50-Búningar og klæðaburður

Karlmenn voru í vaðmálsfötum yzt, en innri fötin, nærbuxur og nærskyrtur voru prjónaðar úr smágerðu bandi. Þegar nærbuxurnar voru orðnar gamlar og gular af elli og nærri gatslitnar eða svo óhreinar og snjáðar, að ekki var lengur hægt að nota þær, voru þær hafðar yztar fata og utan yfir nýrri nærbuxum. Voru þær þá nefndar höld eða skothöld. Þannig klæddu menn sig þó aðeins heima fyrir, en mjög sjaldan úti í frá nema þá nærri bæ sínum við smalamennsku. Þeir, sem þannig voru búnir, voru skemmtilega spókaralegir á að líta. Leit einna helzt út fyrir, að þeir væri berstrípaðir með öllu, því bæði var það, að liturinn á buxunum var líkur líkamslit mannsins, og svo voru þær svo þröngar, að aflraun og lag þurfti til þess og jafnvel orku að troða sér í þær utan yfir nærbuxurnar. Sá var kostur þeirra, að ekki næddi í gegn um slík skothöld, og þau drógu ekki vatn. Getur það hafa verið vegna þess, að þau voru ekki ávallt hrein og höfðu ekki verið þvegin um lengri tíma, enda hafði ellin þæft þau svo vel í svita og óhreinindum, að þau voru ávallt svellþykk, skjólgóð: og hentug mjög við gegningar.

Flestir hinna yngri manna kinokuðu sér mjög við því að búast þvílíkum klæðum – skothöldunum, – og getur nafnið eitt hafa verið nægileg orsök til þess, að svo var, eða þá hitt, hve þröng þau voru.

Aldrei vissi ég til þess, að neinn fullorðinn maður, – nema þá gamlir karlar, – á heimili foreldra minna klæddist skothaldi, en við krakkarnir, drengirnir, komumst ekki hjá því að vera í skothaldi heima við, og finnst mér ég enn finna til sárrar blygðunar af því „að láta nokkurn mann sjá mig“ þannig klæddan.

Heima við, t. d. við gegningar, voru prjónaðar peysur notaðar að ofanverðu eða þá einskeftur ofnar til móts við skothaldið, og héldu þær einnig vatni, a. m. k. ef ekkert mæddi á þeim, t. d. strit við grjótvinnu eða garðahleðslu, því að þá urðu menn bráðlega gegndrepa í olnbogabótunum og á handleggjunum. Við slátt voru peysur þessar bæði léttar og liðugar, en einkum þó betri en nokkur önnur flík vegna þess, hve vel þær dugðu, jafnvel í stórrigningum. En því aðeins voru þær betri en önnur hlífðarföt við sláttinn, að þær væru vel ofnar, úr góðri ull og með einskeftuvefnaði.

Væri blautt um, regn, snjókrap eða vöðlar milli fjárhúsa og bæjar, fóru menn í skinnsokka með hemingsleistum, saumuðum með miðseymi, eins og sjóbrækur væri. Skinnin vorn oftast eirlituð ærskinn og skórnir utan um skinnsokkana nokkuð stærri en venjulega, óbryddaðir, en með vænum þvengjum og leður eða skinnsokkaböndum, sem saumuð voru áföst við skinnsokkana og hnýtt utan um þá um hnésbótina.

Um hálsinn höfðu menn trefil, oftast röndóttan eða með mislitum langbekkjum, ofnum með bandprjónum úr tré, en á brjósti höfðu menn brjósthlífar með ýmsum litum og rósóttum mjög. Að eiga fallega brjósthlíf, ,,velrósaða“, og væri hún gjöf unnustunnar og handbragð hennar á, var ekki unnt að hugsa sér kærkomnari né æskilegri vinargjöf. Þvílík „gersemi“, e. t. v. saumuð með silfurþráðum, dregnum gegn um smáar skelplötur og „alla vega rósóttar“, sagði stundum meira um hug ungra manna og kvenna hvers til annars en þau sjálf vildu vera láta. Brjósthlífin ein og út af fyrir sig var nokkurs konar „opinberun“!

