32-Saganir um séra Eggert Sigfússon prest að vogsósum

Í handritasafni Jóns Pálssonar er að finna margar og merkilegar heimildir um séra Eggert Sigfússon, hinn gáfaða og sérkennilega klerk að Vogsósum í Selvogi, þar á meðal hinar svonefndu „Syrpur“, þar sem hann skráði ýmiss konar fróðleik og frumlegar athuganir um menn og málefni. Kennir þar, svo sem vænta má, margra grasa, og sýna þær glögglega, hversu klerkur hefur verið frumlegur maður bæði að hátterni og skoðunum.

„Syrpur“ þessar, sem upphaflega voru fjórar að tölu, fékk Jón Pálsson lánaðar hjá séra Eggert um síðustu aldamót og „hvinnskaðist þá til að afrita tvær þeirra“, eins og hann kemst sjálfur að orði, en vannst ekki tími til að afrita þær allar. Löngu síðar, að séra Eggert látnum, eignaðist Jón tvær bókanna, en tókst ekki að hafa upp á hinum tveim, en úr annarri. þeirra hafði hann ritað ýmislegt það, sem hér fer á eftir. Þessar tvær „Syrpur“ munu nú því miður vera glataðar með öllu ásamt stól- og tækifærisræðum séra  Eggerts, sem þóttu með afbrigðum góðar og vel samdar.

Í safni Jóns eru ennfremur 64 úttektarmiðar, eða „Bevis“, séra Eggerts hjá Lefoliisverzlun á Eyrarbakka, Eru margir þeirra einkennilegir mjög og lýsa manninum betur en margt annað. Eru nokkur sýnishorn þeirra prentuð hér.

Loks hefur Jón Pálsson safnað ýmsum sögnum og fróðleik um séra Eggert. Hélt hann því áfram nærri alla tíð, eftir að hann fór frá Eyrarbakka, og eru seinustu blöðin, sem eru samtals 78 að tölu í octav- og qto-broti auk fjögurra renninga, skrásett desember 1942.

Ýmislegt úr safni Jóns um séra Eggert var prentað í „Blöndu“, ársriti Sögufélagsins, III. bindi bls. 191-198 og IV. bindi bls. 264-278. Var Jón tregur til að birta þetta, en lét þó tilleiðast fyrir beiðni vinar síns, dr. Hannesar Þorsteinssonar þjóðskjalavarðar. Óttaðist hann, að menn mundu líta séra Eggert minni augum á eftir, en slíkt var honum mjög á móti skapi, þar sem hann mat séra Eggert mjög mikils, enda margsinnis lýst honum sem frábærum mannkosta- og gáfumanni.

Að sjálfsögðu verður því vart neitað, að margt er skoplegt í fari klerks, en hinu má ekki gleyma, að hann átti örðugt með að samlagast umhverfi sínu og þeim skilyrðum, sem hann átti við að búa. Hann var innilega frábitinn öllu tildri og prjáli og átti því til að líta heldur smáum augum á tilveruna og skopast að „skúmunum“, samferðamönnum sínum. Þegar þetta er haft í huga, er engin hætta á, að menn kunni ekki að meta hinn sérkennilega kennimann að verðleikum.

Hér fer á eftir allt það, sem áður hefur verið prentað í „Blöndu“, en auk þess er bætt við eða fellt inn í allt annað, er máli skiptir og Jón hefur safnað um séra Eggert.

I.

Ýmsar sagnir um séra Eggert

1.

Þegar séra Eggert var prestur í Klausturhólaprestakalli í Grímsnesi, reið hann til uppboðs að Búrfelli. Var þá Þorsteinn Jónsson kanselliráð sýslumaður í Árnessýslu og bjó að Kiðjabergi. Hélt hann uppboðið. – Að loknu uppboðinu varð Þorsteinn nokkuð við öl, eins og hann átti stundum vanda til. Kom hann þá að máli við prest, og urðu þeir ásáttir um að verða samferða frá uppboðinu. Sýslumaður vissi það, að prestur var ekki mikill reiðmaður, en sjálfur var sýslumaður reiðmaður mikill og átti hesta góða. En er þeir voru komnir af stað, dróst prestur brátt aftur úr. Vék sýslumaður til hans og fékk prest til þess að hafa reiðskjótaskipti við sig. Hestur sýslumanns var ferðahestur góður og ærið heimfús. – Var nú hart riðið, og þótti presti sér nóg boðið. Fagnaði hann þeirri stund mest, er hann kæmist heim. Og er þeir komu gagnvart Klausturhólum, vill hann fyrir hvern mun heim, en þess var þá enginn kostur fyrir sýslumanni. Keyrði hann hestinn undir presti og rak allt hvað af tók alla leið til Kiðjabergs svo hratt, að prestur sá sér aldrei fært að stíga af baki. Hafði prestur fyrir löngu sleppt öllu taumhaldi, en hélt sér dauðahaldi við hestinn með höndum og fótum.

Þegar til Kiðjabergs kom, var prestur örmagna af þreytu og hræðslu og lá þar rúmfastur í þrjá daga. Hét hann því þá, að hann skyldi aldrei að nauðalausu framar á hestbak koma, og er mælt, að hann hafi vel efnt það heit síðan.

2.

Nokkru áður en undanfarandi saga gerðist, var þaðum sumarkauptíð, að séra Eggert þurfti að ferðast til Reykjavíkur. Hest átti hann engan, en fékk hjá frú Steinunni Bjarnadóttur (amtmanns Thorarensen), er hann var hjá til húsa, hest einn gamlan, hægfara, bleikan að lit. Synir frúarinnar voru í kaupstaðarferð fyrir neðan heiði. Leggur séra Eggert af stað, og er ei getið ferða hans, fyrr en hann kemur í Fóelluvötn. Mætir hann þar sonum frúarinnar, og verða þar kunningjakveðjur. Spyr annar bræðranna prest, hvernig honum geðjist að reiðskjótanum, og kvaðst prestur vera ánægður með hann.

Sá þeirra bræðra, er fyrir svörum varð, kvaðst trúa því, en sá galli væri á klárnum, að hann væri ærið heimfús og strokgjarn, og því presti vissara að hugfesta vel mark og einkenni á hestinum, ef svo færi, að hann skyldi missa hans.

Við þessi orð fer prestur til og skoðar hestinn í krók og kring, og eftir nákvæma rannsókn hefur hann upp róminn og segir: „Eftir á að hyggja, hesturinn er þá bleikur. Ég ætla að muna það, að hesturinn er þá bleikur“.

Hafði prestur þannig riðið klárnum alla leið austan úr Grímsnesi og suður í „Vötn“, án þess að taka eftir, hvernig hann var litur.

3.

Þegar séra Eggert var í Klausturhólum, bar svo við eitt sinn, að vinnumaður þar kom heim frá fjárgæzlu, en kafaldsbylur var á af norðri. Var þetta árla dags. Prestur var eigi risinn úr rekkju, þegar vinnumaður kom inn, og spyr prestur hann til veðurs. Sauðamaður kvað illt veður vera með byl af norðri. Prest grunaði þá, að sauðamanni mundi kalt vera og býður honum „bittersnaps“, og kvað hinn sér það vel líka. Prestur teygði sig þá, svo langur sem hann var, allsnakinn, því svo hvíldi hann jafnan, upp á hillu, er þar var yfir höfðalagi prests, og tekur þaðan brennivínsflösku og bitterglas, og aðskenkti síðan sauðamanni fullt staup af bitterbrennivíni.

En er sauðamaður bergði á staupinu, lét hann á sér heyra, að sér fyndist einhver afkeimur af bitter þessum, og bað prest að bragða og vita, hvort hann væri sér samdóma. Prestur blandaði sér þá bittersnaps, og er hann hafði tæmt staupið, varð honum litið á miða, er á glasið var límdur. Varð hann þess þá vísari, að það var ekki sá „ekta bitter“, sem á glasinu var, heldur var það ,,Jod“, sem þeir höfðu drukkið saman við brennivínið í bitters stað.

