Holt

Holt

Holt kemur fyrst við sögu árið 1508, svo að vitað sé, í sambandi við jarða. kaup. Hinn 30. nóv. það ár keypti Páll Þórðarson jörðina Hróarsholt í Flóa af Stefáni biskupi Jónssyni og galt upp í andvirðið m. a. jarðirnar Tóftir og Holt í Gaulverjabæjarsókn í Flóa, svo sem mælt er í bréfinu, biskupinum og hans eftirkomendum til ævinlegrar eignar og frjáls forræðis ( Ísl. fornbrs. VIII, 253-55). Þeir Páll Þórðarson í Hróarsholti og Stefán biskup Jónsson eru því fyrstu eigendur Holts, sem kunnugt er um. Aftur varð Holt bændaeign, áður en langir tímar liðu, því að á 17. öld var hún í eigu Stokkseyrarættarinnar. Hefir þá Magnús sýslumaður á Leirubakka á Landi, sonur Bjarna lögréttumanns Sigurðssonar á Stokkseyri, átt jörðina, því að árið 1708 eru tvö af börnum Magnúsar eigendur hennar, þau Guðmundur bóndi á Leirubakka og Ingiríður, kona Bjarna prófasts Hallgrímssonar í Odda á Rangárvöllum, sinn helminginn hvort (Jb. ÁM. Il, 48). Um miðja 18. öld átti Jón Pálsson á Eyrarbakka hálfa jörðina, en þrír menn áttu hinn helminginn, þar á meðal ábúendurnir Ásgrímur Eyvindsson og tengdasonur hans, Ingimundur Bergsson (Þingb. Árn. 14. sept. 1750). Af þessum mönnum hefir Brynjólfur sýslumaður Sigurðsson í Hjálmholti sennilega keypt Holtið, því að Einar lögsagnari, sonur hans, er talinn eigandi þess árið 1773 að föður sínum nýlega látnum (Þingbók Ám.). Á 19. öld eignaðist Þorleifur ríki Kolbeinsson á Háeyri jörðina, og kom hún í erfðahlut Kolbeins, sonar hans. Árið 1887 seldi Kolbeinn hana Jóni hreppsnefndaroddvita Jónssyni í Holti. Síðan 1926 hefir Sigurgrímur í Holti, sonur Jóns, verið eigandi allrar jarðarinnar. Holt var 10 hndr. að fornu mati, en er nú metið á 17,48 hndr. Þessar hjáleigur fylgdu jörðinni: Breiðamýrarholt og Holtshjáleiga, einnig nefnd Heimahjáleiga, er var í byggð stuttan tíma á seinni hluta 17. aldar.

Landamerki

Landamerki Holts ásamt hjáleigunni Breiðamýrarholti eru þessi:

1) Milli Holts og Votmúla: úr Gelti, sem er hornmark beggja jarðanna, beina línu í vörðu, sem er ofanvert við Morgunrimana. Á þessari linu skal stefnan vera sú, að Digruvörðu beri í Bárarsmiðju.

2) Milli Holts og Hæringsstaða: úr áðurnefndri vörðu ofanvert við Morgunrima, sem er hornmark beggja jarðanna, sjónhending í Litla-Holtssel. Á línu þessari eru kakkavörður hér og þar í mörkum. Úr Litla-Holtsseli sjónhending í Valhöll; úr Valhöll sjónhending í Kúfhól (þ. e. Vöðlahól); úr Kúfhól sjónhending í efri Ormstjarnarenda; úr syðri enda Ormstjarnar beina línu í vörðu á nyrðri Laskalækjarbakka. Ræður síðan Laskalækur landamerkjum alla leið út að Tóftalandi, og er þar lítil þúfa í lækjarbakkanum, sem er mark milli Holts og Tófta.

3) Milli Holts og Tófta: úr síðastnefndri vörðu sjónhending í Fremri-Skyggni í Holtsheiði; úr Fremri-Skyggni sjónhending í vörðu á Langarima; úr þeirri vörðu sjónhending í þúfu vestast í Breiðamýrarholtsheiði; úr þessari vörðu sjónhending í Ívarshól.

4) Milli Holts og Stokkseyrar: úr Ívarshól sjónhending í Gölt, sem fyrst var nefndur (Landamerkjabók Árnessýslu, nr. 223).

Landskostum í Holti lýsir ÁM. þannig: ,,Fóðrast kann 6 kýr, 12 ær, 6 lömb, þrír hestar. Torfrista og stunga sæmileg. Móskurður til eldiviðar meinast vera, en brúkast ei. Engið votlent úr máta, þegar vætur ganga, og spillist af vatni því, er í lægðum stendur. Hætt er kvikfé um vetur fyrir holgryfjulækjum, þá snjó og ís leggur yfir, og hefir stundum að því skaði orðið.“ (Jb. 1708, II, 49). Á þeim tíma, sem kunnugt er um ábúendur í Holli, hafa niðjar Bergs hreppstjóra Sturlaugssonar í Brattsholti lengst af setið þar að búi eða um 185 ár, fyrst Ingimundur Bergsson, þá Þorgrímur Bergsson og niðjar hans í rúma öld og loks afkomendur Jóns Bergssonar síðan 1888.

Leave a Reply

Close Menu