30-Séra Eggert Sigfússon prestur að Vogsósum

Ritgerð sú, sem hér fer á eftir, hefur áður verið prentuð í mánaðarritinu „Óðni“[note],,Óðinn“, XXIV. árg. 1928 1.-9. tbl. bls. 66-68. [/note]. Hér er hún að vísu nokkru lengri, og hefur verið bætt við ýmsu um séra Eggert, sem Jón Pálsson hefur ritað síðar um þennan fornvin sinn. Eru þeir viðaukar á nokkrum renningum, sem nú eru varðveittir í handritasafni Jóns Pálssonar.

Séra Eggert Sigfússon, síðast prestur að Vogsósum í Selvogi, var fæddur á Eyrarbakka 22. júní 1840. Hann var sonur Sigfúsar trésmiðs Guðmundssonar, sem almennt var nefndur Sigfús „snikkari“, og konu hans, Jarþrúðar, Magnúsdóttur, er lengi bjuggu á Skúmsstöðum á Eyrarbakka. Sigfús dó 9. janúar 1877, 74 ára að aldri, og var hann alkunnur húsasmiður á sinni tíð þar eystra, en þó einkum kirkjusmiður. Dóttir þeirra hjóna var Þóra, kona Eggerts bónda Einarssonar í Vaðnesi í Grímsnesi.

Eins og þá var títt, ritaði séra Eggert ævisögu sína, ,,vita“, á latínu, þá er hann vígðist, og hljóðar hún þannig:

„Ego Eggert Sigfússon natus sum in emporio Eyrarbakka, in toparchia Arnesensi, die 22 Junii 1840, parentibus fabro lignario Sigfús Guðmundsson et Jarþrúður Magnúsdóttir. Usque ad annum quintum decimum apud parentes vixi. Hoc anno in scholam Reykjavicanum sum admissus, quam sex annos freqventavi. Proximis sequentibus duobus annis, theologiæ studebam in Reykjavicano seminario pastorali, et inde anno 1863 dimissus sum charactere: ,,Haud illaudabilis primi gradus“. Post hoc tempus pueros docui in tribus emporiis: Keflavicæ duo annos, Husaviciæ tres annos, Eyrarbakka unum annum, donec hoc anno sacerdotium accepi, et heri ordinatus sum, a summo venerando episcopo Isclandiæ, dr. P. Petri filio.

Reykjavicæ, die 30. Augusti 1869

Eggert Sigfússon“.

,,Ég, Eggert Sigfússon, er fæddur í Eyrarbakkasókn í Árnessýslu 22. janúar 1840, og voru foreldrar mínir Sigfús Guðmundsson trésmiður og Jarþrúður Magnúsdóttir. Til fimmtán ára aldurs var ég með foreldrum mínum, en þá settist ég í Reykjavíkurskóla, þar sem ég var næstu sex árin. Næstu tvö ár nam ég guðfræði í prestaskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 1863 með vitnisburðinum: ,,Haud illaudabilis primi gradus“.[note]Önnur einkunn betri.[/note] Eftir það kenndi ég börnum í þessum sóknum: Í Keflavík tvö ár, á Húsavík þrjú ár og á Eyrarbakka eitt ár eða þar til ég tók prestsvígslu, og var ég í gær vígður af hinum virðulega biskupi yfir Íslandi, herra dr. Pétri Péturssyni.

Reykjavík, 30. dag ágústmánaðar 1869.

Eggert Sigfússon“.

„Þann 7. október 1869 kom ég að Hofi á Skagaströnd. Þaðan fór ég í ágúst 1872 að Klausturhólum. Þar var ég í 12 ár og kom hingað að Vogsósum þann 6. júní 1884“.

