045-Ræktun

Á fyrri öldum var naumast um aðra ræktun að ræða en túnrækt, og mundi mönnum nú á dögum þó þykja heldur lítið til hennar koma, túnin venjulega dálitlir kragar kringum bæina, oftast þýfð og seinunnin. Í Stokkseyrarhreppi hagaði þó svo til, að túnin á sjávarbýlunum voru yfirleitt slétt og greiðfær, en þörfnuðust hins vegar mikils áburðar vegna harðiendis. Mest af heyskapnum var sótt á engjar, eins og annars staðar tíðkaðist, að miklu leyti í votlenda, en grasgefna mýri. Þannig bjuggu menn með sama lagi öld eftir öld, og átti þar við vísa Páls Vídalíns, er hann kvað um samtíðarmenn sína:

Vilji einhver segja þeim satt,
svara þeir á annan veg:
,,Faðir minn sæli, sé honum glatt,
sá hafði það líkt og eg.“

Á seinna hluta 18. aldar hófust stjórnarvöldin handa að hvetja bændur til að rækta jörðina og slétta túnin. Má í því efni minna á þúfnatilskipunina frá 1776, þar sem bændum er boðið að girða tún sín og slétta og álitlegum verðlaunum heitið fyrir kornyrkju og garðrækt. Því miður hafði þetta lítil áhrif, en stöku bændur hófust þó handa um nokkrar framkvæmdir. Í Stokkseyrarhreppi má t. d. nefna Andrés Ögmundsson á Kotleysu, sem gerði nærri 200 faðma langa vatnsveituskurði á engjum sínum 1784 og 1788. Enginn leit við kornyrkju, og garðræktin átti lengi örðugt uppdráttar. Heita mátti, að allt væri í sama farinu fram á síðustu áratugi 19. aldar um jarðræktina. En eftir að Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps var stofnað, komst skriður á ræktunarmálin þar í sveit. Tóku menn þá að vinna markvíst að ýmiss konar jarðabótum, slétta túnin, stækka þau og girða, grafa framræsluskurði, hlaða sjógarð og vinna að aukinni garðrækt. Er skýrt frá sumum þessum framkvæmdum hér að framan, en sumra verður getið hér á eftir, þar sem rætt verður um búnaðarfélagið.

Af kornrækt fara engar sögur í Stokkseyrarhreppi fyrr né síðar, en vitað er þó, að korn, aðallega bygg, var ræktað hér á landi í fornöld. Því hefir verið haldið fram, að gerðis-nöfn bendi til kornyrkju á þeim stöðum fyrrum, og má það rétt vera, en því má ekki gleyma, að slík nöfn eru oft gefin á seinni tímum og eiga þá ekkert skylt við kornyrkju. Á Stokkseyri eru nöfnin Íragerði og Gerðar svo gömul, að þau gætu verið dregin af korngerði, en auðvitað verður ekkert um það fullyrt. Nafnið Traðarholt hefir verið talið dregið af hvíldartröð á sáðlandi, en ekki þykir mér það sennilegt. Hið eina, sem kunnugt er með vissu um einhverja atburði til kornræktar á þessum slóðum, eru ummæli máldaga Gaulverjabæjarkirkju um 1220, að kirkjan eigi „akurlönd á Loftsstöðum“. Í máldaga kirkjunnar frá því um 1356 segir enn, að hún eigi „akurland undir sælding korns á Loftsstöðum árlega og þara með, sem nægist“.[note] Ísl. fornbrs. I, 403; Ill, 114. [/note] Má af þessu sjá, að þari hefir verið notaður til áburðar á sáðlönd, þar sem til hans náðist. Talið er, að kornyrkja hér á landi hafi með öllu liðið undir lok á 16. öld. [note]Um kornyrkju á Íslandi sjá einkum Björn M. Ólsen, Búnaðarrit 1910, 81-167, og Sigurður Þórarinsson, Tefrokronologiska studier på Island, 131-172. [/note]

