028-Refaveiðar

Í þjóðsögum segir svo frá því, hvernig refurinn barst hingað til lands, að einu sinni hafi Íslendingur nokkur verið til veturvistar í Finnmörk. Gömul kona á bænum vildi eiga Íslendinginn, en hann vildi hana ekki og fór um vorið eftir heim til sín. Kerlingu líkaði það stórilla og ætlaði að hefna sín. Hún tók þá tófur tvær, aðra hvata og aðra blauða, og las galdra yfir. Kom hún svo tófunum á skip, sem ætlaði til Íslands, og sagði, að tófurnar skyldu þar aukast og margfaldast og aldrei skyldi þeim verða útrýmt úr landinu; þær skyldu og leggjast á þá dýrategund, sem þær sæju fyrst á landinu. En kerling hugsaði, að tófurnar mundu þar fyrst sjá menn, og ætlaði, að þær skyldu eyða þeim. En skipið, sem tófurnar voru á, kom við Austurland, og hlupu tófurnar upp á nes það, sem síðan heitir Melrakkanes í Álftafirði í Suður-Múlasýslu. Þar sáu þær sauðahóp, og var það hið fyrsta dýrakyn, sem fyrir þeim varð á landinu. Hafa þær síðan fjölgað mjög og dreifzt um landið og ofsækja sauðfé og drepa það niður.[note] Ísl. þjóðs. J. Á. I, 439; 3. útg. I, 426.[/note]

Þessi saga um uppruna refanna hér á landi er ekki verri en hver önnur, því að enginn veit hið sanna um það mál. Af örnefnum er að ráða, að refir hafi verið hér mjög snemma á kreiki. Landnáma nefnir Melrakkadal í Borgarfirði og Melrakkanes við Álftafjörð, og langt er síðan, að Melrakkaslétta fekk nafn sitt, svo að dæmi séu nefnd. Þá voru og melrakkabelgir, þ. e. refaskinn, algeng útflutningsvara á þjóðveldisöld. Telja má því, að útrýming þessara skaðræðisdýra hafi verið eitt af þeim viðfangsefnum, sem íslenzkir bændur fengu með því fyrsta við að glíma og samtök þeirra, hrepparnir, haft á hendi forustu um það. Í Jónsbók segir svo: ,,Melrakki er á hvers manns jörðu óheilagur,“ en engin sérstök fyrirmæli eru þar um refaveiðar. Í réttarbót Eiríks konungs Magnússonar 1294 er sagt, að það skuli standa um melrakkaveiðar, sem lögréttumenn skipa. [note] Jónsbók, Khöfn 1904, 283.  [/note]

Í tilefni af því mun hafa verið gerð elzta alþingissamþykktin, sem til er um melrakkaveiðar. Er hún að líkindum frá 1295 og er á þessa leið: ,,Það var samtekið á alþingi um melrakkaveiðar, að hver sá maður, sem á 6 sauði að vetri í sinni ábyrgð, skal taka einn melrakka gamlan eða tvo unga á 12 mánuðum eða greiða 2 álnir í mat fyrir fardaga. En hver sem eigi hefir goldið föstudaginn í fardögum, lúki 4 álnir í álögur og taki með einhver hreppstjóri, sá sem til er skipaður, og sæki hvort tveggja sem vitafé. Hafi sá, er sækir, hálfar álögur, en hálfar og dýratollurinn leggist til melrakkaveiða framvegis, utan hreppstjórum sýnist meiri þörf fátækum mönnum. En sótt skal vera fyrir veturnætur.”[note] Ísl. fornbrs. 11, 299-300, sbr. Alþingisbækur Íslands VIl, 492. [/note]

Í samþykkt þessari, sem gilti sem lög öldum saman, er hverjum fjáreiganda, sem á 6 sauði eða meira, gert að skyldu að greiða 2 álnir í dýratoll árlega, nema hann leysi sig undan því með tilskilinni veiði. Hreppstjórum er falin innheimta og ráðstöfun dýratolla og sekta fyrir vanrækslu í þessu efni. Eyðing refa er þannig eitt af föstum verkefnum hreppanna og hefir sennilega verið það löngu fyrr.

Refaveiðar og afréttarmál hafa lengi verið í nánum tengslum, og þar, sem hreppar áttu afrétt saman, áttu þeir að vinna sameiginlega að útrýmingu refa. Voru reglur um það efni birtar í fjallskilareglugerðum, t. d. fyrir hreppana milli Þjórsár og Hvítár þangað til 1902. Báru hrepparnir einir allan kostnað af refaveiðum fram á síðustu tíma. Árið 1931 gerðust þau tíðindi, að tekið var að flytja hingað til lands illdýri þau, er minkar nefnast, og ala í girðingum í gróðaskyni vegna skinnanna. Ekki leið á löngu, unz meira eða minna af vörgum þessum slapp úr búrum sínum, fjölgaði skjótlega og tóku að breiðast út um landið. Þykir hvarvetna að þeim hið mesta skaðræði. Með lögum um eyðingu refa og minka nr. 56, 1949, var ákveðið, að hreppur skuli greiða 1/3 kostnaðar af eyðingu refa og 1/6 af eyðingu minka móti sýslu og ríki. En samkvæmt nýjustu lögum um þetta efni frá 5. júní 1957 er kostnaður hreppanna ákveðinn við hvort tveggja 1/6, sýslunnar 1/6 og ríkisins 2/3, Þá var og stofnað sérstakt veiðistjóraembætti. Hefir veiðistjóri yfirumsjón með refa- og minkaveiðum um land allt og skipuleggur tilhögun veiðanna í samráði við oddvita í hverjum hreppi. Til marks um það, að hér sé nóg verkefni fyrir höndum, má geta þess, að árið 1958 voru unnir 195 refir og 581 minkur í Árnessýslu einni, svo að af miklu virðist að taka. En ástæðulaust er þó að taka of hátíðlega ummæli finnsku kerlingarinnar, sem hún sagði um refina, að þeim skyldi aldrei verða útrýmt úr landinu. Mörg rammari álög hafa verið brotin á vorum dögum.

Leave a Reply

Close Menu