048-Búnaðarfélag Stokkseyrar

Nokkru fyrir miðja 19. öld voru fyrstu sveitabúnaðarfélögin stofnuð hér á landi. Voru hin elztu þeirra búnaðarfélag Bólstaðarhlíðar- og Svínavatnshrepps 1842, búnaðarfélag Gnúpverjahrepps 1843 og búnaðarfélag Hrunamannahrepps og framskurðarfélag Hraungerðishrepps, bæði stofnuð 1845. Flest fyrstu búnaðarfélögin liðu undir lok á árunum 1858-1870, en voru endurreist síðar. Um og eftir 1888 komst mikill skriður á stofnun búnaðarfélaga víðs vegar um land, en á því ári var byrjað að veita beinan styrk til þeirra úr landssjóði.[note]Sjá nánara um elztu búnaðarfélögin: Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning I, 220–236. (Búnaðarsamtök á Íslandi 1837-1937).   [/note]

Jón Jónsson – Holti

Eitt þeirra félaga, sem stofnað var 1888, var Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps, sem nú er búið að starfa í röska sjö áratugi. Um stofndag þess er ekki kunnugt, með því að fundargerðir eru ekki til fyrstu árin, sem það starfaði. Aðalhvatamenn félagsstofnunarinnar voru þeir Grímur bóndi Gíslason í Óseyrarnesi, sem var fyrsti formaður félagsins, og Jón Jónsson bóndi og síðar hreppsnefndaroddviti í Holti, sem átti lengi sæti í stjórn þess.

Áður en skýrt verður frá helztu viðfangsefnum félagsins, þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir tekjustofnum þess, þar eð starfsemi þess og framkvæmdir eru að sjálfsögðu öðru fremur háðar fjárhagslegri getu þess. Tekjustofnarnir hafa verið þessir:

Inntökugjöld munu hafa tíðkazt í félaginu frá upphafi, en verið mjög lág, einkum framan af. Er þeirra getið fyrst í reikningum félagsins 1908, og nema inntökugjöldin þá 4 krónum, en ekki sést, hve margir hafa greitt þau. Árið 1922 er gjald þetta 2 krónur á mann, því að þá ganga 7 menn í félagið og greiða samtals 14 krónur. Á aðalfundi 1950 var gjald þetta ákveðið 25 krónur. Inntökugjöldin hafa jafnan verið mjög óverulegur tekjuliður hjá félaginu.

2) Árgjöld félagsmanna. Fram til 1909 var lágmarksárgjald félagsmanna 25 aurar, en sumir greiddu allt að 1 krónu. Áðurnefnt ár var lágmarksgjaldið hækkað upp í 50 aura og litlu síðar upp í 1 krónu. Sumir greiddu þó hærra tillag, t. d. voru 18 menn í félaginu árið 1913, og greiddu 12 þeirra 1 krónu, en 6 þeirra 2 krónur. Árið 1921 var lágmarksgjaldið ákveðið 2 krónur, en á aðalfundi 1927 var það hækkað upp í 5 krónur. Hélzt það til 1943, en þá var það hækkað í 10 krónur, 1946 enn upp í 30 krónur, 1950 í 40 krónur og 1952 í 75 krónur. Félagatalan var lengi framan af lág, en eftir 1928 var hún lengi 40- 60 manns. Á síðustu árum hefir hún lækkað niður í 25-30.

3) Aukaárgjöld vegna vélakaupa. Á árunum 1945-1949 að báðum þeim árum meðtöldum var jafnað niður á félagsmenn aukaárgjaldi vegna vélakaupa. Nam sú niðurjöfnun kr. 4300.00 alls.

4) Landsjóðs- og ríkissjóðsstyrkur til 1924. Frá 1892-1924 voru fáeinar krónur lagðar í félagssjóð árlega af styrk þeim, sem félaginu var úthlutaður úr landsjóði og ríkissjóði að tiltölu við unnin dagsverk félagsmanna að ýmiss konar jarðabótum. Hlutur félagssjóðs á öllu þessu tímabili nam samtals kr. 298.69 eða kr. 9.64 að meðaltali á ári.