Höfuðbúnaður manna var með ýmsu móti. Karlmenn höfðu hina svonefndu „hálfkagga“ á höfði, er þeir fóru til kirkju eða annarra mannfunda. Hattar þessir voru nákvæmlega eins og pípuhattar þeir, sem nú tíðkast, en miklu lægri og alls eigi fallegir. Annars höfðu margir kollhúfu á höfði heima fyrir eða þá derhúfu úr einskeftu eða vaðmáli og með speldum, er leggja mátti niður á eyrun. Síðar komu svo loðhúfurnar með líku lagi, en töpp upp úr hvirflinum. Voru þær úr lambskinnum og saumaðar í kross, þannig að saumarnir mættust í hvirflinum, þar sem töppin var. Þær voru hlýjar vel og mátti bretta þeim niður um eyrun, ef kalt var. Aftan í hnakkanum var á þeim klauf, hnýtt saman með lindum úr hvoru lafi, sem leysa varð, væru þau brett niður.

Buxur voru ekki með klauf, heldur með breiðri loku, er tók út á bæði lærin og var hneppt á báðum hliðum upp á buxnastrenginn, en honum héldu axlaböndin uppi. Þau voru ofin, langröndótt og lagleg útlits með götuðum skinnpjötlum á endunum, svo að hægt væri að „hneppa upp um sig“ eða „niður um“, ef með þurfti.

Margir hinna eldri manna toguðu buxurnar upp að hnésbótunum og bundu þar um neðri hluta buxnaskálmarinnar með fallegu sokkabandi eða þá með snæri, ef annað var ekki fyrir hendi. Til hátíðabrigðis höfðu flestir bryddaða skó á fótum, og var bryddingin úr eltu skinni, skjannahvítu og voðfelldu. Þvengir voru úr sama efni og ristarþvengir einnig, er bundnir voru yfir þvera ristina, svo að skórnir héldist betur að fætinum.

Börn höfðu oftast ærskinnsskó á fótum, en óbryddaða, nema spariskór væri. Þau höfðu „buddur“, sem náðu upp á kálfana, og „góuvefjur“ um ristarnar og öklana, ef blautt var um, krap af snjóbleytu eða þíðum auri.

Yfirhafnir, frakkar eða kápur eða „slög“ sáust sjaldan og alls ekki hjá óbreyttu alþýðufólki fyrri en eftir 1874. Raunar man ég ekki margt um þetta efni, þó man ég vel, að faðir minn fékk sér kápu eina úr einskeftu, mórauða að lit, árið 1875 og aðra með vormelsdúksvíindum ári síðar. Klæddist hann henni jafnan, þá er hann fór eitthvað út af bænum. Þótti þetta talsverð nýlunda, og eigi var frítt fyrir því, að það þætti bera vott um óvenjulega viðhöfn og jafnvel sundurgerð, en hann var nú hreppstjóri og dró það nokkuð úr öllum undarlegheitunum, svo og það, að menn vissu, að hann var enginn tilgerðarmaður eða spjátrungur, er vildi sýna annað en það sem hann var. Þokkalegur alþýðumaður, sem oft varð að fara. af heimili sínu í almenningsþarfir, hagaður á fæti (stinghaltur) og gigtveikur, enda þá nokkuð við aldur og því kulsækinn og kvefgjarn. Hann varð því að hafa skinnfeld eða ullarvaf um fótinn og verja hann vosbúð og kulda.

Kjólklæddan mann sá ég engan nema prestinn og „kaupmanninn“, en þeir voru eigi í kjóli, heldur frakka eða „diplomat“, „sjakett“ eða einhverju þess konar, sem ég kann naumast að nefna, svo fágætt var það.