Upp úr miðri 18. öld hófust af hálfu stjórnarvaldanna ítrekaðar tilraunir til þess að koma á fót garðrækt hér á landi. Var lagt hart að mönnum í því efni og sektir við lagðar, ef um vanrækslu væri að ræða, en verðlaunum heitið á hinn bóginn, ef menn sköruðu fram úr. Á manntalsþingi á Stokkseyri 17. maí 1762 skipaði sýslumaður svo fyrir, að byggja skyldi 4 kálgarða í þingsókninni, nefnilega á Háeyri, Stokkseyri, Hæringsstöðum og Skipum. Skyldi sá bóndi, sem tíundaði 5 hndr., sektast um 5 álnir og sá, sem tíundaði 10 hndr. eða meira, sektast um 10 álnir fyrir forsómun og óhlýðni, ef þeir gætu ekki sýnt plægðan og sáðan kálgarð innan árs og dags á sínu heimili. Þrátt fyrir þetta strengilega boð endurtók sýslumaður á manntalsþingi 19. maí 1767 skip. un frá amtmanni um „að rækta og í stand setja þá kálgarða, sem 1762 var skipað að byggja í þessari þingsókn undir viðliggjandi sektir.“ Eru þar taldir upp sömu bæir og áður, en Hólum bætt við. Upp úr móðuharðindunum eða árið 1788 voru 5 kálgarðar í öllum Stokkseyrarhreppi, en enginn þeirra á áðurnefndum jörðum. Voru tveir á Skúmsstöðum og einn á hverjum bæ StóraHrauni, Litla-Hrauni og Seli. Árið 1800 eru aðeins taldir 2 kálgarðar í hreppnum. Má af þessu sjá, hversu seint og treglega menn tóku þessari nýbreytni. En upp úr þessu fóru menn smám saman að átta sig, og árið 1820 eru taldir hvorki meira né minna en 100 kálgarðar í Stokkseyrarhreppi. Í sýslulýsingu Árnessýslu 1842 segir Páll Melsteð svo um garðræktina: ,,Kálgarðarækt í góðu gengi, og mun varla nokkurt býli vera hér í sýslunni, á hverju ei sé vel ræktaður kálgarður og á sumum tveir. Mest er hér stundað grænkál, kálrabi undir jörðu og maírófur. Nokkrir hafa stundað jarðeplarækt, en fáum heppnazt.“ Eins og sýslumaður tekur fram, var mestmegnis um kálrækt að ræða lengi fram eftir, einkum kálraba og grænkál, og því voru garðarnir nefndir kálgarðar. Um gulrófnafræ ert. d. fyrst getið hér á landi 1801, en lítið kvað þó að ræktun gulrófna lengi vel. Þess skal getið, að fræ til sáningar fengu menn á þessum tímum jafnan ókeypis.

Það vekur óneitanlega furðu, hve kartöfluræktin átti erfitt uppdráttar hér á landi, slíkur búbætir sem kartaflan er, en raunar ber að hafa það í huga, að enn í dag er ræktun þessarar ágætu nytjajurtar miklu minni en vera skyldi. Fyrstu kartöflurnar, sem spruttu í íslenzkri mold, voru ræktaðar á Bessastöðum sumarið 1758 af Hastfer baróni, sem var forstöðumaður sauðfjárbúsins á Elliðavatni, en síðan hélt síra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal þeim ræktunartilraunum áfram. TiÍ Eyrarbakka komu nokkrar tunnur af kartöflum í fyrsta sinn vorið 1773, og voru þær sendar sýslumanninum í Árnessýslu til úthlutunar bæði í Árnes- og Rangárvallasýslu. Á næstu árum var haldið áfram að senda hingað til lands útsæðiskartöflur að tilhlutan stjórnarvalda, en tilraunir með ræktun þeirra fóru að miklu leyti í handaskolum ýmist af kunnáttuleysi eða áhugaleysi, nema hvort tveggja væri. Er ekki að orðlengja það, að full öld leið frá því, að byrjað var að rækta kartöflur hér á landi, og þangað til um verulega útbreiðslu þeirra væri að ræða meðal almennings. Er svo talið, að um 1870 hafi lítið sem ekkert verið ræktað af kartöflum á Stokkseyri og Eyrarbakka, en upp úr því tók ræktun þeirra að breiðast út og þó ekki að verulegu marki fyrr en undir síðustu aldamót og einkum upp úr þeim. Það varð mjög til þess að ýta undir garðræktina, er farið var að nota þara til áburðar í garðana. Segir Vigfús Guðmundsson, að Sveinn Sveinsson á Ósi á Eyrarbakka hafi byrjað á því fyrstur manna þar um slóðir árið 1901 og aðrir þegar farið að dæmi hans, er reynslan sýndi, hve góðan árangur það bar.[note]Saga Eyrarbakka Il, 139.
[/note] Enginn virðist þá hafa vitað, að fornmenn notuðu einmitt þara til áburðar á akra sína, eins og áður er sagt. Um langan tíma hafa kartöflur og gulrófur nú verið ræktaðar í allstórum mæli á Stokkseyri og Eyrarbakka og þykja óvíða betri en þar úr hinum sandbornu görðum við sjóinn. Því miður hefir dregið mjög úr kartöfluræktuninni á síðari árum, og er hún nú varla nema svipur hjá sjón hjá því, sem var um skeið. Veldur því meðal annars sýki í kartöflunum, svokallaður hnúðormur, sem stórlega hefir spillt uppskerunni.