5) Jarðabótastyrkur. Eftir að jarðræktarlögin komu til framkvæmda eða frá 1925, hafa 5% af jarðabótastyrk félagsmanna verið lögð í félagssjóð. Síðustu 10-12 árin hefir sú upphæð numið á annað þúsund króna árlega.

6) Aukagjald af jarðabótastyrknum. Á aðalfundi félagsins 1931 var samþykkt að skattleggja jarðabótastyrk félagsmanna aukalega um 2%, er renna skyldu í félagssjóð. Var ætlazt til, að sú ráðstöfun yrði til frambúðar, en á aðalfundi 1943 var gjald þetta afnumið.

7) Styrkur frá Stokkseyrarhreppi. Á árunum 1949-1950 veitti Stokkseyrarhreppur félaginu 10.000 kr. styrk, 5000 kr. hvort ár, til vélakaupa.

Eins og framanskráð yfirlit ber með sér, hafa fastar tekjur félagssjóðs jafnan verið af skornum skammti. Stjórnin hefir því ekki haft miklu úr að spila, enda unnið störf sín af fórnfýsi og hagsýni. Rekstrarkostnaður félagsins hefir jafnan verið sára lítill. Langmestu fé hefir stjórnin varið til verkfærakaupa af ýmsu tagi. Hafa verkfærin verið lánuð félagsmönnum endurgjaldslaust eða gegn mjög vægu gjaldi. Úr félagssjóði hefir og oftast verið greiddur kostnaður sendimanna eða fulltrúa félagsins á fundum búnaðarsamtakanna, svo og kostnaður við gripasýningar að nokkrum hluta. Hins vegar hefir félagið ætíð haft með höndum úthlutun fjár þess, er fallið hefir í þess hlut af opinberri hálfu lögum samkvæmt sem styrkur til bænda fyrir unnin jarðabótastörf. Þó að það fé hafi löngum verið smátt skammtað, nemur það nú orðið alls talsverðum upphæðum.

Það var fyrst árið 1888, að landshöfðingi samþykkir ákveðnar reglur sem mælikvarða við úthlutun styrks til búnaðarfélaganna. Nokkru nákvæmari skil. yrði og reglur, sem fóru þó í sömu átt, voru samþykktar á alþingi 1891. Helzta skilyrðið fyrir styrkveitingu var það, ,,að félagið hafi unnið næsta ár á undan því, er styrkurinn er veittur, að minnsta kosti 10 dagsverk fyrir hvern búanda í félaginu að meðaltali, og eigi minna en 150 dagsverk alls að þeim jarðabótum, er efla grasrækt og garðrækt.“ Í reglunum er tekið fram, hvaða jarðabætur séu styrkhæfar, og eru þær þessar: varnargarðar um tún, engi, fjárbæli og matjurtagarða; stíflugarðar, þúfnasléttur; flatarmál matjurtagarða (í fyrsta sinn, sem þeir eru ruddir); skurðir til vörzlu, framræslu og vatnsveitinga; lokræsi; áburðarhús og forir. Þessar jarðabætur eru síðan lagðar í dagsverk eftir ákveðnum reglum og styrkurinn miðaður við tölu dagsverka þeirra, sem unnin hafa verið í félaginu að áðurnefndum jarðabótum næsta ár á undan því, er styrkurinn er veittur. Var jarðabótastyrkur til búnaðarfélaganna veittur samkvæmt þessum grundvallarreglum fram til ársins 1924, er jarðræktarlögin komu til sögunnar, en þau hafa gilt síðan með ýmsum breytingum og endurbótum.“[note]Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning JI, 174-176.   [/note]

Samkvæmt reikningum Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps hefir landsjóðsog ríkissjóðsstyrkur til félagsins á tímabilinu 1892-1924 numið samtals kr. 7499.82. Af því fé var úthlutað til félagsmanna kr. 7201.13, en mismunurinn, kr. 298.69, lagður í félagssjóð. Upphæðirnar voru ekki háar í þá daga.

