051-Sjósókn á ýmsum tímum

Aðstaða til sjósóknar í Stokkseyrarhreppi hefir jafnan verið erfið, og hafa ekki orðið teljandi breytingar á því, síðan er land byggðist. Veldur því hinn mikli og hættulegi skerjagarður fyrir ströndinni, sem gerir það að verkum, að ekki verður á sjó farið sökum brima, ef eitthvað verulegt er að veðri. Verða frátök því tíð og róðrar stopulir. Þrátt fyrir þennan mikla annmarka mun nokkurt útræði þó hafa tíðkazt á þessum slóðum allt frá landnámstíð. Því miður skortir mjög heimildir um þetta efni frá fyrri öldum eða allt fram um aldamótin 1700. Minna má þó á, að samkvæmt máldögum átti Gaulverjabæjarkirkja skipstöðu á Loftsstöðum til forna, og sýnir það, að útræði hefir verið þar snemma á tímum. Í Flóámannasögu er skemmtileg frásögn af fyrsta sjóróðri Þorgils örrabeinsstjúps, sem gæti átt við margt sjómannsefnið fyrr og síðar: ,,Það er sagt, að þá er Þorgils var níu vetra gamall, beiddist hann að róa á sjó með húskörlum Lofts, og var það eftir honum látið sem margt annað. Þorgils kastaði færi sínu fyrir borð og dró einn mikinn og flatan fisk, en engi annar veiddi um daginn. Og er hreggið tók að vaxa, reyndist það, að Þorgils hafði numið að róa, þótt hann væri ungur. Síðan lögðu þeir að landi. Loftur kvað í slíku marka mega, hver hann mundi verða.“ [note]Íslendinga sögur XII, 16-17. [/note] Í Guðmundar sögu biskups eftir Arngrím ábóta Brandsson, sem rituð er laust fyrir miðja 14. öld, er komizt svo að orði um viðurværi manna á Íslandi: ,,Fiskur sjádreginn og búnyt er þar almennings matur.“[note]Byskupa s. Ill, Rvík 1948, 161. [/note] Þetta mun áreiðanlega hafa verið svo frá upphafi vega. En ekkert bendir til þess, að á Stokkseyri eða Eyrarbakka hafi risið upp fjölsóttar verstöðvar á fyrri öldum í líkingu við það sem átti sér stað á síðara hluta 19. aldar, heldur hafi þar eingöngu eða því sem næst verið um heimaútræði að tefla.

Litlu eftir miðja 14. öld hækkaði íslenzk skreið mjög í verði og varð eftirsótt verzlunarvara. Varð hún síðan um langan aldur ein helzta og dýrmætasta útflutningsvara landsmanna. Mynduðust þá fjölmennar verstöðvar, t. d. á Suðurnesjum, í Vestmannaeyjum, á Snæfellsnesi og sums staðar á Vestfjörðum og sjávarjarðir urðu eftirsóttar og dýrar. Er ekki ólíklegt, að einmitt þá hafi byggzt ýmsar af hjáleigunum á Stokkseyri og umhverfis verzlunarstaðinn á Eyrarbakka, svo að heimabændur ættu hægra með að manna skip sín. Það er mjög athyglisvert, að þess er aldrei getið, að biskupsstóllinn í Skálholti hafi haft útgerð á Stokkseyri eða Eyrarbakka, sem þó var skemmst til að sækja, en hins vegar hafði hann útræði öldum saman í Þorlákshöfn, Selvogi og Grindavík. Annálar og aðrar heimildir geta og sjaldan um skipatjón á Stokkseyri og Eyrarbakka á fyrri tímum. Bendir þetta óneitanlega til þess, að þar hafi ekki verið verstöðvar með aðkomuskipum og utansveitarmönnum, svo að verulega hafi að kveðið, heldur hafi útræði aðeins verið stundað þar á heimajörðunum með innansveitarmönnum.

