137-Kvenfélag Stokkseyrar
Íslenzkir kvenbúningar: Frá vinstri sitjandi: Guðríður Sigurðardóttir Beinateig, gamli skautbúningurinn, Guðrún Torfadóttir Helgahúsi, nýi skautbúningurinn; Guðrún Sigurðardóttir Sigurðarhúsi, kyrtill og spöng; – Standandi: Margrét Jónsdóttir bakaríinu, gamli upphluturinn; Halldóra Ingimundardóttir Sæborg, nýi upphluturinn; Jónína Ásbjörnsdóttir Sandvík, nýju peysufötin; Kristín Einarsdóttir Götuhúsum, gömlu peysufötin.

137-Kvenfélag Stokkseyrar

Árið 1904 er merkisár í félagsmálasögu Stokkseyrar. Þá eru með skömmu millibili stofnuð tvö félög, sem starfa bæði enn í dag og hafa unnið mikið starf í þágu menningar og framfara í byggðarlaginu, Verkalýðs- og sjómannafélagið „Bjarmi“, sem nú heitir svo, og Kvenfélag Stokkseyrar. Kvenfélagið hafði fyrst og fremst mannúðarmál á stefnuskrá sinni, og verkefni voru ærin. Fátækt var mikil meðal almennings, húsakynni léleg og þægindi eftir því, engin teljandi upphitun, engin rafljós, engin vatnsleiðsla og eldsneyti aðallega mór og þang, sem afla varð með ærnu erfiði. Það var algeng sjón í þá daga að sjá illa klæddar konur berandi á herðum sér stórar þangbyrðar, á stærð við meðalheysátur, langan veg yfir möl og sand og oft krap og snjó og klæðlítil og mögur börn haldandi í pilsfald móður sinnar á þessari píslargöngu. Þeir, sem á grasbýlunum bjuggu, höfðu rétt til þangtekju niður undan þorpinu, og gættu bændur að sjálfsögðu vel alls þess, sem á þeirra fjörur rak. En frá sundvörðunni eða nálægt því og út að Bjarnavörðu er allstórt svæði, sem nefnist Almenningur, og þar máttu allir tína þang. Urðu konur og börn þurrabúðarmanna því að fara þangað, þegar allt eldsneyti var þrotið heima, tína rekaþang, binda í bagga og bera á herðum sér allt að hálfrar stundar gang, þeir er lengst áttu til að sækja. Aðaleldsneytið var þá mór, og var hann tekinn upp á vorin í mýrinni ofan við þorpið, þurrkaður þar, settur í hrauka, tyrfður og geymdur til vetrarins. Var hann síðan dreginn heim á sleðum, þá er lækir og tjarnir lágu. En oft þurfti að bera mópoka heim á bakinu klukkustundar gang, ef eldsneyti þvarr, áður en mýrin lagðist undir hjarn. Kom það verk ósjaldan í hlut húsfreyju. Því sagði bóndinn, þegar kona hans kvartaði undan móburðinum: ,,Þú verður að vinna, Valgerður; það útheimtir það þetta líf.“ Eru þessi orð táknræn um hlífðarlaust strit aldamótakynslóðarinnar síðustu og fyrirrennara hennar. Miklu verst voru þó þær konur settar, sem giftar voru drykkjumönnum. Á þeim árum var tímakaup í erfiðri uppskipunarvinnu 15-25 aurar um tímann, og sömu mennirnir fóru oft dag eftir dag með drjúgan hluta hinna lágu daglauna sinna fyrir áfengi, og þar sem vinna var stopul, má fara nærri um það, hvernig afkoman var. Erfið og þægindasnauð’ voru því kjör fátækra mæðra á þeim tímum, og við engan var að kvarta nema þá sveitarstjórnina, er var síðasta úrræðið’. Engin félagssamtök voru til, er störfuðu að því að draga úr sárustu neyðinni eða hlaupa undir bagga, ef veikindi eða óhöpp bar að höndum. Heimili leystust stundum upp og börnin urðu að fara til vandalausra. Víða

andaði köldu í garð þurrabúðarmanna og fátæklinga. Hér var mikið verk að vinna, eigi aðeins að hjálpa þeim, sem bágast áttu, heldur og engu síður að breyta hugsunarhættinum. Þær konur, sem hófust handa um stofnun Kvenfélags Stokkseyrar laust eftir aldamótin, höfðu til að bera þá djörfung og það kærleiksþel, sem til þess þurfti.

Hinn 7. marz 1904 var haldinn kvennafundur á Stokkseyri að undangengnu fundarboði. Á fundi þessum var ákveðið að stofna kvenfélag, er hlaut nafnið Kvenfélag Stokkseyrar. Stofnendur voru 68. Höfðu þær Sigríður Magnúsdóttir ljósmóðir á Strönd, Ingigerður Kolbeinsdóttir í Sjólyst, Vilborg Hannesdóttir í Vinaminni og Sesselja Steinþórsdóttir í Sjólyst unnið mest og bezt að félagsstofnuninni. Fundarstjóri á fyrsta fundinum var Margrét Árnason á Stokkseyri. Í stjórn félagsins voru kosnar þessar konur: Vilborg Hannesdóttir forstöðukona, kjörin í einu hljóði, Ingigerður Kolbeinsdóttir ritari og Jóhanna Hróbjartsdóttir gjaldkeri. Í varastjórn voru kjörnar Þóra Bjarnadóttir, Sesselja Steinþórsdóttir og Kristbjörg Jónsdóttir. Endurskoðandi var kosin Eyrún Eiríksdóttir.

