014-Örnefni og fornminjar

014-Örnefni og fornminjar

Áður en skilizt er við Stokkseyringa hina fornu, skal getið hér nokkurra minja, sem þeir hafa látið eftir sig. Á eg þar annars vegar við nokkur örnefni, sem hafa sína sögu að segja, og hins vegar mannvirkjaleifar, sem eru ekki með öllu horfnar. Þar er þó ekki um auðugan garð að gresja, enda er það kunnara en frá þurfi að segja, að tímans tönn hefir verið sérstaklega óvægin við fornar minjar hér á landi. Veldur því einkum byggingarefni það, er landsmenn notuðu, og óstöðugt veðráttufar.

Einhverjar elztu fornminjar vorar, jafnvel eldri en húsarústir og mannvirki, geymir tungan, þar sem örnefnin eru. Hið fyrsta, sem landnámsmenn gerðu, var að gefa héruðum, sveitum, bæjum og stöðum nöfn. Slíkt var fullkomin nauðsyn, ekki sízt í víðáttumiklu landi. Örnefnin urðu til með ýmsum hætti, dregin af landslagi, kennd við menn eða gripi, leidd af atvikum eða atburðum, sem fyrir komu o. s. frv. Alkunn er t. d. sagan af Ketilbirni gamla í Landnámu, er hann fór að kanna fyrir sér um staðfestu. ,,Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá. Hann hafði skip það, er Elliði hét; hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði. Hann var hinn fyrsta vetur með Þórði skeggja, mági sínum. Um vorið fór hann upp um heiði að leita sér landskosta. Þeir höfðu náttból og gerðu sér skála; þar heitir nú Skálabrekka. En er þeir fóru þaðan, komu þeir að á þeirri, er þeir kölluðu Öxará; þeir týndu þar öxi sinni. Þeir áttu dvöl undir fjallsmúla þeim, er þeir nefndu Reyðarmúla; þar lágu þeim eftir áreyðar þær, er þeir tóku í ánni.“ [note]Íslendinga sögur i, 228. [/note] Þessu líkt hefir oft verið háttað um sköpun örnefna. Hversdagsleg atvik, oft smávægileg, verða til þess að staðurinn, þar sem þau gerast, fær nafn. f fornritum vorum og einkum í Landnámu eru sögð tilefni margra örnefna víðs vegar um landið, en þó eru hin margfalt fleiri, sem enginn veit framar, af hverju tilefni gefin voru.

Í Stokkseyrarhreppi eru fáein bæjanöfn og örnefni, sem til eru orðin í upphafi byggðar og vitað er um, af hverju tilefni voru gefin. Stokkseyri fekk nafn af því, að setstokkar Hásteins landnámsmanns komu þar að landi, og Hásteinssund fekk nafn af því, að hann braut þar skip sitt; Ölvisstaðir voru kenndir við Ölvi, son Hásteins, Baugsstaðir við Baug, er þar hafði vetursetu, Brattsholt við Bratt og Leiðólfsstaðir við Leiðólí, leysingja Atla Hásteinssonar. Í fornum rit. um eru nefnd ýmis fleiri Örnefni í hreppnum, án þess að tilefnis þeirra sé getið. Þar á meðal eru t. d. byggðarnöfnin Eyrar og Eyrarbakki, bæjanöfnin Stjörnusteinar, Traðarholt, Ásgautsstaðir, Framnes, Einarshöfn og Drepstokkur og örnefnin Stálfjara, Grímsá, Rauðá, Fyllarlækur og Breiðamýri. Vissulega eru þessi nöfn og mörg fleiri arfur frá fyrstu kynslóðunum, sem byggðu þessa sveit og einhverjar elztu minjar, sem til eru um þær. En ný örnefni verða til með hverri kynslóð og hver kynslóð týnir í staðinn einhverju af hinum gömlu örnefnum eða breytir þeim. Enginn veit nú, hvar Stjörnusteinar hinir fornu voru eða Ölvisstaðir,og enginn þekkir Fyllarlæk. Menn týndu niður Grímsá og Rauðá og fóru að kalla þær Skipaá og Baugsstaðasíki, Drepstokki breyttu þeir í Rekstokk eða Refstokk eða Rifstokk, og þannig mætti lengi telja. Hinn mikli örnefnafjöldi í Stokkseyrarhreppi er því sköpunarverk margra kynslóða, og tilviljun ræður, hvað tímasett verður, því að fæst af öllum þessum nöfnum hefir komizt á bók og tilefni þeirra löngu gleymd og grafin.

