056-Veiðafæri og beita

Eina veiðarfæri Íslendinga um aldir var handfærið, sem þeir fluttu með sér hingað til lands úr átthögum sínum. Um veiðiskap er víða getið í fornum heimildum, og má til gamans minna á fornt mál um fiskidrátt. sem kemur fram í orðum Ólafs konungs helga við Þormóð Kolbrúnarskáld: ,,Framar hefir þú þá gert um vígin á Grænlandi en fiskimaðurinn kallar aflausn vera fiskinnar, því að hann kallast leysa sig, ef hann dregur fisk fyrir sig, en annan fyrir skip sitt, þriðja fyrir öngul, fjórða fyrir vað.“[note]Íslendinga sögur V, 328 (Fóstbræðra saga, 24. kap.). [/note] Bendir þetta til þess, að mönnum hafi þótt róður bera viðunanlegan árangur, ef þeir fengu eigi minna en 4 fiska til hlutar.

Í Guðmundar sögu Arngríms ábóta, sem áður hefir verið nefnd, er elzta lýsing á fiskidrætti, og á hún jafnt við síðari tíma, en hún er á þessa leið: ,,Sá dráttur er svo laginn, að menn róa út á víðan sjá og setjast þar, sem fjallasýn landsins merkir eftir gömlum vana, að fiskurinn hafi stöðu tekið. Þess háttar sjóreita kalla þeir mið. Skal þá renna réttri línu út af borðveginum niður í djúpið og festa stein með neðra enda, að hann leiti grunns. Þar með skal fylgja bogið járn, er menn kalla öngul, og þar á skal vera agnið til blekkingar fiskinum. Og þann tíma, sem hann leitar sér matfanga og yfir gín beituna, grefur oddhvasst og uppreitt járnið hans kjaft, síðan fiskimaðurinn kennir hans viðurkomu og kippir að sér vaðinum, dregur hann svo að borði og upp á skip.“[note]Byskupa sögur Ill, Rvík 1948, 487.[/note] Svo koma tvær jartegnasögur um fátæka fiskimenn, annan í Grímsey og hinn í Vestmannaeyjum, sem misstu færi sín í sjóinn með öllu saman, og hétu á Guðmund góða sér til árnaðar, að þeir fengju færin aftur. Varð hinn sæli biskup við áheiti þeirra beggja, þótt óvænlegt sýndist.

Færið er, eins og kunnugt er, mjög einfalt að gerð. Línan var ýmist höfð fertug eða sextug að lengd. Sakkan var venjulega ávalur, sporöskjulagaður steinn, allt að einu kílógrammi að þyngd, með skoru klappaðri á rendurnar til þess að festa þar um öngultaum og línu; á síðari tímum var sakkan stundum úr blýi. Öngultaumurinn var um það bil hálfur annar metri á lengd. Við hann var öngullinn festur, en hann var úr járni og innlend smíð. Þetta var því mjög ódýrt veiðarfæri, enda kom það sér vel fyrr á tímum. Oft var hörgull á fiskilínum í verzlunum fyrr á öldum, og komu margsinnis fram kvartanir um það. Og alltaf munaði fátækan um fiskilínu, eins og jartegnasögurnar, sem eg nefndi, bera vott um. Í því sambandi kemur mér í hug saga, sem Bjarni Júníusson sagði mér eftir Gísla á Ásgautsstöðum, en hann hafði eftir föður sínum, Gísla Þorgilssyni á Kalastöðum. Þorgils, faðir Gísla, drukknaði í Þorlákshöfn snemma vertíðar 1812, og var Gísli þá 12 vetra gamall. Vildu margir lofa honum að róa á vertíðinni, en hann átti hvorki færi né öngul, og enginn virtist geta miðlað honum því. Hann varð því að sitja í landi heima hjá bjargarlítilli móður sinni og yngri systkinum. Hann átti engan Guðmund góða, sem hann gæti snúið sér til með áhyggjur sínar.

Þegar róið var með handfæri, höfðu allir skipverjar færi sín úti nema andófsmenn. Voru það 2-4 menn eftir því, hve vindur var mikill, og áttu þeir að róa við það hóf, að bein niðurstaða væri á færunum. Stundum var legið við stjóra, einkum á minni skipum og bátum, og renndu þá allir. Þarna unnu menn hver í kapp við annan: beittu öngul, renndu færi, tóku grunnmál, keipuðu, unz fiskur beit á, drógu, innbyrtu og losuðu af öngli og beittu á ný. Þannig gekk koll af kolli. Mikil sveitarbót þótti að þeim mönnum, sem voru fisknir, sem kallað var, en sá eiginleiki var mönnum undarlega misjafnt gefinn, þótt aðstæður virtust öldungis hinar sömu.

