015-Stokkseyrarhreppur og stjórn hans – Uppruni hreppa

,,Löghreppar skulu vera á landi hér.” Með þessum orðum hefst hreppaskila. þáttur Grágásar, hinna fornu þjóðveldislaga, og benda þau ásamt mörgu öðru til þess, að hreppar séu meðal elztu stofnana hér á landi. Eru flestir fræðimenn nú á dögum á þeirri skoðun, að þeir séu íslenzkir að uppruna, ein meðal hinna athyglisverðustu nýjunga í stjórnarháttum hins forna þjóðveldis, eigi upptök sín í heiðnum sið og stofnaðir til þess að leysa vandamál framfærslunnar í þjóðfélaginu.

Það er fyrst með vissu um hreppana vitað, að þeir voru orðnir fullmótaðar stofnanir með ákveðnu skipulagi, er tíundarlög Gizurar biskups voru sett árið 1097. Samkvæmt tíundarlögunum var hreppunum falin skipting tíundarinnar og úthlutun þurfamannatíundar. Í öðrum löndum hafði kirkjan framfærslumálin ein með höndum, og svo hefði vafalaust einnig farið hér á landi, ef hún hefði átt frumkvæði að skipun þeirra mála. Bendir þetta eindregið til þess, að hrepparnir og starfsemi sú, er þeim var falin, sé orðin til án íhlutunarvalds kirkjunnar eða með öðrum orðum í heiðnum sið.

Að sögn Ara fróða varð Ísland albyggt á sex tugum vetra, svo að eigi varð meir síðan. Þó að það kunni að vera eitthvað orðum aukið, er ekki að efa, að þörfin á fátækrahjálp hefir þegar verið orðin aðkallandi í lok landnámsaldar. Það er næsta furðulegt um svo mikilvæga löggjöf sem hreppaskipunin er, að hafi hún verið sett sem nýmæli við hin fornu lög, eins og t. d. fjórðungaskiptingin, skuli þess ekki getið með einu orði í fornum heimildum. Skýringin á því getur varla verið Önnur en sú, að þessi löggjöf hafi verið einn bálkur hinna fornu Úlfljótslaga. Minna má á það, að Ari fróði kveður svo að orði í frásögn sinni af kristnitökunni, að um „barnaútburð skyldu standa hin fornu lög” samkvæmt kröfu heiðinna manna. Ákvæðið um barnaútburð heyrði auðvitað til framfærslulöggjöf þeirra tíma. Þegar kristni var lögtekin árið 1000, er það ákvæði forn lög að tali Ara fróða. Sennilegt er, að hreppar hafi þróazt með líkum hætti og þingin. Getið er um þing á Kjalarnesi og á Þórsnesi, áður en alþingi var sett, en með Úlfljótslögum komst þingaskipunin á um allt land.

Hún varð því til fyrir þjóðfélagslega þróun. Fyrst rísa upp einstök þing, og er slík tilhögun þykir vel gefast og jafnvel nauðsynleg, taka aðrir hana upp, unz hún er staðfest með allsherjar löggjöf. Margt bendir til þess, að líkt hafi verið með hreppana, fyrst hafi risið upp einstök hreppsfélög með samtökum bænda á takmörkuðum svæðum, sem áttu sameiginlegra hagsmuna að gæta, en aðrir síðan fetað í fótspor þeirra.

Miklar líkur eru til þess, að hreppaskipunin sé upprunnin í austanverðu Árnesþingi, hafi fyrst breiðzt þar út og síðan til nágrannahéraðsins austan Þjórsár, Rangárþings. Elztu hreppanöfn, sem varðveitzt hafa, eru í Landnámabók, sem öndverðlega er skráð á fyrra hluta 12. aldar. Þar eru nafngreindir fjórir hreppar og allir í Árnesþingi: Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Hraungerðingahreppur og Kaldnesingahreppur. Þessir hreppar hafa það allir sameiginlegt, að þeir eru kenndir við íbúana. Þetta eru samtök Gnúpverja, Hrunamanna, Hraungerðinga og Kaldnesinga. Aðeins tveir aðrir fornir hreppar á landinu eru kenndir þannig, en það eru nágrannahrepparnir austan Þjórsár, Landmannahreppur og Holtamannahreppur.[note] Nafnið Skilmannahreppur er ekki fornt. [/note]

Þetta getur varla verið tilviljun ein. Annars er venjan sú um allt landið, að hreppar eru kenndir við þingstað eða byggðarlag, og er þessi málvenja svo rík, að tveir hinna fornu Flóahreppa hafa skipt um nafn til samræmis við hana og heita nú Hraungerðishreppur og Sandvíkurhreppur. Stórlega athyglisvert er í þessu sambandi, að Gnúpverjahreppur og Hrunamannahreppur eru að fornu og nýju oft einungis nefndir Hreppar og íbúar þeirra Hreppamenn, og vita þó allir, hvað við er átt, rétt eins og þetta væru einu hrepparnir á landinu. Engin nýtileg skýring er til á þessari málvenju önnur en sú, að hún stafi frá þeim tíma, er þeir voru einu hrepparnir og frekari aðgreining því óþörf.

Leave a Reply

Close Menu