037-Stuðningur við atvinnuvegi

Ýmiss konar afskipti hefir hreppurinn lengi haft af atvinnuvegum hreppsbúa í því skyni að styðja þá og efla, og er sumt af því ákveðið með lögum, en sumt orðið til fyrir tímabundna nauðsyn. Skylt er hreppnum t. d. að hafa eftirlit með fóðrun búfjár og fóðurbirgðum samkvæmt lögum nr. 5, 1898, og með lögum nr. 44, 1913 var umsjá þessi falin sérstökum forðagæzlumönnum, er til þess voru kjörnir. Var starf þeirra í því fólgið að líta eftir heybirgðum manna á haustin og sjá til þess, að ekki væri ofsett á heyin. Sömuleiðis hefir hreppsnefndin forustu um varnir gegn búfjársjúkdómum. Samkvæmt lögum nr. 40, 1901 og nr. 46, 1913 og yngri lögum um sama efni á hreppsnefnd að sjá um árlega sauðfjárböðun og kláðaskoðun og skipar hún sérstaka menn til að framkvæma það verk. Hefir hreppurinn árlega varið nokkru fé í þessu skyni. Þá starfar og sérstök hrossakynbótanefnd á vegum hreppsnefndar og hefir hún öðru hvoru fengið smáupphæðir frá hreppnum til starfsemi sinnar. Af því að það er tímanna tákn um stöðu hestsins í þjóðarbúskapnum, skal þess getið, að árið 1949 sótti hrossakynbótanefnd um 3000 kr. styrk til kaupa á kynbótahesti handa sveitinni. ,,Hreppsnefndin ályktar, að vélar séu að leysa hestinn af hólmi, hrossum þurfi að fækka hér verulega og þeim, sem hrossin eiga, sé ekki ofvaxið að kosta kynbætur á gripum sínum. Er erindi þessu því synjað.“ Enn má nefna það, að hreppsnefnd hefir gjarnan styrkt með fé gripasýningar, sem haldnar hafa verið í hreppnum við og við. Framlög hreppsins til landbúnaðar hafa aldrei numið háum upphæðum árlega. Á 10 ára tímabilinu 1949-1958 námu þau samtals kr. 25.545,75.

Seint á árinu 1943 átti Samvinnufélag Stokkseyringa í miklum fjárhagsörðugleikum vegna útgerðar báta sinna og skulda við ríkissjóð, sem krafizt var greiðslu á. Horfði mjög illa um atvinnu manna og afkomu í hreppnum, ef útgerðin stöðvaðist og bátarnir væru teknir upp í skuldir eða seldir burt úr veiðistöðinni. Það“ varð því að samkomulagi milli samvinnufélagsins og hreppsnefndarinnar, að hreppurinn yfirtæki allar eignir og skuldir félagsins, eins og þær voru þá, með því skilyrði, að hreppurinn mætti gera formenn og vélstjóra bátanna meðeigendur að þeim, þó eigi að meira en¾ hlutum í hverjum báti, og tryggði jafnframt með samningi við væntanlega meðeigendur, að bátarnir yrðu ekki boðnir til sölu út úr veiðistöðinni. Voru kaup þess afgerð 5. des. 1943, en skömmu eftir áramótin, 14. jan. 1944, var endanlega gengið frá sölu á % hlutum bátanna til formanna og vélamanna á þeim. Bátarnir og kaupendur þeirra voru þessir að% móti hreppnum:

