140-Taflfélag Stokkseyrar

Vafalaust hefir skák verið iðkuð sem dægrastytting á Stokkseyri frá ómunatíð eins og annars staðar á landinu. Þegar útræði var þar sem mest á síðustu áratugum 19. aldar og vermenn víðs vegar af Suðurlandi söfnuðust þangað á vertíðinni, var algengt, að þeir gripu til skáktaflsins til þess að stytta sér stundir, þegar frátök voru. Á fyrri árum Ungmennafélags Stokkseyrar var stofnaður taflflokkur innan félagsins, en hann starfaði ekki lengi og kvað heldur lítið að honum. Einnig starfaði taflflokkur í allmörg ár í Verkalýðsfélaginu ,,Bjarma“. Var hann með talsverðu lífi um skeið, kom sér upp töflum til afnota fyrir félagsmenn og keypti verðlaunatafl, en skömmu eftir að Taflfélag Stokkseyrar var stofnað, lagði „Bjarmi“ þessa starfsemi niður og seldi hinu nýja félagi töflin 1939. Þrátt fyrir þetta er það þó ekki fyrr en með stofnun taflfélagsins, sem verulegur skáklistaráhugi vaknar í þorpinu og farið er að vinna markvíst að því að ná nokkurri kunnáttu og þroska í íþróttinni með æfingum og kennslu, enda hefir starfsemi þessa félags verið mjög til fyrirmyndar á sínu sviði.

Taflfélag Stokkseyrar var stofnað 22. jan. 1938 fyrir forgöngu Frímanns Sigurðssonar á Jaðri, og voru stofnendur um 20. Tilgangur félagsins er að efla tafllist meðal félagsmanna og gefa þeim kost á að fá sem bezta og fullkomnasta æfingu í þeirri íþrótt. Í fyrstu stjórn félagsins voru þessir menn:

Frímann Sigurðsson formaður, Bjarni Nikulásson í Unhól varaformaður, Sigurður Ingimundarson á Strönd ritari, Jóhann Jakobsson á Setbergi gjaldkeri og Albert Jónsson á Sólbakka meðstjórnandi. Hefir Frímann verið formaður félagsins frá því, að það var stofnað nema árið 1941-1942, er hann var gjaldkeri, en formaður var þá Tómas Böðvarsson í Garði.

Með því fyrsta, sem félagið tók sér fyrir hendur, var að kaupa 10 taflborð og töfl til afnota fyrir félagsmenn. Jafnframt hóf félagið þegar í byrjun reglulegar æfingar. Fara þær fram einu sinni í viku á veturna frá haustnóttum og fram að vertíð og stundum lengur, ef færi gefst. Tvisvar hefir félagið fengið kunna skákmenn sem þjálfara, í fyrra skiptið Jón Þorsteinsson, fyrrverandi skákmeistara Norðurlands, og í seinna skiptið Eggert Gilfer, fyrrverandi skákmeistara Íslands.

Skákkeppni heldur félagið árlega innan sinna vébanda og utan. Keppt er á hverjum vetri um nafnbótina skákmeistari Stokkseyrar, og hlýtur sigurvegarinn að verðlaunum farandgrip, forkunnar haglega útskorinn riddara eftir Ríkarð listamann Jónsson. Einnig hefir farið fram hraðskákkeppni. Þessir menn hafa verið skákmeistarar Stokkseyrar:

Frímann Sigurðsson, Jaðri, 1942-1943.
Guðfinnur G. Ottósson, Vatnsdal, 1944-1947.
Hannes Ingvarsson, Skipum, 1948-1949.
Guðfinnur G. Ottósson aftur 1950.
Frímann Sigurðsson aftur 1951.
Björgvin Sigurðsson, Jaðri, 1952.
Guðfinnur G. Ottósson aftur 1953.
Hannes Ingvarsson aftur 1954-1956.
Guðfinnur G. Ottósson enn 1957-1958.

Á fyrstu árum Taflfélags Stokkseyrar var aðeins eitt taflfélag annað í Árnessýslu, og var það Taflfélag Selfoss. Síðan hafa þrjú félög bætzt við, fyrst í Hraungerðishreppi og síðan fyrir fáum árum í Hveragerði og Hrunamannahreppi. Eru því félögin í sýslunni nú orðin 5. Síðan 1940 hefir árlega farið fram sýslukeppni milli þessara taflfélaga, og er keppt um svonefndan sýslubikar Árnessýslu. Taflfélag Stokkseyrar hefir jafnan tekið þátt í þessari keppni og oft borið sigur af hólmi, en síðustu tvö árin (1958 og 1959) vann Taflfélag Hveragerðis keppnina. Hinn 8. nóv. 1958 þreyttu taflfélögin í Árnessýslu keppni við Taflfélag Hafnarfjarðar. Teflt var í Hafnarfirði á 24 borðum, og unnu austanmenn með nokkrum mun.

Taflfélag Stokkseyrar hefir á undanförnum árum teflt símskákir við Akranes, Akureyri, Ísafjörð, Patreksfjörð, Borgarnes tvisvar og við Hvolsvöll og jafnan unnið nema í annað skiptið í keppninni við Borgarnes. Þessi úrslit bera vitni um athyglisverðan skákstyrk félagsins.

Í janúar 1959 gengust taflfélögin á Stokkseyri og á Selfossi fyrir stofnun Skáksambands Suðurlands, sem nær yfir Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Formaður sambandsins er Frímann Sigurðsson, ritari Einar Eiríksson, Miklaholtshelli, og gjaldkeri Egill Guðjónsson á Selfossi. Í febrúar 1959 gekkst sambandið fyrir skákkeppni, og tóku 20 menn þátt í henni. Efstir urðu Óskar Eyjólfsson í Skipagerði og Frímann Sigurðsson, báðir úr Taflfélagi Stokkseyrar.

Stjórn Taflfélags Stokkseyrar skipa nú auk formannsins Frímanns Sigurðssonar: Óskar Eyjólfsson varaformaður, Björgvin Sigurðsson ritari, Pétur Guðmundsson í Laufási gjaldkeri og Guðfinnur G. Ottósson meðstjórnandi. Starfandi félagsmenn eru nú um 30 að tölu. Félagið er í Skáksambandi Íslands.

(Heimildir: Gerðabók félagsins auk munnlegra upplýsinga frá formanni.)

Leave a Reply

Close Menu