31-Orgelið í Strandarkirkju

Mér var, eins og flestum öðrum, kunnugt um það, að Strandarkirkja í Selvogi væri ein hin ríkasta kirkja landsins, en þrátt fyrir þetta væri þó ekkert orgel í henni, söngur lélegur og sjaldan messað. Ég hafði um mörg ár haft hljóðfærasölu á hendi og útvegað ýmsum kirkjum ágæt orgelharmonium, sem alstaðar reyndust vel og þóttu ódýr. Kvað þó meira að þessu síðar en hér var komið sögu og einkum eftir að ég fluttist til Reykjavíkur árið 1902. Mér var því talsvert áhugamál að fá því til leiðar komið, að keypt yrði vandað hljóðfæri til Strandarkirkju, því að hún gæti þó borgað, ekki síður en margar aðrar kirkjur, sem fátækari voru. Hins vegar var mér eigi síður kunnugt um það, að slík hugmynd og ráðagerð mundi mæta miklum mótþróa og mörg ljón verða á vegi mínum í þessu efni, jafnvel úr mörgum áttum. Það var hvort tveggja, að presturinn var þessu mjög mótfallinn og söfnuðurinn engu síður, enda við ýmsa aðra málsaðila að ræða um slíkt mál, svo sem héraðsfund, prófast og biskup, sem engir höfðu reynzt mér neitt sérlega leiðitamir við umleitanir mínar í slíkum málum áður. Mér var því fyllilega ljóst, að ég mundi þurfa á allri þeirri íhugun og ráðhyggni að halda, sem ég hefði ráð á, ætti ég að fá nokkru til leiðar komið í þessu efni. Ég íhugaði því málið svo vel og vandlega sem ég gat og lagði svo loks a:f stað með það út í óvissuna.

Svo stóð á, að presturinn til Selvogsþinga, séra Eggert Sigfússon, var sýslunefndarmaður þeirra Selvogsmanna, og sótti hann sýslufund árlega austur á Eyrarbakka einu sinni eða oftar á ári. Ég talaði því við hann fyrstan manna og reyndi að fá hann til þess að beita sér fyrir málinu, en lengi vel var ekki nærri því komandi. Hann sagði, eins og eflaust hefur verið rétt, að hér ættu svo mörg stjórnarvöld hlut að máli og margir aðilar, að ómögulegt mundi verða fyrir mig eða hvern annan sem væri að fá samþykki þeirra allra, enda vissi hann nokkurn veginn · fyrir fram, að þeir væru allir á móti því og hann sjálfur „ekki síztur postulanna“, eins og hann komst að, orði. Hann lét þess og jafnframt getið við mig, að vingjarnlegra ráð gæti hann ekki gefið mér en það að hætta alveg við slíka fásinnu.

Í þessu þófi milli okkar stóð svo um nokkur ár. Aldrei gat ég unnið bug á honum. En svo kom mér nýtt ráð í hug. Ég fór með hann út í Eyrarbakkakirkju og spilaði fyrir hann lagið „Eldgamla Ísafold“ á orgelið og bað hann síðan ganga heim með mér, því þar skyldum við tala um málið. Þegar heim kom, byrjaði ég á því að spila „Eldgamla Ísafold“ aftur á ágætt orgel, sem ég átti heima hjá mér. Ég spilaði lagið oft og þess á milli sagði ég við hann:

„Sjáið nú til, prestur minn, það er alls ekki vansalaust fyrir yður sem prest og svona stórríka kirkju að vera á eftir flestum öðrum að eignast gott orgel! Kirkjan yrði miklu betur sótt og guðsþjónusturnar miklu hátíðlegri!“

,,Hvað þýðir“, mælti prestur, ,,að láta Selvogsinga fá orgel? Þeim kemur aldrei til hugar að nota það. Ég er viss um, að þeir álíta það vera skrattanum til skemmtunar, að verið sé að garga á það! Þeir syngja ekki, og hver ætti svo sem að spila á það? Það kann enginn, og þar er enginn, sem getur lært það! Og mig langar ekkert til að heyra í því, nema þá einstaka lag, en þau eru nú ekki mörg!“

Um leið og ég settist að orgelinu enn einu sinni og spilaði „Eldgamla Ísafold“, bjóst presturinn til þess að ganga út, en staldraði þó við, á meðan ég spilaði lagið nokkrum sinnum. Og um leið og ég stóð upp, sagði ég við hann:

„Ég skal ráða bót á þessu, prestur minn! Þér megið senda til mín hvaða ungling sem þér viljið þegar í haust og láta hann vera hér allan veturinn. Ég skal kenna honum að spila á orgelið án þess að taka einn eyri fyrir kennsluna. Verið nú duglegur, sendið mér einhvern efnilegan ungling, pilt eða stúlku, svo ég geti kennt honum. Fáið svo samþykki safnaðar- og héraðsfundar og prófasts, og skal ég svo sjálfur eiga við biskupinn og – og … “

„Já, það er ágætt – biskupinn – þér viljið þá eiga við hann sjálfur? En ég sagði yður áðan, að við höfum engan, sem getur lært þetta. Við höfum ekkert annað en eintóma skúma þarna hjá okkur, og þeir geta vitanlega ekkert lært!“

Svo töluðum við um málið fram og aftur, og ég spilaði „Eldgamla Ísafold“, hvenær sem ég sá mér færi og nokkur þögn varð.

Samtalið endaði svo með því, að presturinn var orðinn eldheitur stuðningsmaður málsins og lofaði mér því, að hann skyldi beita sér fyrir framgangi þess eftir mætti. Hann hét því að skrifa mér fyrir haustið og láta mig vita, hverju hann hefði þá fengið á orkað. Hann kvaðst skyldu leita vandlega fyrir sér um organistaefni og sjá til, hvort hann fyndi nokkurn meðal „skúmanna“, er tiltækilegur væri til þess að vilja læra eða geta lært að spila á hljóðfæri, ef það yrði fengið í kirkjuna. Að lokum lýsti hann ánægju sinni yfir því, að ég hefði lofað að binda endahnútinn á allt saman, með því að tala við hans hávelborinheit, herra biskupinn.