Fyrsta ákveðna heimildin um útræði í Stokkseyrarhreppi er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1708, og staðfestir hún þá hugmynd, að ekki hafi verið hátt risið á útgerðinni þar um þær mundir. Viðvíkjandi aðkomuskipum á Stokkseyri segir svo: ,,Inntökuskip segja menn hér hafi áður gengið, sjaldan fleiri en eitt, og kunna nálægir ekki að undirrétta, hvað há var undirgiftin eður hafi það verið gjört fyrir góðvilja. Ekki hafa þar inntökuskip verið í næstliðin 30 ár eða lengur.“ Um Háeyri segir svo: ,,Inntökuskip hefir hér gengið stundum eitt til sjóar, og hefir heimabóndinn tekið toll þar fyrir, ýmist 30 álnir eður 40, eftir því sem skipið hefir verið stórt til.“ Loks er tekið fram um Skúmsstaði, að „inntökuskip vita menn ekki hér hafi verið.“

Heimræði var á sama tíma á aðeins þremur jörðum í hreppnum og einungis stundað á vetrarvertíð. Á Stokkseyri gengu 3-4 skip, sem landsdrottnar áttu, og fleiri, ef þeir fengu því við komið. Tóku þeir tvo hluti fyrir skip. Ekki hafði leiguliði, sem bjó þá á hálfri jörðinni, leyfi til að hafa neina skipaútgerð, og reri hann á skipum landsdrottins ókeypis sem aðrir hjáleigumenn. Á Háeyri gekk eitt skip, sem heimabóndinn átti, og sömuleiðis á Skúmsstöðum. Tóku eigendur tvo hluti fyrir skipið eins og á Stokkseyri. Enn fremur áttu hjáleigubændur á Háeyri sitt tveggjamannafarið hvor, sem þeir fleyttu árið um kring utan vertíðar, þegar þeir vildu og gátu, en heimabóndinn þóttist ekki skaðlaus af þessu tiltæki þeirra, ef hann fengi minna en 20 álnir af hvorum fyrir leyfið.[note] Jarðabók Á. M. og P. V. II, 68, 78, 83.[/note]

Þannig var þá ástatt um útgerðina í Stokkseyrarhreppi 1708, aðeins 5-6 skip á vertíð auk tveggja smábáta í öllum hreppnum. Og allt bendir til, að þetta gefi útsýn aftur í aldir. Hér kemur fleira til en erfið aðstaða frá náttúrunnar hendi, nefnilega einokunaraðstaða jarðeigendanna. Leiguliðunum er haldið í ánauð; þeir eru skyldir til að róa á skipum landsdrottins, og ef þeir gerast svo djarfir að efna sér í fleytu til að ná sér í björg úr sjó, eru þeir skattlagðir fyrir uppsátrið eða leyfið til að halda bátkænunni úti, svo að þeir fá ekki undir risið. Þannig var sjálfsbjargarviðleitni manna kæfð í fæðingunni. Á hinn bóginn skorti þessa jarðeigendur ýmist getu eða framtak eða hvort tveggja til þess að reka útgerðina, svo að verulega kvæði að eða til uppgangs mætti verða fyrir byggðarlagið.

Á síðara hluta 18. aldar var margt gert af hálfu dönsku stjórnarinnar til þess að rétta við hag Íslands, og náði sú umhyggja auðvitað einnig til fiskiveiðanna. Meðal annars var amtmanni gefið vald til þess 1756 að dæma menn í sektir, ef það sannaðist á þá, að þeir hefðu vanrækt sjósókn að nauðsynjalausu, og með konungsbréfi tveimur árum síðar voru settar nákvæmar reglur um sjósóknina í heild og í einstökum atriðum. Enn fremur var með konungsúrskurði 1760 heitið verðlaunum eða styrk fyrir smíði nýrra fiskibáta eftir dönskum eða norskum fyrirmyndum og bátasmiðir sendir hingað til leiðbeiningar um smíðina. Loks var mikil áherzla lögð á að kenna landsmönnum saltfiskverkun um þessar mundir, en skreiðarverkun hafði áður verið einráð um land allt, og 1765 var ákveðið að hafa vetursetumann á Eyrarbakka til þess að annast fisksöltun og kenna hana.[note]já m. a. Saga Íslendinga VII, 262-276 (Útvegur fram um lok 18. aldar).[/note]

