135-Málfundafélagið á Stokkseyri

Hinn 21. des. 1902 var stofnað félag, sem hlaut nafnið Málfundafélagið á Stokkseyri, kallað líka öðru nafni Talfélagið, og voru stofnendur 20 talsins. Ekki er mér kunnugt um, hverjir voru aðalhvatamenn að félagsstofnuninni. Tilgangur félagsins var að æfa menn í að tala og einnig að fræða og skemmta. Stofnendur voru lausir við inntökugjald, en aðrir, sem gengju í félagið síðar, skyldu borga 10 aura, er nota skyldi „til nauðsynlegra útgjalda félagsins“. Öllum var leyfð innganga í félagið, konum jafnt sem körlum, ef orðin væru fullra 14 ára. Nefnd skyldi kosin til eins mánaðar í senn til þess að sjá um nóg umræðuefni handa fundarmönnum, og átti hún í fundarlok hverju sinni að tilkynna umræðuefni næsta fundar. Fundarstjóri gat skyldað menn til að standa upp og tala. Ef menn tóku ekki þátt í umræðum þrjá fundi í röð, var það brottrekstrarsök og sömuleiðis ef menn sögðu frá því, sem gerðist á fundum. Bannað var að gera gys að ræðumönnum, að vera með ókyrrð á fundum og að fara út af fundi án leyfis fundarstjóra. Varðaði allt slíkt áminningu eða jafnvel brottrekstri, ef mikið var að gert.

Málfundafélagið varð ekki langlíft, og má vera, að hinar ströngu reglur, er það setti sér, hafi átt sinn þátt í því. Þó gengu 7 manns í félagið á þeim fáu mánuðum, sem það starfaði, þar á meðal tvær konur, þær Vilborg Sturlaugsdóttir frá Starkaðarhúsum og Guðrún Sigurðardóttir í Beinateig. Síðasti fundur, sem skráður er í félaginu, var haldinn 5. apríl 1903, og verður ekki vart við starfsemi þess eftir það.

Ýmis mál voru til umræðu á fundum félagsins. Á fyrsta fundi hafði Ísólfur Pálsson framsögu um almenn framfara- og siðgæðismál og Helgi Jónsson bar fram tillögu um að skrifa hreppsnefndinni og skora á hana að halda áfram heiðarveginum, ,,sem byrjað var á í haust“. Var tillagan samþykkt og bréfið til hreppsnefndarinnar skrifað þegar á fundinum. Á öðrum fundi hafði Helgi Jónsson framsögu um það mál, hvort tiltækilegt væri að stofna sjóð á Stokkseyri og hvernig honum yrði bezt varið. Mæltu þeir Jóhann V. Daníelsson og Júlíus Gíslason fyrir þeirri hugmynd að stofna sjóð til að styrkja ekkjur og munaðarleysingja þeirra manna, sem féllu frá, hvort sem þeir dæju á landi eða drukknuðu í sjó. Þá var á fundum þessum m.a. rætt um aðflutningsbann á áfengi, erfiðleika sveitabúskaparins, um verzlun með blautan fisk, um peningaspil, samtök um blaðakaup, eflingu lestrarfélagsins o. fl. Helztu ræðumenn á fundunum voru þeir Ísólfur og Gísli Pálssynir, Helgi Jónsson, Jóhann Daníelsson, Hjálmtýr Sigurðsson, Júlíus Gíslason og fleiri.

Formaður félagsins var Helgi Jónsson, en Þórður Jónsson lengst af ritari.

(Heimild: Lög og fundargerðir málfundafélagsins í eigu Þórðar Jónssonar bókhaldara).

Leave a Reply

Close Menu