En svo varðpresti bilt við þetta, að hann stökk strípaður fram úr sænginni og niður á gólf, greip af öllum kröftum um kvið sér, engdist saman í kút og öskraði allt hvað af tók á hjálp, því að hann hefði drukkið eitur. Griðkona ein heyrði óhljóð prests og skyggndist eftir, hvað um væri að vera.

Jafnskjótt og prestur verður hennar var, skipar hann henni að gefa sér sem allra fyrst spenvolga nýmjólk að drekka, því að hún væri eiturdrepandi, og myndi hann brátt deyja, ef ei væri skjótt að gert, því hann hefði gleypt eitur.

Hljóp stúlkan til fjóss. En er hún var að setjast undir kúna, kemur prestur út í fjósið alstrípaður í bylnum. Beið hann skjálfandi á miðjum flór, meðan mjólkað var, og svalg svo mjólkina í stórum teygum.

Ei er þess getið, að honum hafi meira orðið meint við, og ei heldur, hvernig hann fór að komast til bæjar aftur.

4.

Þá er séra Eggert var í Grímsnesinu, var það vandi hans að ferðast til Eyrarbakka, þá er á vetur tók að líða. Fór hann ferðir þær jafnan gangandi og gisti þá ætíð í Byggðarhorni að Gunnars bónda Bjarnasonar, góðum bæ. Einn vetur var það, er hann kom að Byggðarhorni, að hann kemur að óvörum inn í bæinn. Þegar hann kemur í baðstofu, skyggnast hann um, án þess að heilsa, og segir: „Hér er þá soðning?“ Margrét húsfreyja bauð hann velkominn og spyr hann, hvort hún megi bjóða honum soðningu. Kvaðst prestur verða „sárfeginn“. Mataðist hann svo og var hinn rólegasti og baðst síðan gistingar. Húsfreyja hafði vonzku fingurmein í vísifingri á hægri hendi. Hafði hún farið nokkrar ferðir til Tegners, starfandi læknis, er þá sat á Eyrarbakka, og hafði honum lítið á unnizt að græða meinið.

Morgun þennan, er prestur var nætursakir, var hann allur á burt, áður en fólk kom á fætur. En að skömmum tíma liðnum kom hann inn með klakastykki allmikið og bað um að ljá sér alinmál, því það væri svo fróðlegt að vita, hvað þykkan ís hefði lagt um nóttina. Mældi hann klakann nákvæmlega og ritaði í vasabók sína þykkt hans.

Þegar morgunverður var á borð borinn, tók prestur fyrst eftir því, að húsfreyja bar hönd í fatla. Spyr hann hana þá, hvort hún hafi illt í fingri, og kvað hún það satt vera og að hún hefði litla hjálp fengið hjá Tegner.

Séra Eggert kvað fróðlegt að sjá fingurmein, ,,því að einu sinni ætlaði ég að stúdera læknisfræði og var byrjaður á því, en hætti við það, af því að mér leizt ekki á það“.

Konan leysir nú frá fingri sér allshugar fegin yfir því, að prestur kunni að geta gert sér til góða.

Prestur skoðar nú fingurinn vandlega þegjandi, þar til hann segir:

,,.Já, ljótur er hann! Ég held nú af tvennu illu væri skást að taka hann af!“

Húsfreyja kvað bagalegt að missa fingur, og þá ekki hvað sízt vísifingurinn af hægri hendinni. Prestur réttir þá fram hægri handlegginn, bendir og potar vísifingrinum í allar áttir og segir síðan:

„Ja, það er nokkuð satt, sem konan segir, það er ekki svo notalegt að missa vísifingurinn af hægri hendinni! Það er alveg satt, sem konan segir!“

Meira gat hann ekki ráðlagt konunni, en kvaddi í snatri, bað um dreng til fylgdar, því þoka var komin, og fór síðan.

Þegar þeir komu í nánd við Ásgautsstaði, þar sem Jón prestur Björnsson bjó þá, sté séra Eggert upp á hundaþúfu háa, er á vegi hans varð, og hristi sig þar allan og skók mjög afkáralega. Hann var í yfirfrakka stórum og hafði aðeins hneppt um hálsinn, en var ekki í ermunum.

Drengur vissi ekki, hvað þetta átti að þýða, og var nær því skelkaður yfir því, að prestur væri ekki orðinn meðöllum mjalla, því frakkinn slettist mjög stórkostlega til og frá.

Eftir nokkra stund spyr prestur: ,,Er ekki ósköp að sjá mig?“ ,,Ojú!“ svaraði drengurinn. „Það væri líkast til myndarlegra að fara í frakkann, áður en ég kem heim að Ásgautsstöðum. Er ekki svo?“

Fór hann svo í frakkann, skildi við drenginn og gekk heim á staðinn.

5.

Séra Eggert var um tíma í Vaðnesi hjá systur sinni Þóru, konu Eggerts bónda Einarssonar, er þar bjó. Þurfti hann þá vitanlega oft að gegna preststörfum, en fór flestar þær ferðir á fæti.

Lækir nokkrir falla til og frá um prestakallið, sem ei er hægt að hlaupa yfir, en presti þótti illt að vaða.

Kom honum þá það ráð í hug, að hann lét gera sér einn skinnsokk af leðri, klofháan, og bar svo ævinlega skinnsokkinn með sér. Valdi hann síðan mjóddir á lækjum, smokkaði sér í skinnsokkinn og sté þeim fætinum, sem í skinnsokknum var, ofan í vatnið.

En oft varð hann ærið að glenna sig, þar sem breitt var. En eftir þetta komst hann oftast þurrum fótum yfir læki þá, er á leiðhans urðu.

6.

Eftir að séra Eggert korn að Vogsósum, þjónaði hann Krýsuvíkursókn. Fór hann ævinlega fótgangandi til Krýsuvíkur.

Eitt sinn sem oftar fann hann dauða kind á leið sinni, og sagðist honum svo frá því: „Ég fann dauða kind hérna á leiðinni, en hrafninn var búinn að éta úr henni augun og tunguna og rífa hana í huppinn, – og mikið hér-n-a!“ Lyfti prestur sér þá upp í sætinu og benti á enda sér.

7.

Meðan séra Eggert var prestur í Grímsnesinu, kom hann einu sinni sem oftar á Eyrarbakka og dvaldi þar nokkrar nætur, því að hann var þar uppalinn og því kunnugur.

Á meðan hann dvaldi þar, fæddist barn hjá bónda einum. Barnið var veikt, og þótti því óráð að láta skírn dragast. En sóknarpresturinn, er þá bjó á Ásgautsstöðum, var eitthvað veikur, svo að hann treystist ekki til að fara og skíra barnið. Sendir hann því séra Eggerti, sem hann vissi, að var staddur á Eyrarbakka, hempu sína og biður hann að skíra, barnið fyrir sig. Séra Eggert bregður fljótt við því og tekur að séra að skíra.

Þegar hann var kominn í hempuna, segir hann: ,,Á að syngja nokkuð?“

,,Betur kann maður við það“, anzaði faðir barnsins.

,,Það má gera það, þó að það sé meiningarlaust!“ kvað prestur. Var nú sungið sem vanalega, og tók prestur til að skíra. Las hann skírnarformálann, og að honum loknum sezt hann niður og steinþegir, svo að menn hugðu, að honum mundi eitthvað meint vera. Þegar hann hafði setið svo um stund, segir hann og stendur upp: ,,Þá er nú þetta búið!“ Bóndi segir þá: ,,Gleymduð þér ekki að ausa barnið vatni?“ „Jú, eftir á að hyggja, gleymdi ég að ausa barnið vatni, þó það að minni hyggju sé alveg meiningarlaust!“ Jós hann síðan barnið vatni og nefndi það nafni, sem venjulegt er, og var svo skírnarathöfninni lokið.

