057-Formenn

Það er alkunna, að Stokkseyri er einhver mesta brimveiðistöð landsins, og raunar má furðu gegna, að þar skuli sjór hafa verið sóttur um aldir og það af slíku kappi og dugnaði sem stundum átti sér stað. Hér þurfti vissulega að hafa hugfast hið forna spakmæli: ,,Kapp er bezt með forsjá.“ Ef vel átti að fara, varð þetta tvennt jafnan að haldast í hendur, og það var fyrst og fremst á valdi formanns að sjá um, að svo væri. Hann kvað á um það, hvenær fært þótti að róa, og hásetar urðu að vera viðbúnir að hlýða kalli hans, hvenær sem var. Vald formanns yfir hásetum var meira en venjulegt húsbóndavald. Um allt það, er að sjávarstörfum laut, voru þeir skyldir að hlýða boði hans og banni. Ábyrgð formannsins var því mikil, og oft var líf allrar skipshafnarinnar komið undir hæfni hans, kunnáttu og snarræði.

Sérhver formaður varð að hafa vissa undirstöðuþekkingu til að bera á hinum ytri aðstæðum við sjósóknina. Hann varð að þekkja nákvæmlega öll sund og merki á þeim, kosti þeirra og annmarka, hvernig sem stóð á sjó. Hann varð að þekkja vandlega öll fiskimið, kunna skil á mismun þeirra og einkenn· um, svo sem dýpi og botnlagi, og vita, hvaða fisks var helzt von á hverjum stað á ýmsum tímum vertíðar. Hann varð að þekkja út í æsar þær mismunandi aðstæður, sem myndast við mismunandi sjávarhæð og kunna að átta sig á straumi og öldu. Hann þurfti að sjá, hvort aðfall var eða útfall, hvort brim fór vaxandi eða minnkandi, og hann varð að kunna að velja lag á sundi. Allt þetta og margt fleira lærðu menn í skóla reynslunnar. Það þótti gæfuvegur ungum mönnum að komast í skiprúm hjá reyndum og nafnkunnum formanni til þess að læra sjó, eins og kallað var.

Einhver nauðsynlegasti eiginleiki góðs formanns var vakandi athyglisgáfa að því er snerti sjó og veður. Hvoru tveggja varð að veita nákvæma eftirtekt, enda er þetta tvennt mjög háð hvort öðru. Aðstaða til að fylgjast með veðrabreytingum og loftsútliti er óvenju góð á Stokkseyri sökum hins víðáttumikla útsýnis í allar áttir, enda voru þar veðurspámenn  góðir. Hefir Jón Pálsson lýst því í hinni fróðlegu ritgerð sinni, Veðurmerki og veðurspár í Árnessýslu, hversu margt gat orðið mönnum til leiðbeiningar í þeim efnum, bæði í lofti og á legi.[note]Austantórur I, 74-157; II, 157-168.[/note] Daglega urðu formenn að beina athygli sinni að veðri og sjó. Þegar útlit var tvísýnt og menn biðu í vonum, reið á miklu að kunna að lesa rétt merkin í hinni opnu bók náttúrunnar. Þá kom í ljós glöggskyggni manna og hæfileiki til skjótra og réttra ákvarðana. Gott dæmi um líkt er eftirfarandi saga af Þuríði formanni, sem Jón Gíslason í Meðalholtum hefir skrásett: Eitt árið þegar hún bjó í Götu, var ógæftavertíð. Einn dag varð lægð á sjó, svo ekki þótti vonlaust, að róið yrði. Þá voru þó krapahryðjur á haflandsunnan. Þuríður fór fram á Roðgúlsbakka frá Götu að líta til sjávar og ,,bræða hann“ sem kallað er, því Músarsund svokallað er þar fram undan. Eftir eina hryðjuna koma menn út á Stokkseyri að líta til sjávar, en þá er skip að róa og er komið fram undir sund. Öllum bregður kynjum við, en eftir litla stundarskoðun róa nokkur skip. Það fyrsta mætir þá Þuríði fyrir innan sundið á svokölluðu Tröllendarifi með farm, sem fært var eftir sjónum. Hún reri út aftur og fekk farm, og svo varð ófær sjór, og enginn utan hún tvíreru. Hún hafði séð sjóinn aftur brúkanlegan og sílferð inn í sundál. Þetta sagði mér háseti, sem reri þá hjá Þuríði. Eins minntist faðir minn oft á þennan róður Þuríðar og bar það fyrir sem dæmi þess að vera fljótur að róa, þó djarft væri til tekið.[note] Sagan af Þuríði formannir o.s.frv, Rvík 1954, 226.[/note]