Á sama tíma höfðu félagsmenn leyst af hendi 30058 dagsverk að jarðabótum samkvæmt opinberum skýrslum.[note] Sama rit II, 204—205. -Þar er styrkur til félagsins á þessu tímabili talinn kr. 7542.28, en samkvæmt félagsreikningunum telst mér hann vera kr. 7499.82. Mismunur kr. 42.46, er stafa mun af reikningsskekkju á öðrum hvorum staðnum.  [/note] Eftir því, sem að framan er talið, nam úthlutaður styrkur fyrir þau samtals kr. 7201.13, og verður það að meðaltali tæpir 24 aurar á dagsverk. Þetta var þó dálítið mismunandi frá ári til árs, 1904 t. d. 32 aurar á dagsverk, 1908 19 aurar, 1910 22 aurar o. s. frv. Hér var því aldrei nema um smáupphæðir að ræða, sem komu í hlut hvers félagsmanns. En þrátt fyrir það hefir þessi litli styrkur gert mikið gagn og verið mönnum hvatning til meiri framkvæmda. Munu menn almennt hafa litið á hann sem viðurkenningu af hálfu ríkisvaldsins fyrir umbótaviðleitni þeirra. Upp úr aldamótunum var líka sem fjörkippur færi um þjóðina, framfarahugur óx á öllum sviðum samfara trú á landið. Jarðabætur og ræktun varð kjörorð sveitanna, framlag þeirra til almennrar viðreisnar.

Árið 1923 voru samþykkt á alþingi ný og merkileg lög til viðreisnar íslenzkum landbúnaði, jarðræktarlögin svonefndu, sem mörkuðu stórkostleg tímamót í sögu ræktunarmála. Í Il. kafla laganna, sem fjallar um túnrækt og garðyrkju, eru ákvæði um styrk þann, sem veita skal úr ríkissjóði til þess háttar jarðabóta. Samkvæmt þeim er styrkur veittur fyrir áburðarhús og safnþrær, túnrækt, þar með talin framræsla og girðingar, og garðrækt. Síðar (1928) var bætt við votheys- og þurrheyshlöðum. Í fyrstu var ætlazt til, að styrkurinn næmi 1/3-½ af kostnaðarverði jarðabótanna. En síðar hafa allar jarðabætur verið lagðar í dagsverk eftir reglum, sem Búnaðarfélag Íslands hefir samið, en atvinnumálaráðuneytið samþykkt, og ákveðinn styrkur svo verið greiddur á dagsverk, sem er mishár eftir því, hvers konar jarðabætur eða mannvirki um er að ræða. Í lögunum eru enn fremur sérstakir kaflar um vélayrkju, jarðræktarlán, jarðeignir ríkissjóðs, erfðafestulönd og tilraunanýbýli, en 1928 voru að auki sett lög um verkfærakaupasjóð. Jarðræktarlögunum frá 1923 hefur síðar verið breytt í ýmsum greinum og þau aukin og endurbætt, eftir því sem reynslan og þörfin hefir krafizt. Þess skal getið, að 1942 var ákveðið að greiða verðlagsuppbót á jarðræktarstyrki.[note]Um jarðræktarlögin og helztu breytingar á þeim sjá Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning II, 179-186; Saga alþingis IV, 157-165 (Alþingi og atvinnumálin).   [/note]

Styrkur sá, sem veittur er samkvæmt jarðræktarlögunum er að vísu ekki hár, miðað við sum önnur lönd, en þó er hann miklum mun hærri, jafnvel allt að tíu sinnum hærri en áður hafði þekkzt hér á landi. Hann hefir því reynzt mikil hvatning fyrir bændur til að rækta og bæta jarðir sínar og stuðlað að margs konar framförum í sveitum landsins.

Á tímabilinu frá 1925-1952 hefir jarðræktarstyrkurinn til Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps numið samtals um það bil kr. 265.000. Þar af hefir verið úthlutað til félagsmanna um 252.000 kr., en afgangurinn, um 13.000 kr., hefir runnið í félagssjóð. Um dagsverkatölu félagsmanna á þessu tímabili er mér ekki kunnugt.

