046-Hlunnindi
Varðbyrgi á sjávarbakkanum á Skipum, ætlað fjármanni til skjóls, er hann heldur fé á beit í fjörunni og gætir þess, að það flæði ekki.

046-Hlunnindi

Fyrr á tímum, þegar svo að kalla allt var nýtt, sem jörðin hafði sjálfkrafa fram að bjóða, var margt talið til hlunninda, sem nú þykir lítils virði. Enginn hirðir framar um hinar fjölbreyttu fjörunytjar, sem áður voru veigamikill þáttur í lífsafkomu sjávarfólks, og enginn spyr nú um það, sem forðum þótti mikill kostur á jörðum, hvort þar sé torfrista góð, stunga eða reiðingsrista. Nú mundi fremur að því hugað, hvort góður steypusandur eða möl væri á jörðinni og það til hlunninda talið. Hinir fornu búskaparhættir eru horfnir að fullu og öllu. f þeirra stað eru aðrir nýir komnir, er mótast af stórhug tæknialdar og verklegum framförum. Í kjölfar þeirra búskaparhátta fer endurmat allra verðmæta. Gömul verðmæti eru nú mörg hver léttvæg fundin eða jafnvel einskis verð, en ný komin í staðinn, sem engan óraði fyrir.

Gömul hlunnindi, sem enn eru í nokkru gildi í Stokkseyrarhreppi, eru Útræði, afréttarland og reki. Um hvort tveggja hið fyrrnefnda er annars staðar rætt, og um rekann get eg verið fáorður. Hann var mjög stopull og kom nær eingöngu jarðeigendum að gagni, því að leiguliðar máttu aðeins hirða álnarkefli og smærri samkvæmt Landsleigubálki Jónsbókar. Á fyrri öldum virðist rekavon hafa verið meiri fyrir Eyrum en síðar varð. Þegar Skálholtsstóll átti um helming allra jarða í Stokkseyrarhreppi, höfðu biskupar sérstaka umboðsmenn þar til þess að hafa umsjón með öllum reka, og jarðeigendur í hreppnum gættu vandlega rekans fyrir jörðum sínum. Þó að reki væri harla misjafn, sum árin lítill sem enginn, þá komu annað slagið mikil rekaár, svo að bændur, sem áttu þessi hlunnindi, þurftu yfirleitt engan við að kaupa í útihús. Allir kofar voru gerðir upp með rekatimbri og jafnvel súðaðir. Oft og tíðum voru og sperrur og bitar í baðstofum úr rekavið.[note]Saga Hraunhverfis á Eyrarbakka, 126-128. [/note]

Á síðustu áratugum hefir dregið mjög úr þessum hlunnindum. Litlar sögur fara af öðrum reka en trjáreka á þessum slóðum. Þó bendir örnefni eins og Hvaltangar í Stokkseyrarfjöru til þess, að fleira nýtilegt hafi þar að landið borið.

Flestar jarðir í Stokkseyrarheppi áttu fyrrum skógarhögg til kolagerðar í Þjórsárdalsskógum. Allar stólsjarðir í hreppnum áttu frjálst skógarhögg í skógi stólsins, þar sem heitir Almenningur í fjöllunum fyrir ofan Eystrihrepp. „Þessi skógur er nú mjög eyddur, en brúkast þó árlega,“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1708. Auk þess átti Traðarholt skógarhögg í Fossárdal, er kallað var Traðarholtsingur, og Stokkseyri skógarítak í Búrfelli í Þjórsárdal, sem Stokkseyringur hét. [note]Sbr. Bólsaðir, 125.[/note]

Þar var fyrrum nægur skógur til kolgjörðar og nokkur til raftviðar, en í Heklugosinu 1693 urðu miklar skemmdir á skógunum í Þjórsárdal. Hlunnindin af skógum þessum munu hafa orðið að engu á 18. öld fyrir samverkan eyðandi náttúruafla og sífelldrar rányrkju.