Eigi voru önnur veiðarfæri notuð á Stokkseyri og þar um slóðir en handfæri fram yfir miðja 19. öld, en upp úr því kemur lóðin einnig til sögunnar. En lengi eftir það voru færi notuð jafnframt henni, að minnsta kosti fram undir síðustu aldamót. Til marks um það má geta þess, að í samþykktinni um fiskveiðar á Stokkseyri frá 1886 er eftirlitsmönnum m. a. falið að ákveða, hvenær á vertíð skuli nota færi og hvenær lóð.

Byrjað var að fiska með lóð hér á landi í lok 15. aldar, og tóku Íslendingar þá veiðiaðferð eftir útlendingum. Lóðar er hér fyrst getið í skrá um eignir Berufjarðarkirkju eystra árið 1482.[note]Ísl. fornbrs. Vill, 71. [/note] Á seinni hluta 16. aldar var lóðarnotkun orðin almenn, einkanlega vestanlands. Sá siður varð t. d. mjög almennur í Ísafjarðarsýslu, að bændur leyfðu hásetum sínum og heimafólki að eiga nokkra merkta öngla á línunni og þar með þann fisk, sem á þessa svonefndu marköngla kom. En þessi útvegur fátæklinga til að auka lítið eitt tekjur sínar var stranglega bannaður með marköngladómi Magnúsar prúða árið 1567.[note]Sama rit XIV, 598-603.[/note] Eins og jafnan hefir verið, þegar nýtt veiðarfæri ryður sér til rúms, reis upp mikil óánægja út af notkun lóðarinnar. Margir héldu áfram að stunda hinar fornu handfæraveiðar, sumpart vegna þess að þeir höfðu ekki efni á að koma sér upp lóð og sumpart vegna ótrúar á henni, og börðust þeir gegn notkun hennar eftir mætti og töldu hana öllu spilla í veiðistöðum. Átti þessi skoðun svo marga formælendur, að á Snæfellsnesi var öll lóðanotkun bönnuð árið um kring með dómi 1581 og sektir lagðar við, ef út af því væri brugðið.[note]Alþingisb. Íslands I, 434.[/note] Loks lét alþingi mál þetta til sín taka, með því að lögmenn báðir og lögréttumenn létu ganga dóm um það í lögréttu 1586, að allir mættu nota lóðir utan vertíðar, sem vildu. ,,En ef nokkur heldur þeim til fiski um vertíð, þá sé lóðir upptækar kóngs umboðsmanni og þar að auki sekur 4 mörkum við kóng fyrir dómrof, en sá fiskur fallinn til fátækra manna í sveitinni, sem fengizt hefir á lóðirnar í lagabroti.“[note]Sama rit II, 74. [/note] Þessi dómur gilti sem lög lengi síðan og stuðlaði mjög að því að halda fiskveiðum landsmanna í hinu gamla horfi. Þó hélzt lóðanotkun við að vissu marki bæði vestanlands, norðan og austan á vor- og haustvertíðum, og um 1780 tók hún aftur að gerast almenn við Breiðafjörð og ef til vill víðar. Að sögn Skúla Magnússonar landfógeta var lóðin um sömu mundir að hverfa úr notkun í Gullbringu- og Kjósarsýslu, en oft hafi hún komið að góðu gagni á sumrum.[note]Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu, Rvík 1935-36, 62. (Landnám Ingólfs 1).[/note]

Það vekur óneitanlega furðu, að þrátt fyrir aldagamla notkun lóðar hér á landi, eins og nú hefir verið sýnt, skuli þessi veiðiaðferð aldrei hafa verið notuð í verstöðvunum austanfjalls fyrr á tímum. Á seinna hluta 18. aldar var t. d. mikið flutt af lóðarlínum til Eyrarbakka, en aldrei virðist nein þeirra hafa í sjó komið, heldur verið notaðar til þess að bæta úr almennri snæraþörf sunnlenzkra bænda.

