027-Fjallskil og afréttarmál

027-Fjallskil og afréttarmál

Skipan afréttarmála er annað af elztu viðfangsefnum hreppanna. Í Grágás er sagt, að hver bóndi sé skyldur að láta safna geldfé öllu, er aðrir menn eiga í heimahögum hans, og láta reka til lögrétta þeirra, er hreppsmenn eru sáttir á, að vera skulu, og í Jónsbók segir, að þar skuli rétt vera, sem að fornu hefir verið, og svo langt og víða til reka.[note]Grágás Il, 230, sbr. Ib, 155; Jónsbók, Khöfn 1904, 181.[/note] Í réttarbót Eiríks konungs Magnússonar 1294 er svo fyrir mælt, að um geldfjárrekstur á vor til afréttar og fjallgöngur á haustum skuli fara eftir því, sem hreppstjórnarmenn geri ráð fyrir og hverju byggðarlagi hæfir.[note]Sama rit, 282. – S Ísl. fornbrs. VII, 814. [/note] Af dómi Þorvarðs lögmanns Erlendssonar á Strönd í Selvogi 1505 má sjá, að fjallskil eru miðuð við sauðfjáreign og landeign, alveg eins og nú á dögum, en hreppstjórar skyldu nefna svo marga menn úr hverjum hreppi sem nægði til þess að smala afréttinn.[note] Ísl. fornbrs. VIII, 814.[/note] Þessi dæmi eru aðeins nefnd til þess að sýna, að afréttarmálin eiga sér langa og merkilega sögu. Frá sjónarmiði íslenzkrar menningarsögu eru þau merkilegust fyrir það, að þar hafa sömu lög og venjur haldizt nærri óbreyttar frá því snemma á þjóðveldisöld, jafnvel síðan á landnámsöld, og allt fram á þennan dag. Þar má nefna skiptingu afrétta, upprekstur geldfjár á vor, aðalsmölun og eftirleitir á haustum, lögréttir, mörkun sauðfjár og meðferð óskilafjár. Er þessi þáttur í menningu vorri svo sérstæður, að þess væri vert, að honum yrði einhvern tíma gerð rækileg skil.

Frá ómunatíð hafa allir Flóahrepparnir og Skeiðahreppur haft sameiginleg fjallskil og átt sameiginlegan afrétt. Eftir að Stokkseyrarhreppi hinum forna var skipt, töldust báðir hinir nýju hreppar sem einn hreppur, að því er fjallskil snerti, og stóð svo, þangað til síðasta fjallskilareglugerð frá 1953 gekk í gildi, en þá varð Eyrarbakkahreppur sjálfstæður aðili í afréttarmálum og sömuleiðis hinn nýi Selfosshreppur. Allir þessir hreppar, áður 6 að tölu, en nú 8, gera fjallskil á Flóamannaafrétti, sem liggur milli Stóru-Laxár og Fossár upp frá byggðum Gnúpverja. Vestan megin er Hrunarnannaafréttur milli Stóru-Laxár og Hvítár, en austan megin Gnúpverjaafréttur milli Fossár og Þjórsár. Hvergi á öllu landinu eru þess dæmi, að jafnmörg hreppsfélög sem Flói allur og Skeið hafi sameiginleg afréttarmál, en vafalaust má telja, að sú skipan hafi komizt á í öndverða landsbyggð.

Um samstöðu þessara hreppa í afréttarmálum er elzt vitna dómur Gísla sýslumanns Sveinssonar í Miðfelli, lögréttumanna og bænda um fjallskil um Flóa og Skeið á Loftsstöðum 26. maí 1567, en þar var einungis verið að ánýja fornar samþykktir. Dómurinn var dæmdur vegna þess, að sumir bændur vildu engin skil gera um afrétt sinn, hvorki um fjallrekstur á vor né um fjallgöngur á haust, heldur vera sjálfráðir um allar sínar framferðir. Benda dómsmenn á, að slík vanrækt sé þvert ofan í fyrirmæli lögbókarinnar og vitna í hana máli sínu til stuðnings. Dómsniðurstaðan var í þremur atriðum:

1) að allir þeir menn, sem ættu fleiri en 5 sauði í ábyrgð sinni, væru skyldugir til fjallskila eftir því, sem þeim bæri, svo að afrétturinn mætti því betur vera leitaður;

2) að allir þeir menn, er nefndan afrétt eiga, skyldu reka fé sitt, ungt og gamalt, í miðjan afrétt, svo langt sem hreppstjórar skipa og að fornu hefir verið, og

3) að þeir menn allir, sem héldu staðina Gaulverjabæ, Stokkseyri, Kaldaðarnes, Hraungerði, Villingaholt og Ólafsvelli, væru skyldugir til að halda uppi Norðurleit, sem að fornu hefir verið. Loks er hreppstjórum og hinum skynsömustu mönnum úr þessum sveitum gert að skyldu að koma saman sunnudaginn í níundu viku sumars á þeim stað, sem þeim þykir hentugastur til þess. [note]Alþingisbækur Íslands III, 118-120; Ísl. fornbrs. XIV, 625-628.[/note]

Í dómi þessum er getið sérstaklega um smölun Norðurleitar, en svo nefnist afréttarsvæðið fyrir innan Dalsá og allt inn að Fjórðungssandi, og er svo að sjá sem treglega hafi gengið um að fá það smalað. Árið 1593 kvaddi Gísli lögmaður Þórðarson í dóm um fjallskil í þessum hreppum í Laxárholti út af kæru nokkurra manna, sem héldu staði þá, er annast skyldu smölun Norðurleitar, að þeir hefðu nú ekki svo mikið fé, að þeir orkuðu að gegna henni fyrir vanefna sakir. Var það úrskurður dómsmanna, að senda skyldi einn mann á hver 40 lömb í Suðurleit, en í Norðurleit 60 lömb á mann og að þangað séu sendir 12 menn frá þeim, sem bezt eru fjáðir og eftir flestu eiga að leita, og hvorir styrki þar aðra, þá er þeir finnast aftur. Sömuleiðis dæmdu þeir, að allir hreppstjórar í þessum 6 hreppum skyldu finnast á Lambaþúfu mánudaginn í níundu viku sumars og þeir skipti fjárrekstrum og fjárgöngum, eftir því sem þeir sjái réttilegast.[note] Alþingisbækur Íslands Ill, 120-121.[/note]  Með þessum dómi voru staðirnir því leystir undan þeirri kvöð að smala Norðurleit, en þeim gert það að skyldu, sem fjárríkastir voru. Eftir sögnum að dæma, hefir Norðurleit lagzt niður síðar á tímum, og mætti t. d. hugsa sér, að það hefði orðið eftir niðurskurð alls fjár milli Hvítár og Þjórsár 1775. En það var sögn Ólafs Bergssonar á Skriðufelli, að upphaf þess, að farið var að smala Norðurleit, hafi verið það, að Jón Brynjólfsson bóndi á Minna-Núpi (1803-1873), sem var manna skyggnastur, hafi í fjallleit séð tvær kindur þar innra og eftir það hafi tekizt leitir þangað. Þetta ætti að hafa verið nálægt miðri 19. öld. Í Norðurleit voru að sögn venjulega látnir fara menn frá heyskaparjörðum. Svo sagði t. d. Guðmundur í Tungu, að faðir hans, Hannes Einarsson, hefði verið látinn senda þangað mann, er hann bjó í Kaldaðarnesí, af því að Kaldaðarnes var heyjajörð.