Áður fyrr var eggja- og dúntekja talin til hlunninda á nokkrum jörðum í hreppnum. Í jarðabókinni 1708 segir, að eggver sé í tveimur smáhólmum frá Hólum, sem ábúandinn hafi hlaðið upp fyrir meira en 15 árum, og verpi þar síðan æðarfugl, en að þessu séu þó lítil hlunnindi. Á Baugsstöðum og Skipum er talin eggversvon af æðarfugli í vatnshólma, sem jarðirnar eigi saman til helminga, heppnist það misjafnlega, en þó alltaf að nokkru gagni. Dúntekja af hólmanum sé oftast 5 aura verð í hvors hluta. Loks segir jarðabókin, að eggversvon sé í hólma þeim, sem liggur í Traðarholtsvatni, og telji menn hana að góðu gagni, bæði egg og dún. Eggvarp þetta fylgdi jörðinni Traðarholti, en 1694 tók landeigandinn hólmann til sinna nota og nýtti hann síðan að öllu sjálfur. Af þessum hlunnindum fara ekki sögur síðan. Gagnsemi æðarvarps er, eins og allir vita, mjög undir því komið, hvernig það er rækt og hirt. Á fyrra hluta 19. aldar var búinn til hólmi, sem enn heitir Varphólmi, í Eystra-Litlahraunsvatni, og skyldi hann vera varpstöð fyrir æðarfugl. Fór það allvel af stað, en er nýr ábúandi kom til, fór það í óhirðu og lagðist niður. Líkt mun hafa farið á fyrrgreindum stöðum. Sá, sem kveðja vill náttúruna auðs og arðs, verður sjálfur að vera í verki með henni.

Getið er fyrrum um lítils háttar hlunnindi af silungsveiði á nokkrum jörðum. Að tali jarðabókarinnar 1708 hafði áður verið silungsveiði í smálækjum við túnið á Hólum. Var sú veiði þá enn stunduð, en jafnan að litlu gagni. Einnig er getið um veiði af smámurtum í vatni frá Baugsstöðum, Skipum, Leiðólfsstöðum og Traðarholti, en lítið er alls staðar talið að þeirri veiði kveða. Á seinna hluta 19. aldar og lengur veiddist sjóbirtingur oft í lónum í Hraunsfjöru, svo að til búdrýginda var. Um sömu mundir var og mikil silungsveiði frá Óseyrarnesi í Ölfusá, meðan stunduð var.

Enn fremur er selveiði og hrognkelsaveiði talin til hlunninda á sumum jörðum árið 1708. Um selveiði er getið á Baugsstöðum, Stokkseyri, Hrauni og Háeyri og talið, að hún hafi áður eða að fornu að góðu gagni komið, en hafi eigi heppnazt þá um nokkurt skeið. Ýmis örnefni í fjörunum eru af selum dregin, svo sem Selós bæði í Baugsstaða. og Stokkseyrarfjöru, Selaflúð, Selaklettar og Selalón í Hraunsfjöru. Um og eftir miðja 18. öld er getið um bónda einn í Hraunshverfi, Jón í Folaldinu, sem kallaður var, er lagði mikla stund á selveiði. Er sagt, að hann hafi notað konu sína sem agn fyrir seli, þegar hún var vanfær, því að það var gömul trú, að selir sæktust mjög eftir óléttum konum. Sendi hann hana fram í fjöru, en var sjálfur á höttunum til að taka á móti selunum. Hrognkelsaveiði er getið á þremur bæjum 1708, Baugsstöðum, Skipum og Stokkseyri, og sagt, að hún sé að litlu gagni, en sé þó enn stunduð á Stokkseyri. Eru af því dregin örnefnin Látralón og Veiðilón í Stokkseyrarfjöru og önnur samnefnd lón og Rauðmagalón í Hraunsfjöru. Þessar veiðar hafa að vísu aldrei verið reknar í stórum stíl, en engu að síður hafa þær oft bætt vel í búi hjá mörgum. Vitað er t. d., að bæði silungsveiði, selveiði og hrognkelsaveiði voru stundaðar með góðum árangri á Gamla-Hrauni á síðara hluta 19. aldar og á fyrstu áratugum þessarar aldar, og svo mun hafa verið á fleiri bæjum. Slíkur veiðiskapur er fyrst og fremst undir því kominn, að alúð og ástundun sé við hann lögð.[note] Sbr. Saga Hraunhverfis á eyrarbakka, 126-128.  [/note]