Á næsta fundi, sem haldinn var 13. marz 1904, voru samþykkt lög fyrir félagið, og er tilgangi þess lýst svo í 2. grein laganna: ,,Aðaltilgangur félagsins er að hjálpa og hjúkra fátækum sængurkonum og umkomulausum mönnum, sem vegna veikinda eða annarra skyndilegra óhappa verða hjálparþurfi. Hjálp sína veitir félagið bæði með aðhjúkrun og fjárframlögum, eftir því sem það sér sér fært í hvert skipti.“ Í þeim anda mannúðar og kærleika, sem felst í þessari stefnuskrá, hefir Kvenfélag Stokkseyrar unnið ósleitilega alla tíð síðan. Verður hér á eftir skýrt frá því í stuttu máli, hvernig félagið hefir unnið að þessu aðalmarkmiði sínu og öðrum skyldum mannúðar- og félagsmálum á liðnum árum.

Eitt af fyrstu vandamálum félagsins var það, hvernig það gæti aflað tekna til starfsssemi sinnar. Þegar á stofnfundi var samþykkt, að árstillag félagskvenna skyldi vera 75 aurar. En öllum var þó ljóst, að árstillögin myndu hrökkva skammt, og var því á næsta fundi margt rætt um fjáröflun handa félaginu. Kom fram mikill áhugi á því, að félagið keypti lóðarstubba og léti ganga milli formanna á vertíðinni. Höfðu forgöngukonurnar þá þegar fært þetta í tal við ýmsa formenn og þeir tekið vel í það. Á fundinum var viðstödd Snjáfríður Nikulásdóttir ekkja Sturlaugs Jónssonar í Starkaðarhúsum, og tilkynnti hún, að hún hefði ákveðið að gefa kvenfélaginu hlut af skipi sínu einn dag á vertíðinni, og „hlaut hún verðugt þakklæti og blessunaróskir félagskvenna“. Á þessum fundi var þegar samþykkt að hefja hina sérkennilegu útgerð kvenfélagsins. Keyptir voru lóðarstubbar, og beittu konurnar þá sjálfar og komu þeim til formannanna, sem lofað höfðu að taka þá einn róður hver á vertíðinni. Konurnar tóku svo á móti aflanum í flæðarmálinu, gerðu að honum, söltuðu hann, þógu og þurrkuðu, unz hann var orðinn að verzlunarvöru. Þetta starf skipulögðu konurnar og skiptu með sér verkum og öfluðu félaginu þannig tekna með hjálp sjómannanna. Í mörg ár var þessi útgerð aðaltekjustofn félagsins. Eftir að þorskanetin komu til sögunnar og vélbátar voru teknir í notkun, keyptu kvenfélagskonur netjastubba og komu þeim fyrir á sama hátt til formanna. Létu þeir þá fiskinn, sem í þá fekkst, fylgja öðrum afla bátsins til fullrar verkunar og sendu svo kvenfélaginu oft drjúga fjárupphæð í vertíðarlokin fyrir þann fisk, sem aflazt hafði í stubbana. Á blómatíma netjaaflans reyndust sjómennirnir á þennan hátt kvenfélaginu hin mesta hjálparhella til fjáröflunar.

Margs konar aðra aukavinnu lögðu félagskonur einnig á sig vegna félags síns. Þær prjónuðu sokka og sjóvettlinga og seldu til ágóða fyrir félagið. Dró þetta nokkuð, því að flestar húsfreyjur í hreppnum voru í félaginu og lögðu eitthvað af mörkum af þessu tagi. Snemma var og farið að halda hlutaveltur, venjulega einu sinni á ári, og ekki liðu mörg ár, þar til er félagskonur tóku að rækta kartöflugarð til ágóða fyrir félagið. Gáfu þær alla vinnu sína við það, en félagið hefir oft fengið upp úr þessu góðan skilding. Um nokkurt skeið hafði félagið tekjur af dansleikum, sem það efndi til, og veitingasölu í sambandi við þá, en á seinni árum hefir ekki reynzt framkvæmanlegt að auka tekjur félagsins á þann hátt vegna breyttra aðstæðna. Einnig gekkst félagið stundum fyrir leiksýningum fyrr á árum og seldi aðgang að þeim. En nú á síðustu árum eru kartöfluræktin og hlutavelturnar auk ársgjaldanna svo til einu tekjulindir félagsins, en í það hvort tveggja leggja félagskonur mikla vinnu og starfa að því að öllu leyti í sjálfboðavinnu enn í dag. Þannig hafa þær frá upphafi lagt á sig margs konar erfiði og ómak til þess að geta innt af höndum þá þjónustu við bágstadda náunga, sem þær stefndu að í lögum félags síns. Víkur nú sögunni til þeirrar starfsemi félagsins.

