077-Dulnefnavísurnar 1891

Í vertíðarbyrjun 1891 voru ortar formannavísur um alla Stokkseyrarformenn, 45 að tölu, nema Finn Sveinbjörnsson í Stardal, sem tók ekki til formennsku fyrr en seint á vertíðinni. Ekki er kunnugt um, hver var höfundur vísnanna, en ýmsir gizkuðu á, að þær væru eftir Gísla Halldórsson frá MinnaHofi í Eystrihrepp, sem kallaður var Hofs-Gísli og kemur síðar við sögu. Í næstsíðustu visunni er ártalið tilgreint, en í síðustu vísu eru höfundar taldir ,,Grímur á Eyri og Björn á Brú”, sem er dulnefni. Sumar vísurnar eru skömmóttar og niðrandi, og það mjög að ástæðulausu. Sleppi ég því úr vísum um fimm formenn: Sigurjón á Stéttum, Bjarna Nikulásson, Einar í Borgarholti, Snorra á Leiðólfsstöðum og Grím í Móakoti, sem mjög ómaklega er um kveðið. Eru eyðurnar fyrir vísunum um þá sýndar í sömu röð og þeir eru hér upp taldir. Vísurnar um Bárð Diðriksson læt ég flakka með, enda svaraði hann rækilega fyrir sig með mörgum vísum.[note]Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur VI, 26-27.[/note] Fleiri ortu á móti vísunum, m. a. Margrét á Stéttum, og vísur Magnúsar Teitssonar síðar á sömu vertíð voru gerðar sem bragarbót við þessar. Þrátt fyrir kersknina bárust vísurnar víða og voru lærðar af mörgum, – kannske einmitt vegna hennar. Þær eru prentaðar hér eftir handriti frá Kristjáni Ólafssyni í Bár, en margar af þeim fékk ég einnig frá Helga Guðmundssyni á Apavatni og Sigurði Guðmundssyni á GamlaHrauni og hafði til samanburðar.

Þá, sem keyra kugga trés
og köppum fyrir ráða
Stokks frá eyri um öldur hlés,
álfur geira, hér þú les.

Teljast svinnir seggir þar
fimm og fjörutíu,
sem borða linna á breiðan mar
búa svinnir, þá dagar.

*

Sigurður Eyjólfs sonur fer
á sjó frá Kalastöðum,
hlaðið fleyið fiskinn ber
að Fjölnis mey, og kátur er.

Hraustur stýrir Hallgrímur
hlunna jó frá landi
á hvala mýri hugdjarfur,
hvergi rýr er formaður.

Halldór færir fokku ljón
frá Stokkseyrarseli
út á glæra ufsa frón,
ýsan fær af slíku tjón.

Framnes-Jón um foldar hring
fer í happavonum,
laus við tjón í landnyrðing,
lukkan þjónar honum slyng.

Hann Bernharður hreystisnar,
hefnir Jóns kallaður,
áls á jarðir oft leitar
ei brimgarðinn hræðist par.

Hinum meiri heppni ber
hjörva lundur þessi,
á hnísu leiri ötull er
álfur geira, sagt er mér.

Ýsuna jagar járnharður
Jón frá Ásgautsstöðum,
knár að lagar kugg gengur
þá köttinn dagar árvakur.

Jag ei úðar étur hug
úr Júníusi á Seli,
um hvala búð hans hönd öflug
hleypir knúð af formanns dug.

Sigurð kalla eg heppinn hal
Hafliða frá koti,
með liðið snjalla um lýsu sal
láar varla óttast gal.

Afla þjónar út á sjá
Einar frá Garðhúsum
á borða ljóni brögnum hjá,
birtings fróni heppinn á.

Guðmundur hröðum höndum má
halda sveif um stýri
hnísu tröðum hálum á,
Hæringsstöðum kominn frá.

Súða ketti svæði frá
Símon á Gamla-Hrauni,
hótið slétt ei hirðir sá,
hrönn þó skvettist kjaftinn á.

Sigurð kalla seggir mann,
son Snæbjarnar talinn,
út á lallar ægi hann,
ára dalli stýra kann.

Hann Ingvar í Hvíld sem býr,
hranalegur tíðum,
heldur snar á hlunna dýr
hvergi í verkum sínum rýr.

Magnús, Teiti alinn, út
á fer lagar meri,
lýðum veitir ljóða grút
lands um reiti, firrtur sút.

Hann Útgarða-Guðmundur,
grófur vomuhlunkur,
áls á jarðir oft lítur,
þó aldrei skarði brimgarður.

Báran græn þó brúsi hlés,
Bárður Diðriks kundur
siglir væna selnum trés
og svartar bænir yfir les.

Eins og sót er ásýndin
eða naut í flagi.
Kynja ljóti karlinn þinn,
kveddu á móti, Bárður minn.

Jón Mið-Kekki fleytir frá
fokku ljóni sínu,
ýtum þekkur oft er sá
ungur rekkur sjónum á.