Séra Eggert var hár maður vexti, sennilega allt að þrem álnum, grannvaxinn mjög og nokkuð lotinn í herðum. Höfuðið var lítið, nefið stutt og söðulmyndað. Kinnbeinaber var hann, með hvassar augnabrýr og stutta höku. Augun voru lítil og gráblá, en snör og var sem sæi á skoraperlu undir breiðu og háu enninu. Eins og myndir þær, er hér birtast af honum, sýna, var hann fríður maður ásýndum og sviphreinn, enda var skaplyndi hans óvenju heilsteypt og göfugt. En hafi nokkur maður bundið bagga sína öðrum og ólíkum böndum en aðrir samtíðar- og samferðamenn, þá gjörði hann það. Má með sanni segja, að hann samdi sig lítt að siðum annarra manna. En þótt hann væri þannig í dagfari sínu og lifnaðarháttum allólíkur öðrum mönnum, var hann framúrskarandi grandvar í orðum og athöfnum. Hann mátti ekki vamm sitt vita í neinu og reyndi ávallt að bæta úr böli annarra eftir því, sem föng leyfðu og efni hans stóðu til. Hann var algjörlega laus við alla tilgerð og tildur og lét sér fátt um slíkt finnast hjá öðrum mönnum. Hann vildi, að hver maður kæmi til dyra eins og hann væri klæddur og þættist ekki meiri en hann væri í raun og veru. Öllu monti og mannalátum var hann innilega frábitinn. Í hans augum var ríkidæmi, ímyndaðar tildurstöður og embættisvegsemd lítils virði, ef eigi fylgdu mannkostir, sönn menntun, hreinlyndi og göfugt hugarfar gagnvart öllu, mönnum og málleysingjum.

Til þess að geta greint sauðina frá höfrunum í þessu efni og samkvæmt framanskráðu var það venja hans að nefna tildurtarfana „skúma“, en mannkostamennina og þá, er eigi bárust mikið á, ,,lóma“. Þessa aðgreiningu hans átti þó ekki að skilja svo, að hann fyrirliti skúmana og smjaðraði fyrir lómunum, heldur vildi hann á þennan hátt aðgreina þá, sem sakir framkomu sinnar, hæfileika og mannkosta sköruðu fram úr, frá ónytjungum og meðalmönnum. Hann taldi sjálfmenntaðan mann, þótt fátækur væri, eiga að vera í meiri metum en hinn, sem borinn væri til auðlegðar og upphefðar, en lítið gerði til að láta þess sjá merki með göfugu og hreinu hugarfari. Og einhver nöfn varð hann að velja þeim hvorum um sig til að sýna þennan mismun.

Einhvern tíma spurði ég séra Eggert, hvort það væri ekki erfitt handahófsverk að aðgreina menn þannig og hvort nokkuð væri á því að byggja og hvernig hann færi yfirleitt að í þessu efni.

Þessu svaraði séra Eggert samstundis þannig:

,,Ekkert er auðveldara né áreiðanlegra. Því sjáið þér nú til:

Jón í Pálskoti er ríkur, en fáfróður, hrokafullur og montinn, en mest af afli sínu og auðæfum. Pétur í Bæ er fátækur, en veit mikið. Hann er bljúgur í lund og auðsveipur við alla og gortar ekki af neinu. Ergo er hann lómur, hinn skúmur!“

Öðru sinni lagði annar maður fyrir hann svipaða spurningu.

Séra Eggert svaraði:

„Tveir menn koma inn í hreint og þokkalegt herbergi. Þeim er boðið til sætis, og á meðan þeir standa við, svipast annar þeirra eftir hrákadalli til að hrækja í. Hinn spýtir á ábreiðuklætt gólfið, eins og hann væri staddur úti í moldarflagi! Sýnist yður enginn munur vera á framkomu þessara manna, háttum þeirra og siðum? Jú, sá fyrri er lómur, hinn skúmur!“

,,Já, en því veljið þér þeim þessi nöfn?“ spurði maðurinn. „Nú, eitthvað verður maður að kalla þá! Þér megið nefna þá hvaða nafni sem þér viljið, bara að þér aðgreinið þá! Ég hef þessi nöfn fyrir mig“,

Í viðskiptum sínum við aðra menn var séra Eggert hreinn og laus við alla ásælni. Svik og pretti fyrirleit hann og loforð sín öll efndi hann bæði fljótt og vel, enda gerði hann strangar kröfur til annarra í slíkum efnum. Hann tortryggði engan og var jafnvel barnalegur og oft fremur óhygginn í viðskiptum sínum. En kæmist hann að því, að aðrir vildu nota sér meinleysi hans eða óaðgætni um sína hagi, féll honum það afar þungt, þótt aldrei hefndi hann sín með öðru en því að eiga aldrei framar neitt saman við slíka menn að sælda. Viðskiptunum var þá lokið að fullu og maðurinn auðvitað frá þeirri stundu skráður og skírður skúmur! Þetta var eina hefndin og í hans augum næg til þess að aðvara hann um að leika ekki slík brögð, hvorki við sig né aðra.

Sem prestur var séra Eggert skyldurækinn með afbrigðum.

