065-Frystihúsarekstur

Tilgangurinn með stofnun íshúss á Stokkseyri var upphaflega sá að frysta síld til beitu.

Það mun einkum hafa verið fyrir forgöngu Ólafs kaupmanns Árnasonar, að á Þorláksmessu fyrir jól 1899 var stofnað félag til þess að koma upp íshúsi á Stokkseyri. Nefndist það Ísfélag Stokkseyrar og var hlutafélag með 25 kr. hlutabréfum. Þátttakendur voru flestir Stokkseyringar, en einnig nokkrir menn á Eyrarbakka. Í stjórn voru kosnir Ólafur Árnason, Jón Jónasson kaupfélagsstjóri og Guðmundur Sæmundsson kennari. Í ráði var þá einnig að setja á fót íshús í Þorlákshöfn, sem átti að vera nokkurs konar útbú frá félaginu á Stokkseyri, m. a. með tilliti til þess, að aflavænlegra væri að reka þar síldveiðar, ef til þess kæmi.[note]Sbr. Þjóðólf 19. jan. 1900.[/note] Úr þeim framkvæmdum varð þó ekki. Hins vegar rak félagið íshús á Stokkseyri og keypti síld til frystingar fyrstu árin, sem það seldi formönnum á vertíðum. Fyrsti íshúsvörður hjá félaginu var Guðmundur Jónsson í Sjóbúð, og var hann því af sumum kallaður klaki. Eftir hann var Gísli Stefánsson í Hólsbæ íshúsvörður til 1907 og svo Guðni Árnason á Strönd í tvö ár.

Eins og að líkindum lætur, taldi ísfélagið sér hag í því að láta sjálft veiða síldina handa íshúsinu, og leiddi það til þess, að Ólafur Árnason útvegaði vélbátinn „Ingólf“ til Stokkseyrar árið 1904. Var hann fyrst og fremst keyptur til síldveiða, en gekk einnig til fiskjar á vetrarvertíðum. Jafnframt kaupunum á bátnum var stofnað nýtt hlutafélag 16. maí 1904 til þess að reka íshúsið og útgerð bátsins í sameiningu, og nefndist hið nýja félag Ís- og fiskiveiðafélagið „Ingólfur“. Hluthafar voru þessir: Ólafur Árnason kaupmaður; Lénharður Sæmundsson söðlasmiður; Eyjólfur Sigurðsson í Björgvin; Jón Sturlaugsson hafnsögumaður; Guðni Árnason, Strönd; Vilhjálmur Einarsson, Gerðum; Jón Adólfsson, síðar kaupmaður; Guðmundur Jónsson oddviti, Eyrarbakka; Páll Grímsson, Eyrarbakka; Bjarni Grímsson eldri; Bjarni Grímsson yngri; Þorkell Þorkelsson, Eyrarbakka; Gísli Gíslason, Kalastöðum, og Jóhann V. Daníelsson, Eyrarbakka. Ekki er kunnugt um hlutaeign einstakra manna í ísfélaginu, nema hvað Ólafur Árnason átti eða eignaðist síðar íshúsið að hálfu móti félögum sínum.

Rekstur ísfélagsins gekk ekki eins vel og félagsmenn höfðu vænzt. Útgerð bátsins varð dýr, og tap varð á íshúsinu, svo að félagið safnaði skuldum. Á fundi 11. okt. 1908 kom til umræðu að rífa íshúsið niður eða hætta að nota það, þar sem það væri félaginu til byrði. En með því að félagsmenn álitu hins vegar bráðnauðsynlegt, að íshús væri í þorpinu, var ákveðið að láta Bárufélagið vita, hvað í efni væri, ef það vildi gefa þorpsbúum kost á að eignast húsið. Sömuleiðis bauð félagið hreppnum að kaupa íshúsið annaðhvort með vélbátnum „Ingólfi“ eða án hans. Var haldinn hreppsfundur um málið eftir áramótin, en hann leiddi ekki til neinnar jákvæðrar niðurstöðu. Þau urðu úrslit þessa vandamáls, m. a. fyrir atbeina Jóns Sturlaugssonar, Helga Pálssonar o. fl., að Bárufélagar tóku íshúsið á leigu og þar með við rekstri þess frá 14. maí 1909. Á síðasta bókuðum fundi ísfélagsins 17. okt. sama ár var ákveðið að bjóða bátinn og húsið enn til kaups, ef góð boð fengjust. Ekki varð af neinni sölu, enda var eignunum haldið í allháu verði fyrst um sinn.