Skömmu eftir síðustu aldamót voru gerðar fyrstu tilraunir með trjárækt í görðum við hús á Stokkseyri. Nokkrar konur riðu á vaðið með það: Vilborg Hannesdóttir í Vinaminni, Guðrún Torfadóttir í Helgahúsi og Anna Diðriksdóttir á Helgastöðum. En trjárækt hefir jafnan verið erfið viðfangs á Stokkseyri, því að hafvindar bera með sér sjávarseltu, sem eyðileggur blöðin á trjánum, svo að þau ná ekki þroska. Trjáræktartilraunir ungmennafélagsins ofan við Stórulág skammt fyrir ofan Bræðratungu báru lítinn árangur og fóru út um þúfur. Vera má, að betur takist til um skógarplöntur þær, sem Stokkseyringafélagið í Reykjavík gróðursetti með aðstoð ungmennafélagsins i Ásgautsstaðaeyju, enda er eyjan gróðursæl og nýtur algerrar friðunar.

Hér fara á eftir nokkrar tölur, sem sýna uppskeru, hey og garðávexti, í Stokkseyrarhreppi síðan um aldamót. Tekið er með eitt ár, áður en hreppnum var skipt.

Uppskera, hey og garðávextir

ÁrTaða-hestarÚthey-hestarKartöflur-tunnurRófur-tunnur
18954,18511.264865,0564
19003.20010.531279.5527
19103.40213.377827,0433
19202.48110.912940,0363
19304.54010.7801.328,0240
19406.24716.058873,0116
195011.7745.164605,030
195917.5901.812334,020

þá segin saga, að ekkert lamb var sett á og gömlum kúm fargað. Er ekki vitað til, að hér hafi fénaður fallið, svo að neinu nemi.

Um búskapinn á líðandi stund er það að segja, að sé miðað við tölu byggðra jarða 1910, hefir um helmingur þeirra farið í eyði. Hins vegar hafa risið 3 nýbýli og félagsbú á tveim jörðum. Á þeim jörðum, sem í byggð eru, er sæmilega og vel búið. Á árunum 1930-1950 efndu þurrabúðarmenn á Stokkseyri til mikillar ræktunar í landi Stokkseyrar og komu sér upp álitlegum bústofni. Höfðu margir 2-5 kýr og seldu mjólk til Mjólkurbús Flóamanna og enn fremur nokkurt fé, um 10-30 ær. Síðan daglaunavinna varð svo mikil sem nú er og sótt út úr sveitinni, hefir dregið mjög úr þessum búskap. Hafa flestir losað sig við kýrnar, en halda í féð ennþá. Sama er að segja um kartöfluræktina, að hún er sem engin orðin, og veldur þar einhverju „hnúðormur“, sem spillti uppskerunni.

Nú orðið byggist búskapurinn svo að segja alveg á ræktuðu landi. Menn eru hættir að nytja engjarnar, – það er landbúnaðarsaga síðari ára á Íslandi. Vélin í ýmsum myndum og tilbúni áburðurinn hafa leyst úr læðingi þau frjómögn, sem moldin, loftið og vatnið búa yfir í sameiningu, en áður voru ekki tök á að nýta. Á tímabilinu 1927-1940 lyfti Flóaáveitan verulega undir búskap hér með aukinni grassprettu á engjum. En það urðu vonbrigði, að engjarnar þoldu ekki árlega yrkingu, og auk þess var tiltölulega lítið af landinu véltækt.“

Leave a Reply

Close Menu