Baugsstaðir

Baugsstaðir

Baugsstaðir eru elzta byggt ból í Stokkseyrarhreppi og kenndir við Baug Rauðsson, fóstbróður Ketils hængs, er hafði þar aðsetur hinn fyrsta vetur, er hann var á Íslandi um 890. Um Baug segir svo í Landnámu: ,,Hann fór til Íslands ok var inn fyrsta vetr á Baugsstöðum, en annan með Hængi. Hann nam Fljótshlíð alla at ráði Hængs ofan um Breiðabólstað til móts við Hæng ok bjó at Hlíðarenda“ (Íslendinga sögur I, 209). Í Egils sögu er tekið fram, að þeir Ketill hængur og Baugur hafi haft samflot til Íslands og stýrt sínum knerri hvor eftir víg Hildiríðarsona, er þeir drápu til hefnda eftir Þórólf Kveld-Úlfsson (Íslendinga sögur Il, 54-55).

Engar heimildir eru um það, hvort byggð hafi haldizt áfram á Baugsstöðum eða lagzt niður um hríð, eftir að Baugur fór þaðan. Þegar Hásteinn Atlason kemur út, svo sem áratug síðar, nemur hann allt það land, sem síðar varð Stokkseyrarhreppur hinn forni, þar á meðal einnig Baugsstaði. En er synir hans skiptu arfi með sér, kom eystri hlutinn í hlutskipti Atla í Traðarholti, og Flóamanna saga bætir því við, að hann hafi einnig haft Baugsstaði ( Íslendinga sögur I, 219-20; XII, 7). Þetta bendir til þess, að Baugsstaðir hafi verið óbyggðir, þá er Hásteinn kom út. Annars kostar hefði hann naumast slegið eign sinni á landið. Tilgáta þeirra Páls Sigurðssonar í Árkvörn (Safn Il, 548) og Vigfúsar Guðmundssonar (Saga Eyrarbakka I, 18-19), að einhverjir af skipverjum Baugs hafi búið áfram á Baugsstöðum, er því ekki sennileg. Einkum eru hugleiðingar hins síðarnefnda um það efni fráleitar, svo sem það, að Rauðá (Baugsstaðasíki) hafi fallið til sjávar fyrir vestan Fornu-Baugsstaði og þeir þannig lent utan landnáms Hásteins. Slík tilgáta, sem ekki hefir við nein sýnileg rök að styðjast, bætir ekki heldur úr skák, því að þá hefðu Baugsstaðir lent í landnámi Lofts hins gamla í Gaulverjabæ og þar með í öðrum hreppi.

Á landnámsöld og söguöld voru Baugsstaðir í eigu Hásteins Atlasonar, Atla, sonar hans, og niðja þeirra. Í byrjun 13. aldar bjó á Baugsstöðum Börkur Grímsson, er var sjöundi maður í beinan karllegg frá Hásteini. Líklegt er, að Börkur hafi átt jörðina, þótt þess sé ekki getið. Svo mikið er víst, að tengdasonur hans, Flosi prestur Bjarnason, var eigandi hennar. Þykir sennilegt, að hann hafi fengið hana með konu sinni. Árið 1226 seldi Flosi prestur Dufgúsi Þorleifssyni Baugsstaði. Um eða litlu eftir 1270 átti Þeóbaldus Vilhjálmsson frá Odda jörðina og hafði þá kaup á henni við Árna biskup Þorláksson, lét biskup fá Baugsstaði, en tók í staðinn Dal undir Eyjafjöllum. Þannig komust Baugsstaðir í eigu biskupsstólsins í Skálholti. Voru þeir síðan stólsjörð fram undir lok 18. aldar eða í meira en fimm aldir.

