076-Vísur Steingríms Ólafssonar 1889

Árið 1889 orti Steingrímur Ólafsson frá Geldingaholti í Eystrihrepp for. mannavísur um alla Stokkseyrarformenn, 39 að tölu. Ártalið er tilgreint í næstsíðustu vísunni, en nafn höfundar fólgið í hinni síðustu ( dverga inni: steinn; öðlingur Valhallar : Óðinn= Grímur, þ. e. Steingrímur). Af vísunum hefi ég fengið tvær uppskriftir, aðra frá Kristjáni Ólafssyni í Bár og hina frá Jóhanni listmálara Briem. Eru þær báðar taldar skrifaðar eftir eiginhandarriti höfundarins.

Fyrri á vori veraldar
vorir feður beztu,
æfðir þori orkunnar,
ýfðu sporin holundar.

Nú er siður annar á,
ýtar nýtir berjast
fiskinn við á fokku má
fram á sviði Ránar blá.

Út á breiða öldurið
afla er sækja góðan,
fylking eina eg skal við
óðar reyna núna klið.

Örva svinna Ulla þá
eg var beðinn telja,
stýris linna er stefna á sjá
Stokkseyrinnar vörum frá.

Seladalinn siglir á
Sigurður Eyjólfs niður,
afla valinn oft kann fá,
er hann Kalastöðum frá.

Hallgrímur á hlunnaglað,
hefnir Jóhannesar,
góð með kjör á geddu hlað
greiðir för af sama stað.

Halldórs knái hefnir þar
Halldór aflann fangar,
sjós á bláann siglir mar,
seli frá er Stokkseyrar.

Jón Guðmundar arfinn er,
á Framnesi býr hann,
hvals á grundu greiðast fer
geiralundur, höpp ei þver.

Sjór þó bretti brún með vés,
burinn gildur Árna
húna léttir hafs á fles
hleypir Stétta-Jóhannes.

Aflann þiggur lagarlóns
listgefinn Bernharður,
Keldna byggir kotið fróns
kátur,dyggur burinn Jóns.

Sig þó kreppi hrönnin há,
hefnir Páls Júníus
syðra keppir Seli frá
súða heppinn jórnum á.

Ákaft stundum áraljón
frá Ásgautsstaða bænum
Vernharðs kundur keyrir Jón
hvala grundar út á lón.

Jón, sem hrósið hölda fann,
hann er Adólfs sonur,
Gríms frá fjósum hleypir hann
hesti sjós á skjálfandann.

Ýtir sniðugt ára kið
Árnason Sigurður,
kot Hafliða kenndur við,
hvals á rið með enga bið.

Símons niður Símon frá
sækir Gamla-Hrauni
mikið liðugt marinn á
mars á kiði afla að fá.

Frá Hæringsstaðahjáleigu
horskur Gunnars arfi
á geddu jaðar Guðmundur
göltinn kaðals fram dregur.

Einars kundur Einar snar
alla leið frá Bugum
laxa grunda lunginn þar
lætur skunda fram á mar.

Húna karfa á hafs öldur
Hvíld frá lætur renna
ýtum þarfur,öruggur
Ingvar djarfur Karels bur.

Gnoð um keyrir geddulá
Guðmundur Arons niður,
bakka Eyrar er nú frá
Ófnis leira njótur sá.

Áls um jarðir öruggur,
er frá teignum Beina,
snekkju djarfur snöggt hleður
Snæbjörns arfi Sigurður.

Marar græna móinn á
Magnús Teiti borinn,
byrðing væna setur sá
sama bænum líka frá.

Heppinn, djarfur, hugaður
hleypir frá Útgörðum
Steindórs arfi áls á skör
ára karfa Guðmundur.

Diðriks arfi Bárður bezt
bænum frá er sama,
lætur starfa húna hest
hvals á þarfur engi mest.

Birni hlunna Bjarni á,
burinn Nikulásar,
hjáleigunni Hóls er frá,
hvals á þunna siglir lá.