8.

Eitt sinn gistu þeir séra Eggert og séra Brynjólfur á Ólafsvöllum hjá Jóni Árnasyni í Þorlákshöfn, en lítið gáfu þeir sig hvor að öðrum, guðsmennirnir, og töluðu varla orð hvor við annan. Séra Brynjólfur hvarf eitthvað frá, en þá segir séra Eggert: ,,Óttalega er hann kúnstugur þessi séra Brynjólfur, hu!“

Að lítilli stundu liðinni þurfti séra Eggert að ganga út erinda sinna, og er hann var farinn út, segir séra Brynjólfur: ,,Það er ekki prestslegur maður þessi séra Eggert!“

9.

Á hinum fyrstu prestskaparárum séra Eggerts í Vogsósum rak hval á reka Strandarkirkju, og bar presti að koma hvalnum í peninga. Nokkru síðar átti prestur tal við kunningja sinn um þetta og kvaðst hafa haft mikið fyrir að koma reka þessum í verð.

Loks verður honum að orði:

„Það vildi ég, að guð gæfi, að aldrei ræki framar hval á Strandarkirkjureka, – sízt stóran!“

10.

Einu sinni kvaðst séra Eggert hafa fengið bréf frá Árna bónda í Höfnum. Bréfinu fylgdi einn ríkisdalur og þau ummæli með, að nefnd upphæð væri gjöf til Strandarkirkju sem áheit Árna fyrir það, að smalatíkinni hans hefði batnað hundapestin.

„Ég varð öskuvondur“, sagði séra Eggert, ,,og sendi auðvitað ríkisdalinn til Árna aftur og skrifaði honum: ,,Hér með sendi ég þér helvítis tíkardalinn aftur, og skaltu upp frá þessu bera nafnið Árni tíkardalur“!“

11.

Hér fer á eftir ein af messuskýrslum séra Eggerts Sigfússonar, sem hann sendi prófasti. Ekki verður séð, frá hvaða ári þessi messuskýrsla er, en sennilega er hún frá árinu 1906-1907.

Strönd í Selvogi:

Nýársdagur: Illviðri deginum áður.

2. sunnudagur eftir þrettánda: Frost, kuldi.

7 vikna fasta: Slagveður.

2. sunnudagur í föstu: Slagveður.

3. sunnudagur í föstu: Organisti fjarverandi.

Miðfasta: Illveður.

5. sunnudagur í föstu: Organisti fjarverandi.

Pálmasunnudagur: Frost, kuldi.

Skírdagur: Einungis fimm menn komu.

Föstudagurinn langi: Illveður.

1. sunnudagur eftir páska: Organisti fjarverandi.

2. sunnudagur eftir páska: Organisti fjarverandi.

3. sunnudagur eftir páska: Mikil rigning.

5. sunnudagur eftir páska: Organisti fjarverandi.

Uppstigningardagur: Organisti fjarverandi.

6. sunnudagur eftir páska: Prestur, lasinn af gigt.

Trinitatis: Mikið illveður deginum áður.

1. sunnud. eftir Trinitatis Enginn kom.

2. – Enginn kom.

3. – Prestur á héraðsfundi.

4. – Prestur ókominn þaðan.

5. – Einungis fimm komu.

6. – Organisti fjarverandi.

7. – Organisti fjarverandi.

9. – Stórrigning daginn áður.

10. – Einungis fjórir komu.

11. – Forsöngvari kvaðst þreyttur.

12. – Ýmsir fjarv. Nokkur rigning.

14. – Allmikil rigning.

15. – Enginn kom.

16. – Riðið á fjall.

17. – Enginn kom.

18. – Mikil rigning.

20. – Margir fjarverandi.

22. – Einungis tveir komu.

23. – Mjög mikið rok.

24. – Nokkur rigning.

1. sunnudagur í jólaföstu: Prestur gleymdi gleraugum

2. sunnudagur í jólaföstu: Enginn kom

3. sunnudagur í jólaföstu: Slæm færð.

2. í jólum: Presti illt í auga.

Sunnudagur milli jóla og nýárs: Mikið norðanrok, enda prestur fullur.

Hér eru enn nokkrar einkennilegar ástður til messufalls hjá séra Eggert Sigfússyni:

Krýsuvík 1901:

6. sunnud. eftir Trinitatis: Ullarþurrkun.

13. – Fjallseðill ritaður.

22.  – Messufall eftir samkomulagi.

Strönd 1907:

10. sunnud. eftir Trinitatis: Messufall Þorsteini að kenna.

Það ár er organisti 6 sunnudaga í Þorlákshöfn, 3 sunnudaga í Reykjavík og 3 sunnudaga í Hafnarfirði. Messurnar það ár eru 13, en messuföllin 46, 7 menn til altaris að Stönd, en enginn í Krýsuvík. Fram er tekið 8 sinnum: „Ekkert fólk kom.“

1905 eru messuföll að Strönd: 7 sinnum vegna þess, að „einungis organisti koma“; 8 sinnum vegna þess að „organisti var fjarverandi“; 5 sinnum vegna þess að „forsöngvaraleysi var“. Hin skiptin: „Illt veður“, „flestir karlmenn í veri“ og aðrar þvílíkar skýringar. Þá voru messuarnar 19, en messuföllin 40.

Yfirlit séra Eggerts fyrir árin 1906 og 1907 lítur þannig út:

                            1906:  1907:

Messur á Strönd 9        11

Messuföll þar   42       40

Messur í Krísuvík 12

Messuföll þar   15       16

Tala fermdra á Strönd 69     57

Þarf af til altaris 0.       7

Tala fermdra í Krýsuvík 14      7

Þarf af til altaris 0.      0

Í messuskýrslunni stendur oft: ,,Organisti fjarverandi“. Þetta lýtur einkum til þess, að organistinn var til sjóróðra í Þorlákshöfn á vertíðinni. Í messuskýrslunni eru nefndir „organisti og forsöngvari“. Þetta lýtur til þess, að organisti getur eigi spilað, nema Þorbjörn í Nesi „byrji“ í sálmabókinni. En að læra sálmana utan að telur organisti of örðugt.

12.

Einhverju sinni var séra Eggert spurður á þessa leið: ,,Hvaða mælikvarða leggið þér á menn, þegar þér ákveðið, hvort þeir skuli teljast „lómar“ eða „skúmar“? Er það ekki erfitt verk og alveg út í bláinn?“

„Út í bláinn?!“ sagði séra Eggert, ,,eða erfitt verk?! Nei, alls ekki! Ekkert hægara og fátt ábyggilegra, því sjáið þér nú til:

Þ …. í N …. er ríkur maður, hugsar ekkert nema um kýr og kindur, les ekkert nema eitthvert reyfara-rusl, – ef hann þá les það, – fer með ekkert nema hrós um sjálfan sig og vill helzt heyra klámvísur og eitthvað ljótt um aðra og veit ekkert meira en hann hvutti þarna. Ergo: Hann getur ekki verið annað en skúmur!

