Kalastaðir

Kalastaðir

Kalastaðir voru hjáleiga frá Stokkseyri og er getið fyrst í bændatali 1681. Um nafnið er nokkur ágreiningur. Í bændatali 1681, sem er elzta heimildin, er ritað Kalastaðir, í manntali 1703 Kaðalstaðir og í Jarðab. ÁM. 1708 Kaðlastaðir. Í yngri heimildum eru þessi nöfn notuð sitt á hvað, einkum hið fyrstnefnda og hið síðastnefnda. Enginn vafi er á því, að fyrri liðurinn í nafninu er mannsnafn, annaðhvort Kali eða Kaðall (keltn. Kathal). Bæði þessi nöfn koma fyrir hér á landi í fornöld (sbr. Nafnaskrá við Íslendinga sögur, Rvík 1949), og bæjanöfnin Kalastaðir og Kaðalstaðir þekkjast einnig annars staðar á landinu. Ógerningur virðist vera að skera úr um það, hvort nafnið sé upphaflegra hér af þessum tveimur, en þriðja nafninu, Kaðlastöðum, ber algerlega að hafna sem misheppnaðri skýringartilraun. Vér höfum valið Kalastaði í samræmi við elztu heimildina og almennan framburð. Kalastaðir fylgdu lengstum Stokkseyrartorfunni, og eru ¾ hlutar þeirra eign ríkissjóðs ásamt henni síðan 1935. En fjórðung úr Kalastöðum eignaðist Ólafur kaupmaður Árnason á Stokkseyri. Árið 1933 seldi frú Margrét, ekkja hans, part þennan Sigurði bónda Sigurðssyni á Stokkseyri, og er Katrín, ekkja Sigurðar, nú eigandi hans.

 

This Post Has One Comment

Leave a Reply

Close Menu