012-Félagslífið var mér skóli

Vafalaust var það ungmennafélagshreyfingin, sem átti einna mestan þátt í mótun æskunnar á fyrri hluta þessarar aldar. Ungmennafélagshreyfingin barst hingað til lands frá Noregi á fyrstu árum aldarinnar. Hér féll hún í frjóan jarðveg. Æskan tók henni fengins hendi. Frelsishreyfingar sem gert höfðu vart við sig meðal þjóðarinnar, fengu góðan hljóðgrunn. Unga fólkið hópaðist undir merkið og hét af heilum hug að vinna Íslandi allt. Í félögunum víðsvegar um landið var unnið m. a. að málvernd, þjóðræknismálum, ýmiskonar, íþróttum, bindindi og og heilbrigðis- og skemmtanalífi. Hugsjónir og takmark félagsskaparins var lýsandi kyndill um dreifbýli landsins og eggjaði unga fólkið til sameiginlegra átaka. Ekki aðeins á fyrstu árum félagsskaparins, heldur allt til þessa dags. Eiga ekki hugsjónir ungmennafélaganna stóran þátt í uppbyggingu landsins á síðari árum?

Ungmennafélag Stokkseyrar var stofnað á öndverðu ári 1908, og er því 50 ára á þessu ári. Okkur, sem ólumst upp á fyrstu tugum aldarinnar, dreymdi um að gerast ungmennafélagar. Við litum með aðdáun til forystumannanna; mannanna, sem gátu talað á fundum, æft glímu og leikfimi, léku sjónleiki og æfðu söng. Það væri freistandi að nefna nöfn nokkurra þeirra mörgu karla og kvenna, sem fórnuðu tómstundum sínum í þágu félagsins, en kveðjukornið leyfir eigi slíkan unað.

Það er með stærri viðburðum í lífi mínu, er ég, fjórtán ára gamall, fékk inngöngu í félagið. Þá var Þórður Jónsson, bókari, formaður. Var það ómetanegt félaginu að njóta forystu hans um langt skeið. Eldri og reyndari menn tóku okkur nýiliðunum ágætlega og studdu okkur fyrstu sporin. Við vorum strax látnir taka þátt í störfum undir öruggri handleiðslu. Eitt af því, sem erfiðast reyndist, var að koma fram á fundum og taka þátt í umræðum. Þær voru ekki allar langar eða ýtarlegar jómfrúrræðurnar okkar strákanna. Það var oft mjög skemmtilegt á fundunum, ræður fluttar, lesið úr bókmenntum þjóðarinnar, sungið og að síðustu farið í ýmiskonar leiki eða dansað. Félagslífið var okkur skóli, þroskandi og mannbætandi.

Ungmennafélag Stokkseyrar hefur að vísu, eins og flest félagasamtök önnur, átt við marga erfiðileika að etja, en það sem það hefur gert er miklu meira en það, sem vangert er.

Ég óska félaginu allra heiila, á merkum tímamótum og vona, að það verði æskunni á bernskustöðvum mínum sá skóli, sem það var mér.

Sigurður Eyjólfsson

Leave a Reply

Close Menu