Aftur á móti er hann G . . . . í E …. fátækur maður, sífellt hugsandi um að verða sér og öðrum til gagns og sóma. Hann les allt, sem hann kemst yfir, af góðum og fræðandi bókum og veit því meira en jafnvel þeir, sem „lærðir“ eru kallaðir. Hann er svo vandaður til orðs og æðis, að honum hrýtur aldrei blótsyrði og gerir engum mein. Þetta er rétt lýsing á þessum tveim mönnum, og þannig má sjá athafnir og heyra orð annarra manna og fara nær um innræti þeirra og sálarástand. Sýnist yður þeir eiga heima í sama flokki, ef maður annars vill vera að hafa nokkuð fyrir því að „verðleggja náungann“, en það gerum við, jafnvel án þess að við: vitum af eða getum að því gjört, og í sannleika sagt er það alveg réttmætt, – a. m. k. fyrir okkur sjálfa, – og nauðsynlegt oft og einatt. Ég hika því ekki við að telja G …. í E …. einn í ]óma-flokknum og vildi, að sem flestir væru eins og hann, en sem fæstir í hinum hópnum, þar sem Þ …. í N . . . . á með réttu heima“.

„En því gefið þér þeim þessi nöfn? Þau eru ekki laus við að vera niðrandi, af því að fólk skilur þau ekki“.

,,Alveg rétt! Fólkið skilur ekki. En einhver nöfn verður maður að hafa, og ég hef þessi nöfn fyrir mig. Ekki væri betra að velja þeim meinlegri nöfn, – þessi eru meinlaus: Blessaðir fuglarnir! – T. d. erkibófa annan flokkinn, en engla hinn? Nei, við nöfnin er ekkert að athuga. Hitt er annað, hvort maður er nógu nákvæmur og nærfærinn um flokkaskipunina. En það fer eftir því, hve mikið far maður gerir sér um það að kynnast mönnunum nógu vel, en það á maður að gjöra“.

13.

Séra Eggert segir frá:

Tveir skúmar hittast.

1. skúmur: ,,Hvernig gengur það til í stríðinu?“

2. skúmur: ,,Hvernig það gengur til í stríðinu? Það gengur svo til, að einn stendur, en annar fellur!“

Svo bætir séra Eggert við, því að þetta er dönsk skrítla, sem hann hafði þýtt:

,,Þetta voru danskir skúmar!“

14.

Séra Eggert Sigfússon:

„Í nóvember 1888 sagði maður einn, að nauðsynlegt væri að þekkja mismuninn á guðdóminum og þeim svarta! Sjálfkjörinn í flokk örgustu skúma! ,

15.

Úr bréfi frá séra Eggert:

Ég kom í dag beint úr Þorlákshöfn um sólarlag að Strönd. Sigurður var heima. Selvogshreppstjórinn var þar staddur og sagði mér, að Þ … í N … væri búinn að bera Gr … út í annað skipti. Hér er dæmi þess, á hve háu stigi réttarmeðvitund skúmanna stendur. Hvar sem maður er eða fer í veröldinni, þá held ég, að naumast sjáist í heiðan himininn fyrir þessum bölvuðum skúmum! Ég vildi óska, að allar veraldarinnar manneskjur væri orðnar að lómum. Þá þyrfti maður ekki að eiga við annað eins ,,jastur“ og þetta. Takk fyrir síðast. E. S.

16.

Séra Eggert skrifaði Jóni í Höfninni (Jóni kaupmanni Árnasyni, dbrm.) þannig hljóðandi bréf:

,,Hér kom skúmur og tilkynnti mér sem hreppsnefndarmanni, að hann ætti barn í vonum. Þetta kalla ég þunnar trakteringar, og þess vegna ætla ég að biðja þig að láta mig hafa á meðfylgjandi 8 potta kút, svo að ég geti hresst mig í þessum skúma-

legu vandræðum! E. S.

Bréf þetta var í eigu séra Halldórs Jónssonar á Reynivöllum í Kjós, systursonar Jóns Árnasonar, og lét hann mér í té orð og efni bréfsins, sem nú mun því miður glatað. Dagsetning og ártal mundi séra Halldór ekki, heldur hitt, að bréfið var með sama „umbúnaði“, sem önnur bréf séra Eggerts, þau er honum þóttu nokkurs um verð: Hliðar og horn strikuð með rauðum og bláum blýanti og þau orð undirstrikuð, er hann vildi leggja sérstaka áherzlu á.

17.

Skúmar aðkomnir að Vogsósum árið 1887:

Janúar 25

Febrúar 92

Marz 4

Apríl 6

Maí 43

Júní 62

Júlí 75

Ágúst 5

September 91

Október 65

Nóvember 14

Desember 7

––––

Skúmar alls: 489

Þeir, sem komu úr Ölfusi og Selvogi, eru hér ekki taldir.

Lómar, aðkomnir að Vogsósum árið 1887:

Janúar 1

Febrúar 1

Marz 0

Apríl 1

Maí o

Júní 0

Júlí 3

Ágúst 3

September 5

Október 2

Nóvember 0

Desember 0

––––––

Lómar alls: 16

Til samanburðar má geta þess, að á tímabilinu frá 6. júní til september hafa komið að Hraungerði: 89 lómar. Ættu samkvæmt því að hafa komið þangað nálega 356 lómar allt árið!

Eftir þessu og þvílíku gerði séra Eggert sér grein fyrir Siðmenningu, eða „civilisation“, er hann talaði svo oft um, þeirra Selvogsmanna! Hvílíkur munur! Allt árið 1887 aðeins 16 Lómar að Vogsósum, en á þrem mánuðum. sama ár 89 lómar að Hraungerði!

18.

Einhvern tíma á efri árum séra Eggerts skrifaði hann prófastinum í Árnessýslu einkabréf, um leið og hann sendi honum messuskýrslurnar og önnur skjöl, er að embætti lutu. Þetta var venja hans, því að prófasturinn, séra Valdemar Briem, var gamall og góður vinur hans, og var séra Eggert því óhætt „að leysa frá skjóðunni“, er séra Valdemar átti við að taka.

Bréf það, sem hér um ræðir, var á þessa leið:

,, …. Það er orðið fremur tilgangslítið og van þakklátt starf fyrir mig að vera prestur. Ég sé, að þessi litlu efni mín eru að þverra. Starfið er vanþakklátt. Fólkið vill ekki heyra guðsorð. Það aðhyllist miklu fremur eitthvað annað, sem ekkert á skylt við trúarbrögðin. Það kærir sig lítið um þau. Og hvers ætti maður annars að vænta, því að þótt kirkja sé rík og hafi orðið það fyrir eintóma hégilju fólksins, sem haft hefur þessa tröllatrú á henni að vera að heita á hana, þá er því nú líka að mestu lokið, trúin á áheitin er líka farin! Þótt kirkjan sé rík, þá sér það ekki á, því að hún er eins og allar hinar kirkjurnar svo köld, að ekki er inn í hana komandi. Hún er farin að fúna hér og þar og járnið að ryðga, því að ekki tíma stiftsyfirvöldin að bika hana. Fyrir nokkrum árum var keypt dýrt orgel í kirkjuna, en organistinn kemur aldrei til kirkju. Ég held helzt, að hann sé farinn héðan úr Selvogi.

Frúin í Hlíð! Það er nú „frú“ í lagi: Kötturinn í Vogsósum skrapp upp að Hlíð um daginn að fá sér kött, en veiztu hvað,,frúin“ gerir: Hún tók köttinn og drekkti honum í Hlíðarvatni.

,,Tarna er ljóta „frúin“!“ E. S.

Séra Valdemar svaraði bréfi þessu nokkru síðar, og var niðurlag bréfsins á þessa leið:

Eggert orðinn lúinn,
organistinn snúinn,
kirkja köld og fúin,
klerkurinn nærri flúinn,
áheitin eru búin,
öll er hjörðin rúin,
tæp er orðin trúin,
„tarna er ljóta frúin!“

V.B.

19.

Árið 1900 strandaði skip eitt nálægt Selvogi. Skipstjóri var Guðmundur Kristjánsson, og keypti séra Eggert af honum kvartel eitt með rúllupylsum, og var það séreign skipstjórans.

Nokkru síðar kom séra Eggert að máli við skipstjórann og segir:

„Þær eru nokkuð seigar þessar rúllupylsur, sem ég keypti af yður um daginn“.

