49-Búskapar- og heimilshættir

Lýsing á þessu verður naumast nákvæm né tæmandi sökum þess, að hér er um víðáttumikið svæði að ræða og mismunandi atvinnurekstur. Raunar má segja, að hér sé einungis um tvær höfuðatvinnugreinar að ræða, landbúnað og fiskveiðar, sem þó eru svo samantvinnaðar, að þær verða að skoðast sem ein óskiljanleg heild.

Lífsafkoma flestra og nærri allra manna þar eystra byggist á báðum þessum atvinnugreinum, sem væru þær einn heildaratvinnuvegur. Um annað var naumast að ræða, svo sem iðnaðar- eða handverksmenn né heldur aðrar smærri atvinnugreinar. Menntastofnanir voru þá engar aðrar til þar eystra, hvorki andlegar né verklegar, nema barnaskólarnir á Eyrarbakka, stofnaður 1852, og á Stokkseyri, stofnaður 1879, fyrir börn á aldrinum 10 til 14 ára og aðeins og í mesta lagi um tveggja vetra skeið fyrir hvert þeirra, 4 til 5 mánuði á vetri hverjum. Var þetta mikilsverð framför og fjölda ungmenna til hins mesta gagns og uppörvunar til þess að leita sér frekari fræðslu síðar meir, jafnvel þótt til aldurs og ára væru komnir.

Upp frá þessu fóru menn að stunda ýmiss konar handverk, sumir urðu kennarar, og aðrir tóku að nema sjómannafræði og landbúnað, þótt það væri ekki fyrri en undir síðustu aldamót eða á síðasta fjórðungi aldarinnar og síðar.

Nú vil ég reyna að lýsa fáeinum heimilum og háttum manna á þeim. Þetta veitir þó ekki, eins og að framan segir, fulla hugmynd um háttu manna og atvinnu þar eystra, en séu tekin þrjú eða fjögur heimili, t. d. efnað, miðlungs- og fátækt heimili, má í stórum dráttum sjá, hvernig viðhorfið var í þessum efnum.

Annað fátækustu heimilanna á Stokkseyri var í miðju þorpinu, en hitt nálægt einni röst þaðan, svo að segja mátti, að það væri „í sveit“. Húsfeðurnir voru bræður. Annar þeirra, sá er neðar bjó, átti fjórtán börn, og dóu 8 þeirra á ungbarnaaldri. Kona hans var iðjusöm, myndarleg, nýtin og greind vel, og raunar þau hjón bæði, enda urðu börn þau, er upp komust, vel að manni, og þrjú þeirra urðu síðar barnakennarar. Hin þrjú urðu liðtækir verkamenn, og öll eignuðust þau mörg börn.

Búslóð þessara hjóna var sem hér segir: 3 hestar, 20-30 kindur og kýr ein eða tvær, enda framfleytti „jörðin“ eigi fleiri fénaði.

Húsfaðirinn var formaður á skipum fyrir aðra, en fremur linur sjósóknari og aflamaður í minna en meðallagi. Á vorum og haustum eða milli vertíða var hann háseti hjá öðrum og oftast hjá góðum aflamönnum. Lítið var um daglaunavinnu, og var því nytin úr þessari einni kú eða tveim, svo og sjávaraflinn búbjörg fjölskyldu þessarar, auk einhvers lítils sveitarstyrks árlega, þegar verst gegndi og aflinn brást eða fénaðarhöldin.

Híbýlin hef ég engin aumari séð. Baðstofan byggð úr grjóti og torfi, eins og öll önnur „hús“ voru byggð þá. Gluggi var á baðstofustafni með fjórum rúðum í og eigi allstórum. Stafgólfin voru 4 alls eða 2 til hvorrar hliðar, bálkar byggðir upp af grjóti með þurru torfi ofan á grjótinu, mýrarhey þar ofan á, engin ábreiða né sæng, og börnin, sem þarna „byggðu ból sitt“, lágu og sváfu í þunnum strigapokum, án þess að koddi neinn, svæfill eða sængurfila væri þar undir eða ofan á.

Sama máli var að gegna með hjónarúmið að öðru leyti en því, að pokarnir, sem þau lágu í, voru hærusekkir allvænir, lagðir ofan á strigaábreiðu, er þakin var yfir mýrarheyið.