Ég get fullvissað háttvirta lesendur um, að ég eftir þessi málalok lagði það á mig að spila „Eldgamla Ísafold“ aftur og aftur, áður en prestur kvaddi mig, því að nú vissi ég, að „björninn var unninn“, og að þetta loforð eins og öll hans loforð stóð eins og stafur á bók. Þau gátu ekki brugðizt! En áður en ég lýk sögu þessari, – sem er aðeins byrjuð, en ekki enduð, – gjöri ég ráð fyrir, að háttvirtir lesendur mínir sjái og skilji, hvers vegna og í hvaða tilgangi ég notaði svo oft lagið „Eldgamla Ísafold“, sem nokkurs konar hersöng til hvatningar og uppörvunar þessum gamla og góða vini mínum, er síðar varð, til þess að gjörast samherji minn móti öllum þeim fjölda „skúma“ og annarra stórvelda, er við bjuggumst nú við að eiga í höggi við um þetta mál.

Nú leið og beið fram eftir sumri, að engar fregnir bárust mér frá séra Eggert, en þó hafði ég heyrt, að hann hefði borið málefni sitt fram um þetta á héraðsfundi að Hraungerði þá um vorið og orðið vel ágengt. Þetta var að vísu ekki annað en lausafregn og engin vissa. Hins vegar hafði ég ekkert heyrt um það, hvernig honum hefði gengið við „skúma“-ungana í Selvogi né heldur um það, hvort prófastur hefði lagt með málinu eða á móti því. Í ágústmánuði fékk ég loks bréf frá séra Eggert. Kafli úr því hljóðaði svo um þetta atriði, og á ég bréfið enn:

„Söfnuðurinn vill fá orgel, og safnaðarfundur hefur samþykkt það, þótt honum vitanlega komi það lítið við, því hann hefur ekki fjárhald kirkjunnar. Formsins vegna er þó líklega rétt, að samþykki hans liggi fyrir. Prófastur sagðist mundu skrifa biskupi, – en þér hafið lofað mér því að tala við hann (þ. e. biskup) og mæla með því. En svo er eiginlega það erfiðasta eftir, og það er að fá einhvern til að læra þetta, að fara með gripinn. Tveir hafa gefið sig fram. Um annan þeirra er alls ekki að ræða. Hann er svoddan skúmur. Hinn mætti tala um, þótt mér sé kunnugt um, að hann er í aðra ættina – föðurættina – fæddur skúmur, og má rekja það langt fram í ættir. Það er Jón, sonur Jóns í Pálskoti[note]Hér er að sjálfsögðu breytt um nöfn.[/note], og þurfið þér þá ekki frekar vitna við, því hann þekkja allir. Þessi drengur er 16 ára og kemur til yðar í haust til að læra að spila á orgel það, sem í ráði er, að keypt verði til Strandarkirkju. Bezt væri að ráðast ekki að biskupi fyrr en samþykki allra aðila, sem á undan honum eru, liggja fyrir og þér auk þess hafið sannprófað, hvort þér getið nokkuð átt við skúminn, sem til yðar verður sendur. – Kejser Neró umbiðst endursendur með næstu póstferð“. Það var kver nokkurt, et séra Eggert hafði lánað mér, sem hann átti við.

*

Drengurinn kom til mín fimmtudaginn 30. september 1897, og leizt mér fremur gæfusamlega á hann í fyrstu. En þegar hann átti að fara að eiga við nóturnar, hvort heldur var á bókina eða á hljóðfærinu, vildi hann helzt ekki um annað tala en hákarlaveiðar, glímur og stökk, hve marga stráka hann hefði lagt að velli, sér miklu stærri og eldri, allt frá því hann var á 7. eða 8. ári, og þeir voru margir. En sérstaklega var honum tíðrætt um, hve frár hann hefði verið á fæti við það að elta tófuna á Selvogsheiði. Hreindýr hafði hann oft átt í brösum við, og margan hákarlinn hefði hann flegið hjá föður sínum, sem allir vissu, að hefði verið, væri og mundi verða mesti formaðurinn þar í Selvogi frá því sögur hófust og um ókomnar aldir. Nótunum í bókinni líkti hann við flugur á glugga og sagði, að það væri létt verk og löðurmannlegt að eltast við þær, því að það hæfði köttum einum en ekki mönnum. Nóturnar á hljóðfærinu, sagði hann, að væri eins og skammel á vefstól, en hann hefði aldrei vefari verið og mundi aldrei verða. Innivinna væri sér ógeðfelld og ekki sæmandi karlmönnum, sem krafta hefðu í kögglum. Hljóðin í hljóðfærinu, sagði hann, sér þætti leiðinleg. Þá vildi hann heldur sæmilega harmónikku og sagðist hann eiga eina slíka, sem hann spilaði á „Eldgamla Ísafold“, þegar presturinn kæmi, ,,bara til þess að erta hann“. Annars vissi hann ekki, hvort honum væri nein ertni í því, hann héldi jafnvel, að honum þætti gaman að því lagi, og skildi ég vel, að þarna hefði hann satt að mæla.

Þannig fóru kennslustundirnar að minnsta kosti framan af í ýmiss konar samræður um alla heima og geima og til lítillar uppbyggingar fyrir hvorn okkar sem var, og sá ég, að slíkt gat ekki gengið til lengdar, enda óvanur því. Mér var því um að gera að fá drenginn til að læra eitthvað, enda stóð nú á engu meira fyrir viðskiptin við Strandarkirkju en því, að mér yrði eitthvað ágengt í þessu efni. Drengurinn var að vísu með afbrigðum latur og illa vaninn, en fremur skýr og skilningsgóður. Að ytra útliti var hann hinn gjörvulegasti, vel vaxinn og óvenjulega þreklegur og sterkur, enda vissi hann af því og lét mig oft heyra hinar fáránlegustu sögur af sér. Til dæmis sagði hann frá því, að þegar hann var á 12. ári, hefði hann brotið fyrstu árina og síðan æ því fleiri á ári hverju eftir það, ,,og í fyrra“ sagði hann, ,,gekk ég með borðum á skipi föður míns úti á rúmsjó og braut allar árarnar, eins og væru þær eldspýtur!“ Þegar ég innti hann eftir því, hvernig þeir hefðu komizt í land svona á áralausu skipinu, sagði hann hróðugur:

,,Pabbi stýrði því í land! Hann er svo góður stjórnari, karlinn.

