047-Eldiviður

Orðið eldiviður, sem almennt var notað um hvers konar eldsneyti, bendir til þeirra löngu liðnu tíma, er viður var eina eða næstum því eina eldsneytið hér á landi. En skógarnir eyddust skjótt í flestum byggðum landsins, og öflun eldiviðar varð hvarvetna hið mesta vandamál. Að vísu mun móskurður hafa tíðkazt hér allt frá landnámstíð, en víða var engan mó að finna, jafnvel í heilum sveitum, eða þá svo lélegan, að lítt kom að gagni. Snemma munu menn því hafa gripið til þess ráðs að nota tað eða skán til eldsmatar, og var það þó sannkallað óyndisúrræði, því að sízt var hinn dýrmæti áburður of mikill, þótt allur hefði farið til eðlilegra nota. En nauðsyn braut lög í eldiviðarlausu landi. Bezt voru þeir settir, sem bjuggu að þangfjörunum við sjóinn, eins og sjávarbændurnir í Stokkseyrarhreppi. Á slíkum stöðum, þar sem þangið óx ótæmandi um allar fjörur, var það höfuðeldsneyti manna og talið til hinna mestu hlunninda um langan aldur.

Fyrstu greinilegu upplýsingarnar um eldsneytisnotkun á einstökum jörðum er að finna í jarðabókinni 1708. Þar er móskurður nefndur á aðeins fjórum jörðum í Stokkseyrarhreppi: Holti, Stokkseyri, Rekstokki og Nesi, á þá lund, að hann er talinn vera til staðar eða hafa verið, en sé ekki notaður. Er af því sýnt, að í byrjun 18. aldar var mór hvergi notaður til eldsneytis í hreppnum, en hafði verið það eitthvað áður. Því miður skortir mjög heimildir um þetta efni síðan, en það er ætlun mín, að lítið hafi kveðið að mótaki í hreppnum almennt fyrr en á síðara hluta 19. aldar og einkum eftir að fólki tók að fjölga þar um og eftir 1880 og eldsneytisþörfin að vaxa að sama skapi. Til þess benda m. a. ummæli Sigurðar Guðmundssonar á Gamla-Hrauni (f. 1868) um eldsneyti Hraunshverfinga, er hann var að alast upp: ,,Sáralítið var haft til eldiviðar annað en þang, skán lítið eitt undan lömbum, en enginn mór var tekinn lengi fram eftir.“[note]Saga Hraunhverfis á Eyrarbakka, 132.   [/note] Þetta kann þó að hafa verið eitthvað mismunandi eftir aðstæðum á ýmsum stöðum í hreppnum. Bjarni Júníusson hefir það eftir gömlu fólki, að mó hafi verið brennt, þegar það man fyrst eftir, og sjálfur hyggur hann, að það hafi verið gert á flestöllum býlum í sveitinni eftir miðja síðustu öld. Kemur það nokkurn veginn heim við það, sem áður er sagt.

Mótak er víða á Breiðamýri, en þó ekki alls staðar, og þótti mórinn ekki góður. Mótak Stokkseyringa var á tveimur stöðum, svonefndur Vesturmór eða Selsmór fyrir ofan Sel og Austurmór eða Kakkarmór fyrir ofan Hoftún. Niður að mónum voru aðeins 1-2 skóflustungur, en mórinn sjálfur 1-3 skóflustungur. Þegar tekinn var mór, var honum fyrst hlaðið á mógrafarbakkann, en eftir nokkra daga var hann borinn á handbörum og breiddur á þúfurnar. Þar var hann svo handleikinn á ýmsan hátt, unz hann var orðinn þurr, en þá var honum hlaðið upp í mókistu og altyrfður. Síðan drógu menn hann heim á sleðum á sjálfum sér, þegar ís var eða sleðafæri á vetrum, og ekki var fátítt, að konur úr Stokkseyrarhverfi þyrftu að bera móinn í poka á bakinu um 3 km. leið. Árið 1905 tóku þeir Sigurmagnús Eyjólfsson og Sveinn Pálsson í Vestri-Bræðraborg að sér að flytja smjörið frá Baugsstaðarjómabúi til Reykjavíkur og upp úr því fóru þeir að flytja heim mó fyrir fólk á hestvögnum og hestasleðum. Eftir að farið var að leggja Kakkarveginn, tóku menn sjálfir að flytja heim móinn úr Austurmónum á hestvögnum. Seildust þá líka fleiri til að taka móinn þar, en áður voru það nær einungis austurhverfingar, svo sem fyrir austan Strönd, sem notuðu Austurmóinn.

