenn eru fleiri en áður var, ársgjöldin hærri og peningaráð almennings meiri.

Ýmislegt hefir félagið gert til þess að auka á fjölbreytni í starfsemi sinni, það er verða mætti félagsmönnum til fræðslu eða dægrastyttingar. Skrifuð blöð hafa verið gefin út í félaginu og lesin upp á fundum, „Stokkseyringur“ 1909 og næstu árin þar á eftir og „Bjarmi“, sem hóf göngu sína 1945 og hefir komið út með nokkrum hvíldum síðan. Stundum voru lesnar upp á fundum fræðandi ritgerðir eða kaflar úr bókmenntum. Eftir að ríkisútvarpið tók til starfa, en útvarpstæki voru enn óvíða á heimilum, keypti félagið tæki og kom fyrir í húsi sínu til afnota fyrir félagsmenn; mun það hafa verið notað þannig í tvö ár. Árið 1953 keypti félagið segulbandstæki til upptöku og afspilunar. Í allmörg ár starfaði taflflokkur innan félagsins, en árið 1939 var samþykkt að leggja hann niður og selja þau töfl, sem félagið átti, hinu nýstofnaða Taflfélagi Stokkseyrar.

Einn mjög athyglisverður þáttur í starfsemi félagsins er það, hvernig það hefir ráðið fram úr húsnæðismálum sínum. Fram til 1921 var góðtemplarahúsið eina samkomuhúsið á Stokkseyri, ef frá er talinn barnaskólinn, sem stundum var notaður til minni háttar fundarhalda. Á fyrstu árum félagsins leigði það góðtemplarahúsið til fundarhalda sinna gegn ákveðnu gjaldi og þurfti auk þess að leggja til olíu til ljósa; um upphitun var auðvitað ekki að tala. En hér var ekki í önnur hús að venda. Eftir að sett var aðflutningsbann á áfengi 1912 og þó raunar fyrr dofnaði mjög yfir starfsemi góðtemplarareglunnar, og eina stúkan, sem var á Stokkseyri og forðum hafði starfað af miklu fjöri, hætti algerlega störfum um þær mundir og seldi hús sitt. Er talið, að það hafi verið árið 1912. Réðst Verkalýðsfélagið „Bjarmi“ í að kaupa húsið og flutti það vestur að Stokkseyri. Var það þá venjulega, kallað „Bjarmi“. Þar hafði félagið aðsetur sitt, unz það seldi húsið Andrési kaupmanni Jónssyni árið 1919. Varð félagið þá aftur að leigja sér húsnæði, lengst af í „Gimli“. En árið 1930 keypti félagið Brauðgerðarhúsið af þrotabúi Sparisjóðs Stokkseyrar og bjargaði um leið inneign sinni í sjóðnum, lét gera við það og notaði til fundarhalda, en leigði út að nokkru. Húsið brann 25. júlí 1939. Byggði félagið þá nýtt hús, er nefnt var Alþýðuhús, en seldi það í október 1941 Páli Guðjónssyni er hafði það fyrir bílaskemmu. Í nóvember sama ár keypti ,,Bjarmi“ 1/3 af samkomuhúsinu „Gimli“ af hreppnum og ungmennafélaginu, en seldi hreppnum þennan hluta sinn aftur 1951, og var félagið þá húslaust í nokkur ár. En síðla árs 1957 keypti félagið allt húsið „Gimli“ af hreppnum með það fyrir augum að koma þar upp gisti- og greiðasölu. Réðst félagið í allmiklar breytingar og viðgerðir á húsinu, og mun þeim ekki enn vera lokið. En þar var opnuð greiðasala, eins og ráð var fyrir gert. Því má við bæta, að Pöntunarfélag verkamanna, sem starfar á vegum „Bjarma“, keypti Hótel Stokkseyri til verzlunarrekstrar vorið 1958, sem fyrr var frá sagt.

Óþarft er að fara mörgum orðum um það, að í félagsskap slíkum sem þessum, er starfað hefir ósleitulega að hagsmuna- og menningarmálum almennings í meira en hálfa öld, hafa margir menn lagt fram mikið og óeigingjarnt starf, sumir opinberlega, aðrir í kyrrþey. Eina umbun þeirra hefir verið ánægjan af góðu félagsstarfi og að sjá áhugamálin þokast fram á við, að starfið hefir borið árangur. Það yrði of löng upptalning, ef nefna ætti hér alla þá, sem lagt hafa af mörkum sérstakt starf fyrir félagið, enda oft hæpið að gera þar upp á milli manna. Skylt er þó að nefna hér þá menn, sem verið hafa formenn félagsins, því að allir vita, að þeir verða löngum að bera hita og þunga dagsins í starfinu. Þeir eru þessir:

Jón Adólfsson frá Stokkseyri 12/2 1904-19/12 1904.
Jón Pálsson (eldri) frá Syðra-Seli 19/12 1904-18/12 1905.
Hannes Jónsson, Roðgúl, 18/12 1905-4/12 1906.
Gísli Pálsson, Hoftúni, 4/12 1906-19/12 1906
Þórður Björnsson, Sjólyst, 19/12 1906-19/10 1907.
Guðjón Þorkelsson, Sandvík, 19/10 1907-16/11 1907.
Jón Grímsson, Móakoti, 16/11 1907, er enn formaður 29/11 913,
en síðan óvíst hve lengi.
Helgi Jónsson, Stokkseyri, óvíst hve lengi.
Helgi Pálsson, Helgastöðum, einnig óvíst.
Ásgeir Jónasson, Ásgarði, sömuleiðis óvíst.
Guðmundur Einarsson, Merkigarði, er orðinn formaður í desember 1920 og var -6/12 1922.
Karl Guðmundsson, Laufási, 6/12 1922-15/12 1923.
Guðjón Þorkelsson aftur 9/12 1924–8/12 1925.
Nikulás Bjarnason, Unhól, 8/12 1925-29/12 1926.
Karl Guðmundsson aftur 29/12 1926–30/12 1927.
Zophónías Jónsson, Sandprýði, 30/12 1927-11/12 1929.
Helgi Sigurðsson, Bræðraborg, 11/12 1929-10/1 1935.
Björgvin Sigurðsson, Jaðri, 10/1 1935-4/1 1940.
Helgi Sigurðsson aftur 4/1 1940–2/1 1941.
Björgvin Sigurðsson aftur 2/1 1941 og endurkjörinn jafnan síðan.

Fjórir menn hafa verið kjörnir heiðursfélagar í „Bjarma“: Ólafur Guðmundsson í Bræðraborg, fyrrum ferjumaður, Jón Hinriksson í Túnprýði, fyrrum formaður, báðir kjörnir 10/1 1935, Sæmundur Friðriksson bóndi og kennari í Brautartungu, kjörinn 24/11 1942, og Guðmundur Ingjaldsson verkamaður á Ólafsvöllum, kjörinn 30/9 1951. Er Guðmundur einn á lífi þeirra heiðursfélaganna.

Í árslok 1958 voru félagar í „Bjarma“ 156 að tölu. Með breytingu á lögum félagsins 15. marz 1959 var félagssvæðið stækkað og nær nú yfir Stokkseyrar-, Gaulverjabæjar- og Villingaholtshreppa.

(Aðalheimild þessarar frásagnar eru gerðabækur félagsins. Því miður eru þær glataðar um 9 ára bil, frá febrúar 1913 til jan. 1922, en reynt hefir verið að fylla upp í það skarð eftir munnlegum heimildum kunnugra manna).

Leave a Reply

Close Menu