Meðal fyrstu framkvæmda kvenfélagsins til hjálpar sjúkum var það, að keypt var fjaðradýna og léð veiku fólki í langvinnum sjúkdómslegum. Seinna voru tvær sjúkradýnur keyptar og sjúkrapottar og léð sængurkonum og sjúklingum. Þegar sjúkrahringar og hitapokar komu á markaðinn, voru þeir keyptir og léðir í sama skyni. Allt var þetta lánað án endurgjalds og reyndist mörgu þjáðu fólki sjúkdómsléttir. Enn eru tæki þessi endurnýjuð ár frá ári og lánuð sjúklingum.

Af fyrstu líknarstörfum félagsins má einnig nefna það, að keypt var efni í rúmfatnað og nærfatnað, og saumuðu félagskonur úr því og höfðu til hjálpar því fólki, sem átti ekki til skipta í rúm sitt í langvinnum veikindum, en slíkt var ekki ótítt á þeim árum. Um og eftir aldamót var fátækt og klæðleysi hlutskipti margra. Á barnmörgum heimilum var fátæktin sérstaklega algeng, og fyrir því saumuðu kvenfélagskonur smábarnanærföt til hjálpar börnunum. Allt var þetta nokkur hjálp í sárri neyð. Sigríður Magnúsdóttir ljósmóðir, sem var einn af stofnendum félagsins og einkar hjartagóð kona, benti félagsstjórninni á, að fátækar sængurkonur hefðu mesta þörf fyrir föt á rúmið sitt og á barnið. Var ljósmóðurinni því falið að gefa stjórninni bendingu um það. ef skortur var á fatnaði á heimilum. Oft var sængurkonum líka send dálítil sængurgjöf í peningum, ef ljósmóðirin taldi slíkrar hjálpar þörf. Aðstoð sína veitti félagið jafnt utanfélagskonum sem innanfélags. Einnig var hjálp látin í té með því móti að kaupa mjólk handa sjúklingum um nokkurn tíma, þar sem erfiðar ástæður voru. Í mörg ár, eða allt til þess er sjúkrasamlagið tók til starfa, var föst regla félagsins að styrkja að einhverju leyti fjárhagslega þá sjúklinga, sem urðu að leggjast í sjúkrahús, ef þeir töldust hafa þörf fyrir aðstoð.

Það hefir lengi verið föst venja að hafa sérstaka sjúkranefnd starfandi í félaginu. Hún er skipuð fjórum konum og hefir það hlutverk að gera stjórn félagsins viðvart, ef erfiðir sjúkdómar eru á mannfáum heimilum. Skipuleggur stjórnin þá starf félagskvenna, ef vaka þarf yfir sjúkling að staðaldri, og taka þær þá það starf að sér til skiptis, stundum í langan tíma. Það hefir lengi verið áhugamál félagskvenna að fá hjálparstúlku í hreppinn, er gæti leyst vandræði heimilanna, þegar sjúkdóma ber að höndum, en það hefir ekki reynzt framkvæmanlegt enn sem komið er. Innan félagsins hefir verið myndaður sjóður, sem orðinn er til af gjöfum manna, sem hlynntir eru félaginu, til minningar um látna ástvini þeirra. Nefnist hann Sjúkrasjóður, og hyggst félagið að greiða úr honum kaup hjálparstúlku á móti framlagi hrepps og sjúkrasamlags.

Í mörg ár hafði kvenfélagið þann sið að senda fátækum gamalmennum í hreppnum smájólaglaðning. Var það sum árin nokkur fjárhæð, þótt hver gjöf um sig væri ekki stór, því að lengst af voru gamalmennin mörg í hreppnum og flest sárfátæk og samúðarþurfi eins og lítil börn.

Starfstilhögun kvenfélagsins breyttist mjög eftir að sjúkrasamlagið tók til starfa árið 1943. Það hafði leitazt við að bæta líðan fátækustu sjúklinganna, enda þótt í smáum stíl væri, vegna þess að fjármagn skorti. Eftir stofnun samlagsins voru smágjafir kvenfélagsins lagðar niður, því að allir hreppsbúar fá nú betri og öruggari hjálp, er erfiðleikar steðja að, en félagið er fært um að veita. Hefir félagið snúið sér meir að öðrum verkefnum á síðustu árum og breytt lögum sínum í samræmi við það. En engu að síður er það eftir sem áður tilgangur félagsins að veita hjálp eftir föngum innan hrepps, þegar þörfin kallar.

