029-Vegagerð

Eitt hinna fornu verkefna hreppanna var að annast nauðsynlegustu vegabætur innan sinna takmarka, stuðla að brúargerð og ferjuhaldi á alfaraleiðum. Mun sýslumönnum hafa borið skylda til að hafa eftirlit með því, að hrepparnir brygðust ekki þessu hlutverki sínu. Lítil merki sjást nú eftir framkvæmdir fyrri manna á þessu sviði, enda naumast um vegagerð að ræða í nútíðarskilningi. Helzt er svo að sjá sem vegagerð og vegabætur hafi verið skyldukvöð á bændum og leiguliðum, er hreppstjórar gátu kvatt þá til að inna af höndum. Þannig úrskurðar sýslumaður í tilefni af fyrirspurn Þorkels Jónssonar á Háeyri 1811, að allir hjáleigumenn við Háeyri séu skyldir að vinna að vegagerð innan Háeyrar landeignar, eftir því sem hreppstjórarnir til segja, en þeir, sem vanrækja það, skyldu borga verkið. Landeigendur virðast og hafa verið skyldir til að halda uppi brúm á vegum í landareign sinni, að minnsta kosti minni háttar brúm. Fyrr á tímum var t. d. eigendum Stóra-Hrauns gert að skyldu að hafa brú eða gönguborð á Hraunsá, en eftir að hjáleigurnar Fok og Stöðlakot urðu sérstök eign, úrskurðaði sýslumaður árið 1831, að eigendum þeirra bæri skylda til þess.[note] Saga Hraunhverfis á Eyrarbakka, 167; 137.  [/note] Hlutverk hreppsins í þessum efnum virðist fyrr á tímum hafa verið fólgið í því að sjá um, að vegabætur, sem nauðsynlegastar töldust, væru framkvæmdar, en ekki að leggja fram fé til þeirra, eins og tíðkazt hefir á seinni tímum. Meðan svo stóð, var ekki við miklum framkvæmdum að búast, enda mun naumast finnast nokkur nýtilegur vegarspotti í öllum Stokkseyrarhreppi, er eldri sé en síðustu aldamót.

Í Stokkseyrarhreppi eru nú tveir sýsluvegir. Annar er aðalvegurinn gegnum þorpið frá Kalastöðum og austur fyrir Sjónarhóla, en hinn er Brattsholtsvegur. Liggur hann úr þorpinu hjá Vestri-Móhúsum, fram hjá Bræðratungu, Brautartungu, Svanavatni og Hoftúni, er áður nefndust Kekkir og Kakkarhjáleiga, upp hjá Brattsholti og þaðan um Holt að Hæringsstöðum. Árið 1959 var lokið við framhald þessa vegar frá Hæringsstöðum upp á Gaulverjabæjarveg fyrir framan Klængssel. Það mun hafa verið haustið 1902, sem byrjað var á þessum vegi, sem þá var jafnan nefndur Kakkavegur, því að þangað átti hann fyrir það fyrsta að ná. Vegurinn komst upp í Kakkarborg. Sá hreppsnefndin um framkvæmdir, en áhugamenn gáfu vinnu, meðal annars félagar í Ungmennafélagi Stokkseyrar, sem fjölmenntu til grjótnáms fyrir veginn. Skömmu eftir 1930 var vegurinn tengdur vegakerfi Flóaáveitunnar og litlu síðar tekinn í sýsluvega tölu. Var honum síðan haldið áfram, eftir því sem efni voru fyrir hendi, og náði upp á uppbæina í lok stríðsáranna og nú loks saman við vegakerfi Flóans, eins og áður er sagt. Það tók meira en hálfa öld að leggja Brattsholtsveginn, og sýnir það, að oft hefir orðið að skammta smátt framlögin til hans af hálfu hrepps og sýslu. Með tilliti til þess geta það ekki talizt smámunir að nefna 30 kr. gjöf frá Gísla Pálssyni og 20 kr. gjöf frá Jóni Sturlaugssyni til þessa vegar árið 1927, því að þá munaði um minna fé og það sýndi hvort tveggja, góðan vilja og skilning gefendanna á þessu þarfa verki. Brattsholtsvegurinn er mesta samgöngubót í hreppnum, ekki aðeins fyrir bæina með fram veginum, heldur líka fyrir aðra hreppsbúa. Engjavegur liggur út frá Brattsholtsvegi, 2 km. langur, sem Mýrarvegur nefnist, lagður 1938 eða fyrr.

Helztu hreppsvegir eru Selsvegur eða Ásgautsstaðavegur, er liggur hjá Ranakoti upp að nefndum bæjum, Traðarholtsvegur, sem liggur af þjóðveginum hjá Skipum upp að Traðarholti, og Hólavegur, sem liggur einnig af þjóðveginum hjá Tungu og upp að Hólum. Auk þess teljast akbrautir heim á ýmsa bæi til hreppsvega. Hafa vegir þessir yfirleitt verið lagðir á þremur síðustu áratugum, eftir því sem hreppurinn hefir talið sig geta lagt fé til framkvæmdanna. Eftir að Flóaáveitan tók til starfa 1928, lagði hreppurinn árlega um nokkurt skeið talsvert fé fram til vegagerðar á áveitusvæðinu eða til hinna svonefndu áveituvega.

Hér að framan eru birtar nokkrar tölur um útgjöld hreppsins til vegamála, en rétt er að geta þess, að þar eru ekki talin með framlög frá sýslu og ríki.

Leave a Reply

Close Menu