074-Vísur Eiríks í Hólum 1827

Brynjúlfur frá Minna-Núpi segir frá því í Sögunni af Þuríði formanni, að Eiríkur Snorrason í Hólum hafi ort formannavísur um Stokkseyrarformenn fyrra hluta vetrar Kambsránsveturinn (1827). Af þeim tilfærir Brynjúlfur aðeins tvær vísur, aðra um Hafliða Kolbeinsson og hina um Þuríði formann.

Hélt Hafliði hvals á mið
frá Hrauni iðu-fílnum,
upp gekk, niður og á hlið
í undirriðu-skrílnum.

Þuríður snarast þóftu á mar,
þýtur svar: „Menn æri!“
Stýrið hjarar, ströndin bar
strikað vara særi

Af þessum dýrt kveðnu formannavísum Eiríks í Hólum er ekki fleira kunnugt. Til er skrá yfir formenn á Stokkseyri 1827 í sýsluskjölum Árnessýslu í Þjóðskjalasafni, og eru þeir 15 að tölu. Er Hafliði Kolbeinsson þó ekki talinn með, því að hann hætti við formennsku litlu fyrir vertíð og réðst háseti til Þuríðar formanns. Vísur Eiríks hafa því verið að minnsta kosti 16, svo að 14 eru glataðar. Hinar týndu vísur hafa verið um þessa formenn; heimilisföngum hefi ég bætt við:

Björn Einarsson, Byggðarhorni,
Einar Jónsson, Hólum,
Einar Kristófersson, Brú,
Hannes Ögmundsson, Litla-Hrauni,
Jón Jónsson, Dvergasteinum,
Jón Jónsson, Gamla-Hrauni,
Jón Ólafsson, Tungu,
Jón Snorrason, Ásgautsstöðum,
Jón Þórðarson, Vestri-Móhúsum,
Magnús Bjarnason, Grjótlæk,
Magnús Gíslason, Kotleysu,
Sigurð Magnússon, Götu,
Þórð Jónsson, Steinskoti,
Þórð Jónsson, Stokkseyri.

Leave a Reply

Close Menu