Fyrsti raunverulega kjólklæddi maðurinn, sem ég sá, var Grímur Thomsen, er hann var svaramaður Tómasar læknis og frú Ástu Hallgrímsson, dóttur Thorgrimsens, árið 1877. Skeð getur, að Thorgrímsen, sem einnig var svaramaður, hafi verið kjólklæddur, en ekki hefur mér þótt það svo mikil nýjung, að ég tæki eftir því, enda er ég óglöggur maður á það, hvernig menn eru klæddir. Ég tek aldrei eftir því og þykist þó geta þekkt þá af einhverju öðru.

Stígvélaskó sá ég ekki fyrr en 1874, en þá, á þúsund ára hátíðinni, voru þeir staddir við messugjörð á Stokkseyri Þórður gamli Guðmundsson og synir hans nokkrir svo og fáeinir „assistentar“ af Bakkanum og danskir yfirmenn af skipum þar. Voru þeir allir á „dönskum“, en það þýddi að vera á stígvélaskóm. Í sambandi við þetta orðtak minnist ég þess, sem sveitamaðurinn eystra sagði, er hann kom á Seyðisfjörð og sá þar í stofu Kristsmynd eina, er sýndi, að Kristur hafði haft sandala á fótum með brugðnum böndum yfir báðar ristar. Maðurinn horfði um stund á myndina, undrandi mjög, en sagði síðan, eins og við sjálfan sig, en þó svo hátt, að aðrir heyrðu:

,,Og er þá kannske á dönskum!“

Svo fáséður var slíkur fótaumbúnaður þá, að menn féllu í stafi, ef einhver sást með stígvélaskó á fótum, enda þótti það órækt merki uppskafningsháttar og tilgerðar.

Menn klipptu hár sitt þannig, að þegar það var greitt niður og aftur af hnakkanum, var það stíft svo að neðanverðu, að stallur varð á, og hann því meiri og bústnari sem hárið var þykkra. Venjulega var því skipt í miðju, framan frá enni og aftur í hvirfil, en sjaldan til hliðanna eða út frá kollvikunum.

Þá klipptu karlmenn skegg sitt með skærum, en rökuðu sig ekki. Bartar voru oftast látnir vera á báðum kinnum framan undir eyrunum, en sumir höfðu „kragaskegg“ undir kjálkum og höku, en klipptu aðeins yfirvarir sínar og hökuna.

Eftir 1874 tóku menn upp klippingu þá og síðar rakstur, sem kennd var við Kristján konung níunda og kallað var að: vera með „Kristjáns níunda-skegg“, en það var skegg á efri vör og bartar á vöngum. Þótti þetta því áferðarfegurra sem skegg það, er eigi var klippt eða rakað, var meira á vör og vöngum. Því voru það nokkrir menn, t. d. Geir gamli Zoéga, Þórður á Hóli og synir hans, svo og ýmsir aðrir í Reykjavík og utan hennar, sem létu vangaskegg sitt vaxa svo langt sem varð niður á brjóst og bringu, en rökuðu eða klipptu skegg allt af efri vör og höku. Þetta var að vísu ekki „Kristjáns níunda-skegg“, en líktist því, og var þá mikið fengið!

Búningi kvenna á ég bágt með að gjöra sömu skil, en sagt var mér, að hann væri því eftirtektarverðari og ypparlegri sem pilsin voru fleiri og mislitari, með grænum, bláum og rauðum þverröndum.

Því var það að leiksystir mín, – hún andaðist hér í bænum fyrir nokkrum árum fjörgömul, – er á þeim árum þótti vilja halda sér til, fór í réttirnar, klædd fjórum pilsum. Heimleið hennar lá um Ásana, og lenti hún og samferðamenn hennar í myrkri, aur og bleytu, en þau ætluðu heim að Seljatungu. Háar þúfur voru til beggja hliða, og urðu þær til þess, að stúlkan missti annan stígvélaskó sinn og fann hann ekki aftur. Varð hún því að binda og sívefja snæri um fótinn.