„Eru þær seigar? Það er ómögulegt! Þær voru búnar til úr bezta lambakjöti. Ég trúi því ekki, að þær séu seigar“. ,,Jú, þær eru svo seigar, að ég vinn ekki á þeim!“ ,,Þær hafa þá verið illa soðnar!“ ,,Soðnar?! – Já, einmitt það. – Það þarf víst að sjóða þær?!!“

20.

Einu sinni sem oftar var séra Eggert staddur í Þorlákshöfn. Það var sunnudagur, og mæltist þá einhver til þess við hann, að hann læsi húslesturinn fyrir fólkið. ,,Í hverju lesið þið hérna?“ spurði prestur. ,,Það er alltaf lesin Péturspostilla“.

„Já, lesið þið Pésa! Hann er alveg ómögulegur. Hann er svo langur, minnst hálftímaverk, hvernig sem þrælað er á honum! Nei, hann les ég aldrei! Það er nóg að lesa eitthvað svona í tíu mínútur, annars verður það bara tómt bull, eins og það er hjá Pésa! – Nei, ég les alls ekkert!“

21

Það var venja um langt skeið, að sýslufundur Árnessýslu var haldinn á Eyrarbakka, og síðasta daginn, sem sýslufundur stóð yfir, var verzlunarstjórinn, hvort heldur var Thorgrímsen eða Nielsen, vanur að bjóða öllum sýslunefndarmönnum ásamt konum þeirra til miðdegisverðar heim til sín í „húsið“.

Það var og venja, að eftir borðhaldið gengu allir boðsgestirnir niður í búð og létu vigta sig á metaskálunum stóru, er voru úti í þurrkhúsinu. Þær voru svo stórar, að þær tóku ullarbagga af 12 hesta lest, og svo nákvæmar, að ef lagður var einnar krónu peningur á aðra þeirra eða aðra skálina, þá sýndi hún greinilega, að nokkru munaði.

Konur sýslunefndarmanna, er slíkar veizlur sóttu, voru einkum prófastsfrúin frá Hraungerði, frúin í Kaldaðarnesi, frúin í Arnarbæli og nokkrar aðrar Gerðu þær það meðfram til þess að verða mönnum sínum samferða heim, er þeir færu af sýslu nefndarfundinum. –

Þungi allra þeirra, er létu vigta sig, hafði um mörg ár verið skrifaður á stoðirnar í pakkhúsinu til þess að sjá, hvað viðkomandi hafði þyngzt eða létzt frá því árinu áður.

Þeir voru oftast saman sýslunefndarmennirnir séra Stef án sterki á Ólafsvöllum og séra Eggert í Vogsósum.

Nú var það eitt sinn, að þessi merkilega „vigt“ fór fram.

Séra Eggert var að vísu viðstaddur, en kinokaði sér við að láta vigta sig að þessu sinni, heldur gekk um gólf í gráa frakkanum sínum með hendurnar fyrir aftan bak.

Nú var búið að vigta og skrifa allar tölurnar á eina stoðina, og stóð nú öll þyrpingin þar saman að lesa úr tölunum og bera þær saman. Séra Eggert gefur sig lítið að því, en heyrir utan að sér aðdáunaryrði allra yfir því, hve séra Stefán á Ólafsvöllum sé þungur og beri langt af öllum í því efni.

Menn snúa sér nú fyrir alvöru að séra Eggerti og vilja láta hann vigta sig, og lætur hann loks tilleiðast og stígur á aðra skálina. Kemur þá séra Stefán þar að og segir, að það nái engri átt, að séra Eggert sé í þessum þunga frakka, því að þá sé ekkert að marka þyngd hans, og tóku allir undir þetta með séra Stefáni. Virtist svo sem honum væri sem mest um það hugað, að séra Eggert væri sem léttastur.

Séra Eggert fór úr frakkanum og lét vigta sig, gengur síðan afsíðis eins og áður og hlerar eftir, hvað séra Stefán og aðrir segja um allt saman. Er nú mikið hlegið og mest séra Stefán að því, hvað séra Eggert sé léttur. Hann væri jafnvel léttari en frú Karítas í Arnarbæli.

Loks víkur séra Eggert sér þar að, sem þyrpingin stóð við stoðina, og segir:

,,Hvað var séra Stefán á Ólafsvöllum þungur?“

,,Hann var 22 fjórðungar!“ kvað við úr öllum áttum. ,,Tuttugu og tveir fjórðungar? Hvað er það mikið í pundum?

Látum sjá! Tuttugu og tveir fjórðungar margfaldaðir með tíu, þ. e. a. s. 10 pund í fjórðungnum, allt svo 10 sinnum 22, sama sem 220 pund, ekki satt? En hvað er það? Þau eru miklu þyngri stóru nautin í Ameríku!“

Séra Stefán labbaði út og hló ekki!

22.

Séra Eggert var að, kaupa skötu, og var hann þá spurður að því, hvers vegna hann keypti hana, en ekki einhvern annan fisk, t. d. saltaðan þorsk.

„Nei“, sagði séra Eggert, ,,skatan er indæll matur, og svo er hún svo drjúg! – En meðal annarra orða: Þetta orð, orðið „drjúgur“, gefur mér tilefni til að benda yður á, hversu mikið vandhæfi á því er að semja orðabækur, Orðin hafa svo mjög mismunandi þýðingu. Við skulum taka orðið „drjúgur“ og getum sagt um mann eins og t. d. Þ …. í N …. , sem er montinn, að hann sé drjúgmontinn. Um annan mann, t. d. eins og G … í E … , að hann sé drjúgur til vinnu, þ. e. iðinn og afkasti miklu, og um skötuna, að hún sé drjúg til manneldis, þ. e. sé saðsöm og að minna þurfi af henni en öðrum mat, – en þú hlærð að þessu?!! Að hverju ert þú að hlæja? Þetta er satt, sem ég segi, því að ég þekki hann Þ …. , og ég þekki skötuna og að það eru ólíkar skepnur, þótt báðum megi lýsa með sama orði. Að semja orðabækur er ekki fært nema vel lærðum mönnum, sem geta útlistað orðin og sýnt mönnum hverja þýðingu þau hafa, t. d. þetta, sem ég sagði: Þ …. er drjúgur = drjúgmontinn, sköturassinn er drjúgur = drjúgmeti, G …. er drjúgur = drjúgvirkur!

Af þessu sést, að þótt orðið drjúgur eigi við þá alla þrjá, ég meina Þ …. , sköturassinn og G …. , þá hefur það sérstaka þýðingu fyrir hvern þeirra, því að ekki er hægt að segja um Þ … að hann sé neitt sérlega drjúgur til matar -, ég tel ólíklegt, að nokkur vildi leggja hann sér til munns -, og drjúgur til vinnu er hann ekki, því að hann er áhlaupamaður, afkastamaður í bili, en ekki drjúgur til neinnar vinnu. Í þessu sambandi er ómögulegt að segja annað um hann en að hann sé drjúgmontinn, og að því er ekki hlæjandi! Svona er það með fjöldamörg orð í íslenzkunni. Hún er ekki orðmörg, og okkur vantar mörg orð yfir ýmis hugtök, einkum nú á síðari tímum. En hún er liðug og þjál, og það má teygja hana eins og eltiskinn. Og svo við höldum okkur að orðinu „drjúgur“ og sleppum Þ …. og sköturassinum, þá má benda á fjölda orða, sem leidd eru af orðinu drjúgur eða sett í samband við það: Drjúggengur = sá, sem stikar áfram, drjúgmæltur = sá, sem vísvitandi gerir meira úr því, sem hann talar um, en í raun og veru rétt er. Sama er aðsegja um drjúg-orður og drjúg-stígur. Drjúgtalað = þeim varð drjúgtalað um þetta efni, þ. e. dvöldu lengi við það. Og því mætti þá ekki líka segja drjúg-lyginn eins og drjúgmontinn um Þ …. , sem er hvort tveggja! En mér hefur annars aldrei dottið í hug fyrri að setja orðið drjúg framan við það, sem hann segir, heldur stór! –