Mikil og margvísleg hlunnindi höfðu sjávarbændur í Stokkseyrarhreppi af hinni víðáttumiklu og gróðursælu fjöru fyrir landi sínu. Auk veiðiskaparins, sem nú hefir verið lýst og tengdur var fjörunni, beittu menn þar fénaði sínum á vetrum, sóttu þangað söl og aðrar ætijurtir til matar, þang til eldiviðar, þara til áburðar, maðk og skel til beitu. Um öll þessi fjörugögn hefi eg ritað allrækilega annars staðar, eins og þau voru nytjuð í Hraunshverfi og einkum á Gamla-Hrauni á síðara hluta 19. aldar og framan af þessari öld, en flest af því á einnig við um aðrar sjávarjarðir í hreppnum. Hér verður því fljótt yfir sögu farið, en að öðru leyti vísað til þess, sem þar er sagt.[note]Sama rit, 125-135. [/note]

Langveigamesta fjörugagnið var sölvatekjan, enda voru sölin ein helzta verzlunarvara sjávarbænda. Söl hafa án efa verið nytjuð til manneldis hér á landi allt síðan á landnámsöld, og í fornum ritum er þeirra nokkrum sinnum getið. Í Grágás segir m. a.: ,,Hver maður á jarðar ávöxt í sínu landi allan; það á maður heimilt að eta í annars landi ber og söl, en útlegð varðar þriggja marka, ef hann hefir á brott ólofað.“[note]Grágás Ib, 94.[/note] Allir kannast við söguna af Þorgerði Egilsdóttur, er hún ginnti föður sinn til að eta söl, þegar hann ætlaði að svelta sig í hel. Sú saga sýnir, að söl hafa verið alþekkt á dögum höfundarins og notkun þeirra svo gömul, að samtíðarmönnum hans hefir ekkert þótt ótrúlegt við það, að 10. aldar menn legðu þau sér til munns. Í máldögum kirkna er sölvaítaka getið á 13. og 14. öld og síðar, t. d. er sagt í máldaga Gaulverjabæjarkirkju frá því um 1331, að kirkjan eigi sölvanám og þangskurð á móts við Loftsstaðamenn. Sölin hafa snemma orðið verzlunarvara. Samkvæmt Búalögum var sölvavættin (þ. e. 40 kg.) lögð á 10-12 álnir eða 20-24 fiska. Hélzt verðlag þetta öld eftir öld og allt fram yfir síðustu aldamót, að vættin var seld fyrir 20 fiska, er jafngilti m. a. einum fjórðungi af smjöri. Í jarðabókinni 1708 er sölvatekja talin til hlunninda á öllum sjávarjörðum í Stokkseyrarhreppi, eins og vænta má, á sumum jörðunum aðeins til heimanotkunar, en á sumum einnig til sölu, á Hrauni fyrir 1 hndr. 60 álnir og stundum minna, á Háeyri venjulega fyrir 2 hndr. árlega og á Skúmsstöðum og í Einarshöfn ótiltekið, eftir því sem árferði leyfði. Á þessi hlunnindi minna örnefni eins og Sölvatangi í Traðarholtsfjöru og Sölvalág í Hraunsfjöru. Ekki höfðu hjáleigumenn eða þurrabúðarmenn frjálsan aðgang að sölvatekjunni. Á Stokkseyri máttu hjáleigumenn ekki njóta rekans eða sölvafjörunnar, nema landsdrottinn sér í lagi leyfði, sumum fyrir vissan toll eða annan góðvilja eftir samkomulagi. Á Hrauni máttu hjáleigumenn ekki nota sölvafjöruna með öðrum skilmála en þeim, að þeir „standi skil ábúanda af öllum helmingi sölvanna, og geldur bóndinn þeim ekkert fyrir sitt ómak, hefur þó um nokkur næstliðin ár nokkur linkind verið sýnd hjáleigumönnunum.“ Sömu skilmálar giltu um sölvafjöru á Háeyri, en á Skúmsstöðum keyptu þurrabúðarmenn sölvatekju af heimabóndanum þannig, að þeir greiddu 10 álnir fyrir fjörufar eins manns, 20 álnir fyrir tvo menn, 30 álnir fyrir þrjá o. s. frv. Eins og sjá má af þessu, giltu ekki alls staðar sömu reglur um afnot sölvafjörunnar, en yfirleitt urðu leiguliðarnir að sæta hörðum kostum. Þeir hafa þó náð betri skilmálum, er tímar liðu. Á 19. öld máttu allir hjáleigumenn og þurrabúðarmenn í Hraunshverfi afla sér sölva og þangs eftir þörfum, en undantekin voru þó öll þau sker, sem ekki var hægt að vaða út í um stórstraumsfjöru, og var sagt, að þau væru 18 að tölu. Í þau mátti enginn fara nema landeigandi. Á Stokkseyri var sölvatekja þá einnig leyfð leiguliðum, nema hvað heimabóndi mun hafa tryggt sér nokkurn forgangsrétt. Var þá venja, að sett var upp veifa á Stokkseyri, þegar leiguliðar máttu fara í sölvafjöru, og er sagt, að það hafi verið síðast gert í tíð Adólfs Petersens.