Nú var einn samferðamannanna henni svo kær og hún ef til vill honum líka, að henni þótti mikils um vert, að hann sæi ekki fótabragð hennar. En nú vildi svo til, að þegar þau voru komin að Seljatungu og setzt var þar inn að bíða eftir kaffi, að kornungt barn, sem svaf á rúmi því, er stúlkan sat á, vaknaði. Stúlkan kenndi í brjósti um barnið og vildi hugga það, og því hallaði hún sér á þá hliðina, sem stígvélaskórinn var enn á, en hinn fótinn terraði hún fram undan öllum pilsunum, og sást þá bezt, hvernig um hann var búið.

Þetta sá hinn hálfgerði kærasti hennar, og þótti honum svo mikið fyrir, að hann sleit allri vináttu við hana upp frá því. Enda hlaut hún viðurnefnið: ,,Finna á fjórum pilsunum“!

Það er helzt skautbúningurinn gamli, sem ég man eftir, trafa- eða treflaöskjurnar, sem gömlu konurnar geymdu handlínurnar sínar í handraða kistu sinnar og tóku upp einu sinni á ári, þegar þær fóru til altaris eða annarra hátíðlegra samkvæma.

Skautið sjálft beygðist aftur á við upp frá hvirflinum, þar var það sívafið handlínunni aftur fyrir hnakkann og fram fyrir ennið, svo að skautið sæti því fastara, en það tók talsvert á sig og mátti lítið við það koma, því að það var breið og vel línstrokin eða „stífuð“ fokka, sem náði fram á móts við enni konu þeirrar, er það bar. Handlínan var eitt hið mesta „gersemi“ kvennanna, skrautlegur silkidúkur með öllum litum regnbogans eða enn fleiri, og eru þeir þó taldir sjö! En hin eiginlega „handlína“ var af líkri gerð og jafnvel enn skrautlegri. Harra höfðu konur í hendinni, og af því mun hún hafa verið handlína nefnd.

Næst þessu kom svo „húfan“ úr svörtu silki og slétt að ofan og gylltu „koffri“ í kringum höfuðið! Eina eða tvær konur sá ég búa sig á þennan hátt, því að nú kom „nýja skautið“ hans Sigurðar Guðmundssonar málara til sögunnar, og þarf ég eigi að lýsa því. En húfunni og nýja skautinu fylgdi samfella, skrautleg peysa með gylltum boðangi, millum og nál og gylltum borða fremst á báðum ermum. Samfellan var klæðispilsfaldur, kræktur saman að framan og baldiraðir gylltir klæðisborðar frá mitti og niður á tær að framanverðu eða þar, sem hliðargeirarnir komu saman. Allt var þetta mjög skrautlegt.

Ég verð að játa, að ég er ekki svo vel að mér í þessum fræðum, að ég gæti staðizt strangt próf í þeim, en þeir sem betur vita, geta þá bætt um. Annars skal ég geta þess, að heima fyrir klæddust konur engum viðhafnarbúningi við gegningar og úti við í vondum veðrum, heldur karlmannsfötum, með bylhettu á höfði og rórra vettlinga á höndum. Voru þá margar þeirra karlmanns ígildi, kunnu verk sín svo vel og unnu þau með trúmennsku, dugnaði og af kappi, auk þess sem þær höfðu einnig öll inniverkin á hendi, uppeldi barnanna, þvottana alla og skítverkin, – en aldrei mögluðu þær!

Það var ónæðissöm staða, vökunætur margar, erfiði meira en svo, að þeim væri það í rauninni boðlegt, en þolinmæði þeirra og þrautseigja var ódrepandi. Og því erum við, sem fullorðnir erum, komnir á þessi ár, að við höfum átt góða, umhyggjusama og skyldurækna móður. Og við mættum vera hreyknir af, ef við gætum skilið eftir okkur ofurlítið brot af því, sem hún vann.

Leave a Reply

Close Menu