Ekki hefði ég treyst mér til að semja orðabók. Ég er hræddur um, að hún hefði orðið nokkuð þreytandi, en mér er illa við alla orðamergð! –

En heyrið þér! Hafið þér ekki tekið eftir því, hversu sum íslenzku orðin okkar eru velviðeigandi, svo að ekki er hægt á neinu öðru máli að finna annað eins. Til dæmis þetta ágæta orð: lausaleikur. Þér vitið hvað það er? Er það ekki ágætt! Þarna er það aðeins eitt orð í íslenzkunni, sem bendir á þetta algenga hugtak, sem á öðrum tungumálum mundi þurfa þrjú til fjögur orð til að skýra. Á dönsku mundi orðið lausaleikur þýðast eitthvað á þessa leið: ,,Samleje uden Ægteskab“, það er að eiga börn í lausaleik eða á dönsku: ,,faa Börn udenfor Ægteskab“. Og orðið lausaleikshjúskapur, eitt orð, mundi verða: ,,Börneavl udenfor lovformeligt Ægteskab“ eða „polsk Ægteskab“. – Og nú gætuð þér sagt um mig, að ég sé drjúgvirkur orðinn í út. skýringum orða og kominn í tölu þeirra, sem orðið! drjúgur á við: Þér gætuð því með sæmilega góðri ástæðu sagt um okkur alla þetta: Séra Eggert er drjúgvirkur, G . . . í E . . . er drjúgvitur, Þ …. í N …. er drjúgmontinn og drjúglyginn og sköturassinn er drjúgur og saðsamur matur!

23.

Einhverju sinni, er séra Eggert ætlaði eitthvað út af heimili sínu, Klausturhólum, til embættisverka og þurfti að flýta sér, var matur borinn fyrir hann, svo að hann færi ekki fastandi að heiman.

Hann kemur inn til að matast, en staldrar snögglega við, lítur til matarins og segir við húsmóðurina:

,,Þér bjóðið mér ekki fisk! Blóðmörinn er of magur, – lundabaggarnir of feitir, – skyrinu og grautnum skelf ég af, – og matarlaus má ég fara!“

24.

Þeir, sem þekktu séra Eggert, vissu, hvers konar almanak hann notaði: Hann keypti sér nokkur pund af kringlum í einu. Vildi hann nú vita t. d., hvað febrúarmánuði leið, tók hann 28 kringlur eða 29, ef hlaupár var, festi þær á band eða snúru og át síðan aðeins eina kringlu á dag, unz mánuðurinn var á enda. Fyrir næsta mánuð, marz, dró hann 31 kringlu á bandið, og þannig hélt hann áfram allt árið. Önnur almanök voru því óþörf fyrir hann.

25.

Haustið 1897 fóru 7 menn með stóran fjárrekstur austan undan Austur-Eyjafjöllum, og hugðust þeir selja féð í Reykjavík. Eigi voru þeir langt komnir, er þeir fréttu, að þangað bærist svo mikið sláturfé, að þar væri ekki hægt að selja eina einustu kind af þeim nærri 1800, sem þeir lögðu af stað með. Þeir tóku það ráð að fara með sjó alla leið að austan, og síðustu kindurnar, sem þeir voru með, seldu þeir loks í Hafnarfirði. Ferðalag þetta tók þá fullar þrjár vikur.

Þeir komu við í Selvogi og ráku féð í rétt eina hjá Vogsósum. Réttin var með „dilkum“, svo að hver þessara sjö ferðamanna gat hver um sig haft fé það, er hann hafði meðferðis, út af fyrir sig eða í sérstökum dilki. Selvogsmenn flestir komu í réttina og vildu kaupa. Meðal þeirra var og sóknarpresturinn þar, séra Eggert Sigfússon í Vogsósum. Hann tók það fram við ferðamennina, að hann vildi aðeins kaupa fimm kindur og að þær yrðu að vera hinar rýrustu allra þeirra kinda, sem í rekstrinum væru, því að hann kvaðst ekki geta etið feitt kjöt. Þetta virtist fjárrekstrarmönnum enginn ókostur, því að þeir bjuggust við, að flestir aðrir vildu fremur vænt fé en magurt, og allir gátu þeir orðið við óskum prestsins, ef vel væri leitað.

Ferðamennirnir og hinir væntanlegu kaupendur gengu nú frá einum dilki til annars og skoðuðu féð. Séra Eggert fylgdi þeim og eftir og sá, að flestir þeirra gerðu sér far um sem von var að hæla vöru sinni og selja sem mest, og keyptu menn 2 til 3 kindur hjá hverjum þeirra.

Loks komu þeir þangað sem piltur nokkur innan viðtvítugt stóð í dilkdyrum sínum og bauð þeim til inngöngu að skoða fé sitt, en annars lét hann kaupendurna sjálfráða um það, hvað þeir vildu kaupa af honum, og sagði ekki eitt orð við þá, er talizt gæti til áróðurs fyrir vöru þeirri, er hann hafði að bjóða. Hann svaraði aðeins fyrirspurnum þeirra um ýmislegt, t. d. það, hversu gömul þessi kindin væri eða þá hin. Gengur þá presturinn, séra Eggert, til piltsins og segir: „Viltu gjöra svo vel að benda mér á fimm kindur í hópi kinda þeirra, er þú vilt selja, en athugaðu það við val þitt, að þær séu allar hinar rýrustu í hópnum“.

Pilturinn fer nú að velja og sýna prestinum, sem segir þá við hann:

„Þessar kindur kaupi ég allar, og komdu svo heim með mér til þess að fá peningana greidda fyrir þær“.

Tóku nú sumir samferðamenn piltsins að ókyrrast og létu í ljós þá skoðun sína við prestinn, að hann sýndi hlutdrægni nokkra í því að kaupa allar kindurnar hjá þessum eina manni. Réttara hefði verið fyrir prestinn að skipta tölunni á milli þeirra, eins og hinir hefðu gert, og spurðu prestinn, hví hann gerði svo ójafnt upp á milli þeirra.

„Það er von, að þið spyrjið“, segir þá séra Eggert, ,,og ég skil ykkur. Þið hafið nokkuð til ykkar máls, en það hef ég einnig. Ég hef fylgzt með ykkur öllum og séð, að piltur þessi hefur ekki haft sig svo í frammi sem þið, og því geri ég ráð fyrir og álykta sem svo, að hann sé eigi svo útsmoginn í refjnum sem þið, – eða eins langt kominn í hrekkvísinni!“

Piltur sá, er presturinn gerði kaupin við, hét Halldór Sigurðsson og varð síðar einn af þekktustu úrsmiðum landsins.

Saga þessi, sem er sönn, sýnir athyglisgáfu séra Eggerts, einurð hans og réttlætiskennd. Kemur hér fram sönn lýsing á eðli hans og innræti að vera þeim megin, sem hann hugði sig geta stutt lítilmagnann. Og ófeiminn var hann við það að ávíta þá, er honum virtist láta mikið á sér bera og oflæti höfðu í frammi.

26.

Brynjólfur Magnússon úr Holtum og síðast í Fífuhvammi var barnakennari í Selvogi.

Viðburtfararpróf um vorið var séra Eggert Sigfússon prófdómari.

