064-Skipting og meðferð aflans
Þorskahausabaggar

064-Skipting og meðferð aflans

Þegar úr róðri var komið, var aflinn borinn upp á skiptivöll, þar sem honum var skipt í svonefnd köst. Voru tveir hlutir í hverju kasti, en þeir, sem kast áttu saman og kallaðir voru hlutalagsmenn, skiptu því aftur á milli sín. Hlutafjöldi á skipi fór eftir tölu skipverja, sem var auðvitað misjöfn eftir stærð skipanna, og auk þess tók skipseigandi þrjá hluti fyrir útgerðarkostnaði, nema öðruvísi væri um samið. Væri áhöfnin t. d. 13 manns, var því í 16 staði að skipta.

Meðan færi voru notuð, var skiptingu aflans hagað allmjög á annan veg en eftir að lóðir og net komu til sögunnar. Í tíð færaveiðanna var litlu öðru af aflanum skipt en þorski, en öðrum fiski því aðeins, að mikið væri af honum. Hitt voru happadrættir, sem voru eign þeirra, sem drógu, t. d. keila, steinbítur, ufsi, karfi og jafnvel ýsa, ef fáar komu á skip; enn fremur sporður, hryggur, haus og rafabelti af flakandi lúðu, sköturassar og hrogn úr löngu. Aðrar sjaldgæfari fisktegundir töldust einnig hér til. Höfðu góðir fiskimenn oft mikla hlutarbót af happadráttum sínum og þóttu vel að því komnir.[note]Sbr. Sagan af Þuríði formanni, Rvík 1954, 11; Oddur Oddsson, Sagnir og þjóðhættir, 18 [/note] Þetta lagðist af við tilkomu hinna ópersónulegri veiðarfæra, lóðarinnar og netjanna, og kom þá allur aflinn til skipta.

Sú var lengi venja, að skipseigandi tæki 3 hluti í útgerðarkostnað, og voru þeir nefndir dauðir hlutir. Inni í þeim var falið formannskaup, er mun hafa verið reiknað hálfur hlutur, skip með áhöldum, búðar- og byrgisleiga, uppsátur og veiðarfæri fyrir utan öngul og sökku, sem hásetar lögðu sér til á færaöldinni. Þetta var til samans reiknað hálfur annar hlutur. Loks var þriðji hluturinn, er koma skyldi fyrir hinar svonefndu tillögur, en þær voru skiplag, þ. e. sinn fjórðungurinn af hvoru rúgmjöli og harðfiski handa hverjum skipsmanni, sýra til drykkjar á sjónum, lifrarílát, seilarólar, byrðarólar, sjóskósþvengir, skinnstakksvindingur, bróklindi og baggaband. Auk þess var glaðningur á sumardaginn fyrsta nokkurs konar skylduskattur á útgerðarmanni. Hét það sumardagsveizla, og var hún veitt, hvort sem róið var eða ekki. Veizluföng voru oftast nær sætt kaffi og með því og þriggja pela brennivínsflaska í hvert rúm. Auk hinna þriggja hluta, sem nú var getið, mun það hafa verið siður um eitt skeið, að skipseigandi fengi einn vænsta fiskinn af óskiptum afla fyrir að láta færa hásetum drykk að skipi, er komið’ var að, og var það kallað drykkjarfiskur. Á sama hátt fekk skipseigandi einn vænsta fiskinn úr hverjum róðri af óskiptu, þá er segl voru notuð. Hét það seglfiskur, og hélzt sá siður fram um aldamót eða lengur.[note] Sbr. Oddur Oddsson, Sagnir og þjóðhættir, 18, 21; Saga Eyrarbaka Il, 46-50; Saga Hraunshverfis, 282.[/note]

