51-Móvinna og torfskurður

Mótekja þar eystra var bæði rýr og vond nema í Ölfusinu og þar, sem háir bakkar lágu að ám og lækjum.

Snemma á vorinu var farið að taka upp móinn. Grafir, 4-6 álna langar og 3-4 álna breiðar, voru gjörðar með því að stinga 3-4 skóflustungur, er einnig voru nefndar pálstungur, þangað til mórinn sást, og var hann óvíða þykkri en 2 eða 3 pálstungur. Mókekkirnir voru á stærð við skóflublaðið, og fleygði sá, er pældi, hverjum þeirra upp á grafarbakkann eða í hendur þess, er þar stóð og tók á móti þeim og handlangaði svo hvern þeirra til hins næsta, er hlóð þeim í hrauka, gilda að neðan, en mjóa að ofan. Voru þeir síðan látnir standa þannig um nokkurra daga skeið, svo úr þeim þornaði, en síðan bornir út á þúfurnar þar í kring til þerris.

Stundum voru mókekkirnir bornir strax út um völlinn, væri hann þurrlendur. Að nokkrum tíma liðnum var mónum snúið við, og þegar hann þótti fullþurr orðinn, var honum hlaðið í köst og tyrft yfir hann eða þá, sem algengara var, að hann var borinn inn í mótótt, er stóð ár eftir ár. Síðar að hausti eða að vetrinum til, þegar ísar voru komnir á læki alla og keldur, voru sleðarnir teknir og á þá látið sem tolldi og ekið á þeim til bæjar. Mórinn var síðan látinn í taðstálið og honum brennt með skán og þangi um veturinn. Einhlítur þótti hann ófullnægjandi til eldiviðar.

Ungum mönnum þótti gaman að aka mónum heim á sleðum og það því meir sem vegurinn var torveldari eða þýfðari, því þá hossaðist allt svo vel, og þurfti þá meira afl og kænsku til þess að draga sleðann upp úr keldunum og fara eða finna beztu leiðina og „rekja sig“ þar, sem ísarnir voru beztir.

Ruðningum ofan af mónum var rutt niður í mógröfina þegar fyrsta daginn, en þó svo, að hann næði upp á grafarbakkann öðrum megin, svo að: fénaður færi sér síður að voða, þótt hann félli í gröfina. Var þessa þó eigi alls staðar gætt nógu vel, og því týndist mörg skepnan á þennan hátt.

Til torfskurðar voru notaðir tvenns konar torfljáir: einskerar, sem skáru torfuna eins og hún átti að vera og í einu lagi. Sumir höfðu gat í ljás-oddinum með bandi í, sem annar maður hélt í hendi sér og skar jafnóðum á móti hinum. Var það að vísu léttara, en vannst þó lítið betur, ef torfskurðarmaðurinn var duglegur og vanur að skera torf.

Þyrfti að hafa einskeratorf á samfellur, þ. e. tvö upphlaðin hey saman með fullri geil heys á milli, þurfti torfan að vera 12 fet á lengd. Væri hún eigi svo löng, þurfti tvær styttri torfur, 5-6 feta langar hvorum megin, og var þá þriðja torfan látin yfir enda þeirra og mæninn. Var það nefnt að „káputyrfa“, en þá vildi heyin oft rjúfa að vetrinum til, ef mikið hvassviðri gerði. Var það þá káputorfan, sem fyrst bilaði, og fóru þá hinar einnig sömu leið.

Til þess að heyin ryfi því síður, klæddu menn heyin með viðarhríslum og bundu þær saman með endum eða silungsnetaslæðum gömlum.

Með tvískera-torfljáum voru skornar 6-7 feta langar torfur, og náðu þær yfir flest hey. Sá, sem torfuna skar, varð að skera hana beggja megin og vera skjótur til að snúa sér við eða bregða sér yfir til hinnar hliðarinnar.

Duglegir og vanir torfskurðarmenn skáru allt að tveim hundruðum tvískeratorfs á dag, en þeir, sem notuðu einskera allt að fjórum hundruðum eða meira. Báðir urðu þeir að traga torfurnar upp úr pælunni, velta þeim frá henni og hringa þær, svo að þær þornuðu því betur og því fyrr. Síðan voru þær reiddar um þverbak á berbökuðum hestum eða í barkrókum, ef um einskeratorfur var að ræða, sem svo voru langar, að þær drógust með jörðinni að öðrum kosti. Sumir síluðu stærstu torfurnar í reipum upp á klyfberaklakkana svo hátt frá jörðu, að endarnir tæki eigi niðri.

Torfskurður var ein hin erfiðasta og versta vinna, sem hugsazt gat, en þó fengust fleiri menn til slíkrar vinnu en að gátu komizt, og var kaupið þó eigi hátt, tvær krónur í mesta lagi fyrir dag hvern og fæði að auki.

Skammorf var á hverjum ljá, og voru þeir klappaðir til eggjarinnar, en eigi lagðir á hverfi.stein. Svo harðir voru þeir, að steinbrýni ein unnu á þeim.

Torfvöllurinn eða torfristan var þar helzt, sem þjóttumýrar voru, og í sumum þeirra var reiðingsrista eða völlur. Mátti þar fá reiðingsdýnur og framanundirlög, sem kom sér vel, þar sem engan mel var að fá til þeirra hluta. Meldýnur fengust austan úr Meðallandi og sveitunum þar nálægt.

Víðast hvar, þar sem sæmilegur torfvöllur er í gulstararengjum, er at að finna, og var það til margra hluta nytsamlegt og einkum til litunar á fötum og einkum til þess að festa í þeim mosalitinn, en hann var búinn til úr skófum þeim, er finna má utan í hraungrýti og gráum steinum í brunnum hraunum. Verður honum eigi náð nema í votu veðri, og svo er einnig með fjallagrösin. Til þess að ná í mosaskófirnar var farið á aflíðandi sumri og þær tíndar í mosatínur eða önnur smáílát. Atið var stungið upp með skóflum, og lá það rúmri pálstungu undir sverðinum, dökkrautt á lit, og sló á það grænleitum eirliti, þegar það hafði þorrnað nokkuð og legið undir beru lofti.

Fæstir menn þekkja nafnorð þetta og halda, að það sé sama og at það, er hestum er att saman og af því sé komin sögnin að atast. En því fer fjarri, heldur er það kornið af því, að sagt er um óhreinláta unglinga, sem eru útataðir í for og bleytu: „Hvað er að sjá þig? Þú ert allur útataður!“ Atið er nefnilega for og leðja, sem engum hreinindum veldur.

Leave a Reply

Close Menu