Vestra-Stokkseyrarsel var hjáleiga frá Stokkseyri og upphaflega sel þaðan, sjá nánara um það við Stokkseyrarsel. Það er og kallað Vestursel í húsvitjunarbók 1834. Hjáleiga þessi var fyrst allra Stokkseyrarhjáleigna gerð að séreign. Hinn 20. maí 1783 lét mad. Þórdís Jónsdóttir lesa upp á Stokkseyrarþingi gjafabréf til dóttur sinnar, Elínar Einarsdóttur, þar sem hún gefur henni YtraStokkseyrarsel, 2 hndr. að dýrleika (Þingb. Árn.). Eftir Elínu og mann hennar, Helga hreppstjóra Sigurðsson í Brattsholti, er dó 1818, erfðu börn þeirra Vestra-Stokkseyrarselið. Árið 1836 seldi Úlafur Jensson, dóttursonur þeirra. hálft selið Gísla bónda Ólafssyni í Breiðamýrarholti. og skal fyrst segja frá þeim helmingi.
Eftir að Gísli í Breiðamýrarholti hætti búskap, gaf hann próventu sína Þorvarði hreppstjóra Guðmundssyni í Litlu-Sandvík. Eignaðist Þorvarður þannig hálft Stokkseyrarselið eftir Gísla og átti til dauðadags 1899 og Guðmundur hreppstjóri Þorvarðsson í Litlu-Sandvík eftir föður sinn. Helming þennan seldi Guðmundur Jóni hreppstjóra Jónassyni á Stokkseyri, sem átti um þær mundir tæpan helming heimajarðarinnar Stokkseyrar og hjáleigurnar að hálfu. Eignir þessar seldi Jón 1913 Hjálmtý Sigurðssyni og þar með umræddan helming Vestra-Stokkseyrarsels.
Af hinum helmingnum er það að segja, að Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri keypti hann, sennilega af erfingjum Helga í Brattsholti, og átti til dauðadags 1882. Erfingjar Þorleifs eða sá þeirra, sem helming þennan hlaut, seldi hann Grími bónda Gíslasyni í Óseyrarnesi, sem varð smám saman eigandi að meginhluta Stokkseyrartorfunnar. Eftir lát Gríms 1898 keypti Bjarni, sonur hans, eign þessa af samörfum sínum, þar á meðal helming þennan í Vestra-Stokkseyrarseli. Árið 1927 keypti Hjálmtýr Sigurðsson þessar eignir Bjarna og varð þar með eigandi að Vestra-Stokkseyrarselinu öllu. Hinn 12. febr. 1929 skipti hann á því við Jón Pálsson bankagjaldkera í Reykjavík fyrir 1/8 úr Stokkseyri, er Jón átti. Hinn 11. maí 1939 seldi Jón Vestra-Stokkseyrarselið Jarðakaupasjóði ríkisins, sem hefir átt það síðan.
Tvíbýli var í Vestra-Stokkseyrarseli á árunum 1835-1914. Verða ábúendur þar taldir í tvennu lagi á því tímabili til betri yfirsýnar. Þurrabúð ein var í byggð hjá Vestra-Stokkseyrarseli á síðasta þriðjungi 19. aldar. Hún hét Stokkseyrarselskot eða Selkot, einnig nefnd Pungur í daglegu tali. Kot þetta fór í eyði um aldamótin.