Brautartunga

Brautartunga

Brautartunga er hálflenda hinnar fornu jarðar Kakkar, eftir að Kakkarhjáleiga hafði verið byggð úr jörðinni, sjá Kökk. Hálflendu þessarar er fyrst getið með nafni í manntali 1703 og nefndist þá og lengi síðan Syðri-Kökkur, en seint á 18. öld og eftir það jafnan Syðsti-Kökkur. Árið 1930 var jörðin skírð upp með leyfi stjórnarvalda og heitir síðan Brautartunga.

Á fyrri öldum voru Kekkirnir ásamt Kakkarhjáleigu sameign og lengi í eigu Stokkseyrarættarinnar. Síðasti sameiginlegi eigandi þeirra var mad. Þórdís Jónsdóttir í Dvergasteinum, og seldi hún þær hverja í sínu lagi undir lok 18. aldar. Syðsta-Kökk seldi hún um 1790 Jóni skipasmið Snorrasyni, sem var þá ábúandi á honum. Árið 1805 seldi Jón jörðina Þorkeli skipasmið Jónssyni á Gamla-Hrauni, og var hún síðan í eigu hans og niðja hans í rúmlega 100 ár. Annar helmingurinn gekk í eigu Símonar Þorkelssonar á GamlaHrauni og Elínar í Mundakoti, dóttur hans, unz Elín seldi hann Páli Bjarnasyni skólastjóra árið 1914. Hinn helminginn seldi Árni Þorkelsson á Stéttum, bróðir Símonar á Gamla-Hrauni, Jóni Jónssyni í Nesi, tengdasyni Þorkels á Gamla-Hrauni, og var hann síðan í eigu Jóns og Ólöfar, dóttur hans, unz hún seldi hann árið 1911 Júlíusi Gíslasyni, síðar bónda á Syðsta-Kekki. Helming þennan seldi Júlíus 1927 Páli Bjarnasyni skólastjóra, sem átti þá orðið alla jörðina. En Páll seldi hana síðan Sæmundi Friðrikssyni bónda þar og núverandi eiganda hennar.

 

Leave a Reply

Close Menu