079-Vísur Gísla Halldórsson 1896

Í marzmánuði 1896 orti Gísli Halldórsson eða Hofs-Gísli, sem áður er nefndur, vísur um alla þáverandi formenn á Stokkseyri, 38 að tölu. Ártalið er tilfært í næstsíðustu vísu, en nafn höfundar í hinni síðustu. Vísurnar eru prentaðar hér eftir handriti Guðmundar Benediktssonar bókbindara í Reykjavík í Lbs. 2882, 8vo, en um fáeinar þeirra hafði ég til samanburðar handrit Helga Guðmundssonar á Apavatni.

Hér í ljóða línum mengi
lesa nöfnin má
þeirra, er stýra um stökkuls engi
Stokkseyrinni frá.

*
Snorri heldur hlunna dýri
hranna fram á teig,
aldan honum undir stýri
ekki vinnur geig.

Hraustur fer um hrannir tíðum
hann Jón Þórðarson
einatt meður ýtum fríðum
í afla góðri von.

Höldar líta háfs um engi
hann Jón Stefáns kund,
happasæll með hrausta drengi
hugaða ber lund.

Hlunna fáki hleypir Bjarni
Hellukoti frá
ósléttar um ála tjarnir
afla til að fá.

Benedikt um birtings mýri,
bragna frægastur,
ranga Himinhrjóti stýrir
heppinn kjarkmaður.

Ísólfur á essi ranga
út á sjóinn rær,
honum títt með hlynum spanga
höppin gæfan ljær.

Símonar frá húsum hraður
heldur Eyjólfur,
er við tíðum ýta glaður
og vel hugaður.

Aldan há þó virðist virðum
volegt hættuspil,
sér ei Hannes sitt í kyrrðum
sélegt ranga fyl.

Frá Borgarholti einatt Einar
ýtir háfs á frón,
víðis dætur verða seinar
að vinna honum tjón.

Oft frá Götu Einar dregur
út á flyðru slóð,
hann er ei til happa tregur,
þó hamist Ránar jóð.

Jón frá Starkaðshúsum hraður
hafið siglir á,
lýðum þykir lipur maður
lundur vopna sá.

Dregur Jón frá Dvergasteini
dælu hind á sjá,
huguðum er ei hót að meini,
þó hrönnin ygli brá.

Gísli heldur hlunna dýri
höldum knáum með,
höppin þrátt á hnísu mýri
honum eru léð.

Torfi setur siglu karfa
síla út á lón
einatt meður ýta djarfa
ýsu að vinna tjón.

Ýtum með frá Ýmis sprundi
ágæt hleypur skeið
undir Jóni Ólafskundi
út á karfa leið.

Þorkell færir fokku valinn
fiska út á mið,
hugaður og heppinn talinn,
með hraustra drengja lið.

Fram á æginn oft til veiða
ungur halur sá
lætur báru blakkinn skeiða
Bjarni Stardal frá.

Jón í Holti um flyðru flatir
færir ára glað,
fylgja honum firðar hvatir
fiskiveiðum að.

Skipshöfn og landmenn Þorkels Magnússonar formanns í Sandprýði á vertíðinni 1899. Sitjandi frá vinstri: Guðjón Helgason, síðar bóndi í Gröf Ytrihrepp, Daníel Arnbjarnarson í Bræðraborg, síðar í Björgvin, Þorkell Magnússon formaður, Ágúst Steindórsson frá Hróarsholti og Njáll Símonarson landformaður, – Standandi: Magnús Magnússon frá Arnarstöðum, landmaður, Þorbjörn Sigurðsson frá Syðri-Gróf, Jón Jónsson frá Skipholti, Einar Gíslason frá Egilsstöðum, síðar á Urriðafossi, Bjarni Sæmundsson frá Leiðólfsstöðum, Eiríkur Þórðarson frá Mýrum, Ólafur í Sandprýði, landmaður, Jón Sigurðsson frá Miklaholtshelli, landmaður, Sæmundur Steindórsson járnsmiður í Götuhúsum og Gamalíel Jónsson í Tjarnarkoti. (Eftir Daníel Arnbjarnarsyni).

Grímsson Jón um lýsulandið
lungi mastra rær,
ýsan hlýtur af því grandið,
að afla títt hann fær.

Pálmar hratt um síldar salinn
siglir landi frá,
auðna styður ætíð halinn
og afla gjörir ljá.

Adólf fram á ufsa mýri
ýtir hlunna jór,
ei hann hræðir undir stýri
aldan há og stór.

Oft það verður ýsu að tjóni,
er öslar hraðskreið gnoð
Adólfssyni undir Jóni
út með þanda voð.

Jón á sjóinn sér kann voga
á siglu hundinum,
býr sá eyðir unnar loga
á Eystri-Móhúsum.

Þrátt um bláleitt þorska engi
Þorkels arfi Jón
siðugur með sína drengi
siglir laus við tjón.

Símon fram á síldar mýri
seggjum oft í vil
aldinn siglir ára dýri
aflafanga til.

Ingvars smýgur ranga refur
rostungs urðirnar,
marga drengi hrausta hefur
heppnismaður snar.

Guðmundur um geddu heiði
glaður hleypir skeið
þó að hrönnin hvíta freyði
og heldur þrengi leið.

Frá Garðhúsum Einar ýtir
öldu hundinum,
honum ægir afla býtir
áls úr lundinum.

Hinriksson vér Sigurð lítum
síldar leiðum á,
ekki hræðist hann með ýtum,
hrönn þó rísi blá.

Sigurður hleypir hesti ranga
hugaður á sjá
höppin góðu helzt að fanga
Hafliðakoti frá.

Til happafanga hvals um grundir
heldur Bernharður
með seggi hrausta á siglu hundi
svinnur formaður.

Júníus með ýtum ýtir
ára tíðum kló,
ýsan tíðum blíðu býtir
brögnum hans úr sjó.

Olgeir tíðum áravalnum
ýtir landi frá,
allvel heppnast ungum halnum
afla úr sjó að fá.

Ýtir Jón á ufsa dali
arfi Guðmundar,
þessi trausta hefir hali,
heppinn vel fiskar.

Sigurjón með seggja skara
súða birni rær
löngum fram á lendur þara,
lukku drjúga fær.

Eyjólfur með köppum knáum
Kaðalstöðum frá
oft á marar öldum bláum
afla reynir fá.

Linna bóla lundur stýrir
lipur og forsjáll
fram um bláa fiska mýri
frá Brattsholti Páll.

Halldór, þegar hrönnin gelur,
hræðast enginn sá,
lögin hann af viti velur,
þótt verði aldan há.

*

Höldum svo að hvergi grandi
hætta nein og slys,
sjálfur guð á sjó og landi
sé til hjálpræðis.

Í heimsbyggðum árafjöldinn
alla tíma vex,
nítjánda nú nefnir öldin
níutíu og sex.

Þennan óðinn æði stirða
að gumar vilji að góðu virða,
orti í þeirri von,
Gísli Halldórsson.

Leave a Reply

Close Menu