Smölun afréttarins var lengstum hagað með sama hætti, en breytilegt hefir þó verið nokkuð, hversu margir hafi verið sendir í hverja leit um sig. Landið fyrir innan Fjórðungssand og Norðurleitina, þ. e. milli Dalsár og Kisu, smala Skeiða. og Flóahreppar sameiginlega með Gnúpverjum. Tölu fjallmanna á þessu svæði ákveður nú afréttarmálafundur allra hreppanna, en fyrrum var hún ákveðin í fjallskilareglugerðum. Þá var venjan, að 2-3 menn úr Flóa og af Skeiðum og 1-2 menn úr Gnúpverjahreppi færu inn fyrir Fjóðungssand og allt í Arnarfell og Kisubotna í Kerlingarfjöllum, en á leiðinni til baka smöluðu þeir öræfin inn af Flóamannaafrétti undir stjórn þess manns, er þeir kusu sér sjálfir; en að þeirri leit lokinni hittu þeir Flóamenn á Sultarfit og gengu síðan í lið með þeim. Tók þessi fjallferð 9 daga, frá því að farið var úr byggð og þar til komið var í réttir. Í Norðurleit hina skemmri fóru 2 menn úr hverjum Flóahreppanna og Skeiðahreppi eða 12 menn alls og 4-5 menn úr Gnúpverjahreppi, er smöluðu sameiginlega svæðið fyrir innan Dalsá. Af þessum  mönnum smöluðu 4, þ. e. 2 af Skeiðum og 2 úr Flóa; til skiptis úr hreppunum, áfram með Gnúpverjum það, sem eftir var leitanna, en hinir 8 sameinuðust sveitungum sínum á Sultarfit og söfnuðu með þeim úr því. Hinn eiginlegi Flóamannaafréttur skiptist í þrjár leitir. Heita þær Skeiðamannaleit austast, þar sem Skeiðamenn smala, Austurleit í miðið, þar sem Stokkseyrarhreppur og Gaulverjabæjarhreppur smala, og Vesturleit, en þar smala hinir þrír Flóahrepparnir. Austurleit var smöluð þannig, að hvor hreppur um sig, Stokkseyrar- og Gaulverjabæjarhreppur, sendu 10 menn á Sultarfit, 6 menn í Fossölduver og 7 menn undir Klett, sem er skammt fyrir innan Skriðufell. Þessar tölur eru eftir fjallskilareglugerðinni frá 1902, en hafa breytzt eitthvað síðan.

Það var gömul regla, að menn, sem áttu 10 lömb eða fleiri, áttu að senda mann inn á Fit, þeir, sem áttu 8 lömb, mann í Ver, en þeir, sem áttu færra, mann undir Klett.

Í eftirsafn fóru 3 menn úr hverjum hreppi úr Flóa og af Skeiðum, og 2 menn úr hverjum hreppi áttu að fara í Ytrihreppsréttir, og svo er enn.

Árið 1912 var sett upp girðing fyrir Flóamannaafréttinn, milli hans og heimalanda Gnúpverja. Var þá um leið fengið nokkuð af heimalöndum þeirra jarða, er næstar voru bæði til þess að stækka afréttarlandið, sem óttast var um, að verða mundi of lítið, þegar féð gæti ekki runnið af afréttinum, og enn fremur til þess að fá heppilegra girðingarstæði. Leiga er greidd af landi þessu árlega síðan. Girðingin náði milli Laxár og Fossár og var um 28 km á lengd. Eftir að girðingin kom, varð nokkur breyting á allri tilhögun smölunar, einkum að því leyti, að menn losnuðu við smalamennsku í heimahögum Gnúpverja, sem áður hafði átt sér stað.

Sjaldan hafa alvarleg slys borið að höndum í fjallferðum á Flóamannaafrétti, þótt menn hafi oft átt í ströngu að stríða við vötn og veður þar inni í óbyggðum að haustlagi. Aðeins einu sinni, sem sögur fara af, varð manntjón þar í afréttarferð, en þá líka svo, að um munaði. Það var haustið 1873, en þá höfðu miklar rigningar gengið fyrir fjallferðina og allar ár í vexti. Drukknuðu þá tveir menn, Jón Magnússon frá Sölvaholti og Guðmundur Þórarinsson frá Þorleifskoti, í Laxá gegnt Hrunakrók, og Helgi Helgason frá Hellukoti í Stokkseyrarhverfi, sem var ásamt fleirum á leið undir Klett, drukknaði í Þverá í Gnúpverjahreppi.[note] Víkverji, 9. okt. 1874; Göngur og réttir I, 285.[/note]