Allt þetta átti erfitt uppdráttar um sinn og sjósókn mun lengi hafa staðið í stað. Eggert Ólafsson segir svo í ferðabók sinni 1756: ,,Frá Eyrarbakka [note] Nafnið er hér í sinni gömlu merkingu.[/note] er sjór sóttur hingað og þangað, en mest á smábátum og einungis af heimamönnum þar, en utansveitarmenn koma þangað ekki til róðra.”[note]Ferðabók, Rvík, 1943, II, 259.[/note] Á vertíðinni 1762 gengu 8 skip til róðra í öllumhreppnum, en 1785 aðeins 7 skip og bátar. Voru það 2 áttæringar, 3 sexæringar og 2 fjögramannaför. Á þeim reru 40 innansveitarmenn 16 utansveitarmenn og 6 unglingar. Hér virðist kyrfilega saxað í sama farinu á tímabilinu frá 1708-1785. Það virðist því bera vott um furðulega ánægju með lítið, en sýslumaður lætur bóka á manntalsþingi 1775 svofelldan vitnisburð þingsóknarmanna á Stokkseyri: ,,Fiskiríið tilstanda allir, að hafi í þessari þingsókn upp á bezta máta drifið verið og allt sem mögulegt verið hefir.“[note]Þingb. Árn. 19. maí 1775.[/note] Sams konar vitnisburður er og gefinn árið áður.

Á þessu tímabili gengu yfir þjóðina einhverjar mestu hörmungar, sem hún hefir orðið að þola fyrr og síðar. Var því ekki von til þess, að uppreisn sjávarútvegsins yrði mikil við svo búið. Mörg ár var ýmist fiskileysi eða gæftaleysi í Stokkseyrarhreppi, svo að hinir fáu formenn þar leituðu oft og tíðum annarra verstöðva með skip sín og þá fyrst og fremst út í Þorlákshöfn eða Selvog, sem þóttu öruggari veiðistöðvar. Þannig voru t. d. þeir Gamalíel Jónsson á Stokkseyri og Gizur Stefánsson í Traðarholti báðir formenn í Þorlákshöfn á vertíðinni 1757, en þá höfðu á undan farið fiskileysis- og harðindaár hin mestu. ,,Margra ára fiskileysi á árunum 1773-1780 svarf svo mjög að Stokkseyringum, að flestir formenn þar fluttu skip sín út í Selvog til útróðra þar á vetrarvertíðinni, því að þar þótti helzt aflavon. Tveir formenn fóru þangað þó aldrei, og voru það Brandur í Roðgúl og formaður á íjögramannafari einu, er aðeins gat á sjó farið, þegar bezt var veður og blíðast. Oftast fekk Brandur bjarglega hluti, einkum þó árið 1777. Kom þá eitt sinn mikill fiskur á mið með sílhlaupi miklu, og var þá róið 8 daga slitalaust, tví- og þríhlaðið á degi hverjum. Varð þá svo sem jafnan, þegar farið var að aflast á Bakkanum, að bændur í nærsveitum og einnig lengra að komu til þess að fá sér í soðið og róa sem skotturóðrarmenn, jafnvel þótt upp á hálfdrætti væri, og fengu því góða bj örg í bú sitt. Tók Brandur menn þá ýmist til fiskaðgerðar og hjálpar í landi eða lét þá róa á hinu stóra skipi sínu, eftir því sem rúm leyfði, til þess að veita sem flestum úrlausn. Meðal þeirra, er nutu þannig hjálpar Brands, voru fjórir prestar. Tvo þeirra lét hann róa, og voru þeir afbragðs sjómenn. Einhverju sinni kallaði Brandur höstuglega til annars prestsins og sagði: ,,Komdu hérna, þú prestur, hér aftur í, og seilaðu fiskinn upp úr skipinu.“ Vertíð þessa aflaði Brandur svo vel, að hann fekk 5 hundruð stór af sílfiski til hlutar. Kom það sér þá vel, því að um langt skeið var hart mjög í búi manna þar eystra sem annars staðar, og stafaði það bæði af siglingaleysi og harðindum, en einkum þó fjárkláðanum, sem þá var nýlega afstaðinn. Upp úr þessu fór að aflast betur á Stokkseyri, og fekk Brandur þá sæmilega hluti, en formenn þeir, er flutzt höfðu út í Selvog, komu þá með skip sín til Stokkseyrar aftur.“[note]Austantórur I, 11-12 (eftir hdr. Jóns Gíslasonar í Meðalholtum).[/note]