Félagsmenn „Bárunnar“ höfðu nú með höndum rekstur íshússins um alllangt skeið og tóku það á leigu frá ári til árs. Keyptu þeir síld til frystingar og tóku einnig til geymslu af félagsmönnum. Íshúsvörður var Jónas Jónsson í Djúpadal, sem kallaður var :,drottinn minn“. Ísfélagið leystist smám saman upp. Bjarni Grímsson á Stokkseyri og fleiri hluthafar keyptu vélbátinn „Ingólf“ 1912-13. Aðalhluthafinn í ísfélaginu, Ólafur Árnason kaupmaður, féll frá 1915, og sumir fluttust burt. Aðstaða Bárufélaga til að reka íshúsið var að ýmsu leyti erfið, og í lok stríðsáranna voru allar horfur á því, að rekstur þess mundi stöðvast. Var þó öllum ljóst, að slíkt var óbætanlegur hnekkir fyrir útgerðina á Stokkseyri.

Þegar svo var komið, reis upp Jón Sturlaugsson hafnsögumaður og tók málið í sínar hendur. Hann sagði, að íshús væri jafnnauðsynlegt útgerðinni eins og ný og góð beita. Tók hann sig til og keypti hina dreifðu hluti í íshúsinu og varð þannig eigandi að því hálfu og hóf síðan rekstur þess á eiginn kostnað. Það mun hafa verið um 1920, en tveimur árum síðar keypti hann hinn helminginn af dánarbúi Ólafs Árnasonar fyrir 400 kr. Var Jón einn eigandi íshússins síðan og rak það til dauðadags 1938. Alla þá tíð var Nikulás Torfason í Söndu íshúsvörður. Árið 1926 brann íshúsið til kaldra kola í Stokkseyrarbrunanum mikla. Missti Jón þar vörur, áhöld og annað verðmæti í lausafé fyrir nærri 8000 kr., og fleiri menn, sem áttu þar ýmislegt í geymslu, þar á meðal Nikulás íshúsvörður, urðu einnig fyrir tjóni. Ekki lagði Jón Sturlaugsson árar í bát þrátt fyrir þetta óhapp. Byggði hann íshúsið upp að nýju, og var það fullgert 1928, stærra og vandaðra en áður, og stendur það enn í dag með nokkrum viðbótum. Var húsið sem fyrr einkum notað til beitufrystingar fyrir útgerðina, en jafnframt voru matvæli tekin lítils háttar til geymslu. Lengst af þeim tíma, sem Jón rak íshúsið, voru erfið ár og krepputímar, en með hagsýni og þrautseigju tókst honum að verjast mestu áföllunum og halda rekstrinum í horfi. Sjálfur hagnaðist hann lítt, en veitti mörgum atvinnu og útgerðinni ómetanlegan stuðning.

Eftir fráfall Jóns Sturlaugssonar keypti Jón Magnússon kaupmaður íshúsið og rak það með sama sniði í nokkur ár, en árið 1942 var stofnað samvinnufélag um rekstur þess, og voru aðalhvatamenn að félagsstofnuninni þeir Karl Magnússon í Hafsteini og Guðmundur Einarsson í Merkigarði. Hið nýja félag nefndist Íshúsjélag Stokkseyrar, og var Guðmundur Einarsson framkvæmdastjóri þess og íshúsvörður. Félagið lét smátt og smátt breyta íshúsinu í hraðfrystihús og byggja við það frystiklefa. Keypti það fisk af bátunum og lét vinna hann til útflutnings, flaka hann og hraðfrysta. Þrátt fyrir það þótt félagið færði þannig út kvíarnar frá því, sem áður var, gekk því erfiðlega, hafði ekki nóg fjármagn og vantaði rekstrarfé og var eiginlega að því komið, að það stöðvaðist. Sáu menn, að svo búið mátti ekki standa. Var þá það ráð tekið að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Það var árið 1948, og nefndist hið nýja félag Hraðfrystihús Stokkseyrar h.f., og starfar það enn og stendur í allmiklum blóma. Hlutaféð var um 130.000 kr. og hluthafar um 20, en stærstur þeirra er Stokkseyrarhreppur með 50.000 kr. hlut. Fyrsta stjórn Hraðfrystihúss Stokkseyrar var þannig skipuð: Sigurgrímur Jónsson hreppsnefndaroddviti formaður, Ásgeir Eiríksson kaupmaður, Jón Magnússon kaupmaður, Guðmundur Einarsson, Merkigarði, og Helgi Sigurðsson, Bræðraborg. Þessi stjórn hefir setið óbreytt síðan nema tveir menn: Óskar Sigurðsson, Sólvangi í stað Jóns Magnússonar og Böðvar Tómasson í stað Helga Sigurðssonar. Vélamaður og umsjónarmaður hraðfrystihússins er Guðmundur Einarsson, en reikningshaldari Ásgeir Eiríksson. Verkstjóri og matsmaður er Zophonías Pétursson.

