012-Landafundir Bjarna Herjólfssonar

012-Landafundir Bjarna Herjólfssonar

Eigi má skiljast svo við Stokkseyringa á söguöld, að ekki sé getið þess manns, sem víðkunnastur er þeirra allra. Sá maður er Bjarni Herjólfsson frá Drepstokki, sem að sögn Grænlendingasögu fann. Vesturálfu fyrstur norrænna manna. Eins og kunnugt er, eignar Eiríks saga rauða þennan landafund Leifi heppna Eiríkssyni, en minnist ekki á ferðir Bjarna. Fyrir fáum árum sýndi Jón Jóhannesson fram á það með samanburði þessara sagna innbyrðis og við aðrar heimildir, að Grænlendingasaga sé eldri og traustari heimild, og taldi miklar líkur til þess, að frásögn hennar sé sannsöguleg.[note]Nordæla, Reykjavík 1956, 149-158.[/note] Því skal greina hér nánara frá hinni sögulegu ferð Bjarna Herjólfssonar.

Herjólfur Bárðarson, faðir Bjarna og frændi Reykvíkinga, var fyrst bóndi á Drepstokki. En er Eiríkur hinn rauði fór að byggja Grænland, tók Herjólfur sig upp og fór með honum og nam þar land. Hann bjó á Herjólfsnesi, sem nú er einn af merkustu sögustöðum Grænlands, og var hinn göfgasti maður.

Af Bjarna er það að segja, að hann var hinn efnilegasti maður og fór utan þegar á unga aldri, og varð honum gott til fjár og mannvirðingar. Var hann sinn vetur hvort, utan lands eða með föður sínum á Drepstokki. Hann átti brátt skip í förum, og hinn síðasta vetur, er hann var í Noregi, brá Herjólfur til Grænlandsferðar með Eiríki, en það sama sumar kom Bjarni skipi sínu á Eyrar, er faðir hans hafði brott siglt um vorið. Segir nú sagan svo frá tiltekjum Bjarna og ferðum hans: ,,Þau tíðindi þóttu Bjarna mikil og vildi eigi bera af skipi sínu. Þá spurðu hásetar hans, hvað er hann bærist fyrir, en hann svarar, að hann ætlaði að halda siðvenju sinni og þiggja af föður sínum veturvist, – „og vil eg halda skipinu til Grænlands, ef þér viljið mér fylgd veita.“Allir kváðust hans ráðum fylgja vilja. Þá mælti Bjarni: ,,Óviturleg mun þykja vor ferð, þar sem engi vor hefir komið í Grænlandshaf.“ En þó halda þeir nú í haf, þegar þeir voru búnir, og sigldu þrjá daga, þar til er landið var vatnað, en þá tók af byrina og lagði á norrænur og þokur, og vissu þeir eigi, hvert að þeir fóru, og skipti það mörgum dægrum. Eftir það sáu þeir sól og máttu þá deila ættir, vinda nú segl og sigla þetta dægur, áður þeir sáu land, og ræddu um með sér, hvað landi þetta mun vera, en Bjarni kveðst hyggja, að það mundi eigi Grænland. Þeir spyrja, hvort hann vill sigla að þessu landi eða eigi. Bjarni svarar: ,,Það er mitt ráð að sigla í nánd við landið.“ Og svo gera þeir og sáu það brátt, að landið var ófjöllótt og skógi vaxið og smáar hæðir á landinu, og létu landið á bakborða og létu skaut horfa á land. Síðan sigla þeir tvö dægur, áður þeir sáu land annað. Þeir spyrja, hvort Bjarni ætlaði það enn Grænland. Hann kvaðst eigi heldur ætla þetta Grænland en hið fyrra, – ,,því að jöklar eru mjög miklir sagðir á Grænlandi.“vÞeir nálguðust brátt þetta land og sáu það vera slétt land og viði vaxið. Þá tók af byr fyrir þeim. Þá ræddu hásetar það, að þeim þótti það ráð að taka það land, en Bjarni vill það eigi. Þeir þóttust bæði þurfa við og vatn. ,,Að engu eruð þér því óbirgir,“ segir Bjarni, en þó fekk hann af því nokkuð ámæli af hásetum sínum. Hann bað þá vinda segl, og svo var gert og settu framstafn frá landi og sigla í haf útsynnings byr þrjú dægur og sáu þá land hið þriðja, en það land var hátt og fjöllótt og jökull á. Þeir spyrja þá, ef Bjarni vildi að landi láta þar, en hann kvaðst eigi það vilja, – ,,því að mér lízt þetta land ógagnvænlegt.“ Nú lögðu þeir eigi segl sitt, halda með landinu fram og sáu, að það var eyland, settu enn stafn við því landi og héldu í haf hinn sama dag. En veður óx í hönd, og bað Bjarni þá svipta og eigi sigla meira en bæði dygði vel skipi þeirra og reiða, sigldu nú fjögur dægur. Þá sáu þeir land hið fjórða. Þá spurðu þeir Bjarna, hvort hann ætlaði þetta vera Grænland eða eigi. Bjarni svarar: ,,Þetta er líkast því, er mér er sagt frá Grænlandi, og hér munum vér að landi halda.“ Svo gera þeir og taka land undir einhverju nesi að kveldi dags, og var þar bátur á nesinu. En þar bjó Herjólfur, faðir Bjarna, á því nesi, og af því hefir nesið nafn tekið og er síðan kallað Herjólfsnes. Fór nú Bjarni til föður síns og hættir nú siglingum og er með föður sínum, meðan Herjólfur lifði, og síðan bjó hann þar eftir föður sinn.“[note]Íslendinga sögur I, 366-368.[/note]

Þessi ferð Bjarna Herjólfssonar hefir verið farin 985 eða 986. Þeir Bjarni og félagar hans sögðu frá landafundum sínum, og fekk Bjarni nokkurt ámæli af því, hversu óforvitinn hann hafði verið, er hann hafði eigi kannað lönd þau, er hann hafði fundið. En af þessu hófst mikil umræða um að leita þessara landa. Til þess varð Leifur hinn heppni. Hann fór á fund Bjarna Herjólfssonar, keypti skip af honum og réðst til ferðar. Þarf eigi að efa, að Leifur hefir notið leiðbeiningar Bjarna og fært sér í nyt ábendingar hans og reynslu. Í þeirri ferð fann Leifur Vínland hið góða og fleiri lönd á meginlandi Vesturálfu, sem frægt er orðið.

Þó að Bjarni Herjólfsson kannaði hvorki né næmi lönd þau, er hann fann, verður það ekki af honum dregið, að hann varð brautryðjandi landafundanna í vestri, maðurinn, sem vísaði veginn til nýrrar heimsálfu.

Leave a Reply

Close Menu