En hann var sjaldan „biblíufastur“ og fór ekki ávallt stranglega eftir fyrirmælum kirkjunnar né kennidómsins. Því sagði hann einhverju sinni:

,,Þegar ég skíri barn, gifti hjón eða jarða framliðna, sleppi ég öllum kjánaskap úr handbókinni“. Var hann þá spurður: ,,Hvaða kjánaskapur er það?Eða er hann nokkur?“ ,,Kjánaskapur!“ sagði séra Eggert. ,,Hvort það er! Eða hvað er þetta til dæmis, sem ætlazt er til, að lesið sé yfir brúðhjónunum: ,,Með sótt skaltu börn þín fæða o. s. frv.“. Þarf að segja nokkurri konu það, að hún muni verða eitthvað lasin um það leyti, sem hún elur barn? Ætli hún megi ekki búast við því, eins og aðrar konur! Og hvers vegna á að vera að hryggja hana með því á mesta hátíðisdegi hennar í lífinu að minna hana á þetta, sem hún veit og allir vita. Þér megið kalla það, hvað þér viljið, en ég kalla það kjánaskap! Og hvað þýðir að segja næturgömlu barni, að það sé fætt í synd, eða dauðum manni, að hann verði að mold, er eigi upp að rísa. En svona eru nú fyrirskipanir kirkjunnar. Margar þeirra eru kjánaskapur, og því fer sem fer um trúna“.

Ræður séra Eggerts voru stuttar, en vel hugsaðar og hjartnæmar, því að hann var tilfinninganæmur og fann mjög til með öllum þeim, sem bágt áttu. Var hann óspar að víkja þeim einhverju . góðu, þótt oft væri af litlu að taka, því að hann var ávallt fátækur.

Séra Eggert var lærður maður vel, stálminnugur, og var um hann sagt, að þá er hann fékk nýja bók, læsi hann hana yfir í snatri, rifi hana úr bandinu og fleygði henni að svo búnu í eldinn! En væri hann svo spurður um eitthvað það, er í bókinni var, mundi hann það allt mjög nákvæmlega, – jafnvel mörgum árum síðar, – og sagði frá innihaldi bókarinnar, eins og hefði hann lesið hana í gær.

Einhverju sinni gaf hann Lestrarfélagi Árnessýslu á Eyrarbakka Salomonsens Leksikon, alfræðiorðabók í mörgum stórum bindum. Nokkuru síðar, er hann kom á Eyrarbakka til að sitja þar sýslufund, þakkaði stjórn Lestrarfélagsins honum fyrir gjöfina, en bætti þessu við: ,, . . . . En hvernig stendur á því, að engar litmyndir eru í bókinni?“

„Myndir!“, sagði séra Eggert. ,,Ég reif þær úr og gaf þær krökkunum. Hvað á að gera við myndir í Leksikoni? Þær eru algjörlega óþarfar!“

Séra Eggert var einn þeirra fáu manna, sem lagði sérstaka stund á að kynna sér háttu og siðu fornmanna, einkum Grikkja og Rómverja á dögum rómverska keisaradæmisins. Hann var gagnkunnugur lifnaðarháttum þeirra og stjórnarfari og var óspar á að fræða menn um þau efni.

Talið var, að enginn lærður maður hefði útskrifazt á 19. öld úr háskólum Norðurlanda, Þýzkalands, Englands og Frakklands án þess að séra Eggert myndi eigi, hvaða ár og dag þeir, hver um sig, hefðu útskrifazt og með hvaða vitnisburðum. Í þessum efnum mun hann eigi hafa verið óslyngari en séra Brynjólfur á Ólafsvöllum.

Séra Eggert var fáskiptinn mjög í margmenni. En væri 2 eða 3 menn að sumbli með honum, – því að vín þótti honum gott, einkum bjór og þá helzt „Gamle Carlsberg“, – lék hann á als oddi og var hinn ræðnasti og kátasti. Kom hann þá með hverja fyndnina á fætur annarri, svo að menn hlógu að, enda sagði hann þær og ýmsar sögur svo vel, að menn festu þær í minni og dáðust að. Sérstaklega var hann sögufróður og kunni frá mörgu skemmtilegu að segja, enda var hann meinfyndinn og spaugsamur, án þess þó að græska fylgdi, en napuryrtur gat hann verið í garð þeirra manna, skúmanna, sem mikið bárust á eða vildu sýnast meiri menn en þeir voru í raun og veru.