Brynjólfur var að reyna strák einn í reikningi og sagði við séra Eggert:

,,Þessi er nú kominn nokkuð langt í reikningi. Hann er kominn aftur í þríliðu!“

„Í þríliðu!“ sagði séra Eggert. ,,Látum okkur sjá. Það er matematik! – Já, en það er nú ekkert að marka mig í henni. Hana, gat ég aldrei lært! Ég er því ekki dómbær um þá hluti“.

Kemur hér fram hin einstaka hreinskilni séra Eggerts að gera svo lítið úr kunnáttu sinni, að hann væri eigi fær um að meta það, sem jafnvel barnið gat af hendi leyst!

27.

Séra Eggert segir skrítlu:

Einu sinni var ég við kaþólska messugerð í Landakoti. Það var í gömlu kirkjunni, sem enn stendur fyrir vestan spítalann. Presturinn tók nokkrar hræður til altaris og las auðvitað allt á latínu, því að þar þykir það koma sér betur, að fólkið skilji sem fæst af því, sem farið er með.

En svo breytti presturinn út af þessu, þegar hann fór að útdeila sakramentinu, og sagði, um leið og hann útdeildi víninu: ,,Ég drekk fyrir yður alla!“ um leið og hann saup drjúgum á. Stóð þá upp utarlega í kirkjunni norðlenzkur skúmur, dró pyttluna upp úr vasa sínum og sagði upphátt, svo allir heyrðu: ,,Ekki fyrir migi Ég drekk fyrir mig sjálfur!“

,,Mikj’ass-koti var þetta gott!“ bætti séra Eggert við.

28.

Þegar séra Eggert Sigfússon þjónaði Klausturhólaprestakalli í Grímsnesi, bar svo við einu sinni sem oftar, að hann var í fjölmennri veizlu, en gaf sig þó lítt að öðrum mönnum, sem þar voru og töluðu margt og mikið um búskap, heyjaföng, fénaðarhöld og frálag sauða sinna. Gengur þá til hans einn hinna ríkustu bænda sveitarinnar, Guðmundur Jónsson bóndi að Hömrum, og segir:

„Hvernig stendur á því, að þér, séra Eggert, takið ekki þátt í samræðum okkar bændanna? Þér hljótið að hafa aðrar hugsanir en við bændurnir og hafið ekki ánægju af búskapnum eins og við. Hann er þó það, sem heldur okkur og yður uppi, hvað sem. um annað er“.

,,Nei“, sagði séra Eggert, ,,yðar þanki er ekki eins og minn, því að yðar þanki er aðeins um peninga og tólg, gemlinga og grút!“

29

Úr bréfi til Jóns kaupmanns Árnasonar dbrm. í Þorlákshöfn: . „Í reikningi pro Anno 1895 er mér fært til skuldar 28. maí 8 pund skonrok á 25 aura. Brauð þetta er með öllu óætt. Þórður mælti: ,,Ef einhver kaupmaður í Reykjavík hefði slíkt brauð, mundi hann fleygja því fram fyrir bryggju“. Að slík vara sé viljandi látin af hendi, er ekki hugsanlegt. Líklegast er, að sjóvott strandskonrok hafi verið í tunnu nálægt óskemmdu skonroki og að afhendingarmaður hafi farið tunnuvilt. En það er skylda seljanda að hafa gætur á slíku. Ég, sem er áreiðanlegur viðskiptamaður, á beina heimtingu á, að mér sé eigi boðið slíkt.

Þetta stendur í sambandi við það, að þú gerir þér of dælt við mig. Það hef ég orðið var við, er ég hef komið í Höfnina . Þú hefur alls ekkert „privilegium“ til þess að segja við mig allt, sem þér dettur í hug. Ég skal geta eins atviks. Fyrir allmörgum árum kom ég í Höfnina. Þegar ég var kominn, komu austan af Eyrarbakka 2 bókhaldarar, Guðmundur og Geir. Þú bauðst þeim inn í hið tvíloftaða hús. Þar er stássstofa, ætluð handa virkilegum lómum. Þeim var boðið þar inn, mér ekki. Ég mátti snápa úti eins og hver annar lélegur skúmur. Áreiðanlegum viðskiptamönnum þykir slíkt vera eitthvað þunnt.

B. Sveinsson sagði á þingi 1863: .,Það er víst, að prestum hér á landi hefur sjaldan verið gert hátt undir höfði. En það er varúðarvert fyrir þingið að fylla flokk þeirra manna“.

Þessi orð Benedikts eru sönn. E. S.

P.S. Ef ég skulda eitthvað, umbiðst vitneskja um það á seðli.

Ég sendi borgun með næsta pósti“.

Jóni þótti miður að hafa fengið þetta bréf, en sagði þó: ,,Þetta jafnast allt við næstu samfundi!“

Nú leið hálft annað ár, að ekki kom séra Eggert í Höfnina.

Hafði þó Jón gert honum boð, að sig langaði til að fara að sjá hann.

Í júlí kemur svo séra Eggert, og lét hvorugur á því bera, að nokkur snurða hefði hlaupið á vináttuband þeirra á milli.

En Jón hafði ekki gleymt bréfinu og vildi nú minna séra Eggert á það. Þegar á daginn leið, ymprar Jón á bréfinu og segir:

„Vel á minnzt, prestur góður! Ég fékk bréf frá þér hérna um árið. Þar varst þú dálítið óbilgjarn í minn garð“. ,,Jú takk“, sagði séra Eggert.

Nú þögðu báðir dálitla stund. Loks segir Jón:

„Ég get ekki verið að erfa þetta við þig, en vildi þó láta þig vita, að ég myndi eftir bréfinu“. ,,Jú, takk“, sagði séra Eggert.

,,Er þá ekki bezt“, segir Jón, ,,að þetta sé gleymt og grafið?“ ,,Jú, takk“, segir séra Eggert.

Þannig var þetta klappað og klárt og aldrei minnzt á það framar.

30.

Þegar séra Eggert skrifaði bréf, undirstrikaði hann mörg orð með rauðum eða bláum blýanti. Allar randir og horn bréfanna strikaði hann á sama hátt og loks umslögin báðum megin.

Fengi hann bréf, las hann það fyrst á sama hátt og kennari leiðréttir stílabók hjá börnum, þannig að hann breytti réttrituninni eftir því, sem hann vildi hafa hana og áleit réttasta. Þætti honum þess við þurfa, bætti hann inn í eða strikaði út kommur og punkta, og ef honum líkaði ekki eitthvert orðið eða setningin, strikaði hann það út og skrifaði orðið „snak“ fyrir ofan, allt með rauða eða bláa blýantinum. Að því búnu áleit hann, að einhver tiltök væri fyrir sig að lesa bréfið. Fyrr ekki!

Rithönd séra Eggerts  var hrein, greinileg vel og áferðarfalleg.

Stíll og mál var í góðu lagi, en hann tvöfaldaði oft samhljóðendur til þess að stytta málið sem mest. Óþarfamælgi í orðum og skrifuðu máli var honum þyrnir í augum og tilgerð alla og spjátrungshátt hataði hann og fyrirleit.

Þá er val hans á ýmsu því, er hann skrifaði í syrpur sínar alleinkennilegt, og lýsir það skoðunum hans á mönnum og málefnum betur en margt annað, sem um hann hefur verið sagt og ritað: Hann var hreinlyndur maður mjög og áreiðanlega svo vandaður til orða og verka, að hann mátti í engu vamm sitt vita. Hann var góðgerðasamur, hjálpfús og líknandi öllum, mönnum og málleysingjum, sem eitthvað áttu bágt. Og óeigingjarnari maður en hann var, held ég, að naumast sé til. En hann fann þó oft, þótt hann léti lítið á því bera, sárt til þess, ef þeir menn, sem hann hafði einhver viðskipti við, leituðust við að nota sér til hagnaðar meinleysi hans og barnslega ótortryggni eða jafnvel einfeldni í fjármálum.