Mér verður hugsað til allra örnefnanna í fjörunum. Mörg þeirra geyma minningu um týnda sögu, margs konar atvik úr lífsbaráttu kynslóðanna. Svo er með þau örnefni, sem dregin eru af nöfnum manna, karla og kvenna, víðs vegar um fjörurnar. Hér voru drýgðar dáðir, stríð háð, örlög ráðin, og í minningu þess var nafnið tengt við staðinn, þar sem atburðurinn gerðist, nýtt örnefni gefið. Hverjir og hvenær voru þeir menn og hver var þeirra saga, sem eftirtaldir staðir taka nafn af: Andrésartangar, Arabotnar, Árnasker, Bollasker, Egilsklettur, Elínarsund, Eyvasker, Filippusarós, Finnbogaklettur, Gróutangar, Guðrúnarsker, Gvendarsker, Hallsvik, Hinrikssker, Imbutangi, lngiríðartangi, Knútsklettur, Kolbeinsnaddur, Lákahlein, Laugusker, Leifavik, Magnúsarós, Magnúsarsker, Rönkusker, Sigguklettur, Sigmundarsker, Tumasker, Völkunaddur, Þórðarsker, Þorleifarós og Þuríðarhella? Kunnugt er nú um uppruna aðeins eins af þessum örnefnum, Þuriðarhellu, Þar setti Þuríður formaður upp skip sitt, er hún átti heima í Traðarholti á árunum 1826-1828 og sótti sjó um Knarrarós. Þegar vér rennum augum yfir öll sögulausu örnefnin, má ljóst verða, hversu mikið hefir farið forgörðum af fróðleik um liðna tíma á þessu eina sviði.

Fáein örnefni eru sérstaklega athyglisverð frá sögulegu sjónarmiði, þó að engar fylgi þeim sagnir um uppruna þeirra. Má þar fyrst nefna Íragerði, sem er vafalaust dregið af írskum mönnum, er komið hafa hernumdir hingað á landnámstíð. [note]Bólstaðir o.s.frvl, 282[/note] Framarlega í fjörunni undan Íragerði er klettaþyrping nokkur sem heitir Háleygjaborg. Háleygir voru íbúar Hálogalands, og mætti örnefnið vera frá söguöld, gefið í tilefni af því, að menn þaðan hefðu brotið þar skip sitt. Á hinn bóginn er nafnið Kumbaravogur naumast eldra en frá 15. öld, er Englendingar, Kumbarar og aðrir tóku að venja komur sínar hingað til lands.[note]Bólstaðir, 299.[/note] Um örnefnið Danapoll má vísa til gamallar þjóðsögu með sögulegri uppistöðu.[note]Safn I, 39.[/note]  Loks má minna á örnefni, sem tengd eru menningarsögu byggðarlagsins á ýmsum tímum. Til þeirra teljast nöfn eins og Hofhóll, Þingdalur, Gálgaklettur, Bænatangi og fleiri. Er þeirra sumra nánar getið á öðrum stöðum. Enn fremur eru allmörg örnefni tengd atvinnuháttum manna fyrr og síðar.

Fáar eru nú leifar fornra mannvirkja í Stokkseyrarhreppi. Hið langmerkasta af því tagi voru haugar þeirra Hásteins landnámsmanns og sona hans og Hrafns Þorvíðarsonar skammt frá Traðarholti, sem Landnáma getur um með þessum orðum: ,,Þar er Hrafns haugur fyrir austan götuna, en fyrir vestan Hásteins haugur og Atla haugur og Ölvis.“ Haugarnir voru á mjög grýttu hraunholti alveg suður við Skipavatn. Austan við þá er mjódd á vatninu og gamalt vað, en fornleg reiðgata liggur að vaðinu, sem á seinni árum hefir verið kallað Barnanesvað, en hét fyrrum Haugavað. Sumarið 1880 rannsakaði Sigurður Vigfússon fornfræðingur alla fjóra haugana, og fundust forn mannabein í þeim öllum; í þremur af haugunum var einnig beinagrind af hesti og í þremur þeirra fannst nokkurt haugfé, leifar af vopnum og fleiri gripum. Um þessa rannsókn Sigurðar kemst Kristján Eldjárn þjóðminjavörður svo að orði: ,,Því miður hefir rannsóknin ekki verið nógu góð, þar sem þetta eru myndarlegustu haugar, sem oss eru kunnir hér á landi, og auk þess eitt hinna fáu dæma um, að heim og saman komi fornrit og fornkuml.“

Eftir að grafið var í haugana, hefir eyðingin tekið þá ómildum tökum. Árið 1897 kom Brynjúlfur frá Minna-Núpi að Haugavaði, og voru þá öll merki um haugana þrjá sunnan götunnar að hverfa. Árið 1952 kom Kristján Eldjárn á staðinn, ,,og voru þá haugarnir þrír horfnir, en „Hrafnshaugur“ greinilegur. … Hann er stærstur íslenzkra fornmannahauga ósvikinna, enda hafa þessir haugar allir borið haugsnafn með meira sanni en önnur íslenzk fornmannakuml, sem þekkt eru.“[note]Sjá nánar um þetta efni: Sigurður Vigfússon, Rannsóknir við Haugvað, Árb. fornl. 1882, 47-54; Kristján Eldjárn, Kuml og haugfé, 53-57.[/note]