Eins og að líkindum lætur, hefir kvenfélagið ekki gleymt börnunum og þeirra þörfum. Frá fyrstu tíð hefir það t. d. haft árlega jólatrésskemmtun fyrir öll börn hreppsins. Hefir sú starfsemi verið félagskonum sem öðrum til ánægju, þótt krafizt hafi mikillar vinnu. Aldrei er seldur aðgangur að jólatrésfagnaði kvenfélagsins, og allar veitingar, sem fram eru bornar, eru ókeypis. Á seinni árum hafa félaginu borizt gjafir í peningum frá hreppsbúum, er sótt hafa jólatrésskemmtanir þessar. Hefir af þeim verið myndaður svonefndur Jólatréssjóður, og er tilgangurinn með honum sá að kosta jólagjafir til þeirra barna, sem ekki hafa getað sótt samkomuna vegna langvarandi vanheilsu. Gjafir hreppsbúa sýna, að fólk kann að meta tilraun félagsins til að gleðja börnin.

Kvenfélagið hefir jafnan látið sig skóla- og uppeldismál hreppsins miklu skipta. Hafa og konur stundum átt sæti í skólanefnd. Þær Þóra Þorvarðsdóttir og Margrét Jónsdóttir áttu báðar sæti í nefndinni á árunum 1913-16 og Viktoría Halldórsdóttir á árunum 1938-42 og aftur frá 1946 til þessa, en allar þessar konur hafa einnig verið forstöðukonur kvenfélagsins. Áður en handavinna varð skyldunámsgrein í skólum, gekkst kvenfélagið fyrir því, að stúlkum væri kennd handavinna í barnaskólanum á Stokkseyri. Nokkrar konur skiptu því á milli sín að kenna seinni hluta vetrar, en verkefni var keypt handa þeim telpum, sem höfðu ekki efni á að veita sér það. Seinna var þessu breytt þannig, að stúlka var fengin til að kenna handavinnuna og henni greitt kaup úr félagssjóði, og stóð svo, unz handavinna var lögboðin skyldunámsgrein. Árið 1919 veitti kvenfélagið styrk til skólabókasafns barnaskólans og 1926 styrk til kvöldskóla fyrir unglinga í þorpinu, og einnig til kaupa á orgeli í barnaskólann. Árið 1931 styrkti félagið til kaupa á útvarpstæki til notkunar við kennslu í barnaskólanum. Var ætlazt til, að með því fengju skólabörnin betra tækifæri til þess að hlusta á barnatímana og fagra tónlist, því að fá heimili í hreppnum höfðu þá útvarp. Árið 1935 veitti kvenfélagið styrk til kaupa á borðum í barnaskólann. Voru þau endurbætt 1950 og eru enn notuð í tvær stofur í nýja skólahúsinu. Félagið hvatti mjög til skólabyggingarinnar og lagði fram dálitla gjöf í byggingarsjóð barnaskólans á 40 ára afmæli félagsins. Enn vantar leikfimissal og sundlaug við skólann, og er það eitt af áhugamálum kvenfélagsins, að úr því verði bætt sem fyrst.

Árið 1946 ákvað félagsstjórnin að láta sjóð félagsins ganga til kaupa á tveimur ljóslækningalömpum. Tæki þessi útvegaði Bragi Ólafsson héraðslæknir og leiðbeindi félagskonum um notkun þeirra. Hafa þessi tæki verið starfrækt síðan og félagskonur sjálfar annazt starfið. Mörg börn og einnig fullorðnir hafa notið heilsusamlegrar hressingar í ljósböðum þessum, og telja konur þeim fjármunum vel varið, er gengu til kaupa þessara tækja, enda bætt úr brýnni þörf fyrir þorpsbúa og einkum börnin. Þegar nýi barnaskólinn reis af grunni, fekk félagið þar mjög ákjósanlegt húsnæði fyrir þessa starfsemi sína. Árið 1947 sendi félagið áskorun til hreppsnefndar Stokkseyrarhrepps og starfandi félaga í hreppnum um það, að allir þessir aðiljar hefðu samstarf um fegrun skemmtanalífsins. Félagið skrifaði einnig skólanefnd Stokkseyrarskólahverfis og bað hana að koma í veg fyrir, að börnum væri leyfður aðgangur að ljótum og siðspillandi kvikmyndum og sú krafa yrði gerð til þeirra, er sýndu myndir í húsi hreppsins, að þær miðuðu til menningar og fræðslu; enn fremur, að komið yrði upp sérstökum sýningum fyrir smábörnin. Loks er þess að geta, að árið 1951 var stofnaður sjóður innan kvenfélagsins til minningar um Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Sunnuhvoli, sem lézt á sumardaginn fyrsta það ár, og er tilgangur sjóðsins að veita úr honum verðlaun fyrir bezt gerð.i handavinnu stúlkna í Barna- og unglingaskóla Stokkseyrar ár hvert. Hafa þessi verðlaun verið veitt árlega að undanförnu. Sjóðurinn vex ört af vinagjöfum, og er það von félagskvenna, að hann verði til þess að glæða fegurðsrsmekk og vandvirkni unglinga. Miðar þessi starfsemi öll til aukins þroska og menningar æskulýðsins.