Í nærfellt tvær aldir tíðkaðist það, að goldinn væri spítalahlutur (eldra hospítalshlutur) af hverjum bát, er til fiskjar reri. Rann sá hlutur til holdsveikraspítalanna í landinu. Spítalar þessir voru 4, sinn fyrir hvern landsfjórðung og voru stofnaðir með konungsbréfi árið 1652, en tóku til starfa tveim árum síðar. Með alþingissamþykkt 1652 var ákveðið, að meðal tekna spítalanna skyldi vera einn hlutur af hverjum bát á tilteknum degi á hverri vertíð. Hlut þennan skyldi taka fyrsta virkan dag eftir páska, en þó því aðeins, að hluturinn næmi eigi minna en 5 fiskum á þeim degi, en væri hann meiri, hagnaðist spítalinn á því. Að öðrum kosti eða ef ekki gaf á sjó þennan tiltekna dag, skyldi spítalahlutur látinn næsta dag, þegar nægur fiskafjöldi fengist á skip. Spítalinn fyrir Sunnlendingafjórðung var framan af í Klausturhólum í Grímsnesi, en 1752 var hann fluttur að Kaldaðarnesi í Flóa, og þar var hann síðan, unz holdsveikraspítalarnir voru lagðir niður árið 1848. Þar með var forsendan fyrir spítalahlutnum úr sögunni, en þó mun hann hafa verið heimtaður enn um nokkurt skeið og þá kallaður fátækrahlutur. Sérstakir menn, einn í hverri veiðistöð, höfðu á hendi umsjón með spítalahlutnum fyrir smáþóknun, t. d. hafði Brandur í Roðgúl það starf á hendi í mörg ár á Stokkseyri á sinni tíð, Sigríður Hannesdóttir í Eystri-Móhúsum og auðvitað ýmsir fleiri. Spítalahluturinn var jafnan illa þokkaður, enda ranglátur að því leyti, að hann kom aðeins niður á sumum gjaldendum landsins. Hann mun því eigi ávallt hafa verið refjalaust af hendi látinn.[note]Sjá m. a. Sæm. Bjarnhéðinsson: Ágrip af sögu holdsveikinnar á Íslandi, Skírnir 1910; Alþb. Íslands VI, 312-317 og víðar; Landnám Ingólfs I, 104-105.[/note]

Aflabrögð voru harla mismunandi frá ári til árs, en strjálar eru heimildir um þau fyrr á tímum og oftast ekki á þau minnzt, nema afbrigðileg væru. Einkum er getið fiskileysisára. Á þriðja og fjórða áratug 18. aldar var t. d. almennt fiskileysi í verstöðvunum í Árnessýslu. Haustið 1751 kemst sýslumaður svo að orði, að á vertíðinni það ár hafi enginn bóndi í Árnessýslu fengið nógan fisk til heimilis, hvað þá til þess að leggja inn í kaupstað. Fóru þá og í hönd hin mestu harðindaár með mannfelli víða um land. Algengt virðist hafa verið á seinna hluta þeirrar aldar, að formenn frá Stokkseyri gerðu út frá Þorlákshöfn á vertíðinni í von um betri afla þar, sem oft brást þó einnig. Við bar, að menn komust ekki frá kerlingunni, sem kallað var, þ. e. fengju ekki 5 fiska í hlut yfir alla vertíðina, og hefði því getað átt við margan vísan, sem Kolbeinn gamli í Brattsholtshjáleigu kvað um sjálfan sig eitt sinn, er hann kom heim úr veri um lokin:

Heldur Kolur heim úr veri
hlut með rýran,
engan mola á af sméri
og illa býr hann.

En þegar fiskur kom á miðin, batnaði í ári og vænkaðist hagur manna. Skammt var á miðin, og ef gæftir voru jafnframt hagstæðar, gátu stundum orðið mikil uppgrip af fiski á skömmum tíma. Mælt er, að 1847 hafi maður einn á Eyrarbakka fjórróið sama daginn og fengið 120 til hlutar að kveldi. Í vertíðarbyrjun 1893 stóð sjóveður í samfellda viku á Stokkseyri og var róið daglega og afli 80-150 til hlutar á dag að sögn Páls á Hjálmsstöðum. Hann reri þessa viku hjá Jóni Þórðarsyni í Traðarholti, og fengu þeir 500 til hlutar þennan stutta tíma. En hæstu vertíðarhlutir, sem menn vissu til á Stokkseyri, sagði Þórður Jónsson mér, að orðið hefðu 1882. Var það kölluð ýsuvertíð, því að fiskurinn var mestmegnis ýsa, eins og oft var á Stokkseyri. Margir fengu þá 1000-1200 til hlutar, en hæstur var Benedikt í Íragerði með 1600 í hlut, en skipt í 16 staði. Gæftir voru góðar þá vertíð og fiskigengd mikil.