Eins og áður hefur verið vikið að, var séra Eggert bæði skyldurækinn og áhugasamur í preststörfum sínum. Ræður hans þóttu afbragðsvel samdar og áhrifamiklar, en eigi ávallt fastnegldar við hinar fyrirskipuðu trúarkreddur hins eldri tíma. Þær voru miklu fremur siðferðilegs en trúarlegs efnis, og mun hann þó hafa haft bjargfasta trú á guði og öllu því, sem gott var og göfugt.

Messuskýrslur séra Eggerts voru nákvæmlega og samvizkusamlega færðar, og af þeim, sem ég hef séð, er ljóst, að hann hefur sízt dregið það í lágina, sem honum var sjálfum áfátt um embættisfærsluna, t. d., hvort það var hans sök, að eigi var messað. Annars stöfuðu messuföllin miklu oftar af því, að ,,enginn kom“, ,,vantaði forsöngvara“, ,,forsöngvari lasinn“ eða því um líkt, og eru slíkar ástæður fyrir messuföllum alltíðar í skýrslum annarra presta.

Sóknir þær, sem séra Eggert þjónaði, að minnsta kosti hin síðari ár, Vogsósa- og Krýsuvíkursóknir, eru fámennar mjög, og hefur jafnan það orð leikið á sóknarbörnum þar um slóðir, að meðal þeirra væri fátt um mikla andans menn. Hvort séra Eggert hafi gert sitt til þess að bæta úr þessu, má auðvitað draga í efa, því að hann var frásneyddur öllum félagsskap. Auk þess var lundarfari hans svo háttað, að hann ætlaðist til þess, að menn vildu hjálpa sér sjálfir í þeim efnum sem öðrum, t. d. með lestri góðra bóka og meiri viðleitni til félagsskapar innbyrðis. Forgöngumönnum í slíkum efnum mun hann ekki hafa taliði sig eiga á að skipa, sízt eftir að hann varð þess var, að viljinn hjá þeim til þess var lítill eða enginn. Má það vera þeim og presti til afsökunar, að þessi héruð eru afskekkt mjög og samgöngur allar jafnómögulegar og örðugar bæði á sjó og landi.

Margt einkennilegt og skrýtið hefur verið um séra Eggert sagt og eftir honum haft, sem í skjótu bragði virðist lýsa honum sem pokapresti og jafnvel tuddamenni.

Hvílík fjarstæða!

Maðurinn var af öllum þeim, sem nokkur veruleg kynni höfðu af honum, með réttu talinn vitur maður og góður, hreinn íhuga og hjarta, maður, sem í engu vildi vamm sitt vita, en hraparlega misskilinn af öllum þorra manna. Hygg ég, að hann hafi í rauninni sætt sig bezt við slíkt almenningsálit og að honum hafi verið mjög fjarri skapi að gera tilraun til þess að breyta því, enda sagði hann oft:

,,Mér er sama, hvað mennirnir segja um mig lífs og liðinn, því að það er eins um það og hitt, að ef ég ekki stíg á hestbak, dey ég ekki af því að detta af baki. Þannig verð ég heldur ekki sakfelldur með réttu, ef ég gæti þess að gefa engum sök á mér!“

Ýmislegt er haft eftir séra Eggert, sem sýnir, að hann gat stundum komizt spaklega að orði. Um hreppsnefndirnar sagði hann einhverju sinni:

,,Hreppsnefndirnar eru ólaunaðir þrælar örbirgðarinnar“.

Hér skulu nú að lokum tilfærð ummæli tveggja vina séra Eggerts að Vogsósum, sem um margra ára skeið höfðu náin kynni af honum.

Helgi Jónsson, sem lengi var verzlunarstjóri í Þorlákshöfn, lýsir séra Eggert og viðkynningu sinni af honum á þessa leið: „Ég kynntist séra Eggert fyrst um 1890. Góð vinátta tókst brátt með okkur, og hélst hún alla tíð upp frá því. Séra Eggert var mjög fræðandi og hafði einkum yndi af að tala um söguleg efni og málfræði. Var hann einkum stálminnugur á ártöl. Hann mun og hafa verið stálsleginn í grísku og latínu.

Ég minnist þess, að hann sagði einhverju sinni við mig, að þýzkur prófessor hefði komið til sín að Vogsósum og þeir átt tal saman á latínu. ,,En hann flaskaði einu sinni á því“, sagði séra Eggert, ,,að nota þolfall í stað þágufalls. Ekki var það gott!“

Séra Eggert var töluvert spéhræddur. Hann var langskemmtilegastur þar sem 3 eða 4 voru samankomnir og sérstaklega væri ofurlítið „tár“ til hressingar. Hann var meinfyndinn, ef svo bar undir. Aldrei sá ég hann reiðast, en honum gat orðið þungt í skapi, ef honum mislíkaði við ,,skúmana“.

