48-Stjórnmál

Naumast held ég, að hjá því verði komizt að minnast á það hér, hvernig stjórnmálum var háttað á tímabili því, sem hér um ræðir. Þetta er að vísu engin nauðsyn, þótt nú á þessari víkingaöld stjórnmálanna muni það þykja sjálfsagt. En sem betur fer, er harla lítið af þeim að segja þaðan að austan. Þau voru lítt þekkt fyrirbæri og almenningur lét sig þau litlu skipta. Kosningabærir menn fóru að vísu til kjörþings, greiddu þar atkvæði sitt, eftir því sem þeim þótti sjálfum bezt við eiga, ,án áhrifa eða áróðurs frá öðrum. Blaðakostur var fábrotinn, aðeins Þjóðólfur og Ísafold, en leiðarþing, þingmálafundir og þvílíkar samkomur þekktust naumast.

Eigi vissi ég til, að neinn maður af Suðurlandsundirlendinu færi á þingmálafundi, fyrri en þingmálafundurinn að Þingvöllum var haldinn 20.-22. ágúst 1888, en þá fóru nokkrir unglingar, 18 að tölu, þeirra á meðal ég, þangað sér til skemmtunar og þótti vitanlega gaman að, enda var veður ágætt.

Rétt fyrir aldamótin bar þó svo við, að mönnum dámaði ekki að „gula seðlinum“ hans Valtýs Guðmundssonar. Menn hrukku við og þótti aðferð hans ljót. En hún varð nú samt til þess að marka sporið í þessum efnum, svo að síðan er hún rauði þráðurinn í öllum áróðri og athöfnum stjórnmálamannanna. Óheilindi og fyrirlitlegur svikavefur er uppistaða hennar, þótt eigi hafi kastað tólfunum fyrri en nú hin síðustu 30 til 40 árin, og þó einkum síðan leynilega atkvæðagreiðslan hófst eftir 1902. Það ár var síðasta opinbera atkvæðagreiðslan viðhöfð og fögnuðu menn mjög þeim umskiptum.

En enginn veit, hverju fagna skal. Það er eins og þessi „gæði“ síðari tíma hafi orðið mörgum mönnum til mæðu og málefninu til skaða.

Um kosningar þær, sem fram hafa farið á Eyrarbakka síðan, veit ég ekki. En eins og áður er sagt, létu menn sér það í léttu rúmi liggja, hvað fram fór á þeim vettvangi, en athuguðu þau mál sem önnur í kyrrþey og með virðingu. Menn litu á þau sem almenningsmál, en ekki einkamál sín. Það var heill þjóðarinnar og þá hvers einstaklings um leið, sem fyrir þeim vakti og annað ekki. En hvernig er þetta nú?

Leave a Reply

Close Menu