Á heimsstyrjaldarárunum fyrri 1914-1918 var útlent eldsneyti afar dýrt og torfengið, og var þá mikil stund lögð á mótekjuna. Vorið 1918 var sett og samþykkt á hreppsfundi reglugerð um mótekju í landi Stokkseyrartorfunnar og sérstakir umsjónarmenn kosnir til eftirlits með mósvæðunum, tvennir í Austurmónum, sitt hvorum megin vegarins, og hinir þriðju í Vesturmónum. Enn fremur voru kosnir þrír yfirumsjónarmenn með öllu mótakinu þeir Bjarni Grímsson, Stokkseyri, Gísli Pálsson, Hoftúni og Júníus Pálsson, Syðra-Seli. Þessi skipan mun hafa leystst upp af sjálfu sér eftir að stríðinu lauk. Í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar í marzmánuði 1940 hóf Helgi Sigurðsson máls á því á hreppsnefndarfundi, að nefndin beitti sér fyrir því að athugað yrði að fá land á næsta vori til mótekju fyrir hreppsbúa annaðhvort innan sveitarinnar, ef hæft væri, eða þá í öðrum sveitum, þar sem skilyrði væru góð. Benti hann á Hæringsstaðaland sem líklegan stað, ef rannsókn leiddi í ljós, að þar væri nothæfur mór. Væri þetta mjög aðkallandi, þar sem horfur væru á, að kol yrðu afar dýr á næstunni og ef til vill ófáanleg. Var öll hreppsnefndin þessu samþykk og kaus þrjá menn til þess að hafa mál þetta með höndum, þá Böðvar Tómasson, Helga Sigurðsson og Símon Sturlaugsson. Mun reynslan úr fyrra stríðinu hafa ýtt hér undir. En svo fór, að einmitt á þessu ári mátti segja, að saga mótekjunnar í Stokkseyrarhreppi væri á enda kljáð. Margir verkamenn komust þá í fasta atvinnu og höfðu ekki tíma til að sinna mótekju. Var þá á næstu árum nær eingöngu brennt kolum, sem reyndust ekki eins torgæt og við var búizt, og síðan tók rafmagnið við. Og hver mundi hugsa framar til móskurðar, eftir að rafmagn er komið?

Eins og áður er sagt, var mór hvergi notaður í Stokkseyrarhreppi í byrjun 18. aldar. Hvaða eldsneyti höfðu menn þá? Því er fljótsvarað: aðeins tað og þang, Á nokkrum bæjum uppi í sveitinni, Hólum, Leiðólfsstöðum, Hæringsstöðum, Holti, Tóftum og Brattsholti, var eingöngu elt taði, en alls staðar annars taði og þangi, og á sjávarjörðunum er tekið fram, að elt sé þangi mestan part. Þar sem ábúendur voru langflestir í hverfunum á Stokkseyri, Hrauni, Skúmsstöðum og Háeyri, er auðætt, að þangið hefir verið langveigamesta eldsneytið í hreppnum á umræddum tíma, og mun svo hafa verið öldum saman. Var þetta tvenns konar eldsneyti notað með líkum hætti fram á daga þeirra manna, sem nú lifa. Þess má og geta, að alsiða var til eldiviðardrýginda að tína hrossatöð út um haga á vorin, og unnu að því konur og unglingar. Hefir það sennilega verið gamall siður. Í eldiviðarleysi á útmánuðum var rifinn mosi {grámosi) og þurrkaður í eld. Muna fullorðnir menn vel til þessa.

Allir þeir, sem á grasbýlum bjuggu, höfðu leyfi til að afla þangs í fjörunni. Auk þess hafði hvert býli ákveðið rekavik, og máttu ábúendur hirða allt þang, sem þar rak á land. Undanfæri var svo mikið í fjörunni, að aldrei þurfti að ganga nærri þanginu, og mátti kalla, að það væri óþrjótandi. Þurrabúðarmenn í Stokkseyrarhverfi urðu að fá sérstakt leyfi landsdrottins til þangtekju, en annars var þeim ætlað ákveðið svæði, þar sem þeim var frjálst að afla þangs eflir vild. Svæði þetta náði frá því vestan til við Kalastaði og út að Bjarnavörðu og var kallað Almenningur, en þar fyrir vestan og til Hraunsmarka áttu Selin þangtekju. Áttu þurrabúðarkonurnar í hverfinu mörg sporin út á Almenning og heim aftur með þangbyrðar á bakinu, oft kaldar og illa búnar með barn sér við hönd. Í önnur hús var ekki að venda um eldsneyti á fátækum heimilum, og þangið kostaði ekki peninga.

Í þangfjöru var farið á öllum tímum árs, ef þurfa þótti. Var þangið skorið með sigð eða ljá, venjulega undir vind, sem kallað var, eða þegar hafátt var, svo að það ræki sjálfkrafa á land. En aðalþangtekjan var á vorin um Jónsmessuleytið og svo aftur tvisvar á haustin. Þegar skorið var undir vind, kom oft fyrir, að veður breyttist og allt ræki til hafs eða á annarra land og færi þannig forgörðum fyrir þeim, sem skorið höfðu. Því fundu menn upp á því nokkru fyrir aldamót að skera í net. Fór það fram með þeim hætti, að net var breitt á skerið og þangið látið á netið og það síðan dregið saman, er fullt þótti. Síðan var beðið eftir flóðinu og netinu þá með öllu saman róið í land. Við þetta vannst það, að þangið tapaðist ekki út í buskann. Erfitt gat verið og einkum vossamt að fara í þangfjöru.

Allmikla umhirðu þurfti þangið, ef vel átti að vera. Þegar lokið var að bera eða reiða það upp úr fjörunni, var það breitt upp á sand eða slétta bakka og helzt látið rigna, því að það logaði miklu betur, ef seltan fór úr því. Þegar það var orðið þurrt, var það sett upp í kesti líkt og hey og tyrft vel yfir. Síðan sóttu menn í köstinn eftir hendinni. Þangið var ódrjúgur eldiviður og þurfti mikið af því, en afar hitamikið. Varð oft að bæta á eldinn, en hins vegar tók ekki langa stund að elda eða hita við það. Eftir að hlóðaeldhúsin gömlu hurfu úr sögunni og eldavélar ruddu sér til rúms, var saga þangsins sem eldsneytis líka brátt á enda, því að það þótti ekki heppilegur eldiviður í vélarnar. Það mun hafa verið um eða fyrir 1920, sem hætt var þangskurði á Stokkseyri, enda var þangbrennsla þar orðin mjög lítil um þær mundir.

Leave a Reply

Close Menu