Á stólsjarðauppboðinu 9. ágúst 1788 keyptu þáverandi Baugsstaðabændur, Magnús Jónsson og Einar Jónsson, jörðina, 23 hundruð og 80 álnir, fyrir 154 ríkisdali 72 skildinga. Hefir jörðin síðan verið að nokkru eða öllu í eigu afkomenda þeirra. Helming Magnúsar erfðu synir hans, Bjarni eldri á Baugsstöðum og Bjarni yngri á Leiðólfsstöðum. Árið 1806 keypti Bjarni eldri hluta bróður síns, og kom því helmingur þessi í eigu ekkju hans, Elínar Jónsdóttur, og seinni manns hennar, Hannesar Árnasonar á Baugsstöðum. Af þessum helmingi gengu 5/6 hlutar til sonar þeirra, Bjarna í Nesi, frá honum til Gríms í Nesi, tengdasonar hans, og eftir hann til Guðmundar stúdents Grímssonar, er seldi þennan hluta nálægt síðustu aldamótum, líklega Jóni bónda Magnússyni á Baugsstöðum, en 1/6 hluta þessa umrædda helmings eignaðist Jón annaðhvort með kaupi eða erfð frá föður sínum, Magnúsi bónda Hannessyni, bróður Bjarna í Nesi. Helming Einars Jónssonar erfði einkasonur hans, Jón hreppstjóri Einarsson á Baugsstöðum, en eftir hann ekkja hans, Sesselja Ámundadóttir, og seinni maður hennar, Þorkell bóndi Helgason, að nokkru, en að sumum hluta Einar bóndi í Hólum, sonur Jóns hreppstjóra Einarssonar. Hluta Einars í Hólum erfði Bjarni, sonur hans, en hluta Sesselju og Þorkels erfði dóttir hennar, Margrét Jónsdóttir á Minna-Núpi. Báða þessa parta eignaðist sonur Margrétar, Guðmundur bóndi Jónsson á Baugsstöðum með erfð og með kaupi. Árið 1910 eru þáverandi Baugsstaðabændur, Guðmundur Jónsson og Jón Magnússon, eigendur jarðarinnar. En núverandi bændur þar, Páll Guðmundsson og Ólafur Gunnarsson, uppeldissonur Jóns Magnússonar, eiga nú jörðina, sinn helminginn hvor. Baugsstaðir hafa þannig að mestu leyti haldizt í eign sömu ætta, síðan þeir urðu aftur bændaeign fyrir meira en 160 árum.

Landamerki

Landamerkjum Baugsstaða er lýst svo í lögfestu þeirra Einars Jónssonar, Þorkels Helgasonar og Hannesar Árnasonar fyrir jörðinni, dags. 17. apríl 1833, sem er elzta landamerkjaskrá Baugsstaða, sem oss er kunnugt um: ,,Við undirskrifaðir lögfestum í dag eignarjörð okkar Baugsstaði, liggjandi í Stokkseyrarhreppi innan Árnessýslu, með öllum þeim gögnum og gæðum, eignum og innnytjum til lands og vatns, sem nefndri jörð fylgt hefir og fylgja ber að fornu og nýju, með þessum landamerkjum: Fyrst Markatanga við sjó, þaðan í Mosaklett við Skipaá, þaðan í Skruggudal, þaðan yfrum miðja hólma í Baugsstaða- og Skipavatni og í þúfu fyrir norðan vatnið, þaðan í gráan stein í Barnanesheiði og svo beint í Hörpuhólslækjarvik; svo ræður fyrrnefndur lækur austur í Leirvik og úr því viki beint austur í Grjóttjörn, þaðan beina stefnu í Snorraþúfu og þaðan beint í Hólalæk og með honum nokkra faðma, og svo byrjast stefna á Arnarklett, sem stendur við Þverá, og með henni austur í Síkisútfall fyrir austan Bleikalónstanga og beint í Selós við brimgarð. Ef enginn finnst, sem þessari okkar lögfestu vill eða getur uppátalið að lögum, þá standi þessi fyrrnefnd landamerki fyrir aldna og óborna, svo lengi þeim verður ei með fimmtarstefnudómi hnekkt”. (Veðmálabók Árnessýslu, þinglesið 3. júní 1833).

Í byggingarbréfi Guðmundar bónda Jónssonar fyrir hálfum Baugsstöðum 24. marz 1885 eru landamerki jarðarinnar talin á þessa leið:

  • Milli Baugsstaða og Skipa ræður bein stefna frá Hörpuholtslæk (svo) um Markaflóð í gráan stein með þúfu á, þaðan bein stefna í Markaþúfu, þaðan bein stefna í Skruggudæl (svo), þaðan bein stefna í Markaklett, þaðan bein stefna í Mávaklett, og ræður sú stefna í sjó fram.
  • Milli Baugsstaða og Traðarholts ræður Hörpuholtslækur austur að Leirvík (svo).
  • Milli Baugsstaða og Leiðólfsstaða ræður sjónhending úr Leirvík í fremri enda Grjóttjarnar.
  • Milli Baugsstaða og Hóla ræður sjónhending frá fremri enda Grjóttjarnar í Snorrahól og þaðan sjónhending í Hróarsholtslæk við Beinateigsodda.
  • Milli Baugsstaða og Tungu ræður bein stefna frá Beinateigsodda að Tunguhólmakeldu.
  • Milli Baugsstaða og Loftsstaða ræður sama stefna frá Tunguhólmakeldu í vörðubrot á Háamel, þaðan sjónhending í Arnarklett við Þverá, sem líka nefnist ýmisst Bleikalón eða Bryggjulón, og með henni austur í Síkisútfall fyrir austan Bleikalónstanga og beint í Selós við brimgarð.