Á þeim langa tíma, sem Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps hefir starfað, hafa miklar breytingar orðið á búnaðarháttum í hreppnum, og hefir félagið átt þar mikinn hlut að máli. Það hefir látið flest sveitarmál til sín taka, þó að búnaðarmál hafi auðvitað verið þar í fyrirrúmi.

Eitt af því, sem félagið hefir lengi haft með höndum, er útvegun verkfæra til jarðræktarvinnu. Hefir félagið sjálft keypt verkfæri og vélar og lánað bændum til afnota. Á árunum 1903-1905 keypti félagið eftirtalin verkfæri fyrir samtals 85 kr. 24 aura og lánaði sem hér segir:

Verkfæri til jarðræktarvinnu

DeildJárnSpaðarGaflarHrífurSleggjur
1. - að Holti1321
2. - að Brú121
3. - að Hólum121
4. - að Tóftum121
5. - að Skipum22
6. - að Kökkum3211
7. - að Bræðraborg31
8. - að Djúpadal2
9. - að Strönd2 1
10. - að Grímsfjósum
Samtals1516821

Við og við voru menn áminntir um að láta verkfærin ekki glatast, en auðvitað hafa þau smám saman gengið úr sér og týnt tölunni. Árið 1927 keypti félagið herfi handa félagsmönnum og 1930 dráttarvél með áhöldum að ½ móts við Búnaðarfélag Gaulverjabæjarhrepps. Sá rekstur gekk erfiðlega, þekking á meðferð vélarinnar var lítil, en hitt þó öllu verra, að land það, sem vinna átti, var yfirleitt mjög stórþýfður og gljúpur mói, sem hjóladráttarvélum reyndist mjög örðugt að komast um. Var vélin seld árið 1932 fyrir 3000 kr. Það ár og hin næstu veitti félagið mönnum styrk til kaupa á garðasprautum til að sprauta með kartöflugarða til varnar gegn kartöflusýki, og 1934 og næstu ár keypti félagið nokkra áburðardreifara til afnota fyrir félagsmenn. Um sömu mundir keypti félagið 3 herfi í sama skyni og 1941 enn eitt diskaherfi. Mesta framlag félagsins til vélakaupa voru 15000 kr., sem það lagði fram árið 1949 til Ræktunarsambands Eyrbyggja til kaupa á dráttarvél með tilheyrandi jarðvinnsluáhöldum.

Sigurgrímur Jónsson, Holti

Undirbúningur undir stofnun Ræktunarsambands Eyrbyggja var hafinn 1945, en samtök þessi komust þó ekki á laggirnar fyrr en 1947. Að sambandinu standa bæði búnaðarfélögin í Stokkseyrarhreppi hinum forna, þ. e. Búnaðarfélag Stokkseyrar- og Eyrarbakkahrepps, og lagði hvort félag um sig fram helming stofnkostnaðar. Haustið 1949 fekk sambandið dráttarvél ásamt ýtu og diskaherfi og var þá unnið með ýtunni í rúman mánuð. Varð tekjuafgangur kr. 5275,68. Starfsemi sambandsins hefir haldið áfram öll árin síðan og stutt mjög að framkvæmdum á félagssvæðinu, en nú virðist vera farið að draga úr verkefnum að minnsta kosti í bili. Skuldlaus eign sambandsins við árslok 1958 er nokkuð yfir 100.000 kr. Aðalhvatamaður að stofnun þess og formaður er Sigurgrímur Jónsson bóndi í Holti.

Þegar árið 1904 var votheysgerð á dagskrá hjá Búnaðarfélagi Stokkseyrarhrepps, en síðan virðist það mál lengi hafa legið niðri. En á aðalfundi félagsins 1938 var samþykkt tillaga þess efnis frá Sigurgrími í Holti, að félagið tæki að sér að styrkja steinsteyptar votheyshlöður hjá félagsmönnum sínum með 2 kr. á teningsmetra. Árið 1943 var samþykkt, að félagið skyldi greiða uppbót á styrk þennan í hlutfalli við það, sem ríkið greiddi á jarðabótastyrkinn á hverjum tíma. Í framkvæmd var þessi hækkun látin nema staðar við 10 kr. á teningsmetra, og er svo nú. Telja verður, að þetta hafi ýtt mjög undir framkvæmdir á þessu mikilsverða sviði.

