52-Fjallskil og réttir Flóamanna

Lengstu fjallskilin voru að fara í Norðurleit og síðar enn lengra eða inn í Arnarfell. Var þá farið á sunnudegi 12 dögum fyrir réttir, en í Norðurleit á miðvikudeginum næsta. Þeir, er fóru á Fit (Sultarfit), lögðu af stað neðan að á laugardegi, og þeir, sem fóru í Ver, sunnudaginn næsta þar á eftir, en á mánudeginum, sem fóru undir Klett.

Réttadagurinn var á föstudegi, og þeir, sem léttust fjallskilin höfðu, áttu að standa í Skörðunum og á Mosunum, og þurftu þeir að vera komnir á þessa staði, áður en safnið var rekið í byggð, svo að féð rynni eigi út um sveitirnar. Voru þessir menn kallaðir Skarðamenn. Aðrir urðu að bíða við réttirnar til þess að standa í kringum safnið, áður en réttað var og féð hafði verið rekið þangað neðan af Murneyri á föstudagsmorguninn, en þangað hafði safnið verið rekið nóttina áður og kvíað inni milli tjalda þeirra, er fjallamenn höfðu legið í, meðan þeir voru í fjallferðinni, og svo annarra, er ætluðu að vera í réttunum og höfðu tjöld með sér.

Milli tjaldanna á Murneyri var mjótt bil, og átti fjallmaður, einn úr hverju fjallmannatjaldi, að standa þar vörð, svo að féð færi eigi út úr hringnum, en þessa varðar þurfti sjaldan við, því að í kringum tjöldin og í skörðunum milli þeirra stóðu margir þeirra alla nóttina, er ætluðu að vera í réttunum daginn eftir, þótt enga ætti þeir kindina.

Mátti þá heyra söng mikinn þar á Eyrinni, því að þegar safnið hafði runnið ofan af afréttinum og staðnæmzt á þessu fagra og víðlenda flatlendi við Þjórsá og fjallmenn og aðrir höfðu slegið tjöldum sínum kringum hið mikla fjársafn, eins og væri það innikróaður her, er eigi ætti sér undankomu auðið, hljómuðu söngraddir hundraða manna úr hverju skarði. – Þau voru stundum 5 eða 6, sem tekin voru til þess að haldast við á um nóttina og kyrja þar fullum hálsi fram til morguns, ný lög og gömul, flest eða öll fleirrödduð og furðuvel samæfð, þótt enginn væri ákveðinn söngstjóri í neinum þessara flokka. Menn lögðu eyrun við og athuguðu, hvar bezt væri sungið, hvar fjölmennasti hópurinn og hvar þeir væri þátttakendur kunnustu söngmennirnir, er að undanförnu og um mörg umliðin ár höfðu skemmt þar bezt með söngröddum sínum og kunnáttu. Hlupu menn þá á milli „skarðanna“ og gerðust þátttakendur í þessum eða hinum hópnum, er hver um sig hafði mismunandi aðdráttarafl. En það mun oftast hafa verið þar, sem þeir sungu Bitru-bræður, Illugi Jóhannsson frá Laugum og Ormsstaðabræður, meðan þeir gátu aðstaðið.

Flest eða öll munu „skörðin“ hafa tæmzt, þegar menn þessir létu til sín heyra ný lög og fjörug, jafnvel og máske engu síður fyrir það, þótt þau væri við erlenda texta, einkum danska, og man ég sérstaklega eftir nokkrum þeirra, t. d. lögunum „Svæver ben i lette Danse“ eftir F. L. A. Knuzen, ,,Jeg gik mig ud en Sommerdag at höre“, gamalt þjóðlag, ,,Griber Glæden, för den flyver“, canon eftir J. Haydn og fleiri canonlög, t. d. ,,Lóan í flokkum flýgur“ eftir G. Martini.

Hér var, eins og áður er sagt, um furðanlega góðan söng að ræða og áheyrilegan, þótt útisöngur væri, enda voru þarna samankomnir margir beztu söngmenn sýslunnar og úr Rangárvallasýslu, og héldu bændur úr efri hluta þeirrar sýslu réttir sínar einmitt sama daginn og Flóamenn.

Fjallmenn sváfu vært í tjöldum sínum, enda voru þeir þreyttir eftir langa og oft erfiða og stranga fjallreið. Furðanlega lítið var um drykkjuskap á Murneyri þessa nótt.