Baugsstaðir voru fluttir endur fyrir löngu, og heita þar nú Fornu-Baugsstaðir, sem bærinn stóð áður. Svo langt er síðan, að flutningur þessi átti sér stað, að í Jarðabók ÁM 1708 segir, að það séu munnmæli, að „þar hafi til forna jörðin Baugsstaðir verið og fyrir sjávarháska þaðan færð þangað, sem nú stendur bærinn.“ Hjáleiga var í byggð á jörðinni í rúma tvo áratugi í lok 17. aldar, er Baugsstaðahjáleiga nefndist.

Landskostum á Baugsstöðum lýsir ÁM á þessa leið: ,,Fóðrast kann sex kýr, tuttugu ær, hitt allt, sem meira er, fóðrast á tilfengnum heyjum, og segist ábúandi þau til fá stundum Gaulverjabæ, stundum Hæringsstöðum, stundum Holti, stundum Traðarholti, stundum Tóftum. – Torfrista og stunga mjög svo þrotin, að í tvö ár segist ábúandinn hafa til keypt heytorf frá Hólum. Þangtekja brúkast til eldiviðar og þó meiri partur af peningataði. Silungsveiðivon má ekki telja af smámurtum í stöðuvatni. Eggversvon af æðarfugli í vatnshólma þeim, sem jörðin á til helminga móts við Skipa, og lukkast misjafnt, alltíð að nokkru gagni. Dúntekja af þessum hólma er og oftast að nokkru gagni, oftast 5 aura verð í hvors hluta. Selveiðivon hefir að fornu að góðu gagni verið, en í næstu 4 ár ekki lukkazt. Rekavon í meðallagi við þessa sveit að reikna, hefur ábúandi það af reka, sem stóllinn leyfir til húsabótar mönnum. Sölvafjara bjargleg heimamönnum og so stundum, að ábúandi selur öðrum sér til gagns til hundraðs eður meira. Í ár er þar á misvöxtur, so nú gagnar ekki. Fjörugrös eru til, en brúkast ei, því mönnum þykir lítt æt, nema hungur gangi að. Hrognkelsatekju má ekki til gagns telja. Sölvatekja í takmörkuðum reit af Skipalandi brúkast frá Baugsstöðum, en Skipamenn þar í mót beita Baugsstaðaland. Hvort þessi skipti séu að skyldu eður eftir samningi leiguliða, vita menn ekki. Það er víst, þau skipti hafa haldizt í vinsemi yfir 4 ár eður lengur. Tún og engjar spillast árlega af sandfjúki að ofan og austan, en sjávarágangi að framan. Hagaskortur er hinn mesti á vetur, því svell bólgna yfir landið mestallt. Ekki er kvikfé óhætt fyrir sjávarflæðum. Vatnsból erfitt um vetur fyrir fannlögum, síðan sandfjúk eyddi vatnsbóli því, sem hér var áður til peninganautnar á vetur.“ (Jarðab. 1708, Il, 43-44).

Um ábúendur á Baugsstöðum er allvel kunnugt á 13. öld. Jörðin var þá í tölu höfuðbóla landsins, og sátu þar að búi auðugir höfðingjar um alllangt skeið. Eftir það koma Baugsstaðir ekki við sögu fyrr en á 17. öld. Þá urðu málaferli mikil út af ábúð jarðarinnar, hin svonefndu Baugsstaðamál (um 1628-34), og eru ábúendur þar að mestu kunnir síðan. Einbýli var á Baugsstöðum í fornöld og aftur á tímabilinu frá því um 1700-1775, en tvíbýli var þar á 17. öld og aftur óslitið síðan um 1775. Á því síðasta tímabili verða ábúendur taldir í tvennu lagi. Þess skal getið, að sama ættin hefir setið á Baugsstöðum frá því um 1700 að undanskildum aðeins tíu árum (1844-1854). Eru það afkomendur Brynjólfs lögréttumanns sterka Hannessonar og Vigdísar Árnadóttur, konu hans.
 

Leave a Reply

Close Menu