Oft hefir verið leitað til kvenfélagsins um söfnun handa nauðstöddum börnum í öðrum löndum, og hefir slíkri beiðni aldrei verið synjað. Gekkst félagið fyrir söfnun á fötum og peningum í stórum stíl til barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, einnig til Noregs, Frakklands, Rússlands og Austurríkis. Konur saumuðu og prjónuðu ógrynni af hlýjum barnafatnaði, sem sendur var hinum aðþrengdu smælingjum stríðslandanna. Þó að gjafirnar hrykkju skammt í hinar miklu þarfir, vissu konurnar, að margt smátt gerir eitt stórt. Þær vildu leggja fram sinn skerf til líknarstarfsins.

Margt er það fleira en hér hefir verið talið, sem kvenfélagið hefir látið .il sín taka heima fyrir. Félagið hefir jafnan sýnt Stokkseyrarkirkju hlýhug og ræktarsemi. Hafa konur gefið dúk á altarið, klætt knéfallið og prédikunarstólinn með flosáklæði, gefið tvær súlur í kórinn og tvo fimm álma silfurkertastjaka á þær. Einnig skrifaði félagið á sínum tíma hreppsnefndinni með áskorun um að framkvæma sem fyrst lagningu holræsis í gegnum þorpið, svo að frumstæðustu hreinlætiskröfum yrði fullnægt og fólk gæti haft vatnssalerni og böð í húsum sínum. Hefir þetta nú verið framkvæmt. Síðan íslenzka lýðveldið var stofnað, hefir kvenfélagið verið þátttakandi í hátíðahöldum innan hrepps 17. júní ár hvert. Í tvo vetur, 1952-54, voru haldin tómstundakvöld tvisvar í mánuði, og gengust öll félög í hreppnum, ungmennafélagið, verkalýðsfélagið og taflfélagið ásamt kvenfélaginu, fyrir þessum kvöldvökum, sem voru bæði fjölsóttar og ánægjulegar. Teflt var og spiluð félagsvist og ýmis önnur skemmtiatriði á dagskrá. Venjulega hefir kvenfélagið haft tvo skemmtifundi með kaffidrykkju á vetri hverjum.

Nú skal víkja nokkrum orðum að starfsemi félagsins inn á við, en þar hefir það einnig gegnt merku hlutverki. Um margra ára skeið hefir félagið haft og hefir enn námskeið á sínum vegum fyrir félagskonur. Hafa verið haldin hjúkrunarnámskeið, garðyrkjunámskeið, matreiðslunámskeið, hjálp í viðlögum og saumanámskeið. Saumanámskeiðin hafa verið fastur liður í starfsemi félagsins í fjölda mörg ár og hafa verið mikilsverð hjálp fyrir þær konur, sem hafa átt þess kost að sækja þau. Ungar stúlkur og húsmæður hljóta þar tilsögn æfðrar kennslukonu í fatasaumi, allt frá náttfötum til yzta skjólklæðnaðar. Kostnaður við kennsluna hefir að nokkru verið greiddur af Sambandi sunnlenzkra kvenna, sem Kvenfélag Stokkseyrar er félagi í. Inn í hreppinn hafa borizt þannig styrkir, sem nema nú orðið mörgum þúsundum króna. Skrár yfir saumaðan fatnað og vinnulaun sýna glöggt, að konur hafa ábatazt stórum fjárhagslega á því að sauma fatnaðinn sjálfar á námskeiðum félagsins. Hitt er þó naumast minna um vert, hvílíkur menningarauki það er hverju byggðarlagi, að fólkið læri að spara og hjálpa sér sjálft á sem flestum sviðum og noti tímann til þarflegrar iðju. Félagið hefir viljað leitast við að rækta þá skoðun hjá konum byggðarlagsins, að það sé prýði hverju heimili, að fólkið og einkum börnin séu snyrtilega klædd.

Auk þess sem félagið hefir gengizt fyrir garðyrkjunámskeiðum, hefir það á hverju vori hvatt til skrúðgarðaræktunar, þar sem svo hagar til við hús, að hægt er að koma blómarækt við. Hafa nú flest heimili á Stokkseyri, sem lóð eiga við hús sín, einhvern smáreit til yndisauka. Einnig hefir félagið hvatt mjög til aukinnar kálræktar til manneldis.

Innan félagsins hafa lengi starfað prjóna- og sauma/lokkar, sem veitt hafa félagskonum marga ánægjulega kvöldstund á heimilum hver annarrar til skiptis. Er þá góður kaffisopi drukkinn að loknu kappsamlegu starfi á kvöldvökunni. Flestir eða allir þessir flokkar hafa lagt niður starfsemi sína um stundar sakir nema einn. Hann hefir aldrei gert hlé á starfsemi sinni, frá því er hann var stofnaður. Hafa konurnar, sem í honum starfa, sýnt með þessu frábært félagslyndi.

Á síðustu árum hefir kvenfélagið farið í hópferð á hverju sumri til þess að lyfta sér upp frá hversdagsönnunum og kynnast landinu. Flestum mun ógleymanleg sú fegurð, sem blasir við augum á slíku ferðalagi sólbjartan sumardag á íslenzkri grund. Engin félagskona lætur sig vanta í þessar ferðir, nema sérstök forföll komi til.