Þótti mér þá nóg um og bað hann hætta slíku grobbi, enda las ég ýmislegt fleira yfir honum, svo að hann fitjaði ekki upp á því framar. Í þau full 40 ár, sem ég hef haft orgelkennslu á hendi, hef ég aldrei haft neinn nemanda líkan þessum pilti, og eru þó nemendurnir orðnir æði margir og hafa verið víðs vegar að af landinu. Þeir skipta mörgum hundruðum talsins, bæði stúlkur og piltar, og kemur mér nú í hug að segja frá öðrum nemanda, gagnólíkum þessum Selvogspilti, í sambandi við þessa frásögn mína um hann, og var það 5 eða 6 árum áður.

Ég var einhleypur og ógiftur maður og bjó alla tíð, áður en ég giftist eða fram á haustið 1895, í Garðhúsum á Eyrarbakka hjá ágætishjónum, Halldóri Gíslasyni trésmið og konu hans, Guðrúnu Einarsdóttur frá Gili í Svartárdal. Dvöl mín hjá þeim var að öllu eins og ég væri í beztu foreldrahúsum, og leigði ég hjá þeim stóra stofu fyrir 10 krónur á mánuði. Fæði kostaði 50 aura á dag og þjónusta 2 krónur á mánuði. Húsaleigan var jafndýr eða réttara sagt jafnódýr, hvort sem ég bjó einn í stofunni eða við annan eða jafnvel þriðja mann, en fæði og þjónusta vitanlega jöfn fyrir okkur alla. Ég lét því nemendur mína, einn eða tvo, búa þarna hjá mér og minnist síðan margra ánægju og gleðistunda með þeim og mörgum fleiri eins og yfirleitt næstum hvers dags, er ég dvaldi þar.

Nú bar svo við, að dag einn um haust í norðan-bálviðri og frosti er barið að dyrum. Ég fer út og lýk upp. Stendur þar þá unglingspiltur á að gizka 17 ára úti fyrir, allur veðurbarinn og snjóugur frá hvirfli til ilja, en rjóður í kinnum og heitur af löngum gangi, að því er mér virtist. Ég hafði aldrei séð hann fyrri og spyr hann, hvaðan hann sé, hvað honum sé á höndum, og svarar hann því. Að svo búnu spurði hann mig, hver ég væri, og sagði ég honum það. Kvað hann mig þá vera þann, er hann leitaði að. Bauð ég honum síðan inn til mín, og bar hann upp erindi sitt við mig á þessa leið:

,,Viltu kenna mér að spila á orgel í vetur?“ ,,Það má reyna það“, sagði ég.

„Geturðu leigt mér eða útvegað mér orgel til þess að æfa mig á?“

„Ójá, ég get það!“

,,Geturðu útvegað mér húsnæði, fæði og þjónustu líka?“ ,,Ég skal sjá um það“.

„Já, en svo er eitt“, segir hann, ,,ég á engan eyri til að borga neitt af þessu!“

Mér leizt vel á piltinn og hugsaði sem svo: Sá er ekki feiminn og lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. En eftir dálitla umhugsun segi ég allalvarlega, sem þó í rauninni var hálfgerð uppgerð:

„Heldurðu, að nokkur maður taki þig upp á þá skilmála að láta þér allt þetta í té og eiga þess enga von að fá það borgað, eða áttu nokkuð til að borga með?“

„Engan eyri neins staðar“, sagði hann og hló við. ,,En ég hef heyrt það af þér sagt, að þú munir ekki láta strák, sem kominn er hingað austur á Eyrarbakka fótgangandi alla leið vestan úr Reykholtsdal, fara synjandi frá þér, og sízt, þegar þú hefur heyrt uppástungu hans um það, hvernig hann hugsar sér að ráða fram úr vandræðunum“.

Ég fór að verða forvitinn og bað hann segja mér, hvernig hann hefði hugsað sér að „ráða fram úr vandræðunum“.

„Ég veit“, sagði hann, ,,að þú stundar sjó á vertíðinni austur á Stokkseyri og stundar þar verzlun jafnframt fyrir Lefoliisverzlun allar stundir, sem þú ert laus frá róðrunum. Svo áttu hálft skip undir mesta og heppnasta formanninum þar og verður að kaupa alla hirðingu á afla þeim, sem þú fær sjálfur og af skipinu. Nú skal ég róa þér hlut í vetur og hirða allan aflann, bæði þinn eiginn og af skipinu og vitanlega það, sem ég afla líka. Með þessu ætla ég að borga þér kennsluna, fæðið, húsnæðið og allan þann kostnað, sem þú kannt að hafa af mér í vetur. Vitanlega ræð ég því ekki, hvernig aflast, en ef allt gengur vel, skulum við sjá, hvor okkar skuldar öðrum um lokin. Þú átt á hættu að fá lítið, ef ekkert aflast, en þú getur þá látið mig vinna eitthvað að vorinu til fyrir þig, ef svo fer“.

Mér þótti þetta svo einarðlega mælt, að ég sagði hiklaust: „Ég geng að þessu öllu, og þú skalt svo búa hérna hjá mér í vetur!“

Að vísu varð nú ekki af því, að hann byggi hjá mér, heldur í næsta húsi, og tóku nú báðir til óspilltra málanna, hann að læra, en ég að kenna honum, þegar ég var laus við barnaskólann og skrifstofustörfin við Lefoliisverzlun kl 7 á kvöldin.

Pilturinn var framúrskarandi iðinn og næmur, og réði ég hann til róðra hjá sameiganda mínum, Þorkeli Magnússyni formanni, sem með réttu var talinn hinn duglegasti og heppnasti meðal formanna á Stokkseyri um þær mundir, og voru þeir þó margir góðir. Vertíðin var ein hin aflamesta og pilturinn hirti afla minn og sinn og svo hálfan skipshlutinn vel og vandlega.

En nú kom snurða á þráðinn: Þorkell Magnússon kom til mín og sagði:

„Þú verður að taka þennan strákfjanda aftur, Jón. Ég vil ekki hafa hann á skipinu!“

„Hvað er að? Er hann ekki nógu duglegur eða hvað?“ sagði ég.