Hann hataði fláttskap og hræsni og hafði viðbjóð á hégómaskapnum. Var frábitinn illu umtali, en gat stungið óþægilega á kaunum þeirra, sem reyndu að narta í hann.

Í öllum viðskiptum var séra Eggert hinn áreiðanlegasti og ósínkur mjög. Hann var góður ræðumaður, en talaði sjaldan lengur en fjórðung stundar. Framburðurinn var að því skapi góður.

Ég á nokkur bréf frá séra Eggert, er sýna, hve stuttorður, en gagnorður hann var.[note] Bréf þessi eru nú varðveitt í Landsbókasafninu, Lbs. 1838 4to. 5 bréf frá séra Eggert Sigfússyni til Helga verzlunarstjóra Jónssonar á Eyrarbakka. [/note] Í stuttu máli: Ég geymi hinar beztu minningar um kynni mín af séra Eggert, og get sagt, að vinátta hans var mér til gleði og ánægju alla tíð.

Frú Hólmfríður Snorradóttir, sem um skeið bjó að Vogsósum, hefur Játið þessa getið um séra Eggert:

„Ég var samtíða séra Eggert Sigfússyni síðasta missirið, sem hann lifði. Hann var þá orðinn talsvert lasburða og þurfti því meiri hjúkrunar en áður. Fyrir því komst ég sem húsmóðir hans í nokkru nánari kynni við hann en aðrir á heimilinu og fann þá oft, hve góðan mann hann hafði að geyma, og að hann var maður, sem í engu mátti vamm sitt vita, en vildi öllum vel. En sérkennilegur var hann í hugsun og hátterni, og því mun hann hafa verið misskilinn af mörgum, svo sem altítt er um þá menn, er eigi binda bagga sína sömu hnútum og samferðamenn. Hann mun hafa átt allstrangt uppeldi í æsku og því orðið nokkuð dapurri í huga en ella, er hann sá ýmsa vankanta á mönnum og málefnum í lífinu og þá ekki sízt þeim, er mikið bárust á og létu lítið gott af sér leiða, en „þóttust menn, en voru ekki“. Stærilæti, mont og hroka hataði hann og var oft meinfyndinn og bituryrtur í þann garð, svo og þeirra, er virtu þessa heims gæði framar öllu öðru, en hirtu minna um að auðga sál sína af góðum hugsunum og göfugu líferni til orða og verka.

Óeigingjarnari mann getur varla en séra Eggert var, því hann mátti ekkert aumt sjá og gaf lasburða fólki og fátæklingum oftar af sínum litlu efnum en menn höfðu af að segja. Þá er menn áttu að greiða skyldugjöld sín til hans, t. d. skírnartolla, var hann oft vanur að segja við þá: ,,Nei, ég tek ekki við þessu. Hafðu það til þess að kaupa þér í skyrtu handa barninu eða brauðmola handa konunni. Þau þurfa þess máske með, en ég á nóg!“

Séra Eggert átti engin börn og giftist aldrei. En sagt var, að hann hafi þó átt sín ástaræfintýri sem flestir aðrir og að þau hafi m. a. átt þátt í því, hve líf hans varð einmanalegt og að hann fór á mis við þá ánægju og umönnun, sem góð kona og kær börn veita. Hann hafði því lengstum lítið af hluttekningarsemi og hlýju heimilislífsins að segja, en var oftast einmana og að miklu leyti upp á aðra kominn með alla hjálp og hirðusemi á sér og sínu.

Séra Eggert var afbragðs góðum gáfum gæddur, vel menntaður, ríkur í lund, en þó viðkvæmur og ætlaði engum manni illt. Það má því nærri geta, hversu erfitt það hefur verið fyrir slíkan mann að semja sig að hugsun og hátterni annarra manna, sem máske voru honum gjörólíkir að skapferli og skoðunum“.

Séra Eggert Sigfússon dó 12. október 1908, rúmlega 68 ára að aldri. Hann var þá að koma frá messugerð að útkirkju sinni í Krýsuvík og hné örendur niður við túnfótinn á Vogsósum. Hafði hann þá oftar en einu sinni þá um sumarið látið þess getið við heimilisfólkið á Vogsósum, að hann mundi ekki eiga langt eftir og brátt mundi verða um sig.

Hann liggur grafinn að Strönd í Selvogi.

Leave a Reply

Close Menu