Árið 1787 verða greinileg þáttaskil í sjósókninni í Stokkseyrarhreppi. Er þá skipaeign í hreppnum orðin 10 áttæringar og teinæringar og 10 sexæringar og fj ögramannaför eða 20 skip og bátar á móti aðeins 7 árið 1785. Þessi skyndilegi vöxtur á sér vitaskuld sínar orsakir. Nefna má það, að fjárstofn manna var um þessar mundir mjög lítill eftir fjárkláðann og móðuharðindin, svo að eðlilegt var, að menn leituðu bjargræðis af sjónum í ríkara mæli en áður. f öðru lagi hafði fiskverð í verzlun hækkað framt að helmingi með nýjum verzlunartaxta, sem settur var árið 1776, og loks var hin illræmda einokunarverzlun afnumin árið 1787, og hækkaði fiskverð þá enn til muna. Allt þetta gerði það að verkum, að fiskiveiðar urðu arðvænlegri en áður, enda óx útgerðinni drjúgum fiskur um hrygg í öllum veiðistöðvum landsins um sömu mundir.

Það blómaskeið útvegsins í Stokkseyrarhreppi, sem hófst 1787, stendur nokkurn veginn stöðugt fram til 1833 eða þar um bil. Hér fara á eftir nokkrar tölur um skipaeignina í hreppnum:

Skipaeign í Stokkseyrarhreppi 1789-1833

ÁrTeinæringar og
áttæringar
Sexæringar og
fjögramannaför
Alls
178940.515.524
179532.5
180025
181828
1823181836
182616925
182916925
183110.58.519
18339.5514.5

Þetta er tímabil mikilla sjósóknara eins og Jóns Þórðarsonar ríka í Móhúsum, Jóns Gamalíelssonar yngra á Stokkseyri, Þuríðar formanns og margra fleiri og skipasmiðanna Brands í Roðgúl, Jóns Snorrasonar á Ásgautsstöðum og Þorkels Jónssonar á Gamla-Hrauni. Á þessu tímabili hafa margir utansveit. armenn án efa stundað sjó á Stokkseyri og Eyrarbakka á vertíðum, og þá fyrst munu verbúðir hafa risið þar upp fyrir aðkomna sjómenn. Þess ber að geta, að ekki gengu öll skip, sem heima áttu í Stokkseyrarhreppi, á sjó þaðan, t. d. héldu Nesbændur og ýmsir formenn á Eyrarbakka skipum sínum út í Þorlákshöfn, eins og títt var bæði áður og síðar.

Eftir 1833 kemur mikill afturkippur í útgerðina í Stokkseyrarhreppi, skipum fækkar og sjósókn minnkar. Segja má, að þetta ástand vari í réttan aldarfjórðung. Er skipaeignin í öllum hreppnum þá oftast um og innan við 10. Lægst verður hún á áratugnum 1843-18.52, er hún kemst hæst upp í 9 skip, en lægst niður í 6 árið 1846. Minnir þetta tímabil einna helzt á niðurlægingu 18. aldar.