Fyrsti maður, sem lagði lóð í sjó í Stokkseyrarveiðistöð, var Gísli Magnússon formaður í Vestri-Móhúsum árið 1854, og heppnaðist honum það vel.[note]Óðinn X (1914), 46. (Stokkseyri. 25 ára verzlunarafmæli eftir Pál Bjarnason).[/note]  Munu ýmsir hafa tekið það eftir honum á næstu árum, en þó ekki almennt fyrr en 1863. Hinn 21. maí það ár var á manntalsþingi í hreppnum „birt samþykkt skipseigenda og formanna á Stokkseyri um brúkun lóðar á vetrarvertíðinni; samþykktin var dagsett 25. apríl 1863.“[note]Þingb. Árnessýslu.[/note]  Því miður hefi eg hvergi getað fundið samþykkt þessa, en um það er ekki að efast, að þar hefir verið kveðið á um það, hvenær á vertíð skyldi nota handfæri og hvenær lóð, ef til vill einnig um það, hvers konar beitu skyldi nota o. s. frv. Hér sem annars staðar mætti lóðin mótspyrnu í fyrstu og eimdi lengi eftir af því, svo sem sjá má m. a. af ummælum Ísólfs Pálssonar á fundi í Málfundafélaginu á Stokkseyri 5. apríl 1903, þar sem hann taldi, að þverrandi aflabrögð á Stokkseyri stöfuðu fyrst og fremst af of mikilli lóðarnotkun, enda væri það sannað af reynslunni. Síðan heldur hann áfram: ,,Fyrir 40 árum var fyrst farið að brúka lóð hér, og var þá byrjað með 200 af bát hverjum; en svo fór hún smátt og smátt að vaxa, svo að fáum árum liðnum var hún orðin almennt 400, og þótti þá mikið. En eftir því sem fiskur tregaðist, því meir óx lóðin, svo að fáum árum liðnum var hún orðin 800, en þá tóku menn upp á því að hafa tvennar lóðir og lengja hana smátt og smátt líka.“[note]Fundarbók Málfundafélagsins. [/note] Það kemur m. a. fram í orðum Ísólfs, að hann miðar upphaf lóðanotkunar á Stokkseyri við árið 1863, er áðurnefnd samþykkt var gerð.

Eftir að almennt var farið að nota lóðina, þokaði hún handfærunum úr sínu gamla öndvegi. Fyrst höfðu menn einfalda lóð, sem kallað var, þ. e. beittu sömu lóðina, oftast í landi, þegar búið var að taka, og lögðu svo aftur, ef veður leyfði. Síðar var farið að hafa tvennar lóðir, eins og Ísólfur segir, eða tvo ganga, og var þá önnur lóðin beitt í landi, meðan róið var með hina. Þótti sú breyting hættuleg fyrir aflabrögðin, en komst þó brátt á. Fyrst í stað var lóðin stutt, um 1200 önglar, og beittu menn mestmegnis hrognum. Síðar var farið að smálengja lóðina, og var hún höfð allt að 2-3 þúsund önglar í hvorn ganginn á síðustu árum; var þá beitt síld, ef hana var að hafa.[note]Sbr. Óðinn X, 46.[/note]

Lóðin var geymd í stokkum eða bjóðum, og voru 300 önglar í hverjum stokki. Um 1890 var algengast að nota 5-8 stokka í hverjum róðri. Lóðin var lögð fríhendis, en dregin inn á kefli, sem fest var við borðstokkinn um bitann á stjórnborða. Andófsmenn gættu niðurstöðu, en formaður eða sá, er hann fekk til, stóð aftan við bitann og dró lóðina, en annar sat í austurrúmi og hagræddi lóðinni í þar til gerðan laup, og var það kallað að stampa lóðina. Þegar dagar liðu milli róðra, var lóðin stokkuð upp á sérstaka grind, þannig að önglunum var smeygt á víxl upp á tvær jafnháar rimar, og sneru agnhöldin út.[note]Sbr. Saga Eyrarbakka II, 47-48.[/note]

Þorskanet voru fyrst flutt hingað til lands af Skúla Magnússyni landfógeta frá Sunnmæri í Noregi og tekin í notkun í Hafnarfirði árið 1753. Breiddist notkun þeirra út þaðan til verstöðvanna við Faxaflóa og á Snæfellsnesi, en varð þó eigi mjög almenn um sinn, bæði vegna þess að þau voru miklum mun dýrari en hin önnur veiðarfæri, handfærið og lóðin, og auk þess fylgdi sú hjátrú skjótt í kjölfar þeirra, að þau stöðvuðu fiskigöngur og spilltu fyrir annars konar veiðiaðferðum. Fyrsta tilraun, sem kunnugt er um austanfjalls, til þess að veiða þorsk í net var gerð af Níels Lambertsen kaupmanni á Eyrarbakka árið 1800, en hún fekk daufar undirtektir og féll strax niður. Getið er um það, að laxanet voru notuð í Ölfusá á árunum 1807-1809, en það hafði ekki verið gert fyrr.[note]Sama rit II, 56-57.[/note] Þessi dæmi sýna, að netjaveiðar voru mönnum ekki ókunnar austanfjalls, þótt enn liði á löngu, unz þær voru teknar þar upp.