Moldargólf var í baðstofunni og bænum öllum, ávallt vel hreint, sópað og þurrt. Rúmstokkar eða milligerð milli rúma voru engir, en þunn grjóthella aðskildi þó flest rúmin hvert frá öðru.

Kálgarðshola nokkur, er sáð var í gulrófna- og næpnafræi, var fram undan bænum. Kálið og rófurnar entust lengi fram eftir vetrinum og „sættu soðið“ í hrossakjötssúpunni, því oftast var reynt að ná í húðarhest á haustin, einn eða tvo, gegn einni eða tveim vættum sölva, er aflað var að sumrinu til. Allan ársins hring var aðeins brennt mó og þurru þangi, því að kol voru þá hvergi notuð né fáanleg.

Húsmóðirin fór á fætur fyrir miðjan morgun, klæddi krakkana og þrifaði þá til, svo og híbýlin öll, en húsfaðirinn fór á kreik ýmist fyrr eða síðar og þá venjulega niður að sjó til þess að snapa sér út bita eða sopa hjá nágrönnunum eða þá til þess að standa í vomum meiri hluta dagsins og róa, ef á sjóinn gaf.

Það var meðal annars hlutverk húsmóðurinnar og elztu barnanna að hirða um fénaðinn, hirða þangið, elda matinn, búa um rúmin og sópa gólfið. En ekki þurfti þó mikinn tíma til þess að hrista sængurnar eða strjúka af húsmununum, því að þar fyrirfannst ekkert af því tagi!

Hirðingin og snyrtimennskan á öllu úti sem inni var konunni að þakka. Hún var jafnan glöð í anda, ástkær börnum sínum, sem ávallt léku við hvern sinn fingur. Þau voru furðanlega vel útlítandi og fjörurg með afbrigðum. Svo sem vænta mátti, voru þau stundum svöng, en aldæi sáust þau í sníkjuferðum né heldur í neinum óknyttum. Orð var á því gjört, hversu glöð þau væru og siðlát, námfús og viljug til snúninga, svo og því, hversu mikið móðir þeirra lagði á sig þeirra vegna. Hún sjálf oft svöng og sárkvalin af gigtveiki, en umbar þó fátæktina og óreglu manns síns, en hann var drykkfelldur nokkuð og þá illur í skapi, með hinni mestu þolinmæði og þrautseigju. Hann féll frá 73 ára að aldri, en kona hans varð nærri níræð. Þrír synir þessara hjóna urðu, eins og áður var sagt, alkunnir barnakennarar. Hin börnin, er upp komust, reyndust hin nýtustu og afbragðs vinnusöm.

Hinn bróðirinn eignaðist 16 börn, og dóu 8 þeirra á barnsaldri. Hin, sem eftir lifðu og upp komust, urðu dugandi menn, og er nú eitt barnabarn gömlu hjónanna einn hinn athafnamesti maður og efnaðasti hér í höfuðstaðnum.

Búslóð hjónanna var tvær kýr, 4 hross og tæplega 20 kindur.

Tún var þar lítið og engjar rytjulegar. Nú er jörð þessi ein hin bezta þar um slóðir.

Húsfaðirinn var formaður á Stokkseyri og átti stundum hálft skip það, er hann var með á vetrarvertíðinni. En hann var oftast óheppinn með háseta og „lægstur í hlutunum“ þar í veiðistöðinni. Vor- og haustróðra stundaði hann jafnan, er hann hafði tíma og tækifæri til.

Svo mikil var fátækt þessa manns, að hann mátti ekki leyfa sér að vitja yfirsetukonu, þegar kona hans fæddi börn sín, og tók hann því við þeim flestum sjálfur. Þetta lánaðist allt vel, og ekki munu börn þau, er önduðust á unga aldri, hafa fallið frá sökum fátæktarinnar eða harðréttisins, heldur vegna ýmiskonar veiki, einkum barnasjúkdóma, sem þá voru algengir mjög, svo að ungbörn hrundu niður hrönnum saman. Læknishjálp var litla eða enga að fá nær en austur í miðri Rangárvallasýslu. Vitanlega hefur þekkingu manna í þessum efnum verið mjög ábótavant, en hitt er víst, að foreldrar önnuðust börn sín almennt betur þá en nú gerist meðal margra. Þeir liðu beinlínis vegna barna sinna sjálfir, einkum mæðurnar, og tóku bitann frá munni sér til þess að bjarga þeim við og hjúkra þeim á alla lund, án þess þó að leita mjög á náðir annarra nema þá sveitarsjóðsins, sem oftast var að mestu þurrausinn brunnur til annarra þarfa.