Árið 1858 tekur aftur að lifna yfir sjósókninni, og skipum fer að fjölga á ný. Síðan heldur þróunin áfram óslitið, lengi vel hægfara, en stöðug, unz hún nær hámarki sínu á síðasta tug aldarinnar. Við þetta tímabil og einkum seinni hluta þess eru tengdar minningarnar um hina miklu sjósókn á Stokkseyri og Eyrarbakka. Urðu þessir staðir þá um skeið, einkum Stokkseyri, að einhverjum fjölsóttustu verstöðvum landsins, og átti sjávarútvegurinn mikinn þátt í fólksfjölgun þeirri og fjölþættu athafnalífi, sem þróaðist þar fyrir og eftir aldamótin síðustu. Eftirfarandi yfirlit um skipaeignina gefur nokkra hugmynd um vöxt og viðgang útræðís í Stokkseyrarhreppi .á þessu tímabili.

Skipaeign í Stokkseyrarhreppi 1858–1920

ÁrStórskipSexæringar og 4mannaförBátar
185810340.5
1860133 1/239.5
186512334
187010 2/38 1/626. 1/2
187510 5/62020
187812 1/229 5/611
SexæringarMinni bátar
18792523
18823544
188705511
18903 5/656 2/318
1891456 7/1222 1/2
Sexær. og 4mannaförMinni bátar
1892268 1/68
189312 9/1292 9/1214 1/2
18951 7/1247 2/319
Stórskip, sexær. og 4mannaförMinni bátar
18965216
190069
1910352
192010

Yfirlitið ber með sér, að flokkun skipanna eftir stærð er nokkuð á reiki. Það ert. d. auðséð, að eftir 1879 eru flest stórskipin talin með sexæringunum.

Tölurnar um skipafjöldann hér að framan eru allar miðaðar við Stokkseyrarhrepp hin forna, þar eð skýrslur taka til hreppsins alls. Verður því nær að ganga, ef komast skal á snoðir um, hve mörg skip hafi gengið frá Stokkseyri á hverjum tíma. Hér eru nokkrar tölur um það, sem tekizt hefir að finna: 1708: 3 eða 4; 1824: 9; 1826: 18; 1827: 15; 1848: 6; 1865: 15; 1874: rúmlega 20; 1889: 39; 1891: 46 og 1895: 36. Fyrstu 5 árin eftir að hreppnum var skipt, var skipaeignin í Stokkseyrarhreppi þessi:

Skipaeign í Stokkseyrarhreppi fyrstu fimm árin eftir skiptingu hreppanna

SexæringarFjörgramannaför
18973313
18983214
18993020
19003023
1901500

Stórskip og tveggjamannaför eru engin talin. Auðsætt er, að 1901 eru fjögramannaförin talin með sexæringunum. Hámarki sínu náði skipatalan 1891, árið sem Sigurður í Borg drukknaði. Þá reru 46 skip frá Stokkseyri á vertíðinni, og um sömu mundir höfðu 13 skip uppsátur í Íragerðisvör.

Eftir aldamótin fór opnu skipunum óðum fækkandi, enda hófst þá jafnframt öld vélbátanna. Árið 1914 gengu 6 opin skip, en 9 vélbátar til fiskjar frá Stokkseyri. Hin gömlu fiskiskip voru komin í minnihluta, aðeins rúmum tveimur áratugum eftir að þau höfðu átt sitt mesta blómaskeið í allri sögunni. Þrír formenn þraukuðu lengst á sínum gömlu vertíðarskipum. Það voru þeir Jón Jónsson í Íragerðí, Bjarni Jónasson á Stokkseyri og Hannes Jónsson í Roðgúl. Er þó talið, að Jón í Íragerðí hafi verið síðasti formaður með ráðna skipshöfn að fornum sið. Hins vegar var Jón Sturlaugsson hafnsögumaður síðasti formaðurinn á opnu skipi á Stokkseyri á sexæringnum „Lukkuvon“ á árunum 1931-1937, en hann hafði ekki fastráðna skipshöfn.

Það ætti að vera ljóst af framansögðu, að frægð Stokkseyrar sem verstöðvar byggist fyrst og fremst á útræðinu þar á 19. öld, einkum á síðustu áratugum hennar, enda verða frásagnir hér á eftir einkum miðaðar við það tímabil. Á þessari öld héldu vélbátarnir lengi vel merkinu uppi, en um þá verður rætt sérstaklega síðar.

Leave a Reply

Close Menu