,,Hann er nógu kvikur, strákskömmin, en hann er með allskonar slúðursögur, sem berast um allt plássið, og veldur óánægju meðal piltanna, sem hjá mér eru, og það vil ég ekki hafa!“

Ég vissi vel, hvað klukkan sló, og sagði því við Þorkel:

„Sé ekki annað en það, sem mig grunar, að þegar þú telur hærri hlut eftir daginn en þú hefur fengið og pilturinn krefst þess að fá í minn hlut og sinn þá tölu fisks, sem þú segist hafa fengið til þess að vera hæstur í hlutunum þann og þann daginn, þá tel ég það ekki brottrekstrarsök. Ég veit, að komið hefur fyrir, að þegar þú hefur fengið 80 í hlut, en heyrt, að einhver annar hafi fengið 84, þá hefur þú talið 86 í hlut. Þetta munar 9 fiskum[note] 1½ hlutur á 6 fiska = 9 fiskar, þ. e. hlutur piltsins og hálfur skipshlutur.[/note] þann daginn, og ég álít, að pilturinn hafi .á réttu að standa, þegar hann krefst þessara fiska. En annars þarftu ekki að hafa þessa aðferð, því að þó þú sért ekki alla daga hæstur í hlutunum, fiskar þú jafnan svo vel, að þú hefur orðið hæstur um lokin, og svo mun fara í þetta sinn!“

Þorkell lét sér þetta vel líka, og pilturinn var kyrr. En í lokin gat hann talið 62 fiskum meira í mína hluti, en aðrir hásetar Þorkels höfðu fengið tiltölulega í sinn hlut. Varð Þorkell hæstur í hlutunum það árið eins og jafnan eða með þeim hæstu.

Piltinum gekk námið svo vel um veturinn, að hann spilaði oft í kirkjunni síðari hluta vetrarins án nokkurrar aðstoðar frá mér eða öðrum. Og þegar við gerðum upp reikninga okkar í vertíðarlokin, átti hann hjá mér sjö krónur!

Piltur þessi hét Jónas Pálsson, og fór hann síðan til Ameríku, giftist þar og er talinn einn hinn fremsti slaghörpuleikari í Winnipeg og með afbrigðum góður kennari. Dætur hans tvær hafa hlotið verðlaun við hljómlistarpróf undir umsjón konunglega hljómlistarskólans í Lundúnum.

Vitanlega tel ég mig engan þátt eiga í þessu, en saga þessa unga og efnilega pilts sýnir það, hve ákveðinn og einbeittur vilji til góðs fær áorkað og að þeim, sem vilja koma sér áfram sjálfir og eitthvað á sig leggja til þess, leggst ávallt eitthvað til. En oft hef ég hugsað um það síðan, að nú á dögum væru þeir ekki margir ungu piltarnir, sem legðu leið sína í vetrarbyrjun yfir fjöll og firnindi, fótgangandi og félausir um 160 kílómetra leið, til þess eins að fá þrá sinni fullnægt með því að nema einföldustu undirstöðuatriði hljómlistarinnar, ekki arðvænna en það var þá og er raunar enn hér á landi. Ég bendi á þennan unga pilt nú, ef vera kynni, að einhver annar ungur maður vildi taka dugnað hans og áræði sér til fyrirmyndar, en sæktist ekki eftir því einu að heimta allt með sjálfskyldu af öðrum, en gera ekkert sjálfur. Það er staðreynd, að „guð hjálpar þeim, sem vill hjálpa sér sjálfur“. Jafnvel vingjarnlegt orð eða lítilfjörlegur greiði umkomulítils manns getur oft orðið öðrum til góðs, uppörvunar og áræðis til að ryðja sér braut á líkan hátt og Jónas Pálsson gerði 1892.

*

En svo er þar til máls að taka, sem frá var horfið með piltinn úr Selvogi. Hann var hjá mér fram að vetrarvertíð og gat þá naumast skilað auðveldasta sálmalagi, svo að skammlaust væri. Ég gerði því ráð fyrir, að hann kæmi aftur eftir lokin, og það gerði hann, og fór þá allvel fram. Fór svo að lokum, að ég gaf honum vottorð um, að ég teldi hann færan til þess að taka að sér organistastörfin.

Nokkru eftir þetta fékk ég svo bréf frá Hallgrími biskupi Sveinssyni með beiðni um að útvega gott orgel-harmonium í Strandarkirkju og mætti það kosta allt að 700 krónum, en það þótti mikið fé fyrir hljóðfæri á þeim tímum. Prófasturinn, séra Valdemar Briem, hafði þá tekið það upp hjá sjálfum sér að skrifa biskupi og biðja um leyfið, og kom því aldrei til minna kasta að biðja um það. Orgelið útvegaði ég svo með fyrstu ferð og kom það um vorið 1898 og var flutt með eimbátnum „Oddi“ frá Reykjavík. Leið svo fram á sumarið, að ég frétti fátt og lítið um það, hvernig það reyndist og hvernig „sjóhetjunni ungu“, – en svo kallaði ég organistann, – gengi að leika á það. Bjóst ég hálft í hvoru við því, að hann hefði það eins við orgelið og árarnar á skipi föður síns, að brjóta nóturnar, sprengja belgina eða liða það allt í sundur!

A liðnum slætti barst mér bréf frá sóknarprestinum, séra Eggert Sigfússyni, og segir hann í því, að orgelið hafi komið um vorið, en sá hængur sé á, að organistinn vilji „ekkert við það eiga“. ,,Hann þykist ekki kunna með það að fara, því að það sé ekki eins og önnur orgel, heldur allt með töppum, sem hann kallar „útdragara“, er séu með ýmsum erlendum nöfnum, sem hann skilji ekki (ítölskum), en þetta hafi ekki orgel það haft, er hann lærði á hjá yður ….. “