Húsmóðirin var dugnaðarkona, en lingerð til heilsu, fremur þrifin og vel að sér um flesta hluti. Maður hennar var reglusamur á vín, en vinnusamur var hann ekki. Vinnubrögð hans voru helzt þau að hirða hinar fáu skepnur þeirra, fara síðan niður á Stokkseyri og snápa þar í vomum, eins og svo margir aðrir. Hann var greindur vel og góðlyndur, sæmilega til fara, en svo fáklæddur, að hann skalf oft og nötraði af kulda.

Þess má geta um bræður þessa báða, að þrátt fyrir almenna fátækt héraðsbúa, varð þeim báðum vel til með ýmiss konar hjálp nágranna sinna og vina. Þótt annar bræðranna tæki á móti flestum börnum sínum inn í þennan heim, voru flest þeirra tekin til fósturs um einnar eða tveggja vikna skeið, meðan móðir þeirra var veik. Þá var ekkert barnahæli til, engin mannúðarfélög og fáir, sem hugsað gátu um aðra en sjálfa sig.

Híbýli þeirra bræðra voru svipuð um flest og húsmæðurnar líkar hjá báðum. Hjá öðrum bræðranna mátti sjá hvalsliði tvo, er notaðir voru í baðstofunni í stað stóla. Yfir öllum rúmum voru brekán og rekkjuvoðir, en koddar engir.

Búsáhöld voru fá og eigi önnur en askar, hornspænir, mjólkurskjóla, strokkur og mjólkurtrog eitt eða tvö.

Síðari bróðirinn færði frá hinum fáu kindum, sem hann átti, rak lömbin á fjall, enda urðu fjallskil hans á haustin hin minnstu, sem um var að ræða í sveitinni, eða þau „að standa á Mosunum“, sem kallað var, eða að standa í kringum safnið, meðan réttað var og dregið í dilka, enda voru þeim bræðrum gerð sameiginleg fjallskil, því að þeir voru í félagi með fráfærurnar og fjallskilin.

Þá hafði hann það fram yfir heimili bróður síns, að hjá honum var smiðja allgóð, þar sem hann gat stundað nokkrar smíðar, einkum járnsmíðar, amboð og spóna. Þá var þar og skemma sæmileg og önnur hús í viðunanlegu ástandi.

Jarðeplagarður var þar góður, en aðeins fyrir rófur og næpur, svo og kartöflur hin síðari ár.

Húsbóndi var góður í umgengni við aðra menn, oftast glaðlyndur og spaugsamur, en græskulaust þó.

Bæði voru heimili þeirra bræðra kirkjurækin, börn þeirra hrekklaus, ráðvönd og siðlát, en sjáanlegt var, að þau höfðu alizt upp við þröngan kost, þótt lítt fyndi það á heilsufari þeirra, sem var furðanlega gott.

Þá er þriðja heimilið. Það var af meðalstærð og talið meðal hinna efnaðri.

Hjónin þar höfðu sett saman bú sitt á koti einu, er fyrsta árið gaf af sér sex hesta töðugresis. Skilyrði fyrir því, að þau fengi jörðina til ábúðar, var það, að þau greiddi 25 speciur í eitt skipti fyrir öll og 20 álna landsskuld á ári hverju. Að þessu gengu þau og byrjuðu búskapinn, er stóð með stöðugum blóma um 33 ára skeið. Þau bættu lönd sín og keyptu nokkrar jarðeignir að auki.

Þeim hjónum varð 12 barna auðið, 10 sona og tveggja dætra, er báðar dóu í æsku ásamt sonum þrem.