Fram til 1881 réttuðu Flóa- og Skeiðamenn fé sitt í Skaftholtsréttum föstudaginn í 22. viku sumars, en Gnúpverjar á sama stað daginn áður. Réttastaðurinn var bændum neðan úr Flóa óhagstæður, því að ekki var unnt fyrir þá, sem lengst áttu, að koma fé sínu heim fyrr en næsta dag. Var þetta vafalaust ástæðan fyrir því, að áðurnefnt ár voru byggðar nýjar réttir fyrir Flóa og Skeið hjá Reykjum á Skeiðum. Nefnast þær ýmist Reykjaréttir eða Skeiðaréttir og eru einhverjar fjölsóttustu réttir á landinu. Réttadagurinn er ávallt hinn sami og áður var. Að loknu eftirsafni og vandlegri smölun heimahaga var fyrri skilarétt fyrir Flóa og Skeið haldin í svonefndri Dælarétt, efst í Villingaholtshreppi. Var hún 10 dögum síðar en Skeiðaréttir eða mánudaginn í 24. viku sumars.

Eins og kunnugt er, hafa fjallkóngar á hendi æðstu stjórn í fjallleitum. Í afrétti hafa þeir öll ráð og umsjón um allt, sem að leitunum lýtur. Þeir skipa í leitir og stjórna þeim og enn fremur rekstri fjárins til rétta og stjórna réttahaldinu. Fjallkóngar eru ráðnir af hreppsnefnd og eru auðvitað til þess valdir menn, sem eru nákunnugir á afréttinum og um leið stjórnsamir og úrræðagóðir. Á Flóamannaafrétti munu lengstum hafa verið þrír fjallkóngar, sinn í hverri leit. Úr Stokkseyrarhreppi hinum forna hafa þessir menn verið fjall kóngar í Austurleit hver eftir annan, sem menn vita um nú:

  • Sigurður Erlendsson, Hæringsstöðum (f. 1769 – d. 1839).
  • Gísli Ólafsson, Breiðamýrarholti (f. 1788 – d. 1876).
  • Grímur Jónsson, Gljákoti, (f. 1823) – 1873.
  • Páll Jónsson, Syðra-Seli, 1874-1886.
  • Júníus Pálsson, Syðra-Seli, 1887-1908.
  • Júlíus Gíslason, Syðsta-Kekki, 1909-1928.
  • Jón Jakobsson, Einarshöfn, 1929-1938.

Hér verða þáttaskil um hríð. Árið 1938 kom mikill vágestur í hérað, hin illræmda mæðiveiki. Hún var tekin að breiðast út í sveitunum vestan Hvítár og hafði einnig gert vart við sig í Sandvíkurhreppi í Flóa. Var þá gripið til þess ráðs að setja upp girðingu milli Þjórsár og Hvítár á mörkum Flóa og Skeiða til varnar þremur efstu hreppunum milli ánna. Jafnframt var Flóamönnum gert að skyldu að hafa fé sitt í heimahögum. Meðan svo stóð, notuðu Skeiðamenn einir Flóamannaafrétt og smöluðu hann með þátttöku Gnúpverja, sem að fornu hafði verið. En fjársýkin hélt áfram að breiðast út og barst einnig í fé Skeiða- og Hreppamanna. Loks var ákveðið, að fjárskipti skyldu fara fram í öllum hreppunum milli Þjórsár og Hvítár. Var öllu heimafé þar slátrað haustið 1951, en þingeyskt fé flutt þangað í staðinn haustið eftir, þar á meðal 458 lömb í Stokkseyrarhrepp. Árið 1953 tóku Flóamenn að nota afrétt sinn á ný, og sama ár var sett ný fjallskilareglugerð fyrir hreppana milli Þjórsár og Hvítár, og er hún enn í gildi. Samkvæmt henni ákveður afréttarmálafundur tölu fjallmanna og fjallkónga á Flóamannaafrétti, en annars er hún mjög í samræmi við eldri reglugerðir. Kostnaður við afréttarmálin greiðist úr fjallskilasjóði, sem áður er frá sagt.[note]Um þetta efni hefi eg m. a. stuðzt við munnlegar upplýsingar Bjarna Júníussonar á Syðra-Seli; Göngur og réttir I, 270-295 (grein Eiríks Jónssonar í Vorsabæ), og fjallskilareglugerðir fyrir hreppana milli Þjórsár og Hvítár (nr. 75, 1895; nr. 79, 1902; nr. 99, 1916; nr. 107, 1934 og 8/91953 [/note]

Leave a Reply

Close Menu