Síðan 1897 eru til árlegar skýrslur um aflabrögðin, og skal hér til fróðleiks birta heildartölu þorsks og ýsu, sem veiddust á opin skip frá þeim tíma og þar til þau hættu að ganga; öðrum fisktegundum sleppi eg, en vísa að öðru leyti í skýrslurnar.[note]Landshagskýrslur fyrir Ísland 1898-1912 í C-deild Stjórnartíðinda (árin 1897- 1911); Fiskiskýrslur og hlunninda í Hagskýrslum Íslands (1912 og síðan). Í skipatölunni eru fjögramannaför meðtalin (vor- og haustbátar).[/note]

Heildartölur Þorsk og ýsu 1897-1928

ÁrTala skipaÁhöfnÞorskurÝsa
189751-106599380673
189846-86095497195
189950-88370620760
190053-42488535324
190150-52323427818
190332-47674208720
190436-5703476836
190537-9748248054
190631-60868182208
190734-38369143744
190830-38991102530
190924-5395548769
191027-7901259247
191128-5248791105
191221-9293519332
19139106367223420
1914670845008800
1915141534978149144
191611214306942
1917161593736209938
1918151489613245135
19191515014355252998
1920545864019604
192133468595300
1922544884538040
192333316952825
1924765844817649
1925989708772547
19261010875794642
1927223165314034
192812116--

Eftir þetta eru opin skip ekki talin nema einn bátur 1932 með 5 manna áhöfn.

Allt fram á 18. öld var yfirleitt ekki um aðra verkunaraðferð að ræða en að herða fiskinn, gera úr honum skreið, sem var öldum saman ein helzta útflutningsvara landsmanna. Að vísu þekktu Íslendingar til saltfisksverkunar fyrrum eða allt frá 15. öld, en að henni kvað svo lítið, m. a. vegna skorts á salti og ef til vill líka á markaði fyrir slíkan fisk, að hin framfarasinnuðu stjórnarvöld á síðara hluta 18. aldar sendu hingað til lands sérstaka menn til þess að kenna Íslendingum saltfisksverkun. Árið 1767 var maður að nafni Guðmundur Þorláksson fenginn til að læra að salta og verka fisk, og vann hann að því starfi í Þorlákshöfn vorið eftir. Mun einhver hluti aflans þar um slóðir hafa verið verkaður í salt eftir það. Sá háttur var og löngum á hafður, að Eyrarbakkaverzlun keypti blautan fisk í verstöðvunum og lét salta til útflutnings. Harðfisksframleiðslan hafði þó yfirhöndina allt fram á miðja 19. öld, eins og eftirfarandi yfirlit sýnir um útfluttan fisk frá Eyrarbakka:[note]Eftir Sögu Eyrarbakka II, 63.[/note]

Útfluttur fiskur frá Eyrarbakka

ÁrHarðfiskurSaltfiskur
178920 skippd250 skippd
1792108 -80 -
1797803 - 109 -
1830214 - 195 -
1849147 - 83 -
185558 - 421 -
187029 -700 -
187211 -478 -

Þó að mjög drægi úr útflutningi skreiðar á þessu tímabili, hvarf hann ekki úr sögunni fyrr en nokkru eftir síðustu aldamót. Á síðustu áratugum hefir skreið orðið mikil útflutningsvara á nýjan leik, og liggur nú leið hennar til Blálands hins mikla.

Mikil vinna var að verka aflann og ganga frá honum að öllu leyti, einkum þegar hann var hertur. Unnu vermenn og heimamenn í verstöðvunum að því jafnóðum, eftir því sem til vannst. Löngu eftir að fiskur var að mestu verkaður til söltunar, tíðkaðist í öllum verstöðvum að herða þorskhausa. Var það talsverð fyrirhöfn og snúningasamt, en á hitt var að líta, að fyrir þessa vöru var öruggur markaður í sveitunum, því að ekki er of mælt, að þorskhausarnir hafi sett svip sinn á matvælaaðdrætti sunnlenzkra bænda í marga áratugi. Þó að menn legðu stund á .að nýta aflann sem bezt fyrr á tímum, þá hefir orðið um verulegar framfarir að ræða í því efni á vorum dögum og verðmæti hans aukizt með hagnýtari vinnsluaðferðum. Koma þar til hraðfrystihús, fiskimjölsverksmiðja, lýsisvinnsla o. fl. En að því veður nánar vikið hér á eftir.

Leave a Reply

Close Menu