061-Sjómannasjóður og ekknasjóður

Árið 1888 var stofnaður sjóður í því skyni að styrkja ekkjur, börn og aðra aðstandendur sjódrukknaðra félagsmanna. Nefndist hann Sjómanna.sjóður Árnessýslu og var stofnaður af gjöfum og tillögum, sem voru að upphæð 425 kr. 52 au. við árslok 1893. Aðalhvatamaður að sjóðsstofnuninni er talinn hafa verið Guðmundur Ísleifsson hreppstjóri á Háeyri.[note]Búnaðarrit 1906, 6. bls.[/note]

Félagsmenn voru allir sjómenn, sem reru eða höfðu róið í einhverri veiðistöð í Árnessýslu án tillits til, hvar þeir áttu heima, og greitt höfðu að minnsta kosti eins árs tillag til sjóðsins, en árstillagið var 1 kr. Ef félagsmaður með fullum réttindum drukknaði í sjó hér við land, skyldi konu hans, börnum, foreldrum eða fósturforeldrum greitt úr sjóðnum fimmfalt það, sem hann hafði lagt í hann. Samkvæmt lögum sjóðsins skyldi stjórn hans hafa aðsetur á Eyrarbakka og aðalfundir haldnir þar, en höfuðstóllinn ávaxtaður í Sparisjóði Árnessýslu. Um starfsemi þessa sjóðs verður ekki rætt frekara hér, en þess skal getið, að í árslok 1917 nam inneign hans í sparisjóði kr. 3285.91.

Á fundi í Málfundafélaginu á Stokkseyri 27. des. 1902 var það mál til umræðu, hvort tiltækilegt væri að stofna sjóð á Stokkseyri og til hvers væri hægt að verja honum. Vildu sumir ræðumenn vinna að því að efla sjómannasjóðinn á Eyrarbakka, en þeir Jóhann V. Daníelsson og Júlíus Gíslason vildu láta stofna sérstakan sjóð fyrir Stokkseyrarhrepp, sem hefði það markmið að styrkja ekkjur og munaðarleysingja, jafnt þeirra manna, sem dæju á landi sem þeirra, er drukknuðu í sjó. Þyrfti sá sjóður að vera með öðru fyrirkomulagi og liðlegri lögum en sjómannasjóðurinn. Til framkvæmda kom ekki að því sinni, enda varð málfundafélagið skammlíft.

Aftur var mál þetta tekið upp á fundi í Sjómannafélaginu Bárunni 22. jan. 1908. Bar Jón Sturlaugsson hafnsögumaður þá fram þá uppástungu að stofna ekknasjóð innan sveitarinnar, þar eð Sjómannasjóður Árnessýslu væri að mörgu leyti óheppilegur. Talaði hann um, að menn þyrftu að vera sem sjálfstæðastir í öllu, sem menn tækju sér fyrir hendur, og eins þyrfti hreppurinn að eiga sinn sérstaka styrktarsjóð. Málið fekk góðan byr á fundinum, og var kosin 5 manna nefnd til þess að athuga það og undirbúa. Á næsta fundi 4. febr. 1908 var lögð fram skipulagsskrá eða lög fyrir væntanlegan ekknasjóð, og var hún undirrituð af þessum mönnum: Jóni Sturlaugssyni, Jóni Sigurðssyni í Aldarminni, Jóni Adólfssyni, Helga Jónssyni og Sigurði Magnússyni, síðar í Dvergasteinum. Skipulagsskráin var samþykkt óbreytt á fundinum, og var Ekkna.sjóður Stokkseyrarhrepps þar með stofnaður.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja ekkjur og eftirlátin börn sjóðsstyrkjenda, þ. e. þeirra manna í Stokkseyrarhreppi, sem greitt hafa að minnsta kosti í 3 ár fast árstillag til sjóðsins, en það var ákveðið 2 kr.

Farið var að veita styrki úr sjóðnum 1920 eða fyrr, en einkum hefir verið veitt úr honum á seinni árum. Hann er að nokkru leyti ávaxtaður í Söfnunarsjóði Íslands, og námu eignir hans í árslok 1958 kr. 15.256.66.

Umsjónarmenn eða gjaldkerar ekknasjóðsins hafa þessir menn verið: Þórður Björnsson í Sjólyst, líklega frá byrjun og þangað til hann fluttist burt 1926, Eyjólfur Sigurðsson í Björgvin 1926–1946, Jósteinn Kristjánsson kaupmaður 1946–1956, er hann fluttist burt, og Símon Sturlaugsson á Kalastöðum 1956 til dauðadags 1957.

Leave a Reply