Sem dæmi um athugulan og eftirtektarsaman formann má nefna Gísla Þorgilsson á Kalastöðum. Hann var formaður nær 30 árum og vel heppinn að fiska. Hann þótti sækja of djarft sjóinn, en þó fekk hann aldrei, sem kallað er, austurmál. Hann fylgdi fast þeirri reglu að róa oftast fyrstur og stöku sinnum sneri hann aftur. Í mörgu því, sem sjómennsku snerti, hafði hann fasta reglu:

1) Að athuga frá nýári, hverninn sjávarbyltingar höguðu sér, þ. e. útfall og aðfall, áleit góðs vita, ef sjór batnaði með aðföllum, en gagnstætt, ef spilltist, og væri þá varasamt að taka djarft til með róðra þá vertíð.
2) Að athuga tal á sjávaröldunum, hvað margar væru saman og hver þeirra stærst. Ef sú fyrsta væri stærst af þremur, væri sjór í bötnun, en ef sú seinasta væri sjómest, væri brim í vexti, og yrðu 6-9 öldur samferða, brimaði sjó gjarnast eða yrði ófær á einum tíma og máske hálftíma. Þá voru brúkuð færi, því fiskur var þá á vertíðum þorskur, sem kom oft með sílhlaupum; ýsa eða annar smáfiskur sást þá ekki eða því nær.
3) Á því hafði hann vartekt, ef alda, þó lítil væri, tæki í færið, væri sjór aðgæzluverður; eins ef væru á sjónum hringiðublettir eða rastir. Margt var það fleira, sem hann tók til greina, hafði verið háseti vor og haust mörg ár hjá þeim bræðrum Gamlasonum, sem voru mestu sjómenn á þeirri tíð, og á vetrarvertíðum hjá Hannesi á Litla-Hrauni, merkum formanni.
4) Að þaulsitja eða tefja neitt við, ef lítt færu væri að beita, taldi hann að væri mesta heimska, því það hefði margan kollrakan gert, en fáheyrt, að nokkur hafi drukknað í útróðri.[note]Sama rit, bls. 226-228 (eftir sögn Jóns Gíslasonar í Meðalholtum); sbr. Bólstaði o. s. frv., 286-287.[/note]

Sams konar athyglisgáfa og eftirtekt kemur og fram í eftirfarandi sögu um Benedikt Benediktsson formann í Íragerði í hinum fræga róðri 16. marz 1895, þegar allur þorri skipa á Stokkseyri varð að hleypa til Þorlákshafnar. Þann dag var veður allgott um morguninn, og fóru allir á sjó og fiskuðu vel. Eftir hádegið reru allir aftur. Benedikt fór út Músarsund að vanda og byrjaði að leggja lóðina í svonefndri Gerðaholu, sem er vik í hrauninu fram undan sundinu. En ekki var hann búinn að leggja nema nokkuð af lóðinni, er hann fór að horfa til hafs og gerast órólegur. Þegar hann var langt kominn að leggja, hættir hann snögglega og fer að draga inn sem óðast og linnir ekki fyrr en hann hefir dregið alla lóðina. Tekur hann þá stefnu á Stokkseyrarsund í stað þess að leggja inn Músarsund, eins og hann var vanur, og biður háseta sína að róa rösklega. Þótti þeim þetta einkennilegt, því að veður var enn ágætt og brimlítið. Síðan fara þeir inn Stokkseyrarsund, og ber ekki neitt á neinu, en þegar komið er inn á Blöndu, er að koma stórbrim á öllum sundum. Urðu nær allir, sem ekki voru þá lentir, að leita til Þorlákshafnar. Einn af hásetum Benedikts spurði hann, er í land var komið, hvernig hann hefði séð, að svona snögglega mundi brima. Benedikt svaraði: ,,Sástu ekki helv …. hólana?“ Minnir þetta á hringiðublettina og rastirnar, sem áður er getið.

