013-Fóru niðjar Hásteins með goðorð?

Margt er óljóst og jafnvel myrkri hulið um meðferð goðorða hér á landi á þjóðveldistímanum. Eitt þeirra atriða, sem skoðanir hafa verið skiptar um, er það, hvort Stokkseyringar, þ. e. niðjar Hásteins Atlasonar, eða einhver önnur höfðingjaætt hafi farið með goðorð í austanverðu Árnesþingi. Verður því að ræða það mál nokkuð.

Þegar alþingi var stofnað um 930, var ákveðið, að þrjú goðorð skyldu vera í hverju þingi. Stóð svo, unz landinu var skipt í fjórðunga um 963, en þá voru þrjú ný goðorð tekin upp í Norðlendingafjórðungi. Annars staðar hélzt hin forna skipan óbreytt. Enginn vafi getur leikið á því, að Mosfellingar og Ölfusingar hafa farið með tvö af löggoðorðunum í Árnesþingi. Þriðja goðaættin hefir því án efa verið búsett í austurhluta Árnesþings, þ. e. í Hreppum, á Skeiðum eða í Flóa, en því miður skortir traustar heimildir um það, hver sú ætt hefir verið. Hið eina fornrit, sem hefir að geyma ákveðin ummæli um meðferð þessa goðorðs á 10. öld, er Flóamannasaga. Þó að hún sé fjarri því að vera áreiðanleg söguheimild, eins og áður er að vikið, tel eg meiri líkur til, að hún sé sannfróð um þetta efni, og víst er um það, að hún sýnir, hvert verið hafi álit höfundarins og sennilega fróðra samtímamanna hans um það.[note] Sbr. Einar Arnórsson, Árnesþing o.s.frv., 256-260.   [/note]

Samkvæmt Flóamannasögu hafa Stokkseyringar farið með þetta goðorð að minnsta kosti um eitt skeið. Um Þorgrím örrabein segir svo í 10. kap. sögunnar: ,,Þorgrímur var góður forstjóri héraðsins,“ og verður það varla skilið á annan veg en þann, að hann hafi verið goðorðsmaður. Þegar sagt hefir verið frá öðru kvonfangi Þorgils örrabeinsstjúps og samförum þeirra hjóna, bætir B-gerð sögunnar þessu við í lok 18. kap.: ,,Hæringur bjó nú á Stokkseyri. Þorgils bjó í Traðarholti, og gerðist hann ríkur maður, svo að Ásgrímur ElliðaGrímsson bar ekki af honum á þingum.“ Hér er mannaforráð einnig sýnilega haft í huga. Þegar Þorgils hafði undirbúið Grænlandsför sína, segir svo í B-gerð sögunnar í 20. kap.: ,,Þorgils fekk nú í hendur Hæringi, bróður sínum, fé sitt til varðveizlu, og svo tók hann við goðorði því, er Þorgils hafði haft.“ Þess er hvergi getið í sögunni, hvorugri gerð hennar, eins og þær eru nú, að Þorgils hafi tekið við goðorðinu aftur, er hann kom heim úr Grænlandsferðinni, enda segir sagan aðeins, að hann hafi haft goðorðið, sem þarf auðvitað ekki að þýða hið sama sem hann hafi átt það. Í sögulok hefir Bgerðin enn fremur þessa setningu í kaflanum, þar sem verið er að lýsa Þorgilsi: ,,Þótti hann og hinn mesti sveitarhöfðingi.“ Lúta þessi ummæli sem hin fyrri, sem tilgreind voru, að mannaforráðum hans. Þannig gerir Flóamannasaga grein fyrir meðferð goðorðs í ætt Stokkseyringa um 60 ára skeið eða lengur, þ. e. frá því um 940 og fram yfir aldamótin 1000. Og á þessu tímabili fara með það þrír menn: Þorgrímur örrabeinn, Þorgils örrabeinsstjúpur og Hæringur Þorgrímsson.