„Hvað er hér um að vera?“, segir séra Eggert ennfremur í bréfinu. ,,Hafið þér látið drenginn læra á eitthvert annað hljóðfæri en orgel? Eða kann hann annars nokkuð í orgelspili eftir allt saman, og hvernig á nú að fara að? Ég er í standandi vandræðum með strákinn, sem vitanlega er, eins og ég hef sagt yður áður, argasti skúmur og af skúrnum kominn svo langt fram í ættir, sem hægt er að rekja þær. Hann er því ekkert lamb að leika sér við, og það eru heimskingjarnir venjulega ekki. Þá er ég ekki síður í vandræðum með orgelið, safnaðarfulltrúana, prófastinn, héraðsfund og biskupinn. Allt þetta hlýtur nú að ráðast á mig og kenna mér um allt saman. Svona dýrt orgel í svona litla kirkju! Og svo er ekki hægt að nota það! Lakast verður við biskupinn að eiga, – hann var líka verstur áður -, því að hann hefur yfirráðin öll yfir fjármálum kirkjunnar og kann víst vel við sig að hafa þau, því að maðurinn er eins og biskupar eru og hafa verið um allan heim, mikillátur og þóttafullur við okkur undirmenn sína og finnur mikið til sín. Ég hef engin rök fram að færa fyrir meðmælum mínum við hann, því prófastur hefur vitanlega skrifað honum og sagt honum, að ég væri því samþykkur og kannske meðmæltur, að svona dýrt orgel yrði keypt í kirkjuna. Hvað á ég að segja, eða er nokkuð hægt að gera? Getið þér tekið strákinn aftur og kennt honum betur, eða væri ekki bezt, að þér tækjuð orgelið aftur og endurgreidduð andvirðið? Þá væru allir ánægðir og biskupinn gæti ekkert sagt, enda mun honum aldrei hafa verið neitt kappsmál, að orgelið væri keypt og mikið fé í það lagt frá kirkjunni, þótt hún sé vitanlega langríkasta kirkja landsins og gæti keypt orgel á hverju ári. Það gera áheitin, vitleysan í fólkinu og hjátrúin hjá skúmunum!“

Ég skrifaði séra Eggert með næsta pósti og sagði honum, að drengurinn kynni alveg nægilegt til þess að geta verið organisti, en hann þyrfti vitanlega að æfa sig vel við og við. Hann skyldi vera rólegur og bíða þess, að þetta lagaðist. Jafnframt skrifaði ég drengnum og bað hann að láta mig vita, hverju þetta sætti, að orgelið væri ekki notað. Ef hann þyrfti einhverra leiðbeininga með, skyldi ég fúslega veita honum þær. En ég fékk ekkert svar. Svo leið og beið. Það var komið fram undir réttir, og ég hafði engar fregnir af ástandinu og var því orðinn vongóður um, að öll vandræði væru úr sögunni. En þá kemur bréf frá presti, og nú er hann ekki einungis í vandræðum, heldur angurvær yfir öllu saman og segir meðal annars:

„Strákurinn fæst ekki til að snerta á orgelinu! Hann heldur því fram nú, að það sé stórgallað, svo að enginn geti neitt við það átt! Hann kemur aldrei til kirkju og hafa því mörg messuföll orðið hjá mér þess vegna, því nú fæst enginn til að byrja. Menn segja, sem von er, að orgelið sé komið og sjálfsagt að nota það. Ég sé nú ekki, hvernig það er hægt, því ekki spilar það sjálft, eins og spiladósin á Bakkanum, sem Thorgrímsen átti, þegar ég var þar. Hana mátti trekkja upp, en það segir strákurinn, að ekki sé hægt með þetta orgel … ! Þér verðið að koma sjálfur, segja. til, hvað að er og reyna að fá strákinn til að spila, ef hann annars kann það … ! Skeð getur, að þetta sé bara þrjózka í stráknum, – ég held ég þekki hann. En ef þér komið, fær maður að vita, hvað hægt er að gera. Ef þér komið ekki, og það sem fyrst, verð ég að láta flytja orgelið úr kirkjunni, heim í einhverja skemmuna hér í Selvogi, ef nokkur vill þá nokkuð með það hafa og menn verða ekki beinlínis hræddir við það. Hún ríður ekki við einteyming hjátrúin þeirra skúmanna hérna, og maður veit aldrei, hverju þeir kunna að finna upp á. Það er Gísli í Ertu einn, sem ég held, að ekki mundi hafa á móti því að hafa orgelið á heimilinu sínu, því að hann er eini lómurinn hér ….. “

Ég skrifaði um hæl og lofaði að koma fyrir jól eða fyrri, ef hægt væri. Hins vegar reyndi ég að hughreysta klerkinn með ýmsu móti og fullvissaði hann um, að orgelið væri ágætt, ekkert gæti verið að því, nema ef vera kynni, að það hefði skemmzt á leiðinni, en það skyldi ég laga, þegar ég kæmi. ,,Organistanum“ skrifaði ég harðort bréf og sagði honum, að ef hann ekki bætti ráð sitt og færi að spila, eins og til væri ætlazt, mundi ég afturkalla öll þau meðmæli, sem ég hefði gefið honum um góða hæfileika og kunnáttu til að geta verið organisti og ef þetta færi mót von minni, mundi ég krefja föður hans um fulla borgun fyrir kennsluna veturinn áður, því að nú væri ég ekki bundinn við nein loforð um ókeypis kennslu, þar sem það væri hann, en ekki ég, sem væri valdur að því, hversu óhönduglega gengi með notkun orgelsins.

Nú leið og beið. Aldrei var veður eða færð svo, að ég sæi mér fært að takast svo langa og erfiða ferð á hendur sem þá, að fara fótgangandi alla leið austan af Eyrarbakka og vestur í Selvog um vetrartíma. Ég var bundinn við barnaskólann á Eyrarbakka og skrifstofustörfin hjá Lefoliiverzlun og varð því að sæta lagi með að fara þessa ferð um einhverja helgina, þegar bærilegt væri veður. Ætlaði ég mér að haga því svo til, að ég gæti farið á laugardegi klukkan þrjú, þegar kennslu væri lokið, og gefa börnunum mánaðarfríið sitt á mánudaginn næstan á eftir. Með þessu gæti ég haft rúma tvo daga til ferðarinnar, jafnvel þótt ég tefðist nokkuð, t. d. vegna illfærðar eða óveðurs.