Margar fleiri sögur mætti segja til dæmis um það, hve glöggir formenn voru á veður, en hér skal aðeins til viðbótar sögð ein saga um Þórð Þorvarðsson í Traðarholti, sem var lengi formaður á Stokkseyri fyrir aldamótin síðustu, en heimildarmaður minn er Sigurjón Gíslason á Kringlu, sem reri hjá Þórði nokkrar vertíðir. Sjóbúð Þórðar var í Söndu, og lá hann þar við ásamt hásetum sínum. Eitt kvöld á útmánuðum brá Þórður sér heim upp að Traðarholti, sem er um klukkustundar gangur, og sömuleiðis fengu tveir af hásetum hans, sem áttu skemmra að fara, að skreppa heim til sín. Veður var hið bezta, og var gert ráð fyrir, að þeir yrðu komnir aftur um miðjan morgun til að róa. Morguninn eftir kemur Þórður í tæka tíð, og eru báðir hásetarnir þá ókomnir. Segir Þórður þá, að annaðhvort sé að gera að róa strax eða ekki, því að um dagmál, þ. e. eftir þrjá tíma, verði hann hvínrokinn og sjór ófær. Þó að þeir væru ekki nema 7 og vantaði því undir tvær árarnar, var í skyndi ákveðið að róa, enda var veður gott, hæg norðankæla og lítið frost. Róðurinn gekk að óskum, en þegar komið var inn á miðjar fjörur á heimleiðinni, skall á snörp vindhviða, svo að lítið gekk. Bráðlega lygndi aftur, og var þá tekinn skarpur róður í land. En það mátti ekki tæpara standa. Þegar þeir gengu fyrir skemmuhornið heima í Söndu, ætluðu þeir ekki að draga á móti veðrinu; var þá komið ofsarok og ódrægur sjór. Þegar Sigurjón kom inn í búðina, var það hans fyrsta verk að þrífa úrið undan höfðalaginu, og var klukkan þá á mínútunni 9. Þannig rættist veðurspá Þórðar með furðulegri nákvæmni.

Mikils var um það vert, að formaður kynni að liggja til laga og væri hvorki of fljótur né of seinn að leggja á sundin, þegar brim var. Þegar formaður kallaði lagið, var tekinn brimróður í land. Reið þá á, að stjórn formanns væri hiklaus og örugg og hásetar samtaka. Í slíkum brimróðri var áralag haft mjög fljótt. Háski var, ef ár festist þá í sjó eða eitthvað bilaði. Dæmi voru þó til þess, að menn sluppu heilir úr þeim háska fyrir snarræði formanns eða háseta. Einu sinni var Halldór Halldórsson formaður á Kalastöðum að fara inn úr Stokkseyrarsundi í miklu brimi og var lágsjávað. Þá brotnaði stýrissveifin, en hann sneri sér við til hálfs í sætinu og stýrði með hendinni. Allt fór vel. Halldór var karlmenni, og var til þess arna tekið. Öðru sinni var það, að sjór kom á bát með 5 mönnum á Stokkseyrarsundi og sópaði burt árum og keipum á annað borðið og tveimur mönnunum, sem þar voru. Einn af hásetum, Torfi Jónsson á Syðra-Seli, snaraðist samstundis yfir á auða borðið og reri við hné sér. Náðu mennirnir þrír, sem eftir voru í bátnum, þannig heilir til lands. Snarræði og karlmennsku Torfa var við brugðið.