Ef gert er ráð fyrir því, að hér sé um eitt hinna þriggja löggoðorða í Árnesþingi að ræða, hver voru þá upptök þess? Sé litið yfir landnámsmenn í austurhluta Árnesþings, jafnast enginn við jarlssoninn Hástein Atlason að ættgöfgi og mannvirðingum. Ekkert er því líklegra en goðorð hafi gengið í ætt hans. Hásteinn hefir látizt alllöngu áður en alþingi var stofnað, og Atli, sonur hans, mun þá einnig hafa verið andaður. Þórður Atlason er þá á tvítugs aldri. En þótt hann væri ungur, þurfti það ekki að vera því til fyrirstöðu, að hann tæki við goðorði, þar eð karlmaður mátti fara með goðorð allt frá 12 ára aldri samkvæmt þjóðveldislögum. Hafi nú Þórður Atlason orðið einn hinna þriggja löggoða í Árnesþingi við stofnun alþingis, sem líklegt er, þá er allt ljóst um meðferð þessa goðorðs fram í byrjun 11. aldar. Þórður Atlason fer með það, unz hann týnist í utanför. Erfir þá Þorgils, sonur hans, goðorðið, en meðan hann er ungur og ólögráða, hefir stjúpfaðir hans, Þorgrímur örrabeinn, meðferð þess með höndum. Eftir lát hans eða jafnvel fyrr tekur Þorgils við goðorðinu, eins og lög gera ráð fyrir. Þegar hann fer utan, felur hann Hæringi Þorgrímssyni, hálfbróður sínum, goðorðið, sem fer þannig með það í viðlögum.

Engar heimildir greina frá því, hvað um þetta goðorð varð eftir daga Þorgils örrabeinsstjúps, en líkur má að því leiða. Vissa má heita fyrir því, að Markús lögsögumaður Skeggjason hafi verið goðorðsmaður, þar sem hann er einn þeirra íslenzku höfðingja, sem unnu eið að samningnum milli Ólafs konungs helga og Íslendinga árið 1083, ári áður en hann tók við lögsögu. [note]Sbr. J. Jóh., Íslendinga saga I, 134-142.   [/note]

En eins og áður er getið, var Markús sonarsonur Bjarna spaka í Gröf og Þórnýjar, dóttur Þorgils örrabeinsstjúps. Mætti geta þess til, að goðorð Þorgils hefði skiptzt þannig, að Bjarni spaki hefði fengið nokkurn hluta þess sem heimanfylgju með konu sinni; en Grímur glömmuður erft hinn hlutann, Gátu þeir ýmist farið með- það til-skiptis· eða annar falið hinúrn meðferð þess. Þannig hefði.Markús. Skeggjason fengið nokkurn hluta goðorðsins að erfðum; en hinn hlutann gat hann farið með í umboði meðeiganda síns. Eftir daga Markúsar Skeggjasonar hefir goðorð þetta fljótlega komizt í eigu Haukdæla, sem á 12. öld eignuðust öll goðorð í Árnesþingi. Um aldamótin 1100 hafa þeir þegar fært út kvíarnar niður um Flóa. Þá bjó í Hraungerði Þorvaldur Ísleifsson biskups, ,,mikill höfðingi“, segir Hungurvaka. Mundi eigi svo að orði komizt, ef hann hefði eigi haft mikil mannaforráð.

Ýmsar aðrar skýringar eru til á upphafi og meðferð þessa goðorðs, en þær eiga allar sammerkt í því, að þær hafa við lítið annað að styðjast en getgátur einar saman. Hér skal getið stuttlega hinna helztu.

1)  Loftur hinn gamli landnámsmaður í Gaulverjabæ er að sumra hyggju líklegastur til þess að hafa orðið einn hinna þriggja löggoða í Árnesþingi, þá er alþingi var stofnað. Engin heimild er til fyrir því, að Loftur eða niðjar hans hafi verið goðorðsmenn, en tilgátan er studd með því, að Loftur hafi verið venzlaður ættmönnum Bjarnar bunu og í frændsemi við Reykvíkinga, en þeir munu hafa beitt sér mest fyrir stofnun allsherjarríkis. Þetta goðorð Lofts á svo að hafa komizt í eigu niðja Hásteins Atlasonar, líklega við gjöf til Þorgils örrabeinsstjúps, sem Flóamannasaga segir, að verið hafi fóstraður í Gaulverjabæ að Lofts.[note] Sjá m.a. Ólafur Briem, Saga II, 401-402.  [/note]

Vitað er, að Loftur átti börn, þar á meðal að minnsta kosti tvo sonu, Þórólf og Þórarin, sem getið er í heimildum, og er því slík ráðstöfun goðorðs úr ættinni harla ósennileg.