Hraðfrystihúsið hefir keypt allan afla af Stokkseyrarbátunum, síðan það tók til starfa, látið flaka fiskinn og hraðfrysta til útflutnings. Einnig hefir það látið salta fisk, sem er ekki hæfur til flökunar og gert hann að verzlunarvöru. Sumurin 1955 og 1956 lögðu tveir bátar frá Stokkseyri og einn úr Vestmannaeyjum upp humar hjá hraðfrystihúsinu, er tók að sér að vinna úr aflanum, og hefir það tekið á móti humri á hverju ári síðan. Enn fremur hefir hraðfrystihúsið komið upp hólfum eða kössum fyrir matvælageymslu, þar sem menn geta fengið að geyma matvæli fyrir ákveðið gjald.

Auk þess, sem nú var talið, hefir Hraðfrystihús Stokkseyrar staðið í öðrum framkvæmdum. Haustið 1952 bundust hraðfrystihúsin á Stokkseyri og Eyrarbakka samtökum um að koma upp fiskimjölsverksmiðju fyrir bæði þorpin, en fiskúrgangur hafði aldrei verið hagnýttur þar um slóðir öðruvísi en sem áburður og verðmæti hans því hvergi nærri verið fullnýtt. Var þegar hafizt handa um byggingu verksmiðjuhúss. Var það reist í landi Borgar í Hraunshverfi, og tók verksmiðjan til starfa 1953.[note]Sbr. Suðurland 10. og 24. jan. 1953.[/note] Um áramótin 1956-57 keypti hraðfrystihúsið vélbátinn „Hástein“ eldra af Stokkseyrarhreppi og meðeigendum hans og hefir gert hann út síðan. Hefir sú útgerð gengið sæmilega vel.

Hraðfrystihús Stokkseyrar hefir reynzt hin mesta lyftistöng fyrir þorpið. Útflutningsverðmæti hefir árlega verið 2-3 milljónir króna og greidd vinnulaun nú á seinni árum 7-800 þúsundir króna á ári. Allar líkur eru til þess, að útgerð hefði lagzt niður og byggðin jafnvel horft til auðnar, ef þessi starfsemi hefði ekki verið rekin. Þess í stað hefir fjöldi fólks haft atvinnu við frystihúsið, þar á meðal konur og unglingar. Hinn mjói vísir frá aldamótunum, sem barðist lengst af í bökkum fyrir tilveru sinni, er nú orðinn mesta máttarstoð byggðarlagsins.

(Helztu heimildir: 1) ,,Fundargjörðabók fyrir Ís- og fiski[veiða]félagið „Ingólfur“ á Stokkseyri“ 16. maí 1904 – 17. okt. 1909 í vörzlu Hróbjarts Bjarnasonar stórkaupmanns í Reykjavík. 2) ,,Fundargjörðabók hjá „Bárunni“ No 5 á Stokkseyri“ 12. febr. 1904 – 29. jan. 1913 í vörzlu Björgvins Sigurðssonar á Jaðri. 3) Nokkur skjöl úr fórum Jóns Sturlaugssonar. 4) Frásögn Ásgeirs Eiríkssonar kaupmanns á Stokkseyri o. fl.)

1 Sbr. Suðurland 10. og 24. jan. 1953.

Leave a Reply

Close Menu