Það var einnig árið 1904, sem rætt er í félaginu um nauðsyn þess að fá menn til að læra plægingar. Var síðan að því innt, að félagið eignaðist sjálft plóg, en úr því mun ekki hafa orðið. Hins vegar var sá háttur á hafður, að félagið hafði milligöngu við Búnaðarsamband Suðurlands um plægingar fyrir félagsmenn. Þeir, sem óskuðu eftir að láta plægja hjá sér, gáfu sig fram við félagsstjórnina, en hún pantaði aftur hjá búnaðarsambandinu. Árið 1927 komu t. d. fram pantanir á plægingu á 8-9 dagsláttum, en 1937 á 30 dagsláttum. Fyrstu plægingamennirnir í Stokkseyrarhreppi voru Skipabræður, Ingvar og Gísli Hannessynir, Nikulás Bjarnason í Bræðraborg, Kjartan Guðmundsson frá Hörgsholti. Jón Jónatansson búfræðingur var starfsmaður búnaðarsambandsins og ferðaðist um og kenndi mönnum að plægja, eftir að hann kom í hreppinn.

Síðan 1928 eða fyrr hefir félagstjórnin séð um pöntun á áburði fyrir félagsmenn og útvegaði einnig flutning á honum; sömuleiðis sá hún að einhverju leyti um afhendingu hans á Stokkseyri. Þessu hefir nú lengi verið hagað þannig, að félagsstjórnin gerir sameiginlega pöntun hjá Áburðarsölu ríkisins og afhendir henni skrá um, hverjir eigi að fá áburðinn og hversu mikið, en lætur menn sjálfa um að nálgast hann og greiða. Er félagsmönnum talsvert hagræði að þessu.

Mjög athyglisvert nýmæli bar á góma í félaginu árið 1903, en það var um félagsvinnu í hreppnum með því móti, að menn tækju sig saman svo sem 3-4 og ynnu hver hjá öðrum, en félagið tæki menn ekki upp á styrkinn við slíka vinnu. Þessi hugmynd komst í framkvæmd að meira eða minna leyti, aðallega milli nágranna. Var þessari félagsvinnu einkum beitt við túnasléttur, sérstaklega við að leggja niður þökur á vorin, sem var mjög mikið verk. Mestur hlutinn af túnunum í hreppnum, eins og þau voru um 1920, hafði verið sléttaður með handverkfærum.

Þá hefir búnaðarfélagið haft forgöngu um gripasýningar, sem nú þykja nauðsynlegur liður í húsdýraræktinni. Vorið 1909 var haldin fyrsta gripasýningin að tilhlutun Búnaðarsambands Suðurlands og í félagi við Gaulverjabæjarhrepp. Var hún haldin austur á Baugsstaðakampi og sýndir bæði nautgripir, hross og hrútar. Árið 1930 var haldin hrútasýning og 1935 kúasýning að tilhlutun Búnaðarfélags Íslands. Var þá samþykkt, að félagið legði fram 152 kr. til sýningarkostnaðar, sem var 1 króna á hverja framtalda kú í hreppnum, á móti jöfnu framlagi frá Búnaðarfélagi Íslands. Hin síðari ár hafa kúa- og hrútasýningar verið haldnar reglulega samkvæmt ákvæðum búfjárræktarlaganna. Hefir kúasýningum aldrei verið sýndur verulegur áhugi, en eftir fjárskiptin hafa hrútasýningar verið vel sóttar.