Kvenfélag Stokkseyrar hefir margsinnis látið ýmis málefni utan sveitar til sín taka ýmist með fundarsamþykktum og áskorunum til opinberra aðilja eða með beinum stuðningi og fjárframlögum. Árið 1913 sendi félagið áskorun til alþingis um að samþykkja lög um jafnrétti kvenna og karla, en það mál var þá til umræðu á þinginu. Árið 1922 lagði félagið fram styrk til spítalabyggingar á Eyrarbakka. Sáu kvenfélagskonur þar hilla undir langþráð bjargráð fyrir sjúkt fólk, en sú bygging varð því miður aldrei sú líknarstofnun, sem Sunnlendingar þörfnuðust. Þegar landspítalinn var reistur fyrir ötula baráttu kvennasamtaka landsins, var Kvenfélag Stokkseyrar eitt þeirra félaga, sem lagði því máli lið. Til byggingar kvennaheimilisins Hallveigarstaða, sem er áhugamál allra kvennasamtaka landsins, hefir félagið einnig lagt sinn skerf. Þá hafði félagið og mikinn hug á því, að kvennaskóli fyrir Suðurland yrði reistur að Laugarvatni, og lagði því máli lið. Hafa konur nú fengið þá ósk uppfyllta, eins og kunnugt er. Árið 1949 gaf kvenfélagið minningargjöf í Menningar- og minningarsjóð kvenna um Vilborgu Hannesdóttur frá Vinaminni, sem lézt 18. marz það ár og hafði verið fyrsta forstöðukona félagsins og ein hin mesta forvígiskona þess í marga áratugi. Jafnframt ritaði þáverandi forstöðukona félagsins, Viktoría Halldórsdóttir, fagra minningargrein um hana, er birzt hefir í Æviminningabók sjóðsins.[note] Sjá einnig Suðurland 27. marz 1954.[/note] Eins og kunnugt er, veitir sjóðurinn fátækum stúlkum styrk til framhaldsnáms í bóklegum og verklegum námsgreinum. Árið 1953 sendi kvenfélagið dálitla peningagjöf til Krabbameinsfélags Reykjavíkur til stuðnings við það góða málefni, sem það félag berst fyrir. Í marz 1954 var enn fremur að tilhlutun Kvenfélags Stokkseyrar stofnaður sjóður til minningar um Sigríði Eiríksdóttur ljósmóður, sem lézt hinn 6. febrúar það ár. Stofnfé frá félaginu var 5000 krónur, en sjóðnum hafa síðan borizt góðar gjafir frá hreppsbúum og vinafólki hinnar vinsælu og velmetnu ljósmóður. Þennan sjóð skal ávaxta í banka, unz hafin er bygging sjúkrahúss í Árnessýslu. Verður hann þá lagður í herbergi í spítalanum og á það að bera nafn Sigríðar Eiríksdóttur.[note] Sama stað, 13. marz 1954.[/note] Kvenfélagið hefir ákveðið að helga sjóðnum einn dag til fjáröflunar ár hvert, þar til er hann verður afhentur sjúkrahúsi Árnessýslu. Þess skal getið, að á aðalfundi félagsins 27. janúar 1955 var samþykkt áskorun til alþingis um að veita þegar á því ári ríflega fjárupphæð til byggingar fyrirhugaðs sjúkrahúss í Árnessýslu. Þremur árum síðar, þegar þetta er ritað, er það verk enn eigi hafið, en unnið er ötullega að framgangi málsins, einkum af hálfu kvenfélaganna á Suðurlandi.

Af öðrum opinberum málum, sem Kvenfélag Stokkseyrar hefir látið til sín taka, má nefna bindindismálið, sem það hefir ætíð borið fyrir brjósti. Í samræmi við það hefir félagið mótmælt bruggun áfengs öls í landinu í þau tvö skipti, sem það mál hefir verið á dagskrá alþingis. Árið 1950 var samþykkt á kvenfélagsfundi með öllum greiddum atkvæðum gegn einu, að allar félagskonur skrifuðu undir Stokkhólmsávarpið, sem félaginu var sent til undirskriftar, og hvettu aðrar konur til að gera það, en eins og kunnugt er, fól það í sér bann við kjarnorkuvopnum. Árið 1952 sendi kvenfélagið ríkisstjórn og alþingi mótmæli gegn því, að erlendur her hefði aðsetu á íslenzkri grund. Einnig mótmælti félagið því, að stofnaður yrði íslenzkur her, og hvatti til