Í túninu á Hæringsstöðum er dálítill hóll, sléttur utan og ekki stærri en svo, að hann gæti verið af mönnum ger. Hann heitir Hæringshaugur eða Hæringshóll, og segir sagan, að Hæringur Þorgrímsson sé þar heygður. Flestir ætla þó, að hóllinn sé af náttúrunni gerður, en raunar mun það aldrei hafa verið rannsakað til hlítar. Bannhelgi hvílir á hólnum, og má ekki slá hann, nema húsbóndinn geri það sjálfur.

Á Stokkseyri sést móta fyrir fornum garði og miklum, er lykur um nokkurn hluta hverfisins. Hann liggur upp frá vesturlendingunni upp að Löngudæl að austan, þaðan austur yfir túnin í Vestri-Móhúsum og Eystri-Móhúsum, þá um túnið í Starkaðarhúsum, suðaustur yfir túnin í Götu og Roðgúl og til sjávar milli túnanna í Gerðum og Vestra-Íragerði-Íragerði og stefnir á Stál eða Stálfjöru. Garðurinn hefir verið mikið mannvirki, en á Móhúsatúnunum báðum hefir hann verið sléttaður út. Innan garðsins eru þessir bæir: Stokkseyri, Vestri-Móhús, Eystri-Móhús, Dvergasteinar, Gata, Roðgúll og Gerðar. Um garð þennan kem eg ekki auga á aðra sennilegri skýringu en þá, að hann hafi verið túngarður heimajarðarinnar Stokkseyrar og lagður, áður en hjáleigur þær byggðust, sem innan hans eru. Ef þessi skýring er rétt, er garðurinn ekki yngri en frá þjóðveldistímanum, enda getur það vel samrýmzt þeirri vitneskju, sem menn hafa um hinar miklu garðahleðslur fornmanna. Í Grágás ert. d. gert ráð fyrir því, að menn vinni tvo mánuði fyrir slátt og einn á haustin eða alls þrjá mánuði á ári að garðlagi. Þar eru og ákvæði um það, hvað teljast skyldi löggarður, en löggarður var 5 feta þykkur við jörð niðri, en þriggja að ofan og skyldi taka í öxl meðalmanni af þrepi.[note] Grág. Ib, 89-91; II, 450-453. [/note] Óhætt mundi að ætla, að Stokkseyrargarðurinn mikli hefði eigi minni verið en svo.

Á Fornu-Baugsstöðum sér enn í dag fyrir fornum garði miklum á flötinni, þar sem Knarrarósvitinn stendur. Í jarðabókinni 1708 er talað um, að enn sjáist þar girðingarleifar, og mun þar átt við garðlag þetta. Þá var svo langt um liðið, síðan bærinn var fluttur, að vitnað er til munnmæla um það, að þarna hafi til forna jörðin Baugsstaðir verið. Garðurinn er því kominn til ára sinna, enda virðist hann eftir öllu að dæma vera frá svipuðum tíma og Stokkseyrargarðurinn. Sennilega hefir þetta verið túngarðurinn á Baugsstöðum, en bæjarstæðið og nokkur hluti garðsins hafa orðið uppblæstrinum þar að bráð.

Traðarholtshellir

Að lokum skal hér lauslega minnzt á hellana í Traðarholti, en þar eru tveir allstórir hellar í holti norðaustur af bænum. Þeir höfðu ekki verið notaðir í manna minnum, og engar sögur fóru heldur af notkun þeirra, en árið 1938 tóku Traðarholtsmenn sig til og mokuðu upp annan hellinn í því skyni að hafa hann fyrir fjárhús. Við uppmoksturinn kom í ljós, að hann hafði verið fjárhellir fyrr á tímum, því að í honum var mikil skán, nokkrar skóflustungur á þykkt. Engar áletranir fundust í hellinum, en á hellu yfir dyrum hans voru nokkrir rúnastafir ristir, sumir orðnir lítt læsilegir.[note]Sjá nánar um þetta Árni Óla, Lesb. Morgunbl., 23. júlí 1939; Landið er fagurt og frítt, 185-189 (Mynd þaðan)[/note] Ógerningur er að gizka á, hve gamlir þessir hellar eru, en hitt virðist vafalaust, að þeir séu gerðir af manna höndum eins og aðrir slíkir hellar á Suðurlandi, sem höggnir hafa verið út í móberg og notaðir ýmist sem fjárhús eða heyhlöður, þegar timburskortur var í landi og menn urðu í hvívetna að bjarga sér á eigin spýtur.

Leave a Reply

Close Menu