013-Svipmyndir frá æskuárum

Fátt er æskufólki nauðsynlegra en góður félagsskapur. Á æskuskeiði er hugurinn menntgeðja og áhrifagjarn, þá er verið að búa sig undir þau lífsstörf sem valin verða í framtíðinni.

Ungmennafélagsskapurinn setti markið hátt og átti fagra hugsjónir. Það var mikill menningarauki fyrir Stokkseyri þegar ungmennafélagið var stofnað. Það varð nokkurskonar tómstundaheimili. Ungir menn tóku að iðka íþróttir í tómstundum sínum. Námskeið voru haldin á vegum félagsins í íþróttum fyrir pilta og handavinnu fyrir stúlkur. Á hverjum vetri hélt það uppi leikstarfssemi. Fundir voru haldnir sem veittu mönnum tækifæri að koma fyrir sig orði, og reynt var að fá sem flesta til að taka til máls. Urðu oft mjög skemmtilegar kappræður; málin voru sótt og- varin, þar mátti margskonar fróðleik finna mjög var ánægjulegt að hlusta á lestur ljóða og sagna. Aldrei voru svo fundir haldnir að ekki væru sungin ættjarðarljóð.

Við hátíðleg tækifæri var oft leitað til bræðranna Ísólfs og Gísla Pálssona, sem komu með söngkóra sína og var það eitt glæsilegasta skemmtiatriði sem hægt var að fá. Ungmennafélögin höfðu þá bindindisheit á stefnuskrá sinni og sáust þess glögg merki á skemmtunum ungmennafélags Stokkseyrar. Ég minnist björtu vorkvöldanna fyrir austan Háamel, þar sem ungt fólk safnaðist saman og skemmti sér við útileiki, söng og dans. Við munum öll fallega bláa fjallahringinn, sléttu flatirnar, ilminn af blóberginu; fuglasönginn, hvíta fjörusandinn og margt fleira. Minningarnar leita á hugann og myndir seiðast fram. Ég minnist íþróttamótanna að Þjórsártúni sem Íþróttasambandið Skarphéðinn hóf 1909. Þessi mót sóttu margir ungmennafélagar frá Stokkseyri, nokkrir piltar til að taka þátt í íþróttakeppni og við hin til að dá afrek þeirra og skemmta okkur.

Árangur fannst okkur góður, þegar einn kom með 1. verðlaun fyrir fegurðarglímu og annar með Skarphéðinsskjöldinn. Minnisstætt er mér það íþróttamót, þegar Jón Jónatansson, þáverandi þingmaður Árnesinga, sá mikli mælskumaður flutti aðalræðuna og sérstaka athygli vakti hjá mér ræðustóllinn; á hann var letrað með blómum „Íslandi allt“, þetta voru kjörorð ungmennafélaganna. Hvað fellst í þessum orðum?

Ísland hefur brauðfætt okkur og fóstrað, það á þær kröfur á okkur að við vinnum því allt það gagn er við meigum. Af þeim anda ættu skyldustörfin að vera unnin. Því meir sem unnið er landi og þjóð til heilla, því betur eru fósturlaunin greidd.

Ég er þakklát fyrir að hafa verið ungmennafélagi og þeim félagsskap á ég að þakka margar hugljúfar minningar frá æskudögum mínum.

Ég óska Ungmennafélagi Stokkseyrar allra heilla á 50 ára afmælinu og vona það haldi áfram að starfa í þeim anda, sem það gjörði á æskuárum mínum með sömu kjörorðum „Ísland allt“.

Reykjavík, 30. nóvember 1957.

Guðrún Sigurðardóttir

Leave a Reply

Close Menu