Sem almennt dæmi um það, hvernig reyndir formenn völdu með heppni lag á sundum, má nefna lendingu Jóns Guðmundssonar formanns á Gamla-Hrauni heima á Stokkseyri brimdaginn mikla 16. marz 1895, sem áður er minnzt á. Hann sagði svo sjálfur frá seinni róðri sínum þennan dag: ,,Róðurinn gekk vel, því að veður hélzt gott, en þó var farið að brima lítið eitt, er við fórum út. En er búið var að draga nálægt helmingi af lóðinni, var brim orðið það mikið, að af sópaði bæði sundum og öðru, þar sem að kom, en lög þó enn dágóð. Voru nú hendur uppi að draga það, sem eftir var, og er við komum að sundinu, gengu að því fimm öldur svo stórar, að eg hefi varla séð aðrar eins á sjó, og var sundið þá alófært. En að þessu ólagi afstöðnu kemur blíðalag, og fórum við inn á því lagi og fengum ágætt. En eftir þetta lentu ekki nema tvö skip og það með mestu naumindum, en hin urðu öll að fara til Þorlákshafnar.“ [note]Saga Hraunshverfis, 281-282.[/note] Þessu líkt hefur ótal sinnum átt sér stað við sundin á Stokkseyri, en það er venjulega ekki í frásögur fært, þegar allt fer vel.

Margt var það, sem varast varð á sjó, og ekki sízt það að nefna illhveli með nafni. Voru gamlir menn bæði varkárir og strangir í þeim efnum. Jón hreppstjóri á Hlíðarenda sagði mér, að hann myndi sérstaklega eftir slíku einu sinni, er hann var unglingur. Þegar Grímur í Nesi var formaður á Stokkseyri ( 1860-64), reru þeir einu sinni sem oftar í góðu veðri. Hásetar voru Jón og Sturlaugur, bróðir hans, Þórður Ólafsson á Seli, Einar Einarsson í Ranakoti, – allt ungir menn og gáskafullir, – og Einar gamli Loftsson í Ranakoti, forn í háttum og siðavandur. Þegar þeir komu á miðin, tóku strákarnir að bregða á glens, einkum Þórður, og nefna öll sjóvíti, sem þeir þekktu, til þess að storka karli og sjá, hvernig honum yrði við. Varð Einar gamli bæði hryggur og reiður yfir þessari ofdirfsku piltanna og sagði hvað eftir annað: ,,Nefndirðu eitt sjóvítið enn þá!“ og taldi ráðlegast að hypja sig sem fyrst í land.

Meðal sjóvíta var það að nefna hross eða naut. Aldrei mátti heldur nefna Búrfell á sjó, en það var oft notað sem mið um Loftsstaðahól, sem alltaf var annað miðið við fjöllin. Var það ætíð kallað „Fjallið fyrir innan Heklu“. Ótti manna við stórfisk var mikill í ungdæmi Jóns á Stokkseyri, og var kölluð ofdirfska að vera á sjó, ef mikið var um hann. Sem dæmi þess má nefna Jón Þorsteinsson í Roðgúl, sem var heppnisformaður og mikill sjósóknari. Sæi hann eða einhver háseta hans stórfisk í nánd, skipaði hann ávallt að hanka upp og fór í land.