2) Þá halda sumir, að Þormóður skafli landnámsmaður í Skaftaholti hafi hlotið hið umrædda goðorð við stofnun alþingis og það hafi síðan verið í eigu niðja hans allt til Markúsar Skeggjasonar. Þormóður skafti var maður ættgöfugur og kynsæll. Hann átti tvær dætur; hét Önnur Þórvör og var móðir Þórodds goða í Ölfusi, en hin Þórvé og var móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka. Hvergi er getið um goðorð Þormóðar skafta eða ættmenna hans, en tilgátan er studd við það, að dóttursonur hans er kallaður Þorsteinn goði og afkomandi hans, Markús lögsögumaður, hafi verið goðorðsmaður, en goðorðstign Markúss er skýrð á annan veg hér að framan. Enn fremur er hent á það, að höfuðhof þessa goðorðs hafi verið að Hofi í Gnúpverjahreppi og líkur sé til, að þar nálægt muni Þorsteinn goði hafa búið. [note] Sama rit II, 397-401.   [/note]

Því miður er ekkert kunnugt um bústað Þorsteins eða hvers vegna hann var kallaður goði. Var hann ef til vill hofgoði aðeins eða átti hann goðorð eða goðorðshluta og þá hvar? Þess hefir verið getið til, að Þórvé, móðir hans, hafi verið gift Þorkeli mána lögsögumanni, því að hvorki er getið í heimildum giftingar hennar né kvonfangs hans, og mætti þetta fyrir því rétt vera. ,,Ef Þorsteinn goði hefur verið sonur Þorkels mána, þá hafa þeir bræður Þormóður allsherjargoði og hann líklega átt saman goðorð Reykvíkinga. Goðanafnið kynni að hafa fest sig við Þorstein, af því að hann hefur lifað lengur og þá farið eingöngu með goðorðið eða hann hefir einn eða aðallega staðið fyrir hofþjónustu, meðan landið var heiðið.“ [note]Einar Arnórsson, Árnesþing o.s.frvl, 187.   [/note]

Varla þarf að taka það fram, að fyrri tilgátan fellur um sjálfa sig, ef sú síðari er rétt. Skal ekki dómur á þetta lagður hér, en kenningin um goðorð Þormóðar skafta er engan veginn nægum rökum studd til þess, að tækilegt sé að hafna ummælum Flóamannasögu, sem eru þó, hvað sem öðru líður, elzti og eini vitnisburður fornra heimilda um þetta goðorð.

3) Nýlega hefir komið fram tilgáta, sem hefir þann kost, að hún sameinar kenninguna um goðorð Þormóðar skafta og heimildir Flóamannasögu um goðorð Stokkseyringa. Í fornum heimildum er Þorgrímur örrabeinn talinn Þormóðarson og Þuríðar Ketilbjarnardóttur hins gamla á Mosfelli. Engin grein er gerð fyrir Þormóði þessum, sem að vísu hlýtur að hafa verið mikils háttar maður. Hins vegar segir Landnáma, að Þuríður hafi átt fyrir mann Helga Hallsson goðlauss. Gizkað hefir verið á, að Þormóður, fyrri maður Þuríðar, hafi enginn annar verið en Þormóður skafti og hafi hann fengið hennar gamall, en þeirra sonur hafi verið Þorgrímur örrabeinn. Ef Þormóður skafti hefir átt eitt af löggoðorðunum í Árnesþingi, liggur þá beint við að gera ráð fyrir því, að goðorðið hafi gengið í erfðir á tvennu lagi, annars vegar til Þorsteins goða, dóttursonar hans, og hins vegar til Þorgríms örrabeins, sonar hans. Eftir því hefði goðorð það, er Stokkseyringar fóru með, verið erfðagoðorð Þorgríms og síðan Hærings, sonar hans, og ýmist þeir eða Þorsteinn goði og niðjar hans farið með það.[note] Sbr. Björn Sigfússon, Saga II, 423-426.   [/note]

Þessi skýring veltur að sjálfsögðu á því, hvort tilgátan um faðerni Þorgríms örrabeins er rétt. Því miður eru engin ráð til þess að fá úr því skorið, og verður hver að trúa því, sem hann vill um það.