Það var komið fram yfir veturnætur. Aldrei var veður eða færð svo um neina helgi, að ég treysti mér til að leggja af stað. Nú var komið fram í nóvember, sífelldir útsynningar og snjógangur. En loks herti ég upp hugann 12. nóvember og lagði af stað í versta éljagangi, rokviðri og talsverðri ófærð. Klukkan var nærri fjögur, þegar ég kom að ánni, og var það svo seint, að ferjumennirnir kváðust hvorki vera skyldugir né geta ferjað mig svona síðla dags yfir ána, enda talsvert ísskrið á henni og hvassviðri um hnýfilinn. Hörkuaðfall var í sjóinn, og mun það hafa ráðið því, að við lögðum út á ána, enda var mér það mjög umhugað og hvatti mjög til fararinnar. Allt fór vel, og var ég kominn vestur yfir klukkan hálffimm. Blindbylur og hvassviðri var alla leið vestur Hafnarskeið, og kom ég til Þorlákshafnar klukkan hálfátta. Stóð ég þar stutt við og fékk Helga Jónsson verzlunarstjóra, – hann var oft nefndur „Helgi bráði“, af því að hann var ættaður frá Bráðræði, – til að fylgja mér upp að Hlíðarenda, til Jóns, föðurbróður míns, er þar bjó, og Þórunnar konu hans, dóttur Jóns Árnasonar í Þorlákshöfn. Var svo um talað, að Helgi og Jón færu með mér alla leið út í Selvog, þegar ég færi þangað, og nú var sú ferð hafin.

Meðan ég stóð við í Þorlákshöfn, gerði logndrífu svo mikla, að Helgi var á báðum áttum með að leggja af stað. Samt fórum við, og er við vorum komnir alllangt frá Þorlákshöfn, urðum við varir við, að með okkur var hundur, sem lokazt hafði inni í Þorlákshöfn um daginn, er einhvar var þar á ferð frá Hlíðarenda, og hafði hundurinn komizt út skömmu eftir, að við fórum frá Þorlákshöfn, en án hundsins hefðum við naumast komizt að Hlíðarenda það kvöld, því bæði var drífan svo svört og ófærðin svo mikil, að illratandi var í tunglskinslausu náttmyrkrinu.

Að Hlíðarenda komum við klukkan hálftíu um kvöldið. Var okkur þar vel tekið og af ráðið að leggja af stað klukkan fimm að morgni.

Við vöknuðum klukkan fjögur um morguninn, og var þá komið þíðviðri, en snjór var mikill á jörðu, þótt nokkuð hefði hann slaknað um nóttina. Vorum við tilbúnir klukkan fimm og lögðum af stað ríðandi út á Selvogsheiði. Dimmt var og drungalegt í lofti, en létt var skapið og skemmtilegt að vera með þessum glöðu og fjörugu samferðamönnum.

Þegar við vorum komnir vestur fyrir Kvennagönguhóla, tók mjög að hvessa af landsuðri, og ekki leið á löngu, að komið væri ofsarok með óhemju rigningu, og hélzt það fárviðri alla leið út í Selvog. Þangað komum við klukkan ellefu og fórum að Nesi til Þorbjarnar Guðmundssonar, sögðum honum erindið og óskuðum þess, að hann sem kirkjuhaldari og sóknarnefndarmaður sæi svo um, að við fengjum messu þar í kirkjunni um daginn.

Strandarkirkja stendur ein á eyðisandi, og er nálega hálftíma gangur þangað frá Nesi og rúmlega önnur eins leið milli kirkjunnar og Vogsósa, en þar átti presturinn heima.

Þorbjörn sendi son sinn ríðandi vestur að kirkju til þess að fá vitneskju um það, hvort prestur væri þangað kominn. Væri það ekki, átti hann að ríða út að Vogsósum og segja presti, að við værum komnir og vildum vera við messu, enda skyldi Þorbjörn sjá svo um, að messufært yrði með okkur, honum og heimafólki hans, þótt illt væri veðrið,

Sendimaðurinn fór og kom aftur með þá fregn, að klerkurinn væri kominn til kirkju. ,,Stóð undir kirkjuveggnum“, sagði sendimaður, ,,en kalt var honum, karlinum“.

Presturinn varð nú að bíða þarna úti undir kirkjunni í þessu hundaveðri, á meðan við dvöldum að Nesi og fólkið var að búa sig af stað, því að ekki hafði neinum hugkvæmzt að láta sendimanninn hafa kirkjulykilinn með sér til þess að skjóta presti inn á meðan, og var það alllöng stund.

Loks vorum við tilbúin og fórum 13 saman ríðandi til kirkjunnar. Tók klerkur okkur vel og fagnaði komu okkar, ,,en kalt var honum, karlinum“, það var satt, því að hann skalf og nötraði af kulda.

Helgi bráði hafði verið svo forsjáll að hafa whiskyflösku með sér að heiman, og var hún vitanlega ósnert, er þangað kom, og eiginlega ekki öðrum ætluð en klerki til að gæða sér á. Í anddyri kirkjunnar var tappinn tekinn úr flöskunni og klerki gefin tvö væn staup af. Hresstist hann fljótt við það og vildi nú ólmur messa og helzt flýta því sem mest.

Ég bauðst vitanlega til þess að spila á orgelið og stjórna söngnum, og var því vel tekið. Mér var kunnugt um, að prestur hafði aldrei nein afskipti af því, hvaða sálmar voru sungnir, og vildi ég nú reyna, hvort þetta væri rétt. Ég sagði því við hann, um leið og við gengum úr anddyrinu inn í kirkjuna:

„Viljið þér ekki gera svo vel að segja mér, hvaða sálma við eigum að syngja í dag“.

Presturinn sneri sér snögglega að mér og sagði eins og hann var vanur að segja, þegar hann aftók eitthvað með öllu: ,,Nei, takk, alls ekki!“

,,Eitthvað verðum við nú samt að syngja“, sagði ég.

,,Já, úr sálmabókinni!“ sagði klerkur, ,,hún er til þess ætluð“. „Já, það veit ég, en það er ekki sama, hvað það er, og ég kann betur við, að presturinn velji það sjálfur“.

„Nei, takk, alls ekki! Mér er alveg sama, hvað sungið er, bara ef það stendur í sálmabókinni, því að það er skylda“.

„Jú, en – en það er þó ekki sama, held ég, hvort sungnir eru skírnarsálmar, brúðkaupssálmar eða útfararsálmar við almennar messugerðir eins og þessa, eða hvað?“

„Jú, alveg sama. Það stendur allt í sálmabókinni, og ef það er sungið, hvað sem er af því, verður ekki upp á klagað“.