Húsbóndinn varð hreppstjóri sveitar sinnar og fyrirsvarsmaður margra opinberra mála, en kona hans eina ljósmóðirin í hreppnum. Tóku þau öll börn, er hún tók á móti, á heimili sitt og ólu önn fyrir þeim öllum aðstandendum að kostnaðarlausu fyrstu vikurnar eina eða tvær.

Húsakynni þar voru góð, þótt byggð væri með sama hætti og önnur hús þar eystra. Baðstofan var sex stafgólf auk eins stafgólfs með tveim rúmum í herbergi, sem byggt var utar af og áfast við baðstofuna. Inngangur í baðstofuna var því á milli hennar og herbergis þessa. Moldargólf var þar og gluggi á stafni með sex rúðum. Borð var þar út við gluggann. Rúmin voru á grjótbálkum með timburfjölum á milli og rúmstokkar úr þumlungsþykkum borðum. Veggirnir voru berir, og sá þar í grjótið og torfið, en móleður var meðfram rúmum öllum og stoðir frá gólfi til mænis. Á þeim hékk eini grútarlampinn, sem lýsa átti alla baðstofuna, en grútarkolur voru notaðar frammi í eldhúsi, búri og göngum. Voru lamparnir og kolumar með fífukveikjum og hákarla- eða háfslýsi notað til ljósmetís. Mundi það þykja dauf vinnuljós nú á tímum, enda var það lýjandi mjög fyrir augun að notast við þau, sem þó varð að vera svo, þar sem ekki var um annað að velja.

Að öðru leyti voru húsakynni þessi: Vænar skemmur tvær, smiðja og taðkofi, búr og eldhús með stóru taðstáli, sem jafnan var fullt af taði, skán, klíningi og öðrum eldiviði. Rak við bæjarhúsin var heygarður með sjö beðum og einu eða tveim fyrir samfellur, en auk þess voru jafnmörg heystæði á undirgarði.

Beitarhús voru í fjarlægu seli, og rúmaði það um 100 sauði, en heima fyrir voru 3 hesthús, lambhús tvö og ærhús þrjú á grasi grónum bölum eigi allfjarri bænum. Búpeningur heimilis þessa hin síðari ár var sem hér segir: Hestar 16, ær um 80, kýr 7-8 að tölu og sauðir á ýmsum aldri nærri 100 að tölu. Engjar voru að vísu ekki miklar né auðunnar, en grasgefnar og svo hagfelldar, að! þar mátti heyja án nokkurrar innistöðu, hvort heldur var rosatíð eða þurrka eitt árið öðru fremur.

Heimafólk var þetta hin síðari ár: Vinnumenn tveir og stundum þrír, griðkonur tvær og auk hjónanna börn þeirra, synirnir sex, en einn þeirra var í fóstri annars staðar. Sveitarómagar voru þar jafnan einn eða tveir og oftast karlægur karl og gömul kona.

Karlmenn allir, þeir er náð höfðu tvítugsaldri, stunduðu sjóinn og voru í veri á vetrum, sumir þeirra einnig vor og haust. Þar var því jafnan blómlegt um að litast um bjargræði, er fiski og hausahlaðarnir voru hlaðnir á alla jarðeplagarðana, sem bæði voru víðáttumiklir nokkuð og vel ræktaðir fyrir kartöflur og kálávexti, sem jafnan voru nægar birgðir af. Sama máli var að gegna um heybirgðirnar, er ávallt voru svo miklar, að árlega voru margir hestburðir fluttir þaðan til þeirra, er heylitlir voru, gegn tveim hestburðum af nýjum heyjum að sumri til móti einum hestburði vorið áður.

Söl voru þar notuð allan veturinn til manneldis og fóðurs gemlinga og nautpenings. Oftast voru þrír eða fjórir húðarhestar lagðir að velli, enda var kjöt þeirra og feiti notað næstum daglega.

