Vestri-Rauðarhóll

Vestri-Rauðarhóll

Vestri-Rauðarhóll var hjáleiga frá Stokkseyri og nefndist áður Litli-Rauðarhóll og er getið fyrst með því nafni í manntali 1703 og J arðab. ÁM. 1708. Sjá að öðru leyti kaflann um Rauðarhól. Nafnið Vestri-Rauðarhól höfum vér ekki fundið fyrr en í manntali 1801.

Býli þetta fylgdi Stokkseyrartorfunni, þar til er Jón Ingimundarson bóndi á Stokkseyri seldi það Jóni Brandssyni eldra frá Roðgúl 13. des. 1806 fyrir 28 ríkisdali „með 36 álna landskuld og dagsverki í afroð og öllum þeim herlegheitum, sem hjáleigunni fylgt hafa að fornu og fylgja ber til sjós og lands.“ Eftir daga Jóns mun ekkja hans, Ellisif Magnúsdóttir, hafa átt Vestri-Rauðarhólinn og eftir hana seinni maður hennar, Eiríkur Sveinsson. Hann drukknaði 1828 og hefir Þorleifur Kolbeinsson þá eða nokkrum árum síðar keypt hjáleiguna, því að árið 1847 seldi hann hana Jóni Sturlaugssyni á Syðsta-Kekki. Eftir daga Jóns er ekki kunnugt um eigendur Vestri-Rauðarhóls, en fyrir síðustu aldamót sameinaðist hann aftur Stokkseyrareigninni, og síðan 1935 hefir hann verið eign ríkissjóðs ásamt henni.

Leave a Reply

Close Menu