4) Í ritgerð sinni um goðorðaskipun og löggoðaættir hefir Barði Guðmundsson leitazt við að færa rök að því, að í skrá Sturlubókar og Hauksbókar Landnámu um göfugustu landnámsmenn í hverjum fjórðungi séu aðeins upp tekin nöfn ættfeðra hinna fyrstu löggoðaætta landsins. Það styður mjög þessa skoðun hans, að í langflestum þingum landsins eru í skránni taldir þrír landnámsmenn eins og löggoðarnir voru. Í Árnesþingi eru þó ekki taldir nema tveir: Hásteinn Atlason og Ketilbjörn hinn gamli. Ef skoðun Barða er rétt, er ekki um það að villast, að goðorð hafa gengið í ættum beggja þessara höfðingja. Hins vegar telur hann, að þriðji löggoðinn hafi við stofnun alþingis orðið Grímkell goði í Bláskógum, er að sögn Harðar sögu bjó að Ölfusvatni, og hafi hann fengið mannaforræði um austanvert Árnesþing. [note]Skírnir 1936, 49-58.   [/note]

Enga frekari grein gerir Barði fyrir þessu, og er óljóst, hvernig hann hefir hugsað sér, að goðorð Grímkels hafi staðið um austanvert Árnesþing, eða hvar hefir þá goðorð niðja Hásteins verið? Sennilega er austanvert prentvilla fyrir vestanvert, því að hafi Grímkell haft nokkurt goðorð í Árnesþingi, hefir það verið Ölfusingagoðorðið, og það hefir höfundur Harðar sögu auðsjáanlega hugsað sér, eins og kemur fram í frásögninni af liðsafnaði Grímkels í 10. kap. sögunnar. Annars er allt mjög óvíst um mannaforráð Grímkels, þótt hann væri goði kallaður, og sumir fræðimenn leggja engan trúnað á það.

Eins og sjá má af því, sem nú hefir verið stuttlega rakið, eru skoðanir manna um löggoðorðið í austanverðu Árnesþingi ærið mismunandi. Er það að vonum, því að beinar heimildir um það eru næsta fáskrúðugar, og verður því að grípa til líkindaraka og ágizkana um margt. Samt sem áður mun aldrei verða fram hjá því gengið, að mest rök hníga undir þá skoðun, að goðorð þetta hafi verið í eigu niðja Hásteins Atlasonar, eins og hér er haldið fram. Þess skal getið, að Einar Arnórsson kemst að sömu niðurstöðu í aðalatriðum í riti sínu um Árnesþing á landnáms- og söguöld. [note] Sjá þar. bls. 280-286.  [/note]

Virðist hann þó ekki hafa veitt athygli þeim stuðningi, sem sú skoðun fær af B-gerð Flóamannasögu.

Í heiðni reistu goðar og jafnvel aðrir höfðingjar hof á bæjum sínum eða í námunda við þá og stóðu fyrir blótum, en hofsóknarmenn guldu tolla til þeirra. Hof hinna fornu Stokkseyringa hefir verið á Kekki. Í túninu í Kakkarhjáleigu, sem er skipt úr þeirri jörð, er tóft, sem heitir Hoftóft, og hjá henni lítill bali, sem kallaður er Hofhóll. [note] Br. J., Árbók fornlfél. 1905, 10-11.  [/note]

Engin ástæða virðist til að efast um, að þessi örnefni séu forn. Þegar jörðin var skírð upp fyrir nær þremur áratugum, var hún nefnd Hoftún með tilliti til þessara örnefna.

Leave a Reply

Close Menu