þess, að herstöðvasamningnum frá 1951 milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku væri sagt upp svo fljótt sem auðið væri. Þetta ítrekaði félagið á aðalfundi sínum 1955 með áskorun til alþingis um að vinna ötullega að uppsögn samnings þessa. Má af þessu sjá, að félagið lætur sig fleira skipta en innanfélags- og sveitarmál. Velferðarmál alþjóðar liggja félagskonum einnig á hjarta.Kvenfélag Stokkseyrar hefir jafnan haft góða samvinnu við Önnur félög og kvennasamtök landsins. Það er félagi í Sambandi sunnlenzkra kvenna og Kvenfélagasambandi Íslands. Stjórn kvenfélagins hefir frá upphafi verið þannig skipuð, að þrjár konur hafa setið í aðalstjórn og þrjár til vara. Hér er eigi unnt að telja upp allar þær konur, sem sæti hafa átt í stjórninni, m. a. vegna þess að gjörðabækur félagsins um 12 ára skeið eru glataðar, en forstöðukonur hafa verið þessar:

Vilborg Hannesdóttir húsfrú, Vinaminni, 1904-06.
Margrét Jónsdóttir húsfrú, Stokkseyri, 1906-07.
Vilborg Hannesdóttir aftur 1907-09.
Þóra Þorvarðsdóttir húsfrú, Stokkseyri, 1909-12.
Margrét Jónsdóttir aftur 1912-14.
Vilborg Hannesdóttir í þriðja sinn 1914-16.
Guðrún Torfadóttir húsfrú, Stokkseyri, 1916-26.
Jóhanna Heiðdal húsfrú, Símonarhúsum, 1926-27.
Guðrún Sigurðardóttir húsfrú, Brávöllum 1927-32.
Jarþrúður Einarsdóttir skólastýra 1932-33.
Ingibjörg Jónsdóttir húsfrú, Aldarminni, 1933-39.
Viktoría Halldórsdóttir húsfrú, Sólbakka, 1939-55.
Guðríður Sæmundsdóttir húsfrú, Móakoti, 1955-

Meðal þeirra kvenna, sem starfað hafa lengst og bezt í félaginu, má einkum nefna Vilborgu Hannesdóttur í Vinaminni, sem var þrívegis forstöðukona félagsins og gegndi þess á milli og síðar gjaldkerastörfum í mörg ár; Guðrúnu Magnúsdóttur í Aldarminni, sem var lengi gjaldkeri, – þessar konur voru báðar kjörnar heiðursfélagar; Guðrúnu Sigurðardóttur í Beinateig, sem var lengi ritari, og þær Viktoríu Halldórsdóttur, Guðríði Sæmundsdóttur í Móakoti og Guðríði Jónsdóttur á Sunnuhvoli, sem sátu í stjórninni saman í full 15 ár. Var Viktoría forstöðukona allan þann tíma og helgaði félaginu mikið og óeigingjarnt starf, og sama er að segja um þær nöfnur, Guðríði Jónsdóttur, sem var gjaldkeri félagsins öll þessi ár og gegnir því starfi enn, og Guðríði Sæmundsdóttur, sem var ritari félagsins á sama tíma og er nú forstöðukona þess. Þriðja konan í stjórninni nú er Ingibjörg Jónsdóttir á Garði, sem var forstöðukona félagsins um sex ára skeið á undan Viktoríu Halldórsdóttur. Margar fleiri konur hafa unnið mikið og gott starf fyrir félagið bæði fyrr og síðar. Félagskonur eru nú um 60 að tölu.

Eftirtaldar konur hafa orðið heiðursfélagar Kvenfélags Stokkseyrar: Guðný Benediktsdóttir frá Íragerði, Guðrún Magnúsdóttir frá Aldarminni, Guðrún Sigurðardóttir frá Beinateig, Halla Guðmundsdóttir frá Hól, Halla Sigurðardóttir frá Beinateig, Ingibjörg Þórðardóttir ljósmóðir í Deild, Ingibjörg Þorsteinsdóttir í Bræðraborg, Ingunn Sigurðardóttir á Tóftum, Jóhanna Guðmundsdóttir frá Hólmi, Jóhanna Jónsdóttir frá Hólmi, Kristbjörg Jónsdóttir á Stokkseyri, Ólöf Jónsdóttir í Hafsteini, Vigdís Magnúsdóttir frá Meðalholtum, Vilborg Hannesdóttir í Vinaminni, Þorbjörg Guðmundsdóttir í Ásgarði og Þuríður Eiríksdóttir í Útgörðum.

Í þessu sambandi þykir mér við eiga að geta einnar kvenfélagskonu, sem með hugprýði á hættustund varð byggðarlagi sínu til sóma. Það var Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja á Kalastöðum. Hlaut hún 800 kr. verðlaun úr hetjusjóði Carnegies fyrir að bjarga barni sínu úr eldsvoða, en brenndist við það sjálf.[note] Sbr. Suðurland, 14. ágúst 1915.[/note]

Hér fer á eftir kvæði, sem mætur borgari á Stokkseyri, Helgi Jónsson verzlunarstjóri, sendi kvenfélaginu árið, sem hann fluttist þaðan alfarinn með fjölskyldu sinni.
Til Kvenfélags Stokkseyrar 11/10 1926

Ef góður vilji vakir okkur hjá
til verka þeirra, er lífið mega prýða,
má ávöxtinn í orði og verki sjá,
þó erfiðleika sé oft við að stríða,
og fljóðin hafa kjark í kröppum dans
og kappið eiga líka í sínum fórum;
þau kveikja löngum eldinn kærleikans
og kunna að lyfta Grettistökum stórum.