Svo segir Páll Bjarnason í grein sinni í Óðni 1914, sem áður er vitnað til: „Fyrir nær 40 árum byrjaði Karel Jónsson að leggja þorskanet og missti þau fyrstu vertíðina, og féll þá sú tilraun niður.“ Þessi fyrsta tilraun til netjaveiða á Stokkseyri hefir án efa verið gerð á vertíðinni 1877 eftir dvöl Karels suður á Vatnsleysuströnd.

Enn líður og bíður. Þá gerist það, að Gísli silfursmiður Gíslason formaður í Þorlákshöfn byrjar á því að nota þar hnísunet á vertíðinni 1903 í félagi við Pál Grímsson frá Óseyrarnesi. Svo illa tókst til, að netin töpuðust í hafhroða í fyrstu lögn, og varð því ekki meira úr þessari tilraun það ár. Á næstu vertíðum reyndi Gísli aftur og þá með betra árangri. Leiddi þetta til þess, að á vertíðinni 1907 voru þorskanet almennt upp tekin í Þorlákshöfn þrátt fyrir mótspyrnu margra formanna í fyrstu og reyndust hin mesta lyftistöng fyrir útveginn.[note]Sbr. Þorlákshöfn II, 96-101; Saga Eyrarbakka Il, 57-58; Saga Hraunshverfis, 289 -290; Suðurland, 29. okt. 1960.[/note] Þótti Stokkseyringum þá ekki lengur til setunnar boðið, er þessi fengsælu veiðitæki voru komin heim undir bæjardyr hjá þeim. Byrjuðu því nokkrir formenn á Stokkseyri með þorskanet á vertíðinni 1908, og gafst það svo vel, að eftir það var farið almennt að nota þau. Voru nú vélbátar að koma til sögunnar, og fóru þeir með net sín út í Hafnarsjó síðara hluta vertíðar.

Þó að netin væru stórtækari veiðarfæri og hefðu að því leyti yfirburði yfir hin eldri, fylgdi þeim sá ókostur, að þau voru tiltölulega dýr bæði að stofni til og eins í rekstri. Varð og oft geysilegt tap á netjum bæði af völdum togara og sökum þess, að stundum var ekki hægt að vitja um þau dögum saman vegna ógæfta, svo að þau hurfu með öllu. Eftir að vélbátar og netjaveiðar komu til sögunnar, varð útgerðin dýrari og áhættusamari en áður hafði verið, svo að mörgum varð það á að reisa sér hurðarás um öxl í efnalegu tilliti með hagnýtingu þessara nýju veiðitækja.

Sumarið 1908 komu tveir nýir 6 tonna vélbátar, ,,Vonin“ og „Þorri“, til Stokkseyrar með útbúnað til dragnótaveiða að fyrirlagi Jóns Sturlaugssonar hafnsögumanns, sem var einn af eigendum „Þorra“ og formaður á honum og hafði kynnt sér þessa veiðiaðferð í Danmörku eða nánar til tekið hjá fiskimönnum á Skagen á Jótlandi. Eftir vertíð 1909 fór Jón nokkra róðra með dragnótina og fiskaði mjög vel. Aflinn var aðeins koli og tindabikkja, en gallinn var sá, að ekki var aðstaða til að koma honum í verð. Var róðrum því hætt og aldrei reynt með þessu veiðarfæri á Stokkseyri aftur. En með þessum róðrum vorið 1909 mun Jón Sturlaugsson hafa orðið fyrstur manna til þess að fiska með dragnót í íslenzkum sjó.

