073-Formannavísur

Á 19. öld var það mikill siður að yrkja formannavísur í verstöðvum landsins, og er til mikill fjöldi slíkra vísna í handritum og jafnvel á vörum manna enn í dag. Eins og að líkindum lætur, geta vísur þessar sjaldnast talizt skáldskapur, en oft lýsa þær þó bragfimi höfunda og meiri eða minni leikni í meðferð máls og kenninga. Og það var vissulega fleira en hinn hærri skáldskapur, sem veitti þjóðinni andlega næringu á liðnum tímum. Ég tek af heilum hug undir ummæli Halldórs Kiljans Laxness um alþýðuskáldin, er hann segir svo: „Skáld á Íslandi sem aldrei hlutu sögulega frægð hafa jafnan verið öld sinni þarfir og sumir þarfari en hinir sem hærra nafn hlutu síðar. Og ljóðagerð sýsluskálda, sveitarskálda og þeirra skálda sem miðuðu kveðskap sinn við takmörkuð svæði eða einhvern sérstakan hóp manna, til dæmis vermenn í einhverri veiðistöð, þessi skáldskapur hefir eigi síður en skáldskapur þjóðskálda sem svo eru nefnd verið fjörgjafi menningar á Íslandi og sannur lífsþáttur.“[note]Gjörníngabóik, Rvík 1959, bls. 11.[/note] Hinar miklu vinsældir þessarar ljóðagerðar meðal almennings eru óræk sönnun um lífsgildi hennar.

Með söfnun formannavísnanna hér á eftir hefi ég þó jafnframt og engu síður haft annað sjónarmið íhuga, en það er fróðleiksgildi þeirra. Þær veita upplýsingar um nöfn og heimili formanna, og samfelldir vísnaflokkar sýna fjölda formanna það og það árið. Stundum bregður fyrir mannlýsingum. Allt er þetta nokkurs virði og því dýrmætara sem aðrar heimildir eru fáskrúðugri.

Kunnugt er mér um 8 vísnaflokka og formannatöl frá Stokkseyri, þar sem taldir voru allir formenn, sem þá voru í veiðistöðinni. Auk þess eru til allmargar lausar vísur um einstaka formenn frá ýmsum tímum.

Leave a Reply

Close Menu