Við finnum bezt, þá fjölgar áratal,
hve fjölda margt var þarflegt hægt að gera.
Við gætum byggt í framtíð friðarsal
og fagrar krónur látið ávöxt bera.
Ef starfað er í eining slíku að,
mun ást og gleði í hverju býli ríkja.
Eg vona, að ykkur megi auðnast það,
svo allt, sem nefnist sundrung, hljóti að víkja.

Þið hafið fengið ástina í arf,
að öllu góðu vill hún jafnan hlúa.
Þið hafið ekki hátt um ykkar starf,
í haginn ávallt reynið þó að búa.
Þið skiljið bezt, hvar skórinn kreppir að
og skilning sýnið þá í orði og verki,
og ykkur margur blessunar þá bað,
því blómgist starfið, fágist heillamerki.

Þið hafið starfað heiðarlega og vel,
þó hafi stundum verið þröngt í búi,
þið hafið reynt að létta harmaél.
Á hugsjón ykkar alltaf fleiri trúi!
Að starfa fyrir gott og göfugt mál
er gæfan mesta, hvar sem kanntu að vinna;
þó brautin sú sé einatt brött og hál,
þú beztan þrótt í góðverkum munt finna.

Eg óska og bið, að allt, sem starfið þið
til æviloka, mætti sigur vinna.
Eg vona, að heilladísir leggi lið,
svo leiðir réttar megið jafnan finna.
Með ást og virðing verða ykkar störf
að vonum metin, þegar tímar líða.
Því verði ykkar framsókn frjáls og djörf,
svo faðmi ykkur gæfudísin blíða.

Kvenfélag Stokkseyrar á skemmtiferð í Þrastarlundi (um 1945). Frá vinstri sitjandi: Aðalheiður Jónsdóttir Sandfelli, Helga Sveinsdóttir Söndu, Vilborg Hannesdóttir Vinaminni, Ingibjörg Einarsdóttir Hausthúsum, Guðríður Jónsdóttir Sunnuhvoli, Elín Jónsdóttir Efra-Seli, Viktoría Halldórsdóttir Sólbakka, – Í miðju: Stefanía Sigurðardóttir Eystri-Móhúsum, Þórunn Jónsdóttir Breiðamýrarholti, Guðríður Sæmundsdóttir Móakoti, – Aftasta röð: Ingibjörg Þorsteinsdóttir Strönd, Kristín Tómasdóttir Hafsteini, Guðrún Júlíusdóttir Sandprýði, Sesselja Símonardóttir Svanavatni, Guðbjörg Gamalíelsdóttir Túnprýði, Þuríður Sæmundsdóttir Túni, Halldóra Sigurðardóttir Götuhúsum.

 

Kvenfélag Stokkseyrar átti hálfrar aldar afmæli snemma árs 1954. Á afmælinu var talið, að 9 konur væru enn á lífi, sem skráðar voru sem stofnendur félagsins og höfðu þrjár þeirra verið félagskonur óslitið frá byrjun. Það voru þær Guðný Benediktsdóttir, Halla Sigurðardóttir og Ingibjörg Þorsteinsdóttir.

Afmælisins var minnzt 2. janúar 1954 með veglegu samsæti að Hótel Stokkseyri. Það hafði orðið að samkomulagi milli kvenfélagsins og Verkalýðsfélagsins „Bjarma“, sem átti einnig fimmtugsafmæli um sömu mundir, að þau skyldu minnast þessara merku tímamóta sameiginlega, þar sem þau höfðu starfað hlið við hlið í hálfa öld að sams konar markmiði, líkn við sjúka og bágstadda og bættum lífskjörum almennings. Afmælisfagnaðurinn var hinn ánægjulegasti, og skemmti fólk sér fram undir morgun án þess að vín sæist á nokkrum manni. Flestir þorpsbúar tóku þátt í hófi þessu auk margra góðra aðkomugesta.

(Skráð eftir handriti Viktoríu Halldórsdóttur fyrrverandi forstöðukonu félagsins, sbr. einnig frásagnir hennar um kvenfélagið í blaðinu Suðurlandi 30. jan. og 27. marz 1954. Forstöðukonurnar eru taldar samkvæmt gjörðabókum félagsins, nema um tímabilið, sem í bækurnar vantar, þ. e. frá okt. 1919 til ársloka 1930, er farið eftir vandlega samanbornum frásögnum kunnugra með hliðsjón af reikningabók félagsins, sem er til frá byrjun. Um heiðursfélaga er farið eftir upplýsingum Guðríðar Jónsdóttur á Sunnuhvoli, Kvæði Helga Jónssonar er eftir eiginhandarriti hans í eigu Guðrúnar Sigurðardóttur frá Stokkseyri, fyrrum forstöðukonu félagsins),

Leave a Reply

Close Menu