Hörður Sigurgrímsson, Holti

Félagið hafði einnig forgöngu um stofnun nautgriparæktarfélags í hreppnum, sem starfaði í sambandi við búnaðarfélagið. Var því máli fyrst hreyft á búnaðarfélagsfundi 1910. Hélt Sigurður Sigurðsson ráðunautur þá erindi um kynbætur nautgripa, benti á þörf sérstaks félagsskapar, er hefði það hlutverk með höndum og eignaðist kynbótanaut, sem hafa yrði í girðingu á sumrum. Mál þetta lá niðri í nokkur ár, en 17. júní 1915 var félag stofnað í þessu skyni, Nautgriparæktarfélag Stokkseyrarhrepps. Stofnendur voru 28 að tölu með samtals 89 kýr. Úr félaginu urðu síðar tvær deildir, önnur fyrir uppsveitina, en hin fyrir Stokkseyrarhverfið og Selin. Þetta var aðallega samstarf um nautahald, og margir héldu skýrslur um nythæð kúa og létu gera fitumælingar. Girðing fyrir nautin var við túnið á Hæringsstöðum. Í árslok 1958 var starfsemi þessi lögð niður með fundarsamþykkt í búnaðarfélaginu, en búnaðarfélagið samþykkti að taka að sér hlutverk nautgriparæktarfélagsins og gerðist jafnframt aðili að sæðingarstöðinni í Laugardælum og greiddi þangað tilskilið stofngjald, kr. 10.000, sem greiðist á tveimur árum.

Eins og nærri má geta, hefir búnaðarfélagið látið mörg fleiri mál til sín taka og haft ýmist bein eða óbein áhrif á framgang þeirra. Má þar m. a. nefna skurðgröft til framræslu, stofnun rjómabús, vegamál, garðrækt, úthlutun ræktunarlanda, brunavarnir, símamál og fleira. En þar sem um allt þetta er rætt hér annars staðar, skal ekki nánar út í það farið á þessum stað.

Félagið hefir haft með höndum talsverða fræðslustarfsemi, og má þar einkum nefna, að það hefir verið vettvangur fræðandi erinda um búnaðarmál. Skal þeirra getið hér til fróðleiks. Sigurður Sigurðsson ráðunautur flutti erindi um rjómabússtofnun, garðrækt og súrheysverkun 27. jan. 1904; um jarðrækt og kartöflugarða, girðingar, haughús, skurðagerð og gripasýningar 15. jan. 1909; um kynbætur nautgripa, Flóaáveitu o. fl. 24. jan. 1910 og um stofnun nautgriparæktarfélags 23. jan. 1915. Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri flutti erindi um ræktunarmál og jarðyrkjuverkfæri, notkun tilbúins áburðar og um skipting ræktunarlanda í kauptúnum landsins 4. jan. 1930 og um aukna ræktun og mjólkurframleiðslu 12. febr. 1934. Guðjón Sigurðsson ráðunautur flutti erindi um kartöflurækt og kartöflusjúkdóma 4. febr. 1933; Kristján Karlsson ráðunautur um sama efni 12. febr. 1934; Hjalti Gestsson ráðunautur um nautgriparækt 11. febr. 1947 og um fitumælingar, skýrsluhald, fóðrun nautgripa o. fl. 31. jan. 1948; Rögnvaldur Guðjónsson ráðunautur um jarðrækt, áburðarnotkun o. fl. 31. jan. 1948; Hörður Sigurgrímsson búfræðingur um búnaðarhætti í Bandaríkjunum 15. febr. 1952; Emil Bjarnason ráðunautur um jarðrækt, áburð, áburðarþörf o. fl. 5. febr. 1953. Enn fremur hefir félagsstjórnin haft milligöngu um sölu „Freys” og fleiri rita um búnað, hvatt menn til að sækja búnaðarnámskeið o. s. frv.

Þorgeir Bjarnasson, Bæringsstöðum

Búnaðarfélag Stokkseyrarhrepps sendi fulltrúa, formann sinn Gísla Pálsson, á stofnfund Búnaðarsambands Suðurlands 6. júlí 1908 að Þjórsártúni og gekk formlega í sambandið í árslok sama ár. Hefir félagið rækt skyldur sínar við sambandið alla tíð og notið þaðan margháttaðra leiðbeininga og fyrirgreiðslu. Einnig hefir félagið sent fulltrúa á fundi Stéttarsambands bænda síðan 1947 og jafnan sinnt kjörmannafundum þess.

