Brattsholt

Brattsholt

Saga býlis

Brattsholt var byggt á landnámsöld og er kennt við Bratt, leysingja Atla Hásteinssonar í Traðarholti, er þá land af Atla og byggði þar fyrstur manna. ( Íslendinga sögur I, 220, sbr. XII, 7). Eftir það finnst Brattsholts ekki getið fyrr en á 16. öld í sambandi við jarðakaup. [note] Sumar Landnámugerðir telja hann leysingja Ölvis, bróður Atla [/note]

Hinn 3. maí 1558 seldi Páll Oddsson part úr jörðinni Traustholti í Flóa, er var eign konu hans, með jáyrði hennar og samþykki, en í staðinn setti hann henni í mála hennar jafnstóran part úr hans jörðu, Brattsholti. Um þessar mundir hefir Páll því verið eigandi Brattsholts og sennilega búið þar. Bréf um jarðakaup þessi var gert á Stokkseyri 21. okt. sama ár. (Ísl. fornbrs. XIII, 342). Síðar hefir Brattsholt komizt í eigu Stokkseyrarættar, því að víst er, að Markús Bjarnason á Stokkseyri var eigandi þess. Erfði Guðríður, dóttir hans, jörðina og seldi hana 18. ágúst 1696 Þórdísi, systur sinni, og Guðmundi West ásamt fleiri eignum. Árið 1728 selja börn Þórdísar Brattsholtið, 15 hundruð að dýrleika, Jóni biskupi Árnasyni fyrir 140 ríkisdali til greiðslu gjalda og sekta, er móður þeirra hafði verið gert að svara samkvæmt dómum. (Saga Eyrarbakka I, 208). Eftir lát Jóns biskups Árnasonar mun ekkja hans, mad. Guðrún Einarsdóttir, hafa selt Brattsholt Brynjólfi sýslumanni Sigurðssyni í Hjálmholti, því að víst er um það, að börn hans áttu jörðina. Árið 1773 er Einar lögsagnari Brynjólfsson talinn eigandi Brattsholts (Þingb. Árn .. ), og árið 1802 seldi síra Guðmundur Magnússon á Kálfatjörn, sem var tengdasonur Brynjólfs sýslumanns, Agli bónda Sveinbjarnarsyni í Innri-Njarðvík hálfa j öraina (Veðmálab. Ám.).

Eftir þetta líður svo alllangur tími, að vér höfum ekki séð nein gögn um það, hverjir verið hafi eignarmenn Brattsholts. En árið 1870 keypti Þórður silfursmiður Pálsson allt Brattsholtið fyrir 300 ríkisdali, en ekki sést, af hverjum hann keypti. Átti Þórður jörðina til dauðadags, og erfðu börn hans hana eftir hann. Á árunum 1917-18 keypti Böðvar Tómasson, sem þá bjó í Brattsholti, alla jörðina af erfingjum Þórðar Pálssonar, þeim Þuríði Gunnarsdóttur, ekkju Páls Þórðarsonar í Brattsholti, Einari í Borgarholti og Gísla í Kakkarhjáleigu. Ekki átti þó Böðvar Brattsholtið lengi, því að þegar árið 1918 seldi hann það aftur. Urðu á því ári fjórir eigendur að jörðinni, hver eftir annan. Síðastur þeirra var Sigurður Heiðdal kennari, og átti hann jörðina allt til 1932. Þá seldi hann hana Jóni kaupmanni Magnússyni á Stokkseyri. Tveim árum síðar seldi Jón Magnússon Brattsholtið Páli Jónssyni bónda þar. Árið 1940 seldi Páll hálfa jörðina Þorkeli Einarssyni, er reisti þar nýbýlið Þingholt, og er sá helmingur nú eign Jónasar Magnússonar rafvirkja í Reykjavík. En hinn helminginn átti Páll til dauðadags 1948, og erfðu hann Ásta, bústýra hans, og Pálína, dóttir hans.

Brattsholt var 15 hundruð að fornu mati. Þessar hjáleigur fylgdu jörðinni: Brattsholtshjáleiga, Borgarholt og Keldnakot.

Markarima, og liggur sú lína nærfellt til útnorðurs út að Breiðamýrarholtslæk, sem liggur til landnorðurs, þangað til Brúnkolludrag ber í Markavörðu í Markarima, og liggur sú lína nærfellt til útnorðurs út að Beiðamýrarholtslæk, og er þar markaþúfa á lækjarbakkanum á milli Brattsholts og Tófta. Aftur til útsuðurs úr Brattsholtsvatni ræður Seigludrag fram í Neslæk, sem ræður mörkum fram að Kirkjubrú, frá henni bein lína út í Markalæk, sem skilur Brattsholts og Kotleysu engjar, og ræður sú stefna út í Andatjarnir og heilt af út að Stokkseyrarlandi, þangað til Kotleysu ber í Markavörðu fram á sjávarbakka, og liggur sú lína upp í Brandhól, frá honum upp í Ívarshól. Frá honum ræður sjónhending fram í Breiðamýrarholtslæk, og er varða upp af Brandsborg í línunni, sem á að bera í Tóftastekk, þegar staðið er á Ívarshóli. (Landamb. Árn., þinglesið 16. júní 1890).

Landskostum í Brattsholti lýsir ÁM á þessa leið: ,,Fóðrast kann 7 kýr, 12 ær, 12 lömb, 4 hestar. – Torfrista og stunga sæmileg. Elt er taði. Brúa þarf fyrir kvikfé til hagans ekki minna en sjö loftbrúr í þerriári. Hætt er kvikfé á vetur og vor fyrir holgryfjulækjum, og hefir að því jafnan skaði orðið.“ (Jb. 1708, Il, 50-51). Þess skal getið, að Brattsholt átti ítak í Þjórsárdalsskógum á fyrri öldum. Skógarsvæði það var inni í Fossárdal og nefndist Brausholtstorfa (Ísl. fornbrs. Il, 865, og XIII, 166). Skráin, sem getur ítaks þessa, er frá 1556 eða litlu síðar. Í Jb. 1708 er þess ekki framar getið.

Um ábúendur í Brattsholti er lítið kunnugt fyrr en undir lok 17. aldar, en síðan hafa búið þar ýmsir merkir bændur, og er Bergur Sturlaugsson, forfaðir Bergsættar, kunnastur þeirra. Á árunum 1828-1863 var tvíbýli í Brattsholti og enn 1889-1904.

 

Leave a Reply

Close Menu