Ég sá, að hann vildi „alls ekki“ velja neitt sjálfur, og tók ég því til að blaða í bókinni og leita að einhverju öðru en skírnar-, brúðkaups- eða útfararsálmum og staðnæmdist við sálminn nr. 33, rétti að honum bókina og spurði, hvort ekki mætti nota þann sálm sem messuupphaf, en hann byrjar svo:

„Þú sendir, drottinn, dögg af hæðum
í dropum smáum niðr á jörð“.

Presturinn las þetta, leit upp í mæni kirkjunnar og sagði: ,,Þessi er ágætur! Ætli ann eigi við!“

Hann átti vitanlega við það, að þá buldi beljandi stórviðrið og rigningin svo á járnklæddri kirkjunni, að naumast heyrðist mannsins mál fyrir öllum ósköpunum, sem dundu á kirkjunni. Því hefur honum þótt sálmurinn „eiga við“, en vitanlega hefur hann sagt það í spaugi. Fleiri sálma bar ég svo ekki undir hann, heldur tók ég þá til sjálfur. Var svo gengið í kór. Prestur skrýddist messuklæðum og gekk fyrir altari, en ég settist við orgelið, sem stóð svo nærri grátunum að norðanverðu, að1 ég gat naumast komið stólnum fyrir þar á milli. Söngmenn stóðu bak við orgelið, en það voru þeir Helgi, Jón og Þorbjörn. Svo nærri vorum við prestinum, að við hefðum getað heyrt hann hvísla að okkur eða tala í hálfnæmingi, þ. e. a. s. ef veðrið hefði verið betra, en nú var það heldur skaplegra en áður.

Ég spilaði „forspil“ og svo hófst söngurinn með fullum hljóðum og þeim krafti, sem söngmenn höfðu ráð á, og var það hvorttveggja mikið, en fór þó sæmilega. Orgelið var ágætt og hafði jafnvel í fullu tré við söngmenn, þótt rómmiklir væri og ekkert dregið úr hljóðunum. Að sálminum sungnum (nr. 33) spilaði ég „eftirspil“. Heyri ég þá, að prestur, sem ég sneri baki við; segir vel skýrt við söngmennina:

„Hvað er þetta? – Er ekki sálmurinn búinn? Ætlar hann ekki að hætta?“

Jú, ég hætti vitanlega að enduðu eftirspilinu, og presturinn tónaði:

,,Drottinn sé með yður!“

Síðan hélt messugerðin áfram, eins og venjulegt er. Presturinn beið eftir eftirspili og öllum þeim „kúnstum“, er mér þóknaðist að viðhafa, og bar nú ekkert til tíðinda, fyrr en upp í stólinn var komið.

Þeir höfðu sagt mér það áður, Helgi og Jón, að ómögulega mundi mér takast að verjast hlátri alla messuna frá byrjun til enda, ef ég fylgdist með öllu því, er þar færi fram, en ég sagði þeim, að ég skyldi ekki gera svo mikið sem brosa, hvað sem á gengi.

Prédikunarstóllinn stóð fast upp að grátunum. Ég man ekki, hvort hann stóð beint fram undan þeim eða til hliðar að sunnanverðu, en þar sat meðhjálparinn, Gísli G. Scheving í Ertu, framúrskarandi hægur og prúður maður, enda eini „lómurinn“ í öllum Selvogi, eftir því sem séra Eggert sagði.

Þegar presturinn var kominn í stólinn, flutti hann stutta bæn og tók því næst til handbókarinnar og segir allskörulega og óhikandi:

„Hið heilaga guðspjall, sem tilheyrir þessum drottinsdegi, sem er 23. sunnudagur eftir Trinitatis, stendur skrifað hjá guðspjallamanninum? – ? – guðspjallamanninum – ? – ? – ? stendur skrifað hjá – ? – – Nei, ég finn það ekki! – Heyrðu Gísli! Ég finn ekki guðspjallið! (Réttir honum handbókina) –

Meðan þetta viðtal prestsins við sjálfan sig og söfnuðinn fór fram, var hann að blaða í ræðublöðunum fram og aftur, unz honum hugkvæmdist að kalla á Gísla í Ertu sér til hjálpar. Nú var Gísli í Ertu með handbókina og var að blaða í henni, en á meðan var klerkur að beygja sig við og við fram yfir stólbríkina og skjóta þessu að Gísla:

,, …. Það er guðspjallið, Gísli, …. 23. sunnudag eftir Trinitatis, Gísli, …. Skattsins mynd, Gísli, …. guðspjallið 23. eftir Trinitatis!“

Loksins fann Gísli guðspjallið, réttir bókina opna að presti, en um leið og hann sneri bókinni við, flettust blöð nokkur við, án þess að prestur tæki eftir því. Nú var hann öruggur og segir:

„Hið heilaga guðspjall, sem tilheyrir þessum drottins degi, sem er 23. sunnudagur eftir Trinitatis, stendur skrifað hjá guðspjallamanninum …. ? – guðspjallamanninum ?? …. 23. sunnudag eftir Trinitatis ?? – Það er ekki hérna, Gísli! – – Þú áttir að bretta blað, Gísli! – – (til okkar): Ég sleppi því bara! – Ég var líka búinn að tóna það áðan, svo það er óþarft að fara með það aftur! Ég bara sleppi því“!

Og hann „sleppti því bara“! – Svo kom ræðan, og stóð hún í sjö mínútur. Ræðan var bæði góð og vel samin, um viðskipti manna hver við annan, gildi peninga og þess, hve áríðandi það væri að vera skilvís og áreiðanlegur í orðum og gjörðum, en því miður reyndust ekki allir svo, heldur væru þeir óáreiðanlegir og reyndu að svíkja hver annan eftir því, sem þeir hefðu vitsmuni til.

Eins og lög gera ráð fyrir, las presturinn „Faðir vor“ á eftir, en svo hratt fór hann með það, að ég held, að enginn, sem ekki kunni það áður, hefði skilið eitt orð í því.