Sölin voru nær öll seld sveitamönnum, og áttu sjávarbændur viðskiptavini um allar sveitir í Árnessýslu, Rangárvallasýslu og allt austur í Skaftafellssýslu. Í staðinn fengu þeir alls konar sveitavörur. Öll voru viðskipti þessi reiknuð í landaurum samkvæmt gömlu lagi. Sölvavættin var á 20 fiska, eins og áður er sagt, en fiskverðið var lengi metið til peninga á 25 aura. Væri sölin greidd í peningum kostaði vættin því 5 krónur, en venjulega var um hrein vöruskipti að ræða. Fyrir eina sölvavætt kom eitthvað af því, sem hér segir: fjórðungur af hverju um sig, smjöri, tólg, mör, ull, gærum eða fýlafiðri, fjórir fjórðungar af kjöti í skrokkum, 20 stykki saltaðra fýlsskrokka eða 5 pund af lundafiðri. Þegar nú margir bændur áttu þetta 10-20 og upp í 30 vættir af sölvum, má það ljóst vera, hvílík hlunnindi sölvatekjan var, meðan hún var af alúð stunduð. Það var líka gamalt mál, að sjóbóndi hefði af sölvunum eins mikið gagn og af 3-4 kúm. Var því ekki furða, þótt bændurnir á bæjunum fyrir ofan Stokkseyri sæktust eftir að verða þátttakendur í þessum hlunnindum, þótt það væri illa séð af þeim, sem við sjóinn bjuggu. Hinn 15. júní 1778 skrifuðu 19 ábúendur í Stokkseyrarhverfi sýslumanni bréf, þar sem þeir kvarta yfir því, að óviðkomandi menn, eins og þeir segja, noti sölvafjöruna á Stokkseyri. Nefna þeir þar til bændurna á Efra-Seli og Syðra-Seli, sem fari alloftast í fjöruna með verkfært fólk sitt fyrir, um og eftir slátt eftir þeirra hagnaði, og sama sé að segja um Ásgautsstaða ábúendur og bændurna í Traðarholti og á Grjótlæk, sem noti sölvafjöruna í engu frelsi, að því er þeir telja. Í tilefni af kvörtun þessari skrifaði sýslumaður bændunum á jörðum þessum og bað þá skriflegs svars um það, hvort kæran Ýæri á rökum reist og með hvaða rétti þeir hefði notað sölvafjöruna á Stokkseyri. Ekki er kunnugt um svar bændanna, en ganga má að því vísu, að þeir hafi ekki nytjað fjöruna í leyfisleysi, slík hlunnindi sem sölin voru.[note]Bréfabók Árnessýslu, 23. júní 1778. [/note] Þessi hlunnindi eru nú með öllu úr sögunni. Á síðustu áratugum hefir aðeins einn og einn maður gert það svo sem af gamalli tryggð að fara í sölvafjöru, meir til gamans en gagns eða til þess að geta glatt gamlan vin með því að gefa honum bragð af ljúffengu, vel hneittu sölvablaði.