  1. ,,Hólmsteinn“ I, kaupendur Ingimundur Jónsson formaður, Strönd, og Kristmann Gíslason vélamaður, Móakoti. Báturinn gekk síðast á vertíðinni 1953, en var síðan seldur til Reykjavíkur. Í stað hans kom „Hólmsteinn“ Il, er gekk fyrst á vertíðinni 1954. Um áramótin 1956-57 seldi hreppurinn sinn hlut í bátnum formanninum á honum, Óskari Sigurðssyni á Sólvangi.
  2. ,,Hersteinn“ I, kaupendur Sigurður I. Sigurðsson, Dvergasteinum, og Hallgrímur Jónsson, Vestra-Íragerði. Báturinn sökk á höfninni á Stokkseyri 1954, en var náð upp og síðan seldur. Í stað hans kom „Hersteinn“ II, og var hann aðeins gerður út í eina vertíð.
  3. ,,Hásteinn“ I, kaupendur Svavar Karlsson, Aðalsteini, og Helgi Sigurðsson, Bræðraborg. Um áramótin 1956-57 seldi hreppurinn og meðeigendur hans bátinn Hraðfrystihúsi Stokkseyrar h.f. Snemma vors 1956 kom „Hásteinn“ II til Stokkseyrar og hefir gengið til fiskjar þar síðan. Á hreppurinn 1/3  hluta í honum, en hefir nú ekki aðra útgerðarstarfsemi. Þess skal getið, að útgerð hreppsins hefir sérstakt reikningshald, og hefir Ásgeir Eiríksson haft það með höndum frá upphafi, þar með og reikningshald fyrir Bátakaupasjóð, sem áður er nefndur.

Afskipti hreppsins af útgerðarmálum á þessu tímabili voru í upphafi sprottin af þeirri nauðsyn að firra hreppsbúa atvinnuleysi og erfiðleikum, sem af því hlutu að leiða. Sjálfur mun hreppurinn hafa hagnazt nokkuð á þessum rekstri, en margir fengið atvinnu við hann um lengri eða skemmri tíma. Verður því ekki annað sagt en fyrirtækið hafi lánazt vel.

Árið 1948 var Íshúsfélag Stokkseyrar, sem rekið var sem samvinnufélag um nokkurt skeið, komið í fjárhagserfiðleika, m. a. vegna viðbótarbygginga, sem félagið hafði ráðizt í á árunum 1946-1947. Mönnum var ljóst, að starfsemi sú, sem íshúsfélagið hafði með höndum, mátti með engu móti niður falla, og urðu hreppsbúar því ásáttir um að breyta því í hlutafélag. Ákvað hreppsnefndin á fundi 17. júlí 1948 að kaupa hlutabréf fyrir fé úr hreppssjóði að upphæð kr. 50.000 og rökstyður það á þessa leið: ,,Þykir ekki verða hjá því komizt, að hreppssjóður taki þátt í uppbyggingu þessa þýðingarmikla atvinnufyrirtækis í sveitinni.“ Auk þess lögðu bátarnir þrír, sem hreppurinn átti að þriðjungi, fram 9000 kr. hver sem hlutafé. Af því var 1/3 eða 9000 kr. alls raunverulega einnig framlag hreppsins. Hið nýja hlutafélag var nefnt Hraðfrystihús Stokkseyrar og hefir verið mikil lyftistöng fyrir kauptúnið. Verður þess nánara getið síðar. Enn fremur keypti hreppurinn 5000 kr. hlut í Pípu- og steinagerð Stokkseyrar, sem stofnuð var sama ár. Talið var, að fyrirtækið mundi verða til þess að auka nokkuð atvinnu í hreppnum, og taldi hreppsnefndin því rétt að styðja það með framlagi. Loks má geta þess, að á árunum 1949-1950 veitti hreppurinn Búnaðarfélagi Stokkseyrarhrepps styrk til kaupa á jarðyrkjuvélum, að upphæð 5000 kr. hvort árið.

Hér að framan hefir verið gerð nokkur grein fyrir helztu verkefnum hreppsnefndarinnar, og er þó ekki fullsögð sagan. Eftir er að skýra frá tveim veigamiklum þáttum, en það eru heilbrigðismál og skóla- og fræðslumál. Verður þeirra getið sérstaklega síðar í þessu riti.

Leave a Reply

Close Menu