Að lokinni messugjörðinni fór hann úr hempunni, vafði henni um vinstri handlegg sér og fleygði henni út í horn á kirkjubekk einn að sunnanverðu. Að svo búnu gekk hann utar eftir kirkjugólfinu með báðar hendur fyrir aftan bakið, dokaði við öðru hvoru og hlustaði eftir því, sem hann heyrði, er ég var að reyna orgelið. Þegar hann þóttist hafa hlustað nóg í það og það skiptið, leit hann snöggvast upp í mæni kirkjunnar og hóf síðan sömu gönguna og áður fram og aftur eftir kirkjugólfinu. Loks víkur hann sér í flughasti inn eftir til okkar, bendir einum fingri á orgelið og segir:

„Er ekki hægt að spila „Eldgamla Ísafold“ á þetta?“ (Það var orgelið!)

,,Jú, það er hægt, en ég kann það ekki utan að“, sagði ég. ,,Kunnið þér ekki „Eldgamla Ísafold“, – það kunna allir, – og þér hafið spilað það fyrir mig á Bakkanum, oft áður!“

„Já, en ég man það ekki núna!“

Og svo þuldi hann vísuna:

,,Eldgamla Ísafold,
ástkæra fósturmold,
Fjallkonan fríð!
Mögum þín muntu kær,
meðan lönd girðir sær
og gumar girnast mær,
gljár sól á hlíð“.

,,Þetta kunna allir, jafnvel hérna í Voginum!“ ,,Já, þetta kann ég, þ. e. a. s. vísuna, en …. “

„Nú, já, það er alveg satt, það þarf að spila það eftir nótum á þetta!“

Ég sagði, að svo væri, og fór nú að reyna að rifja það upp fyrir mér eftir því, sem ég mundi það úr harmoniumskólanum, og tókst það nokkurn veginn. Á meðan sat presturinn á bekk skammt frá að sunnanverðu og í nálægð við okkur. Í hvert sinn, er ég hætti við lagið, sagði hann, um leið og hann kom til mín og hörfaði til baka aftur:

„Æ, spilið þér það einu sinni enn! Það er svo fallegt, eina lagið, sem mér þykir fallegt og ég held ég kunni, en þó ekki svo, að ég geti sungið það. Þér heyrðuð rödd mína áðan. Hún er ekki á marga fiska. – Ég man svo vel, þegar ég var á Bakkanum, þá spiluðu þær og sungu þetta lag, telpurnar, sem ég var að kenna, dætur hans Thorgrimsens, hún Veiga og hún Sinna, hún Sulla og hún Lúlla ( en hún var nú raunar ekki dóttir þeirra, heldur frændkona. frúarinnar) og þær sungu það svo guðdómlega vel, ég held á hverju kvöldi, svo að ég gleymi því aldrei!“

Leit ég þá til hans og sá, að hann var með tárin í augunum.

Ég spilaði það því enn nokkrum sinnum, og á meðan sat séra Eggert á sama bekknum og hlustaði með hönd undir kinn. Helgi hafði líka alltaf við og við verið að lauma að honum „tári“, meðan ég var að grúska yfir orgelinu og tala við „strákinn“, þ. e. organistann, sem nú trúði mér fyrir því, að það væri ekki einvörðungu því að kenna, að hann kynni ekki nógu mikið eða treysti sér ekki til að spila við messugjörðirnar, að hann gerði það ekki, heldur af því, að sér „þætti svo gaman að erta prestinn“ (!),og í öðru lagi af því, að hann „nennti ekki að fara svona oft í kirkju!“

Ég sýndi honum, hvernig hann ætti að nota hljóðbreytingarnar (registrin) og skrifaði það meira að segja upp fyrir hann, og varð hann loks svo hrifinn af orgelinu og þessu öllu saman, að hann lofaði því að spila á hverjum messudegi nema á vetrarvertíðinni, ,,því að þá verð ég með honum pabba að drepa hákarlinn“, sagði hann.

Með þetta skildum við, og drengurinn hélt orð sín, a. m. k. um tveggja ára skeið, en þá hefur hákarlinn sennilega verið búinn að heilla svo huga hans, að hann flutti til Hafnarfjarðar og drukknaði þaðan af fiskiskútu nokkrum árum síðar.

Orgelið er nú búið að vera 30 ár í kirkjunni við góðan orðstír, og séra Eggert varð svo góður vinur minn, að hann hóf mig upp í lómatignina haustið 1902 og sagðist gera það vegna þessa:

„Þér sýnduð svo mikið sjálfstæði í kosningunum í vor: Að greiða atkvæði samkvæmt sannfæringu yðar í áheyrn og viðurvist húsbónda yðar og yfirgáfuð heldur óða1 yðar og atvinnu þar eystra en að láta kúga yður, – að ég tel yður meðal beztu lóma upp frá þessu.[note] Bréf dagsett 14. september 1902.[/note]

Þessi saga er nú senn á enda, og lauk henni með því, að við vorum veðurtepptir í Selvogi langt fram á kvöld og fórum síðan, er veður batnaði, af stað að Hlíðarenda og dvöldum þar það, sem eftir var nætur. Næsta dag fór ég gangandi upp að Ölvesárbrú og alla leið með fjöllum, því ófært var yfir Ölvesið neðar, og frá Ölvesárbrúnni hafði ég ofsaveður af útsuðri beint í fangið. Svo þrekaður var ég orðinn, er ég kom niður á Bakkann, að ég varð að leita mér hvíldar á Merkisteini, sem er austanvert við Steinskotshóp og gagnvart letigarðinum í Fælu. Þar hvíldist ég um stund og dróst svo heim af veikum mætti um klukkan tíu sama kvöldið.

Það hefði verið miklu styttri leið fyrir mig að fara frá Hlíðarenda austur að ferjustaðnum á Óseyrarnesi, en Ölvesá var skarpófær allan þennan dag. Ég veit ekki, hversu langur vegur það hefur verið, sem ég gekk um daginn, en sennilega hafa það verið um 70-80 kílómetrar. Það er að vísu ekki ýkjalöng leið, en þegar þess er gætt, að ófærðin var mikil austur endilangt Ölvesið og ofviðrið beint í fangið fram yfir þveran Flóann, var ekki von, að vel gengi.

Ég held, að ég hali aldrei haft aðra eins fyrirhöfn fyrir neinu orgeli, sem ég hef selt um dagana, eins og þessu Strandarkirkjuorgeli, en ég hafði samt tvennt upp úr því öllu saman: Að heyra séra Eggert messa og sennilega hitt síðar meir, að hann gerði mig að „lómi“!

Leave a Reply

Close Menu