Því miður eru gerðabækur búnaðarfélagsins allgloppóttar. Frá árunum 1888-1900 er aðeins til ein fundargerð, dagsett í Óseyrarnesi 8. nóv. 1892, og um árin 1916-1926 er alger eyða; hins vegar eru til reikningar félagsins óslitið síðan 1892. Vegna þess hve mikið vantar í fundargerðir félagsins, sem stafar þó ekki af því, að þær hafi glatazt, heldur af hinu, að þær hafa ekki verið skráðar, er nokkrum erfiðleikum bundið að átta sig á því, hverjir hafi verið í stjórn félagsins frá upphafi. En eins og kunnugt er, hvílir hiti og þungi starfsins fyrst og fremst á félagsstjórninni, og er því skylt að rifja upp nöfn þeirra manna, sem þar hafa haft forustu á hendi.

Í Búnaðarfélagi Stokkseyrarh  repps hefir jafnan setið þriggja manna stjórn og mannaskipti ekki verið tíð. Vitað er, að Grímur Gíslason í Óseyrarnesi var fyrsti formaður félagsins. Árið 1892 voru með honum í stjórninni Jón Jónsson í Holti og Gizur Bjarnason á Litla-Hrauni. Hygg eg, að þeir hafi verið í stjórninni frá upphafi og það er að minnsta kosti víst um Jón. Þegar Stokkseyrarhreppi hinum forna var skipt 1897, stofnuðu bændur í hinum nýja Eyrarbakkahreppi sérstakt búnaðarfélag, og er stofnár þess talið 1897 í opinberum heimildum.[note]Búnaðarfélag Íslands. Aldarminning II, 204; Búnaðarsamband Suðurlands. Þrjátíu ára minningarrit, 93. – Ummælin í Sögu Eyrarbakka II, 267, að það sé stofnað „um 1895“ eru því ekki rétt. Í Frey II (1910), 78, segir, að það hafi tekið til starfa árið 1900.   [/note] Þeir Grímur í Nesi og Gizur á Litla-Hrauni hafa að sjálfsögðu horfið til hins nýja félags, þar sem þeir voru búsettir á félagssvæði þess. Tveir nýir menn hljóta því að hafa komið inn í stjórn Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps umrætt ár. Annar þeirra var með vissu Guðmundur Sæmundsson kennari og hinn mun hafa verið Gísli Pálsson í Kakkarhjáleigu. Að vitni Bjarna Júníussonar voru það óbreytt orð Gísla, að Guðmundur Sæmundsson hefði verið eitt ár formaður félagsins eftir Grím í Nesi, en Gísli síðan tekið við. Árið 1901 voru þeir Gísli og Guðmundur í stjórn félagsins ásamt Jóni í Holti. Sama stjórn var endurkjörin 1903 og aftur 1905 til tveggja ára. Árið 1907 voru þeir Gísli og Jón enn endurkjörnir, en í stað Guðmundar Sæmundssonar var kjörinn Guðni Árnason á Strönd. Voru þessir þrír endurkjörnir 1909 til tveggja ára.

Það sést af reikningi félagsins árið 1912, að Júníus Pálsson á Syðra-Seli er þá kominn í stjórnina í stað Guðna á Strönd .. Þau skipti hafa orðið 1911, er kjörtímabil Guðna rann út. Þeir Gísli, Jón og Júníus hafa síðan setið óslitið í stjórninni til 1927, er fundargerðir byrja eftir eyðuna, sem áður var getið, því að í fundargerð frá 24. apríl 1927 segir meðal annars: ,,Var nú af síðustu stjórn, Gísla Pálssyni, Júníusi Pálssyni og Sigurgrími Jónssyni fyrir hönd föður síns, lagt fram nýtt frumvarp til laga fyrir félagið og drög að framtíðarstarfsemi.“ Eftir 1927 er auðvelt að gera grein fyrir stjórnendum félagsins samkvæmt fundabókum.