„Allt er betra en berir önglar,“ segir máltækið. Á tímum handfæranna var öflun beitu ekki teljandi vandamál, því að bæði var, að menn gátu tekið hana úr fiskinum jafnóðum og þeir drógu hann, og auk þess var margt annað notað. Í Gullbringusýslu tíðkaðist t. d. um 1780 til beitu ýmist skelfiskur, biti af kola, hlýra, steinbít eða öðrum nýjum fiski, t. d. silungi eða laxi, kverksigi af nýveiddum þorski, roðinn blóðinu, hrogn, fjörumaðkur, nýtt kjöt af sjófuglum eða ný síld, ef til hennar náðist.[note]Landnám Ingólfs I, 65-66, sbr. enn fremur Ferðabók Eggerts Ólafssonar I, 234-235; Il, 262. [/note] Austanfjalls var á síðari tímum algengast að beita kverksiga og hrognum, og var það kallað ljósabeita. Einnig notuðu menn fjörumaðk, en ágætt maðkasvæði var á svonefndri Leiru út við Hraunsá, og notuðu það bæði Stokkseyringar og Hraunshverfingar. Þá var og öðuskel höfð til beitu ásamt maðkinum, og fannst hún víðs vegar í fjörunni bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka. Auk þess beittu menn selsgörnum og hnísugörnum, og þóttu þær betri beita en maðkur og skel, ef þær voru nýjar, því að á þær veiddist venjulega vænni fiskur.[note] Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 128-129.[/note]

Eftir að lóðir komu til sögu, þurfti fleiri öngla að egna og því beitumagn meira en áður. En alltaf tókst að ráða fram úr því, og æði margvísleg hefir beitan verið á ýmsum tímum og ýmsum stöðum. Í marköngladómi Magnúsar prúða, sem áður er á minnzt, er eigendum markönglanna m. a. það til foráttu fundið, að þeir beiti öngla sína „riklingi, heilagfiski og öðru fiskinum hið fýsilegasta, þar önglar húsbændanna eru beittir þorski og öðru verra, og stundum óbeittir.“[note]Ísl. fornbrs. XIV, 600 -601[/note] En það yrði of langt mál að rekja hér allt, sem tíðkanlegt var í þessu efni. Hins vegar var aðferðin sú á Stokkseyri og þar um slóðir, að vermenn höfðu með sér hrossakjöt og einkum kálfsgarnir, sem beitt var í fyrsta róðrinum á vertíðinni. En er dregið hafði verið um 100 af línunni, var farið innan í, og síðan var stöðugt beitt hrognum eða gotu, sem kölluð var, og slógi úr nýveiddum fiski. Farnir voru 3–4 róðrar á dag, þegar gæftir voru, og meðan menn höfðu aðeins einfalda lóð, var alltaf beitt á sjónum nema í fyrsta róðurinn. Beitt var á þremur stöðum í skipinu, aftast, fremst og í miðið, en erfitt var að koma því við á sexæringunum vegna þrengsla. Þetta var kuldaverk mikið í frosti og sjónepju. Eftir að farið var að nota tvöfalda lóð, önnuðust sérstakir beitningamenn þetta verk í landi, og var þá önnur lóðin beitt, meðan róið var með hina. Beitunni reyndu menn að halda óskemmdri með því að geyma hana í snjó, þegar frátök voru.

Eftir að „Ísfélag Reykjavíkur“ var stofnað og fyrsta frystihús landsins reist þar árið 1894, kynntust menn því fyrst að nota frysta síld til beitu, og urðu mönnum skjótt ljósir kostir hennar fram yfir gotuna og slógið. Tóku formenn austanfjalls þá fljótlega að afla sér síldar í þessu skyni, fyrst í smáum stíl eða til reynslu, og dæmi voru til þess, að vermenn væru sendir gangandi suður til Reykjavíkur á vertíðinni til þess að sækja byrði sína af frystri síld. Ekki voru þó allir á einu máli um ágæti síldar til beitu fyrst í stað. Töldu sumir, að hún spillti fyrir afla með því að hreistrið færi út um sjóinn og fiskurinn elti það og veiddist því illa, ef lagt væri á sama stað. En hvað sem um það var, ruddi síldin sér brátt til rúms. Beitusíldina geymdu menn á þeim árum í nokkurs konar frysti, sem var þannig gerður, að síldin var sett í blikk- eða bárujárns· hólka (strokka), sem látnir voru niður í stórar tunnur, en milli hólksins og tunnunnar var svo settur mulinn klaki með dálitlu salti í, og geymdist hún þannig vel. En þessi aðferð var tafsöm, og hver formaður varð að sjá um sig. Ef menn urðu uppiskroppa með beitu, var sjaldnast í önnur hús að venda, því að fæstir voru aflögufærir. Mönnum varð því ljóst, að stofnun íshúss var hið mesta nauðsynjamál fyrir útgerðina, enda leið ekki á löngu, unz félag var myndað í því skyni. Nefndist það „Ísfélag Stokkseyrar“ og var stofnað í árslok 1899. Með því var vandinn um beituna leystur, en frá íshúsrekstri á Stokkseyri verður sagt sérstaklega hér síðar.

Leave a Reply

Close Menu