Ásgautsstaðir 1

Ásgautsstaðir 1

Ásgautsstaða er fyrst getið í Landnámu: „Ölvir hafði landnám allt fyrir útan Grímsá, Stokkseyri ok Ásgautsstaði (Íslendinga sögur I, 220). Ásgautur sá, er bærinn er við kenndur, er hvergi nefndur annars staðar en í bæjarnafninu. En líklegt má telja, að hann hafi verið skjólstæðingur Hásteins landnámsmanns Atlasonar eða sona hans.

Jarðirnar Stokkseyri og Ásgautsstaðir voru í sömu eign á miðöldum, svo lengi sem heimildir kunna frá að greina. Árið 1471 seldi Árni bóndi Sæmundarson hálfa Stokkseyri og alla Ásgautsstaði Jóni sýslumanni Ólafssyni í Klofa á Landi, föður Torfa ríka ( Ísl. fornbrs. V, 618), en fám árum áður hafði Jón keypt hinn helming Stokkseyrar af móður Árna. Eftir það voru jarðir þessar í eigu Stokkseyrarættar báðar saman allt til loka 18. aldar. Síðasti sameiginlegi eigandi beggja jarðanna var mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum, dótturdóttir Stokkseyrar-Dísu. Hinn 12. nóv. 1793 seldi hún Jóni skipasmið Snorrasyni Ásgautsstaði fyrir 120 ríkisdali (Veðmálabók Ám. 1795). Seljanda er að vísu ekki getið, en þetta er vafalaust. Þar með hurfu Ásgautsstaðir úr eigu Stokkseyrarættar eftir 320 ár.

Eftir þetta átti Jón Snorrason og erfingjar hans Ásgautsstaði í 70 ár og sumpart nokkru lengur. Árið 1863 keypti Bjarni Hannesson í Óseyrarnesi hálfa jörðina af Helga Jónssyni, tengdasyni Jóns Snorrasonar. Þegar síra Páll Mathiesen fluttist að Ásgautsstöðum árið 1867, náði hann kaupum á allri jörðinni. Seljendur voru Bjarni Hannesson að sínum helmingi, Jón Jónsson í Dvergasteinum, tengdasonur Jóns Snorrasonar, að 4 hundruðum og Sigurður Teitsson í Neistakoti, sem átti sonardóttur Jóns Snorrasonar, að 1 hundraði. Árið 1871 hafði síra Páll makaskipti við stiftsyfirvöldin á Ásgautsstöðum fyrir Villingaholt, og voru Ásgautsstaðir þá ákveðnir sem prestssetur í Stokkseyrarprestakalli. Eigi sátu prestar þar þó lengur en til 1884, en höfðu þó eftir sem áður umráð með byggingu jarðarinnar. Loks seldi kirkjumálastjórnin jörðina árið 1927 Árna hreppstjóra Tómassyni. En árið 1931 stofnuðu 9 menn á Stokkseyri félag með sér í því skyni að kaupa og nytja Ásgautsstaði. Nefnist það Ásgautsstaðafélag, og hefir það átt og nýtt jörðina síðan, en sjálf fór jörðin í eyði árið 1918. Býli Árna hreppstjóra Tómassonar, Bræðratunga, er byggt að mestu úr landi Ásgautsstaða.

Landamerki

Þessi eru landamerki jarðarinnar:

  1. Að sunnan móti Stokkseyrarhverfi ræður svokölluð Langadæl frá Selslækjarmynni austur úr, síðan úr austurenda Löngudælar sjónhending yfir heiðina í Ásgautsstaðavatn við Árkvarnarlækjarós.
  2. Að austan móti Syðsta-Kekki bein lína yfir Ásgautsstaðaeyju frá vörðu á suðurbakka eyjarinnar í klöpp fyrir norðan vatnið í útnorðursstefn
  3.  Að norðan Ásgautsstaðavatn fyrir norðan eyjuna, svo langt sem hún nær.
  4. Að vestan Selslækur alla leið úr Ásgautsstaðavatni, þar til hann rennur út í hina fyrrnefndu Löngudæl. – Þess utan eiga Ásgautsstaðir fría beit á Stokkseyrarmýri, torfristu og mótak, einnig slægjur að tiltölu við kringumliggjandi jarðir, enn fremur þangrif við sjó og fjörubeit

(Veðmálab. Ám., þinglesið 15. júní 1886).

Ásgautsstaðir voru 10 hundruð að fornu mati með hjáleigunni Bugum.

Landskostum lýsir ÁM á þessa leið: ,,Fóðrast kann á allri jörðinni 4 kýr. Fyrir það kvikfé, sem meira er, fá ábúendur sér slægjur á Stokkseyrarmýri og af Jórvík og fleirum jörðum hér nálægt fyrir litla þóknun og óákveðna greiðasemi. – Torfrista og stunga engin í heimalandi. En landsdrottinn leyfir ábúanda að rista torf til húsa og heyja ókeypis í Stokkseyrarlandi. Elt er taði og þangi, sem ábúendur fá af Stokkseyrarfjöru. Selstaða hefir áður brúkazt yfir 20 ár frá þessari jörðu á Stokkseyrarmýri ókeypis, en hefir af lagzt í næst.liðin 12 ár, og vita menn ei víst, hvort jörðin á þessa selstöðu með skyldu eður hefir landsdrottinn, sem þá bjó að Stokkseyri, lagt þetta til af góðvilja um sína tíð. Engjunum spilla lækir með landbrotum um vetur og jakaburði, sem spillir grasrótinni.” (Jarðab. 1708, II, 56-57).

This Post Has One Comment

  1. uu

Leave a Reply

Close Menu