Því miður gættu ekki allir formenn nauðsynlegrar varúðar á sjónum. ,,Það fer ekki vel fyrir þessum, hann er svoddan gapi,“ er haft eftir Jóni Sturlaugssyni um ungan formann, sem þótti sækja nokkuð glannalega sjó og ekki viðhafa nægar varúðarreglur. Spádómur Jóns átti sér ekki langan aldur, því að sama vetur fórst maðurinn. Einn formaður á Stokkseyri hafði þann furðulega sið, að liggja aldrei við sund, heldur lagði hann rakleitt á sundið, er að því kom, hvernig sem á stóð. Þetta slampaðist af í nokkrar vertíðir, án þess að það kæmi að sök. En þessi ofdirfska hefndi sín að lokum. Eitt sinn hvessti og gerði stórbrim, meðan menn voru í róðri. Mörg skip komu að Stokkseyrarsundi og lágu þar um hríð nema þessi eini formaður. Hann lagði hiklaust á sundið, en þar tók hann brotsjór, sem færði skipið í kaf, og drukknaði hann þar víð 8. mann, en einum var bjargað. Öll hin skipin lögðu frá og leituðu til Þorlákshafnar, og heppnaðist lendingin þar vel. Ekki skorti þennan formann kappið og áræðið, en hann vantaði varúð og forsjá, sem því varð að vera samfara, til þess að allt færi vel.

Við bar, að formönnum hætti til að vera hikandi og óákveðnir í fyrirskipunum sínum og ráðgast við háseta sína um ákvarðanir, sem formaður átti einn að taka. Slíkt gat auðvitað verið örlagaríkt á hættustundum. Jón Sturlaugsson sagðist m. a. hafa róið á unga aldri hjá formanni á Stokkseyri. Eitt sinn voru þeir að koma úr róðri, og var vont í sjó. Formaðurinn bar þá undir hásetana, hvort leggja skyldi á sundið þá þegar eða bíða betra lags. Fjórir hásetanna lögðu til málanna, en voru þó ekki á eitt sáttir. Þá sagði aldraður maður í afturrúmi skipsins: ,,Já, ekki lízt mér á það. Fimm formennirnir.“[note]Íslenzk fyndni VI, nr. 15, sbr. XIII, nr. 82, sem er sama sagan í annarri gerð.[/note] Eins og við er að búast, hafa þannig ekki allir í hinum stóra formannahópi verið jafnvel vandanum vaxnir. En þeir voru ætíð fáir í samanburði við hina, sem greiddu úr öllum vanda í viðureign sinni við brim og boða og gátu sér góðan orðstír og jafnvel nafnfrægð meðal samtíðarmanna sinna.

Gamall formaður í tíð áraskipanna, Bernharður Jónsson í Keldnakoti, f. 1849, d. 1927. Hann var formaður í Þorlákshöfn í 4 vertíðir og á Stokkseyri í 36 vertíðir, lánsamur til sjávarnins og aflasæll.

Þó að vandi sé að gera upp á milli margra framúrskarandi manna í formannastétt á Stokkseyri, tel eg ekki verða hjá því komizt að nefna nokkur nöfn í því sambandi. Af fyrri tíðar mönnum eru þeir Vopna-Teitur, Bergur í Brattsholti og Brandur í Roðgúl nafnkunnastir formenn á Stokkseyri. Vopna-Teitur var uppi á 16. öld og er fyrsti formaðurinn á Stokkseyri, sem eitthvað verulegt er kunnugt um. Hann reri þar fyrst sem háseti í 6 vertíðir, en var þar síðan formaður í 40 vertíðir.[note]Um hann hefi eg ritað allrækilega í tímaritið Sögu Il, 264-279.[/note] Á uppgangsárum útvegsins á Stokkseyri á fyrra hluta 19. aldar voru þar nafnkenndastir formenn Jón Gamalíelsson yngri á Stokkseyri, Jón Þórðarson hreppstjóri í Vestri-Móhúsum, Hannes Ögmundsson á Litla-Hrauni, Þuríður Einarsdóttir og Gísli Þorgilsson á Kalastöðum. Það er haft eftir Þuríði formanni, að mestu sjógarpar á Stokkseyri, sem hún hefði kynnzt, hefðu verið þeir Jón Gamalíelsson og Gísli Þorgilsson, en eftir Gísla er það hins vegar haft, að hann hefði með mörgum hugdjörfum verið á sjó, en engum eins og Jóni Gamalíelssyni, því að hann hefði verið óttalaus og ekki brugðið, þótt lítt fært sýndist, þegar því var að skipta, en þó aðgætinn og varúðarsamur.[note]Sbr. Þorlákshöfn Il, 12; Bólstaðir o. s. frv., 149.[/note] Eftir miðja 19. öld voru þeir Gísli Magnússon í Vestri-Móhúsum og Karel Jónsson á Ásgautsstöðum með nafnkunnustu formönnum á Stokkseyri. Til Karels var lengi vitnað sem eins hins mesta formanns þar um slóðir. Orðtak hans á sjónum var þetta: ,,Fornaldarhetja með fullum kjarkhún grettir sig á móti honum, þegar hann ríður aftan undir.“[note]Sama rit, 16.[/note]