Fleytir djarfur, fullröskur
frá Móhúsum vestri
húna karfa á hafsöldur
Hinriks arfi Sigurður.

Jón um sjáinn siglir blá
sonur Jóns ágætur
Eystri-Móhúsunum frá,
afla nógan hreppir sá.

Þorsteins kundur knár Magnús
Kolsholts byggir helli,
áls á hundi aflafús
út á skundar keiluhús.

Sverða freyr á síldar frón
sækir aflann góða,
strauma keyrir stöðugt ljón
Stokks frá eyri Grímsson Jón.

Búinn listum Blinds á kvon
beitir þaðan líka
Adólf Kristinn Adólfsson
áraþrist í hluta von.

Hafs á traðir hugaður
Holts við kenndur bæinn
Jón með hraða Jóns sonur
jórinn kaðals fram dregur.

Jón eg Einars arfa tel,
er frá Dvergasteinum,
út á beinum ýsu mel
aflann reynir fanga vel.

Storms í svalið Sturlaugur,
Starkaðs frá er húsum,
Jóni alinn, öruggur
áls á dalinn beitir knör.

Örva lundur ýtir snar
út frá holti Traðar,
Þórður kundur Þorvarðar,
þóftu hundi á djúpan mar.

Sveins er kundur Sigurður,
sem að Hraukinn byggir,
lóns á hundi hugaður
höppin stundar liðugur.

Skipshöfn Benedikts Benediktssonar í Íragerði: Sitjandi frá vinstri: Jón Vigfússon Heiði á Rangárvöllum, Stefán Þorsteinsson Kampholti, Benedikt Benediktsson formaður, Bjarni Grímsson Kópsvatni, beitningadrengur, Páll Bjarnason Hellukoti, beitningadrengur, Guðjón Jónsson Loftsstöðum. – Standandi: Þórður í Pálsbæ á Stokkseyri, Sigurður Magnússon Dvergasteini, Guðni Jónsson Sandgerði, Sæmundur Benediktsson, sonur formannsins, Einar Sveinbjörnsson Merkigarði, Einar Jónsson Geldingalæk, síðar alþingismaður, Ásbjörn Vigfússon Skipum, Jónas Jónsson Skáldabúðum og Ísólfur Pálsson frá Syðra-Seli.

Hannes þjóna heppnin má,
Hannessonur er hann,
hvals á frónið hleypir sá
húna ljóni Skipum frá.

Heppinn glaður hefnir Jóns
Hannes Roðgúl byggir,
ekur hraður erni lóns
út á traðir síla fróns.

Af Benedikt skýra bezt eg má,
Benedikts er hefnir,
gerði Íra greiðast frá
græðis dýrið hleður sá.

Pálmar herðir Pálsson á
prúðum siglurakka
Íragerðí eystra frá
einatt ferð á djúpan sjá.

Stefáns hefnir hafs á vað
hraður Jón til afla
úðar hrefnu ört í stað
út frá stefnir sama stað.

Jónsson Bjarni á saltan sjá
Símonar frá húsi
hleypir gjarnan, halur sá,
hesti tjarna í veiðistjá.

Leiðólfsstaða-Snorri snar
snöggt um karfa engi
keyrir hraður keipa mar,
kundur glaður Sveinbjarnar.

Grímur kjóa kaðla á
kundur Ólafs glaður
keyrir Móakoti frá
kaldan sjóinn beint út á.

Bjarni þráfalt þangs um rann
Þorsteins knái hefnir
hesti ráar hleypa kann,
Hellu frá er koti hann.

Drottins metin miskunn fín
menn hér talda leiði
og gefi betur blessun sín
en beðið getur tungan mín.

Ártal tvíllaust inna ber:
aldir níu tvennar,
áttatíu einnig hér
enn við níu telja ber.

Ég skal kynna ýtum þar
allt mitt nafnið svona:
Dverga inni og einnig snar
öðling svinni Valhallar.

Leave a Reply

Close Menu