Svo vinnusöm var húsfreyja, að þótt vinnuafl væri þar mikið, tók hún hjólbörur sínar og ók mykjunni á allt túnið. Á vetrum, er karlmenn voru í veri, klæddist hún karlmannsfötum í byljatíð og harðindum og fór síðan með vinnukonum sínum þannig búnum í beitarhúsin og til gegninga fénaði öllum, en lét börn sín, þau er voru nærri tekt, annast börnin, er yngri voru, inni í bænum, búa um rúmin, sópa bæinn og matreiða fyrir sig og konur þær, er úti voru við gegningar. Þá fór hún ein með 3-4 hesta á fjörurnar, til þess að afla þaðan nægra sölva, og hafði hún þá einn dreng með sér. Voru sölin síðan látin í byrður tvær úti í skemmunum, fergð þar, látin hneitast og síðan á haustin seld sveitamönnum fyrir smjör, tólg, skinn og húðarhesta.

Heimili þetta þótti bera af flestum öðrum að hreinlæti, góðri umgengni og þrifnaði. Vinnusemin var þar öllum í blóð borin, bæði húsbændunum og hjúum þeirra., enda voru þau öll alin upp í þeim sjálfsögðu dyggðum að vinna heimili sínu og húsbændum engu síður en sjálfum sér, og var kaupið þó eigi ýkjamikið.

Kaup vinnumanna var 20 kr. á ári og 10 kr. vinnukvenna, auk hlunninda, sem voru 4 góð föt fyrir hvort þeirra og 2-4 lambsfóður fyrir hvert þeirra hjúa, sem fullgild þóttu, en eigi börn þeirra eða hjónanna. Þau fengu að eiga sitt lambið hvert og hinum eldri var oft ánafnað folald eða kálfur, sem þau þá fengu að hirða sjálf og tóku ástríki við.

Hin síðari ár fengu vinnukonur kistur úr kaupstaðnum og kostuðu hálfkisturnar 12 kr. og kvartkisturnar, er svo voru nefndar, 9 krónur. Gengu þær upp í kaup þeirra í stað peninganna, 10 krónanna. Þá var það og, að vinnumenn fengu ekkert kaup annað en hálfan hlut sinn á vetrarvertíð í stað kaups þess, er þeir höfðu áður, 20 kr. Báru þeir oft sæmilegt kaup úr býtum, eftir því sem þá gerðist, ef aflinn varð sæmilegur.

Það þóttu því firn hin mestu, er vinnumaður nokkur, rúmlega tvítugur að aldri, réðist til stórbónda eins í nálægri sveit fyrir 40 – fjörutíu – króna kaup fyrir allt árið, enda var hann, þessi ungi maður, með afbrigðum duglegur til allrar vinnu við sjó og í sveit.

Daglegar venjur á heimili þessu voru sem víðast hvar annars staðar á þessa lund:

Húsmóðirin fór á fætur kl. 5 á hverjum morgni, setti upp ketilinn og hitaði kaffið handa fullorðna fólkinu og mjólkina handa krökkunum, karlægu körlunum og konunum og undirbjó „litla skattinn“, er neyta skyldi um dagmálabilið.

Um hádegið var miðdegismaturinn á borð borinn, og sá húsfreyjan fyrir því, svo og nónkaffinu kl. 3-4 og loks kvöldmatnum um miðaftansleytið eða kl. 7.

Á kvöldin gerði hún við fataplögg barnanna eða þá að hún spann þráð á rokk sinn, og síðust allra gekk hún til hvíldar, syfjuð og þreytt.

Yngstu börn sín hafði hún í vöggu við rúm sitt, en sjaldan á brjósti nema nokkrar fyrstu vikurnar. Eftir það tók einhver vinnukonan við því starfi hennar að annast um börnin, og létu þær þau liggja hjá sér í rúmum sínum.

Húsbóndinn og vinnumennirnir fóru á fætur kl. 6 eða jafnvel fyrri. Hann til að sjá um gegningarnar með þeim, en þeir síðan til ýmiss konar annarrar vinnu. Einn settist við vefstólinn og óf allan daginn, annar fór á beitarhús á veturna og til smalamennsku, meðan þess þurfti með, og sást hann sjaldan inni við allan daginn nema við máltíðir, ef svo bar við, að hann væri þá heima.

Annað vinnufólk og stálpuð börn önnuðust gegningarnar heima við, mokuðu hesthúsin svo oft sem þurfa þótti. Væri sjólegt um daginn fóru vinnumenn til sjávar og reru, en á vetrarvertíð lágu þeir við í verinu.

Leave a Reply

Close Menu