Af hinum mörgu formönnum á Stokkseyri á blómaskeiði útvegsins þar á síðasta fjórðungi 19. aldar mætti ýmsa nefna. Þó mun þeim, sem kunnugir voru, hafa komið einna fyrst í hug þeir Íragerðisbændur Páll Eyjólfsson og Benedikt Benediktsson. Jón Pálsson segir, að Páll í Íragerði hafi öllum öðrum betur haft vit á veðri og sjó og verið sjálfkjörinn foringi formanna, en Jón hreppstjóri á Hlíðarenda, sem lærði sjó hjá Páli, leggur áherzlu á, að hann hafi verið snillingur að stýra í brimi og segir, að hann hafi alltaf náð lendingu heima á Stokkseyri, þótt aðrir yrðu að hleypa til Þorlákshafnar. Benedikt lærði einnig sjó hjá Páli og varð einn fremsti foringi meðal formanna og engu síður aðgætinn og athugull en djarfur. Báðir voru þeir aflasælir mjög.[note]Óðinn X, 46-47; Bólstaðir o. s. frv. 219, 348; Þorlákshöfn Il, 13[/note] En þó að þessir væru sérstaklega til teknir, voru auðvitað fjölda margir aðrir, sem nutu mikils álits sem traustir og öruggir formenn. Skulu þessir aðeins nefndir og taldir eftir aldri: Hinrik Jónsson í Ranakoti, Sigurður Eyjólfsson á Kalastöðum, Hannes Hannesson á Skipum, Bjarni Jónsson í Símonarhúsum, Jón Adólfsson í Grímsfjósum, Jóhannes Árnason á Stéttum, Sturlaugur Jónsson í Starkaðarhúsum, Jón Jónsson í Eystri-Móhúsum, Adólf Adólfsson á Stokkseyri, Sigurður Árnason í Hafliðakoti, Bernharður Jónsson í Keldnakoti, Jón Jónsson í Holti, Hallgrímur Jóhannesson á Kalastöðum, Jón Grímsson á Stokkseyri, Halldór Halldórsson í Stokkseyrarseli, Jón Þorkelsson í Vestri-Móhúsum, Einar Jónsson í Aldarminni, Jón Guðmundsson á Gamla-Hrauni, Pálmar Pálsson á Stokkseyri, Júníus Pálsson á Syðra-Seli, Jón Einarsson í Dvergasteinum, Hannes Jónsson í Roðgúl, Sigurður Hinriksson í Ranakoti, Þorkell Magnússon í Eystri-Móhúsum, Einar Gíslason í Borgarholti, Bjarni Jónasson í Bjarnaborg, Jón Jónsson í Vestra-Íragerði, Jón Sturlaugsson í Vinaminni, Eyjólfur Sigurðsson í Björgvin, Vilhjálmur Einarsson í Gerðum og Jón Adólfsson á Stokkseyri. Að öðru leyti verður að láta nægja að vísa til formannavísnanna hér síðar.