Séra Eggert var sannur maður, hreinu og falslaus, sem elskaði allt gott og göfugt, en hataði alla sundurgerð, fals og fláttskap. Vegna þessa var hann oft misskilinn, enda batt hann ekki bagga sína sömu hnútum sem aðrir samferðamenn hans. Því þótti hann einrænn, sérsinna og jafnvel sérvitringur eða skringimaður, sem ekki bæri að taka alvarlega. En sannleikurinn var sá, að bak við orð hans og gjörðir, jafnvel spaugið, lá oftast djúpsæ hugsun, göfugt líferni og góðsemi. Hann var einstæðingur, frjálslyndur í trú sinni, skyldurækinn og ráðvandur til orðs og æðis. Því var það, að allir þeir, er náin kynni fengu af honum, elskuðu hann og virtu, jafnframt því sem þeim rann til rifja einstæðingsskapur hans og hversu mjög hann fór á mis við þau gæði. lífsins, er menn meta mest fyrir sjálfa sig.

En séra Eggert virtist ekkert fást um þetta. Hann sýndist ánægður með kjör sín og möglaði aldrei.

*

Hér verða nú að lokum teknar nokkrar frásögur af Sigfúsi Guðmundssyni, ,,snikkara“ á Eyrarbakka, föður séra Eggerts ·í Vogsósum, og eru þær allar geymdar í safni Jóns Pálssonar um séra Eggert.

Sigfús Guðmundsson snikkari á Eyrarbakka, faðir séra Eggerts í Vogsósum, var smiður góður, og byggði hann flest þau timburhús og kirkjur, sem byggðar voru austanfjalls á 2. og 3. fjórðungi 19. aldar og enda nokkru áður, þar á meðal Strandarkirkju í Selvogi.

Sigfús mun hafa verið fæddur nálægt 1803, því að þegar hann andaðist 9. janúar 1877, er hann talinn 74 ára að aldri. Hann var vínhneigður, glaðlyndur og skemmtilegur í viðræðum og hagorður.

Meðan Sigfús var að telgja til kirkjugrindina á Strönd, var hann svo ölvaður, að hann hjó bitana til svo stutta, að 6 þumlungum munaði. Daginn, sem smiðirnir ætluðu að reisa kirkjuna, urðu þeir fyrst varir við, hvernig ástatt var með lengdina á bitunum. Kom þá prestur sá, séra Þorsteinn Helgason (d. 1839), er þá þjónaði Selvogsþingum, út til þeirra og leizt ekki vel á blikuna. Verkið, sem svo langt var kornið, var ónýtt, og viðirnir svo, að ekki var viðlit að nota þá. Hann sá, sem var, að þessu varð á engan hátt bjargað, nema með því að senda sem allra fyrst austur á Eyrarbakka til þess að kaupa nýja innviðu til kirkjunnar, en það var bæði dýrt og tafði smíðina um langan tíma.

A meðan hann var að velta þessu fyrir sér, varð honum reikað vestur með sjónum, og er hann hafði gengið spölkorn vestur fyrir kirkjustæðið, finnur hann svo stórt og digurt rauðviðartré rekið upp að sandinum á reka Strandarkirkju, að það var meira en nóg í bitana og aðra innviðu kirkjunnar. Lét hann þegar flytja tréð að kirkjustæðinu og taka til óspilltra málanna við að saga það niður og hefja kirkjusmíðina að nýju. Sýnir þetta atvik, að löngum hefur Strandarkirkja fengsæl verið.

*

Sigfús snikkari var góðkunningi Þorleifs heitins Kolbeinssonar á Stóru-Háeyri, sem kallaður var Þorleifur hinn ríki, og glettust þeir oft hvor við annan bæði í orðum og með vísum.

Einhvern tíma voru þeir saman á báti, og hefur Þorleifur þá annað hvort haft ónýta ár eða honum hefur sótzt svo seinlega róðurinn, að Sigfús kvað:

„Blessaður, ljáðu betri ár

bölvuðum mauraselnum!“

Þorleifur botnaði vísuna samstundis og kvað:

,.Slaðraði þessu slinninn flár

úr slottuga, langa belgnum!“

*

Þá voru þeir og miklir vinir, Sigfús og Einar „borgari“. Hinn 30. janúar 1877 fæddist Einari sonur og lét hann barnið heita Sigfús eftir þessum vini sínum, er andaðist þrem vikum áður. Var það Sigfús Einarsson, síðar dómkirkjuorganisti og tónskáld í Reykjavík.

Ég man vel eftir Sigfúsi snikkara, því að hann kom oft að Syðra-Seli til foreldra minna. En einkum man ég eftir því, að þegar hann sat á rúmi eða á stóli, lagði hann hægri fót sinn á vinstra hné sér og spennti greipum um hægra hnéð, meðan hann var að tala við föður minn eða aðra á heimilinu. Hann var að öllu leyti mjög líkur séra Eggert, syni sínum, sérstaklega í andliti, en heldur lægri vexti en hann.

Ég var viðstaddur jarðarför Sigfúsar, – ég man ekki hvaða dag það var, – en þann dag var mikið frost og norðanhvassviðri. Hann var látinn „standa uppi“ nokkra daga, áður en hann var jarðaður, og stóð líkið uppi í Stokkseyrarkirkju. Þetta var fátítt, og því man ég það svo vel, enda var ég þá á tólfta ári.

Þá var það, að ég sá séra Eggert Sigfússon fyrsta sinni, og hélt ég í barnslegri einfeldni minni, af því að ég vissi ekki, að hann var sonur Sigfúsar, að það væri Sigfús sjálfur(!). Svo líkir voru þeir. En ég áttaði mig bráðlega á þessu, og fyrir þetta virti ég séra Eggert enn betur fyrir mér en ella. Síðan sá ég hann ekki í mörg ár og ekki fyrr en hann kom í Bakkabúðina, eftir að ég kom þangað sem „Afhændingsmand“ 1886 og hann fór að sækja sýslufundi á Bakkanum kringum 1890.

*

Sigfús snikkari Guðmundsson var hagmæltur, eins og að framan greinir, og lét oft fjúka í kviðlingum. Hann var smiður góður og byggði margar kirkjur, svo sem fyrr var sagt, einkum í Árnessýslu. Ein þeirra var Stokkseyrarkirkja, sú er stóð fram yfir 1870-1880.

Sagt er, að síðasti smíðisgripurinn, er hann bjó til fyrir kirkjuna, hafi verið brúðarbekkur, og á þá Sigfús að hafa kveðið þessa vísu:

„Brúðhjónin, sem byggja fyrst
bekkinn þann ég laga,
óska ég, að ónýtist
alla sína daga“.

Þótt mér hafi verið vísa þessi kunn frá barnæsku, man ég ekki nú, hvort Sigfúsi eða einhverjum öðrum var eignuð hún. En mér er nær að halda, að hún sé ekki eftir Sigfús og því síður hitt, sem ég heyrði nýlega, að brúðhjón þau, er „byggðu fyrst bekkinn þann“, hafi aldrei setið á sátts höfði og að ósk höfundarins hafi þannig orðið að áhrínsorðum.

Ég er þess fullviss, að Sigfús hafi verið vandaðri maður en svo, að hann hafi haft í frammi svo kesknisfull orð og illar óskir, sem fram koma í vísunni. Ég var að vísu á 12. ári, er Sigfús lézt, en ég man vel eftir honum, síðan hann byggði timburhúsið á Syðra-Seli og að hann var góður vinur foreldra minna, sem höfðu miklar mætur á honum. Hið sama álit hafði og frændi okkar, Einar „borgari“, er lét son sinn, Sigfús tónskáld, heita eftir honum, er hann fæddist 30. janúar 1877, þrem vikum eftir andlát Sigfúsar „snikkara“.

Leave a Reply

Close Menu