Samkvæmt framanskráðum athugunum hafa eftirtaldir menn átt sæti í stjórn Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps frá stofnun þess:

Formenn

Grímur Gíslason, Óseyrarnesi1888-1897
Guðmundur Sæmundsson kennari1897-1898
Gísli Pálsson, Hoftúni1898-1943
Sigurgrímur Jónsson, Holti1944-1958
Hörður Sigurgrímsson, Holti1958-

Meðstjórnendur

Jón Jónsson, Holti.1888--1927
Gizur Bjarnason, Litla-Hrauni1888--1897
Gísli Pálsson, síðar formaður1897-1898
Guðmundur Sæmundsson, áður formaður1898-1907
Guðni Árnason, Strönd1907-1911
Júníus Pálsson, Syðra-Seli1911-1927
Sigurgrímur Jónsson, síðar formaður1927-1944
Þorgeir Bjarnason, Hæringsstöðum1927-1937
Sigurður Grímsson, Svanavatni1937-1946
Þorgeir Bjarnason aftur1944
Sighvatur Einarsson, Tóftum1946

Vert er að gefa því gaum, að Gísli Pálsson var formaður búnaðarfélagsins í 45 ár og gegndi því starfi til æviloka. Þá er það og athyglisvert, að Holtsfeðgar hafa setið í stjórn félagsins allt frá stofnun þess og þriðji ættliðurinn nýlega tekinn við formennskunni. Hafa þessir menn og aðrir stjórnendur félagsins lagt fram mikið og óeigingjarnt starf fyrir það og átt mörg spor í erindum þess.

Hinn 22. nóv. 1938 var minnzt hálfrar aldar starfs búnaðarfélagsins með samsæti í samkomuhúsinu „Gimli“. Hóf þetta sátu upp undir 200 manns, og voru það fyrst og fremst félagsmenn með konum sínum, og svo allmargir boðsgestir: alþingismennirnir Bjarni Bjarnason, Eiríkur Einarsson og Jörundur Brynjólfsson; þáverandi búnaðarmálastjóri Steingrímur Steinþórsson og fyrrverandi búnaðarmálastjóri Sigurður Sigurðsson; formaður Búnaðarsambands Suðurlands Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi, trúnaðarmaður sambandsins Dagur Brynjúlfsson hreppstjóri í Gaulverjabæ og stjórn Búnaðarfélags Eyrarbakkahrepps. Undir borðum, þar sem drukkið var súkkulaði og kaffi, voru fluttar margar ræður bæði af innansveitarmönnum og boðsgestum. Þar á meðal skýrði Gísli Pálsson frá því, að af stofnendum félagsins væri aðeins einn á lífi, en það var Jón Jónsson fyrrverandi bóndi og hreppsnefndaroddviti í Holti. Gat hann ekki verið viðstaddur sökum ellihrumleika, en formaður lýsti yfir því, að hann væri kjörinn heiðursfélagi.

Laust fyrir miðnætti var staðið upp frá borðum, og var síðan dansað til miðs morguns. Inn á milli söng blandaður kór og karlakór undir stjórn Gísla Pálssonar. Einnig las Ármann Kr. Einarsson kennari upp frumsamda sögu. Fagnaður var góður í samkvæminu.

Eftirfarandi frumort kvæði flutti Bjarni Eggertsson búfræðingur á Eyrarbakka á afmælishátíðinni:

Í kvöld er kæti og gaman,

í kvöld er hlýtt og bjart

og ró að ræða saman

og rifja upp ótal margt

að fimmtíu árum fylltum

á félags okkar braut

í sóknum saman stilltum

að sigra marga þraut.

 

Já, mörg er manndómsþrautin,

ef markið fjarri er,

en sigursæl er brautin,

ef saman stöndum vér

um ræktun lýðs og landa

og leggjum djarfa hönd

á samtök bræðrabanda,

þá byggjast fögur lönd.

 

Þau löndin sé eg ljóma,

þó langt sé þeim að ná,

að sérhvert býli í blóma

hér brosi vegum frá.

Ef sérhver hönd og hugur

nú hefja störfin merk

og drengilegur dugur,

þá drýgjast kraftaverk.

(Heimildir: Fundargerðabækur Búnaðarfélags Stokkseyrarhrepps, það sem þær ná, og reikningar félagsins; ýmsar upplýsingar frá Sigurgrími Jónssyni í Holti o. fl.).

Leave a Reply

Close Menu