Sigurður Hinriksson á mar
setur essið ranga,
ýtum synjar svefnværðar,
sjór þó drynji alls staðar.

Adólf Kristinn Adólfs bur,
eyri Stokks sem byggir,
við hölda ótvista hugglaður,
hann er listaformaður.

Jón, sem Grími getinn var,
gnoð frá landi stýrir,
hræðslu brími ei hann sakar,
þó hrönn við glími fjörurnar.

Jón, sem býr í Holti hress,
hræðist ekki sjóinn,
keyrir dýrast dælu fress,
þá dala skýrir fæst til þess.

Sigurð þann, sem býr í Borg,
bragnar líta á sjónum,
þó að hrannir auki org,
enga hann fær þar af sorg.

Magnús Helli mætur frá
í meðallagi heppinn,
árum skellir út á sjá
ærið hnellinn kappi sá.

Þræðir bláan þorska sal
Þorkell Magnús kundur
með sitt knáa kappa val,
kann ei láar óttast gal.

Afla þjónar út á sæ
oft með drengi sína
með hug sem ljón, aðgætinn æ,
Einar Jónsson Páls frá bæ.

Út á hlaðið hnísu blá
heldur brögnum meður
þrælhugaður þegninn sá
Þórður Traðarholti frá.

Ára lung á öldu blá
einatt færir hraður
þorska bungu þolinn á
Þórður ungur Skipum frá.

Torfi í Söndu setur snar,
þá seggir hinir róa,
súða önd á saltan mar,
sviptur gröndum hugraunar.

Sem að þjónar heppnin há,
hraustum drengjum meður
hnísu frónið einatt á
ýtir Jón Móhúsum frá.

Ýtir Jón á æginn skeið
oft frá Dvergasteini,
við hnísu frón hann hvergi beið,
hrönn þó tóni galdra seið.

Strengja dýrið Sturlaugur
frá Starkarhúsum setur,
sá órýr er rokhundur
á Ránar mýri hugaður.

Stirður braukar stýrið við
stæltum höndum báðum
sókn að auka um sela mið
Siggi í Hrauk með drengja lið.

Þórðar kundinn prúðan Pál
piltum sínum meður
sá eg skunda um ýsu ál,
þó aldan stundum bruggi tál.

Hleypir græðis hundi á sjó
Hannes frá Roðgúli,
seggnum ræði sýnist,
þó sjómenn hræði aldan sljó.

Á borða mari bleytir kjöl
Benedikt hinum fremur,
heldur snar um hjálmunvöl,
hart þó fari aldan svöl.

Handar krapa hirðir á
heima í Íragerði
með hrausta knapa fróni frá,
fiskur tapa lífi má.

Á pyttinn hnísu potar sér
Pálmar frá Stokkseyri,
þá hrönnin rísa höstugt fer,
honum ýsan vinveitt er.

Þó ægir svalur auki jag,
einn Jón Stefáns kundur
á fokku vali fægir drag,
þá feykir galar rammaslag.

Bjarni setur siglu jór
Símonar frá húsi,
hann er metinn málma Þór
um máva fletin happastór.

Óvaningur ýtum með,
oft Jón Þórðar kundur
lands á hring af seggjum séð
setur slyngur rádýrið.

Ekki hrellir hrönnin grá,
hátt þó stundum rísi,
birtings velli bláum á
Bjarna Hellukoti frá

*

Upp eru taldir, á lít þú,
ýtar fríhugaðir,
sem um kalda sela brú
seglfák halda úti nú.

Drottinn annist alla þá á
unn og landi bæði
og hvern mann, sem er þeim hjá,
ekkert kann að skorta þá.

Skipshöfn Pálmars Pálssonar á Stokkseyri: Sitjandi frá vinstri: Páll Þorgeir Bjarnason frá Íragerði, nú í Chicago, Ámundi Sveinbjörnsson Klausturhólakoti, Pálmar Pálsson formaður, Stefán Ólafsson Kumbaravogi, Guðmundur (?) frá Kotvelli í Hvolhrepp. – Standandi: Árni Guðmundsson Skammbeinsstöðum, Þorsteinn úr Mýrdal, fór til Ameríku, Björn Brynjólfsson Skeiðháholti, Þórður Þorvarðsson Traðarholdi, Sigurður Björnsson Svanavatni, Sigurður Snæbjörnsson Beinateig, Sigurður Jónsson Eystri-Rauðarhól, Jóhann Hafliðason Birnustöðum, Gísli Gíslason Grund, Guðlaugur Þórðarson, síðar gestgjafi í Tryggvaskála.

Dal í tára er komið kvöld,
sem kunna prestar greina;
níu ár af nítjándu öld
nærri stár sé eftir töld.

Grímur á Eyri og Björn á Brú
braginn þennan kváðu;
lýðir heyri ljóða spú,
lestu geira Þundur nú.

Leave a Reply

Close Menu