139-Skátafélög

Tvö skátafélög störfuðu á Stokkseyri um nokkurt skeið, Skátafélagið „Svanir“ og Kvenskátafélagið „Liljur“. En þau eru bæði liðin undir lok fyrir mörgum árum.

Skátafélagið „Svanir“ var stofnað á aðfangadag jóla 1935 af Hlöðver Sigurðssyni skólastjóra, og voru stofnendur auk hans 7 drengir úr elztu deildum barnaskólans. Var Hlöðver formaður félagsins eða deildarforingi, þar til er hann fluttist frá Stokkseyri 1943. Eftir það mun hafa dregið úr starfseminni eða hún jafnvel legið niðri í eitt ár, en á árunum 1944-1946 starfaði félagið aftur af fullum krafti undir stjórn Hjálmars Guðmundssonar skólastjóra. Þegar Hjálmar fluttist burtu, var Magnús Sigurðsson frá Móhúsum kosinn deildarforingi. Starfaði félagið eitthvað eftir það, en hinn upphaflegi áhugi var nú þorrinn, ýmsir af stofnendum farnir burt, aðrir vaxnir frá því, og mun það hafa lagzt niður með öllu árið 1947 eða því nær.

Félagið færði fljótt út kvíarnar í byrjun, og árið eftir að það var stofnað og á næstu árum, starfaði það í þremur flokkum, en félagar voru um 20-25 alls. Í árslok 1937 var einnig stofnuð ylfingadeild með 5 drengjum. Mikill áhugi var ríkjandi með hinum ungu mönnum. Oft var farið í gönguferðir um nágrennið eða á nálægustu fjöll, og árlega var farið í útilegu um hvítasunnuleytið að Reykholti í Biskupstungum og þar að auki í aðrar minni háttar útilegur. Árið 1938 lærðu 6 skátar hjálp í viðlögum hjá Gísla lækni Péturssyni á Eyrarbakka, en í október 1939 hélt Jón Oddgeir Jónsson skátaforingi námskeið í hjálp í viðlögum á Stokkseyri. Voru skátar í sérstökum flokki og luku 11 þeirra prófi í þessari grein, en þeir héldu svo áfram með því að kenna öðrum félögum sínum. Ársskemmtanir hélt félagið fyrir skátana og foreldra þeirra, og við bar, að það héldi opinberar skemmtanir, eins og t. d. 11. okt. 1939. Þar var m. a. til skemmtunar sýning á leikritinu „Vekjaraklukkunni“, enn fremur atriði úr hjálp í viðlögum, varðeldur uppi hafður, sungnir skátasöngvar og fleira. Einnig gaf félagið út fjölritað blað, sem „Göngu-Hrólfur“ nefndist, og kom það út í 4 ár eða lengur.

Tekna aflaði félagið m. a. með skemmtunum, happdrætti, hlutaveltu og sölu „Göngu-Hrólfs“. Enn fremur hafði félagið kartöflugarð, sem skátar sáu um í sjálfboðavinnu, en ekki varð mikill arður af því. Þess má og geta, að félagið útvegaði drengjum einu sinni garðbletti til að sá í kartöflum, svo að þeir gætu keypt sér skátabúning, ef vel tækist. Tveir drengir notuðu sér þetta og gátu keypt sér hinn langþráða búning fyrir uppskeruna.

Skátafélagið „Svanir“ var í Bandalagi íslenzkra skáta. Það fekk stundum heimsóknir frá öðrum skátafélögum, bæði frá Reykjavík og einu sinni mikla heimsókn skáta frá Vestmannaeyjum. Einnig tóku „Svanir“ þátt í lýðveldishátíðinni á Þingvöllum 1944. Þó að félaginu yrði ekki langs aldurs auðið, gerði það mikið gagn með því að bæta úr félagsþörf unglinga um og innan fermingaraldurs og efla á ýmsan hátt þroska þeirra við leik og starf.

Að lokum kemur hér félagssöngur Skátafélagsins „Svana“, er Jóhannes

skáld úr Kötlum orti:

Með sólskin vorsins á vöngum
í von hins ungborna manns
við SVANIR syngjandi göngum
til sumarblómanna lands.

Og loftið af lífi ómar,
og létt verður öllu um gang,
er Ísland æskunnar ljómar
og opnar sitt vinafang.

Kvenskátafélagið „Liljur“ var stofnað haustið 1939 og starfaði í nokkur ár undir forustu Margrétar Gísladóttur frá Hoftúni og síðast Ingibjargar Sigurgrímsdóttur frá Holti. Erfitt reyndist að halda félaginu uppi, en frekari heimildir skortir um starfsemi þess.

(Heimildir: Gerðabók Skátafélagsins „Svana“ frá upphafi til ársloka 1940; munnlegar og skriflegar upplýsingar frá Björgvin Jósteinssyni kennara).

Leave a Reply

Close Menu