Aðrar fjörujurtir, sem notaðar voru til manneldis í viðlögum, voru fjörugrös, bjöllur, ætiþönglar, kjarnar og kerlingareyru: Þörungar þessir voru lítt ætir, en þó urðu menn fegnir að leggja þá sér til munns í hungri og hallærum. Þó að slík fæða væri ekki lystileg, var hún holl og nærandi, einkum þó sölin, sem voru raunar herramanns matur, ef þau voru vel verkuð. Voru þarategundir þessar forðum taldar til læknismeðala fyrir hollustu sakir. Segir Oddur Hjaltalín svo um þær í Grasafræði sinni, að þær séu „kælandi, vallgang mýkjandi, uppleysandi, þvagleiðandi, nærandi, stillandi, svita drífandi og styrkjandi. Ferskar á lagðar dreifa þær hitabólgu og tökum.“[note]Íslenzk grasafræði, Khöfn 1830, 333. [/note] Svo satt sem þetta kann að vera, þá er það víst, að ætiþönglar, kjarnar og kerlingareyru hafa hvorki verið matarlyst aukandi né bragðlauka ertandi. En satt mun þó það, sem mælt er, að sulturinn gerir sætan mat.

Þegar sölvunum sleppti, var þangtekjan annað mikilvægasta fjörugagnið. Þang var eitt helzta eldsneyti sjávarbænda um aldaraðir, og er vant að sjá, hvernig almenningur í þéttbýlinu við sjóinn hefði bjargazt af með eldsneyti, ef þangsins hefði ekki notið við. Verður nánara um það rætt síðar. Eftir að menn komust upp á að nota þara til áburðar í garða, má einnig telja hann til verulegra hlunninda. Er hann nú nálega hið eina, sem menn sækja til gagns í fjöruna.Eitt var það, sem menn sóttu í fjöruna, og það var beita. Var það bæði skel og fjörumaðkur. Var skelin tekin fram hjá fremstu skerjum, og síðan var hún sett niður aftur í innfjörunni, þar sem hún lifði góðu lífi og gengið var að henni, þegar á þurfti að halda. Fjörumaðkur var tekinn, hvenær sem þurfa þótti og grafið eftir honum á þurru og votu. Mikið var af honum víðs vegar um fjöruna, en mesta maðkasvæðið var á Leirunni fyrir austan Hraunsá og grófu þar bæði Stokkseyringar og Hraunshverfingar. Mikið hagræði var að þessu, meðan menn höfðu ekki aðstöðu til að geyma beitu óskemmda.

Að lokum skal minnzt á fjörubeitina. Engin beit var við sjóinn á veturna önnur en fjaran, enda var fjörubeit mikil bæði fyrir sauðfé og hross. Einnig sóttust kýrnar mjög eftir því að komast fram í fjöru til að eta söl og rásuðu þangað stundum til að gæða sér á þeim. Flæðihætt var víða í fjörunni, sbr. örnefnið Flæðitorfa í Stokkseyrarfjöru, og varð að hafa vakanda auga með fénu og stugga því undan sjó með aðfallinu, og stundum var staðið yfir því. Talið var, að fjörubeitin sparaði að minnsta kosti helming heyja og meira til, þar sem hrossin áttu í hlut.

Þó að fjaran mætti með sanni kallast forðabúr sjávarbænda í Stokkseyrarhreppi fyrr á tímum og allt fram á þessa öld, þá má ekki ætla, að gögn hennar og gæði væru rétt mönnum upp í hendurnar. Menn urðu að bera sig eftir björginni, eyða til þess miklum tíma og umgangast gjafir náttúrunnar með alúð og kunnáttu. Meðan ekki var horft um of í tímann og fyrirhöfnina, meðan menn kunnu sér það hóf að lúta að litlu og meðan menn urðu að erja jörðina með eigin höndum, var fjaran vitazgjafi, sem sjaldan brást. En fjaran er ekki véltæk, og því sinnir henni nú enginn framar.

Leave a Reply

Close Menu