Áflog og ryskingar voru engar, því að flestir drykkjumenn voru ríðandi út um allar sveitir, um Skeiðin og Hreppana, heima á bæjunum og leituðu hver annan uppi til þess að geta tuskazt hver við annan. Þeir sáust heldur ekki í réttunum, því að þangað áttu þeir engin erindi, enda veitti þeim ekki af að sofa úr sér vímuna daginn eftir.

Réttaferðirnar voru bæði skemmtilegar og siðsamar. Til þeirra hlökkuðu ungir menn og stúlkur allt sumarið og skemmtu sér vel.

Þá þóttu og fjallferðirnar eftirsóknarverðar ungum mönnum, þótt erfiðar væru. Furðu sjaldan urðu slys í þeim ferðum. Eitt þeirra er mér þó í barnsminni, þegar Helgi Helgason, ungur maður og efnilegur mjög, frá Hellukoti við Stokkseyri fórst í Þverá nálægt Stóra-Núpi í ofsarigningu og æðisgengnu vatnsflóði.

Það kom og fyrir að minnsta kosti einu sinni, að eigi var hægt að halda réttirnar á hinum ákveðna föstudegi. Því var það 1929, er ég kom að Þrándarholti og hitti systkinin þar, þrjú að tölu og öll komin á níræðisaldur, hið elzta reyndar yfir nírætt, og sagði:

,,Ekki man ég nú, hversu langt er síðan ég kom hingað síðast, eða hvaða ár það var“.

Sagði þá eldri systirin:

,,Manstu það ekki? Það var árið eftir ruglinginn!“

Ég var litlu nær, því að ég vissi ekkert um neinn „rugling“ og sízt svo merkilegan, að ár eða aldir né tími neinn væri miðaður við hann.

Gamla konan fræddi mig þá á því, að ég hefði komið þar síðast árið eftir, að réttirnar færðust til um einn dag sökum illveðurs og vatnavaxta og því eigi verið hægt að rétta fénu fyrr en laugardaginn næstan á eftir hinum venjulega réttadegi. Þaðan stafaði „ruglingurinn“.

Var þetta líkt því, sem enn gerist með Múhameðstrúarmönnum. Múhameð flýði frá Mekka til Medina sumarið 622 e. Kr. Við þennan atburð miða Múhameðstrúarmenn tímatal sitt og segja, að þetta eða hitt hafi skeð svo eða svo mörgum árum fyrir eða eftir Hedira, en svo heitir tímabil þeirra. ,,Ruglingurinn“ hjá Þrándarholtssystkinum var álíka merkilegur atburður í þeirra augum og því miðuðu þau tímatal sitt við hann. En þetta sýnir, að réttadagurinn var í meðvitund manna harla merkilegur, engu síður nema frekar væri en jól og páskar.

Að loknum réttum, um miðmundabil eða svo, var „rekið fram“, sem kallað var. Féð var rekið úr dilkunum áleiðis heim og dregið var í sundur í smærri rétt. Þá var það tilbreytingasamt og skemmtilegt ferðalag fyrir börn og unglinga að mega fara ríðandi á móti rekstrinum, t. d. neðan úr Stokkseyrarhverfi eða utan af Eyrarbakka upp á Harðavöll hjá Önundarholti eða jafnvel upp að Skotmannshóli í Ásum eða þótt eigi væri lengra en upp á Hólavöll eða að Arnarhólsvaði og mega svo vera í Grjótlækjar- eða Steinskotsrétt, þegar niður eftir var komið, til þess að draga þar féð í sundur hver fyrir sitt heimili.

Næstar að mannmergð og fénaðarfjölda voru Dælaréttir skammt þar frá, sem Þjórsárbrúin er nú. Voru þær haldnar rétt fyrir veturnætur og hinar síðustu almenningsréttir ársins.

Fjallferðunum stjórnaði gangnaforingi, ávallt nefndur „fjallkóngur“. Hafði faðir minn þann starfa á hendi um fjöldamörg ár og síðan Júníus, bróðir minn, enn lengur.

Tvívegis fékk ég að „fara á fjall“, öðru sinni „í Ver“, en ári síðar „undir Klett“, og oft fór ég í Skeiðaréttir og var þá ávallt á Murneyri og tók þátt í söngskemmtunum þeim og öðrum gleðskap, er þar fór fram. Mér ætti því að vera kunnugt um þetta allt og man það svo sem hefði það verið í gær.

Leave a Reply

Close Menu