Ýmsir af hinum yngri mönnum, sem hér eru nefndir, lifðu byltinguna frá opnum áraskipum til vélbáta og stjórnuðu hvorum tveggja af snilli. Af þeim ber öllum öðrum fremur að nefna einn mann, sem gerði garðinn frægan fyrir sjómennsku um sína daga, en það var Jón Sturlaugsson hafnsögumaður, sem lánaðist auk þess að bjarga fleiri mannslífum úr sjávarháska en dæmi þekkjast til hér á landi. Á vélbátaöldinni hefir enginn formaður getið sér betri orðstír en Ingimundur Jónsson á Strönd. Hafði hann til að bera beztu kosti hinna gömlu formanna, glöggskyggn á sjó og veður, sjósóknari mikill, en þó gætinn og einatt aflahæstur í veiðistöðinni. Einnig lánaðist honum oftar en einu sinni að bjarga mönnum úr sjávarháska.

Alkunn var hjálpsemi margra formanna við fátæk heimili, sem engan höfðu á sjó að senda, og voru þeir málsverðir ótaldir, sem þeir gáfu í soðið af afla sínum. Það var eins og sú hugsun lægi í landi hjá sjómönnum á Stokkseyri, að fleiri ættu að njóta gjafa sjávarins en þeir, sem unnu beinlínis að því að afla þeirra. Slík hjálpsemi var svo almenn, að ekki þótti í frásögur færandi. Sams konar greiðasemi var einnig sýnd sveitamönnum nær og fjær, sem lögðu gjarnan leið sína til sjávar, þegar fór að fiskast á Stokkseyri og útmánaðasulturinn fór að gera vart við sig heima fyrir. Greiddu formenn oft erindi þeirra með þeim hætti að lofa þeim að fljóta með í einn eða fleiri róðra upp á fullan hlut. Ef vel fiskaðist, báru menn stundum vænan feng frá borði í slíkum skotturóðrum og glöddu svanga maga, er heim kom, með góðu og hollu nýmeti.

Mikil samheldni var venjulega milli skipverja innbyrðis og milli skipshafnar og formanns. Sameiginleg störf og sameiginlegar hættur þjöppuðu þeim saman í eina fylkingu. Margir knýttust vináttuböndum ævilangt, en þótt svo yrði eigi, var eins og taugar gamallar tryggðar tengdi saman formenn og háseta, löngu eftir að samvistum þeirra var lokið. Eitt dæmi þess er eftirfarandi saga um Einar Jónsson í Aldarminni, sem var lengi formaður á Stokkseyri og aflasæll. Það bar til vetur einn á þorra nokkru eftir aldamótin, að fátækur bóndi austan úr Rangárvallasýslu kom til Kaupfélagsins „Ingólfs“ og bað um að fá lánaða kornvöru og fleira í reikning sinn. Bóndi var í vanskilum og fekk það svar, að hann gæti aðeins fengið helming af umbeðinni úttekt. Þótti honum súrt í broti, veik úr búðinni, en kvaðst mundu koma aftur. Eftir nokkra stund kemur Einar í Aldarminni og biður um, að bóndi fái vörurnar gegn sinni ábyrgð, og bætir síðan við eins og til skýringar: ,,Hann þarf þessa með fyrir konu sína og börn; hann var fyrir mörgum árum háseti hjá mér.“ Einar átti talsverða inneign, og bóndi fekk samstundis það, sem hann bað um.

Sjósóknin á brimslóðunum á Eyrum var strangur og kröfuharður reynsluskóli. En þeir, sem stóðust raunina, efldust að andlegum og líkamlegum þroska og uxu að manngildi. Þegar formennska gekk í ættir mann fram af manni, eins og algengt var, varð sjómennskan að nokkurs konar kynfestu. Það er því engin tilviljun, að verstöðvarnar austanfjalls hafa lagt íslenzkri sjómannastétt til marga úrvalsmenn á þessari öld.

Leave a Reply

Close Menu